24.9.2007 | 20:00
Sveitirnar breytast
Undanfarin ár hefur maður fylgst með þeirri þróun í sveitum suðurlands að fólk af þéttbýlissvæðum kaupir jarðir og sest þar að til að stunda einhverskonar afþreyingu eða jafnvel atvinnurekstur. Þá hafa jarðir eða hlutar þeirra verið teknar undir sumarhúsabyggðir. Sumir telja þetta áhyggjuefni en í reynd er þetta bara ákveðin þróun sem ekkert er hægt að gera við, eflir tengsl þéttbýlis og dreifbýlis og hefur í flestum tilvikum styrkt sveitarfélögin mikið að mínu mati.
Þar sem ég þekki til hafa þéttbýlisbúar byggt jarðir myndarlega upp og komið með fjármagn inn í samfélagið, bæði í formi útsvars og með kaupum á ýmiskonar þjónustu. Í flestum tilvikum hafa þeir einnig lagt sig fram um að taka þátt í mannlífi og bundist traustum böndum við sveitina og aðra íbúa.
Mér finnst þau viðhorf sem koma fram í fréttinni óþarflega neikvæð og fráleitt að taka þannig til orða að jarðir fari í eyði þó þar sé ekki stundaður hefðbundinn landbúnaður með heilsársbúsetu.
Félagslegt umhverfi getur breyst að einhverju marki ef föst búseta á ákveðnum jörðum minnkar en á Suðurlandi þar sem ég þekki til hefur þrátt fyrir þetta orðið fólksfjölgun en búseta hefur í auknum mæli færst af sveitabæjum í þéttbýliskjarna. Félagsleg áhrif ættu því í heildina ekki að þurfa að vera neikvæð enda kemur á móti að samgöngur hafa batnað og hreppar sameinast.
Það má heldur ekki gleyma því að þær breytingar sem eru að verða á hefðbundnum landbúnaði leiða óhjákvæmilega til þess að jörðum í fastri búsetu fækkar. Búin eru stöðugt að stækka og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun. Ég hitti Sigurð Ágústsson bónda í Birtingaholti um daginn. Hann er með vel á annað hundrað mjólkandi kýr og ætlar að fjölga þeