Færsluflokkur: Bloggar

Sparnaður í Excel en ekki í alvörunni

spendingÍ meira en 100 ár hafa kommúnistar reiknað út að stórar miðstýrðar einingar séu hagkæmari en litlar.

Sama á við um nútíma stjórnmálamenn og skipulagsfræðinga með ofstjórnunaráráttu.

Menn gleyma því að með stærðinni eykst alltaf sóun, óhagkvæmni og spilling meðan í litlum einingum er oft meira kostnaðaraðhald, samkeppni og hagkvæmni.

Skuldir pr. íbúa í mörgum stærstu íslensku sveitafélögunum eru með því mesta sem gerist.  Mörg lítil sveitarfélög eru mjög vel rekin og skuldir á íbúa lágar.

Í litlum sveitarfélögum er kostnaður frekar sýnilegur og hagsmunir íbúanna þeir sömu.  Um leið og sveitarfélög stækka eykst ríkur og togsteyta milli svæða.  Sjálfsbjargarviðleitni minnkar.


mbl.is Hægt að spara mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einræða Guðs um framtíð lífs á Jörðinni

Cima_da_Conegliano,_God_the_FatherKannski er besta leiðin
að minnka þyngdaraflið
dálítið svo að þetta lið
hætti að pæla stöðugt
í offitu.

Ég vissi svo sem að
9,8 er frekar mikið
fyrir þennan mannskap.

Og til að draga úr
hrattrænni hlýnun
hef ég ákveðið að
lækka aðeins á Sólinni.

Mér hefur líka dottið
í hug að hækka
kynþroskaaldurinn og
lengja meðgöngutímann
fyrst þau eru farin að
fjölga sér með veldisvexti.

En það getur svo sem
komið í bakið á manni
seinna.

Annars er ég alltaf meira
og meira að hugsa um
að hætta alveg þessari
vitleysu.


mbl.is Kristnir skeyti engu um heimsendaspár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leifur Eiríksson kemur alltaf aftur

leifur_eiriksstadir_statue
Það er gott hjá Obama forseta að gera 9. október að degi Leifs Eiríkssonar.

Landnám norrænna manna er eina staðfesta heimildin um komu evrópubúa til Norður Ameríku á undan Kólumbusi.  Sönnunina fundu norskir fornleifafræðingar í L'Anse aux Meadows á sjöunda áratugnum.

Vafamál er að íslendingasögurnar einar og sér væru taldar nægileg heimild um þessa landafundi frekar írsku sagnirnar um siglingar heilags Brendans frá Írlandi til Ameríku í kring um árið 500. Við eigum það reyndar norskum fornleifafræðingum að þakka.

Líklega væri staða Íslendinga sterkari ef landnám okkar hefði tekist þarna í kring um árið 1000. Við hefðum haft nokkur hundruð ára forskot til að koma okkur fyrir og dreifa okkur yfir Norður Ameríku.  Gaman er að velta fyrir sér hvernig mannkynssagan hefði þróast ef þetta hefði gerst.

En við hrökluðumst í burtu, enginn veit nákvæmlega hvers vegna. Kannski vorum við bara komnir of langt frá upprunanum og menningunni sem tengdi norrænt fólk saman á þessum tíma.
 
Leifur Eiríksson er samt líklega sögufrægasti Íslendingurinn fyrr og síðar ásamt Snorra Sturlusyni.


mbl.is Heiðraði norrænan arf Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitarvélar veita þjónustu

internetFacebook, Google og aðrar leitarvélar læra að þekkja áhugasvið fólks og raða leitarniðustöðum í samræmi við það.

Þetta þrengir sjóndeildarhringinn segir sérfræðingurinn. Já það kann að vera, en jafnframt er þetta þjónusta við notendur. Ég kann t.d. vel við þegar Amazon bendir mér á bækur útfrá því sem ég hef keypt áður.

Fólk er hvort sem er alltaf með einhverjar fyrirframskilgreindar hugmyndir í kollinum og hagar lífi sínu í samræmi við það. Þeir sem eru að selja vöru reyna alltaf að skynja kaupandann og bjóða það sem hann vill. Bílasali reynir ekki að selja gömlum bónda nýjan sportbíl.

Svona er bara heimurinn og hefur alltaf verið. Það er óþarfi að kenna leitarvélum internetsins um það.

Þrátt fyrir þetta hefur ekkert fyrirbæri í heiminum aukið jafn mikið víðsýni fólks og internetið.


mbl.is Facebook og Google ritstýra netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt sinn skal hver deyja

passifloraÞessi frétt byrjar á því að sett er fram nokkuð sérkennileg rannsóknarniðurstaða: "Þeir sem taka inn svefnlyf eru í mun meiri hættu á að deyja en þeir sem ekki taka slík lyf."

Ég hélt að það væru 100% líkur á að menn deyji hvort sem menn taka svefnlyf eða ekki.

Það hefur reyndar ekkert komið fram ennþá sem afsannar þá fullyrðingu að ég sé ódauðlegur. Samt treysti ég ekki á það.

Ég tek stundum hómópatalyf til að sofa betur.  Það heitir Passiflora og fæst í Heilsuhúsinu. 

Mér er sagt að þessi jurt heiti Garðabrúða á Íslensku.

Og það er hægt að lesa meira hér:  http://www.lyfja.is/Lyf/Natturulyf/Greinar/Gardabruda/

Hugsanlegar aukaverkanir gætu verið andlát eftir mjög langvarandi notkun.


mbl.is Hærri dánartíðni hjá þeim sem taka svefnlyf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúruleg óhreinindi eru hollari en aukaefni

fletting071_1131039.jpgAlmenn skynsemi segir manni að matur sé heilnæmastur þegar hans er neytt sem næst uppruna sínum.  Þetta á t.d. við ávexti, kjöt, fisk og kornmeti.

Eftir því sem matur er meira unnin og fleiri tilbúnum aukaefnum bætt í hann eykst hættan á að þau geti skaðað þig. Þá skiptir engu máli hvort þessi efni séu vottuð af einhverjum stofnunum eða ekki.  Við vitum hvað reglugerðir og eftirlit eru skeikul fyrirbrigði.

Mér hefur alltaf fundist merkilegt að bændum sé af heilbrigðisástæðum bannað að selja kjöt af heimaslátruðum lömbum sem oftast eru tekin beint af haganum.  Því er borið við að sumir bændur séu ekki nógu snyrtilegir en þá getur kaupandinn altént skoðað aðstæður og metið hættuna.  

Svo held ég að náttúruleg óhreinindi séu ágæt í hófi.  Þau styrkja ónæmiskerfið og mannskepnan hefur vanist þeim í gegn um aldirnar. Efni úr umhverfinu gefa matvælum einkennandi bragð og keim sem matgæðingum þykir oft eftirsóknarvert. 

Eins held ég að ofhreinlæti með stöðugri notkun á klór, þvottalegi og óteljandi hreingerningarefnum sé ekki endilega holt. 

Í Færeyjum er öllu fé slátrað í heimahúsum og selt eða gefið. Á myndinni til hægri er Björn Paturson frændi minn í Kolti að fletta eins og þeir kalla það. Færeyingar þurrka gjarnan kjötið í hjöllum og svo er það étið hrátt sem skerpukjöt. Ég hef ekki heyrt af neinum heilbrigðisvandamálum þar í landi af þessum sökum.

Á íslandi er lambakjöt aldrei borðað hrátt en samt telja yfirvöld stórhættulegt að borða kjöt af heimaslátruðu fé.

Í umhyggjusinnaða eftirlitslandinu er margt skrítið.


mbl.is Sex matvæli sem þú ættir ekki að borða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skáldfeðgar II

IndridiArnaldurArnaldur Indriðason sendi frá sér bókina Einvígið núna fyrir jólin. Þetta er ekki ein af bestu bókunum hans en alveg ágæt aflestrar. Arnaldur hefur sérhæft sig í ritun glæpasagna og kryddar þær með ýmsum hætti með efnum úr íslenskri menningu og sögu.

Undanfarin ár hafa bækur Arnaldar verið þær mest lesnu á okkar ástkæra Ísalandi. Þar við bætist að hann er núna vinsælasti íslenski rithöfundurinn erlendis. Hann fetar þannig í fótspor margra frægra manna frá þessari söguþjóð. Einhverra hluta vegna er það samt þannig að glæpasagnahöfundar verða yfirleitt ekki jafn sígildir og þeir sem staðsetja sig annars staðar á bókmenntasviðinu. Því verður Arnaldur líklega seint eins frægur og t.d. Laxnes, Jón Sveinsson og Snorri Sturluson. Það eru ekki allir sem komast í Kaþólikkaklúbbinn.

Arnaldur er sonur Indriða G. Þorsteinssonar sem var vinsæll höfundur á árum áður. Bækur beggja eru misjafnar en þær bestu hvors um sig afbragðs góðar og báðir á meðal ástkærustu rithöfunda þjóðarinnar á sinni tíð. Það má þess vegna kalla þá þjóðskáld. Þeir skrifa bækur fyrir venjulegt fólk og sögur þeirra höfða líklega enn sterkar til almennings en bókmenntafræðinga þó þeir séu heldur engir útlagar í augum þeirrar stéttar. Að minnsta kosti tvær bækur Indriða voru kvikmyndaðar, Land og Synir og 79 af stöðinni. Þá hefur Mýrin eftir Arnald verið kvikmynduð.

Kannski er veikleiki beggja sá að bækur þeirra verða til lengdar of einsleitar. Þannig hneig nokkuð frægðarsól Indriða þegar á leið og síðustu bækur hans voru slakari en þær fyrstu. Ekki er þó sanngjarnt að leggja þann dóm á Arnald þar sem hann er enn á hátindi skáldferils síns. Það á eftir að koma í ljós hvernig rithöfundarferill hans þróast.  Báðir skrifa einfaldan og læsilegan stíl. Eru rammíslenskir, nota íslenskt orðfæri og sækja efnivið í íslenskan veruleika og dægurmál.

Indriði gekk jafnan í sparifötum með þverslaufu.  Alltaf reffilegur og svipmikill karakter. Hann var stundum kallaður hinn íslenski Hemingway. Indriði átti til að yrkja gullfalleg ljóð eins og þetta hér sem flestir kunna (fyrra erindi):
   Vegir liggja til allra átta,
   enginn ræður för.
   Hugur leitar hljóðra nátta
   er hlógu orð á vör.
   Og laufins græna á garðsins trjám,
   og gleðiþyts í blænum.
   Þá voru hjörtun heit og ör,
   og hamingja í okkar bænum.


Skilyrði fyrir lífi eru margþætt

163940487_fdf0afe00f.jpgÉg var í menntaskóla þegar Cosmos þættirnir frægu voru sýndir í sjónvarpinu. Höfundar þáttana Frank Drake og Carl Sagan töldu það aðeins tímaspurnsmál hvenær líf myndi finnast á öðrum plánetum. Við Frank Drake er kennd hin fræga Drake jafna um líkur á lífi í alheiminum.

Síðan þá hef ég lesið mikið um geimvísindi og leitinni óendanlegu að lífi utan jarðar. Margir vísindamenn telja nú orðið að þróað lífsform sé ekki eins algengt og áður var talið. Frumstætt lífsform kunni að vera til víðar en svo sérstök skilyrði þurfi  fyrir vitsmunalífi að jafnvel þrátt fyrir óravíðáttu himingeimsins séu aðstæður á jörðinni sérstakar.

Biblíutrúmenn hafa hent þessar röksemdir á lofti og telja þær m.a. sönnun þess að Guð hafi skapað jörðina og mannkynið! Það er vissulega hæpið en ég reikna þó með að endanlegar útskýringarnar á lögmálum alheimsins og hinni óskiljanlegu tilveru okkar (ef við fáum einhverntíman að vita þær) séu jafn langt frá eðlisfræðinni og guðfræðinni eins og við þekkjum þær fræðigreinar báðar í dag.

En hér eru nokkur af þeim fjölmörgu skilyrðum sem margir telja að þurfi að vera til staðar til þess að vitsmunalíf eins og við þekkjum það geti orðið til:

Fjarlægð sólkerfa frá miðju vetrarbrautar þarf að vera rétt. Ef hún er of nálægt er geislun of mikil.  Aðeins um 10% af sólkerfum í okkar vetrarbraut uppfylla þetta.

Fjarlægð plánetu frá sól þarf að vera rétt og í lífbeltinu svokallaða. Sé hún of nálægt er of heitt en of kalt ef hún er of langt frá.

Plánetan þarf að hafa málmkjarna.  Annars myndast ekki segulsvið sem ver hana frá geislun sólar. Hann má þó ekki vera of stór.

Plánetan þarf að hafa stórt tungl til að halda möndulhallanum réttum.  Það er reyndar ráðgáta hvernig tunglið okkar myndaðist og hlutfallsleg stærð þess er meiri en við aðrar plánetur sem við  þekkjum.

Í sólkerfinu þarf að vera stór ytri reikistjarna til að verja plánetuna fyrir árekstrum við hluti sem koma inn í sólkerfið.  Júpíter er í þessu hlutverki verndarans í okkar sólkerfi.  Þessi ytri pláneta má þó ekki vera of stór.

Vatn þarf að vera til staðar.

Það þarf að vera nóg af súrefni og hlutfall þess miðað við ýmis önnur frumefni þarf að vera rétt.

Jarðskorpan
þarf að vera af réttri gerð og réttri þykkt. 

Þyngd sólarinnar má ekki vera of mikil og ekki of lítil.

Svona má lengi telja og hægt er að skoða ítarlegri lista hér.


mbl.is Systurpláneta jarðar fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítil saga um verðskanna

banner_low_price_guarantee_3Í gær var ég að versla í Krónunni Árbæ er er mín hverfisverslun. Ágæt búð með góða þjónustu.

Þar sé ég óverðmerktar kjúlingabringur og fer á verðskannann til að athuga hvað þær kosti. Verðskanninn svaraði engu!!

Ég fór því með bringurnar á kassann en þar kom í ljós að þær kostuðu miklu meira en ég hafði gert mér í hugarlund, eða 2480 kr/kg.

Engu að síður borgaði ég uppsett verð en fór aftur inn í búðin og spurði starfsmann hvernig ég gæti séð verðið. Hann gekk með mig að skannanum og sýndi mér strikamerki UNDIR pakkanum og viti menn. Kílóverðið var 2480 kr.

"Til hvers er verið að vesenast með þessa verðskanna, til að plata fólk?" spurði ég. "Hvers vegna má ekki sýna hvaða vara kostar lengur?"

"Jú þetta eru ný lög til að koma í veg fyrir verðsamráð" sagði afgreiðslumaðurinn.

Það er auðvitað gott hugsaði ég. Náði í pakka af kjúklingabringum frá öðrum framleiðanda þarna við hliðina og bar hann að verðskannanum. Og hvað haldið þið að kílóverðið hafi verið á honum? Jú það sama, 2480 kr !!!

Svona á að koma fyrir verðsamráð.

Heimurinn er skrítinn.


Er rétt að allar auðlindir séu í þjóðareign?

kornÍ tillögum stjórnlagaráðs stendur: „Náttúruauðlindir Íslands eiga að vera sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar".

En hvað eru náttúruauðlindir?  Jú það eru fiskimiðin, vatnsorkan, jarðnæði, tún, beitilönd, kornakrar, laxveiðiár, silungsvötn, heitir hverir, rennandi vatn, malarnámur, veiðilendur o.s.frv.

Ég skil þessa tillögu þannig að „eign þjóðarinnar" þýði að ríkisvaldið fari með eignarréttinn.  Þ.e. allur eingnarréttur náttúruauðlinda verði á hendi ráðherra og ríkisstofnana.  Það þyrfti hins vegar að skýra betur.

Í dag eru auðlindir í bland í eigu ríkisins, sveitarfélaga og einstaklinga. Þær auðlindir sem stór sveitarfélög og ríkið hafa haft á sínu forræði hafa mikið verið nýttar til stóriðju og í einhverjum tilvikum hefur nýtingarréttur þeirra verið leigður erlendum aðilum til langs tíma. Dæmi eru um að opinberir aðilar hafi rekið orkufyrirtæki mjög illa og sum eru nærri gjaldþrota. Reynsla okkar af opinberri nýtingu orkuauðlinda er því ekki alltaf góð.

Þær auðlindir sem einkaaðilar t.d. bændur og landeigendur eiga, hafa aftur á móti verið nýttar með fjölbreyttari hætti svo sem í ylrækt, hefðbundnum landbúnaði, fiskeldi, rafmagnsframleiðslu og fleiru. Fjöldi lítilla fyrirtækja sem einkaaðilar á landsbyggðinni hafa byggt upp og nýta orku á fjölbreyttan hátt er meiri en margan grunar.

Ef það á að setja allar auðlindirnar undir forræði ríkisins fá fáir menn hættulega mikið vald yfir öllum auðlindum landsins. Lélegir stjórnmálamenn og embættismenn gætu gert afdrifarík mistök og valdið þjóðinni miklu tjóni. Mikil hætta er á að spilling og flokkshagsmunir hefðu áhrif á ákvarðanir um ráðstöfun auðlinda.

Að mínu mati er betra að efla einkaeignarréttinn á auðlindunum. Hlutverk stjórnvalda á að vera að setja góðar almennar reglur til að tryggja sjálfbærni og eðlilega umgengni. Það er ekki gott að ríkið hafi eftirlit með sjálfu sér. Þá má einnig setja reglur um að enginn einn aðili eigi meira en eitthvað raunhæft hlutfall af öllum auðlindum landsins.

Kvótakerfið í sjávarútvegi var tilraun til þess að nýta kosti eignarréttarfyrirkomulagsins til að skapa hagkvæmi og arðsemi. Það hefur gengið ágætlega en umdeilt er hvernig þessum réttindum var storaúthlutað í upphafi.  Það þarf að taka á því sérstaklega en ég er ekki viss um að lausnin sé að færa ráðstöfunarréttinn til ríkisvaldsins eins og mér sýnist á nýjum lagafrumvörpum.

Dæmi um skynsamlega og vel heppnaða nýtingu auðlinda í einkaeigu eru íslensku laxveiðiárnar. Þar hafa stjórnvöld sett lög og reglur sem skilgreina hvernig auðlindin skuli vera nýtt, hvernig arði sé skipt milli landeiganda o.s.frv. Eigendurnir sjá um að selja veiðileyfi, viðhalda stofninum og fá að sjálfsögðu meiri arð ef þeir gera það vel. Væri þessi auðlind að skila meiri arði í þjóðarbúið ef ríkið ætti allar árnar og ríkisstofnun myndi sjá um að úthluta veiðiréttindum?

Ég hvet alla til að hugsa þessi mál aðeins í víðara samhengi en gert hefur verið. Hugsum t.d. um hvort við getum ekki notað módelið með laxveiðiárnar fyrir orkuauðlindirnar. Sagan sýnir að þjóðum sem hafa nýtt einkaeignarréttinn skynsamlega hefur vegnað betur en þeim sem hafa fylgt þjóðnýtingarstefnu.


mbl.is Ævarandi eign þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Þorsteinn Sverrisson

Höfundur

Þorsteinn Sverrisson
Þorsteinn Sverrisson
Tölvunarfræðingur, Árbæingur og Hrunamaður. Í Einherjaklúbbnum.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband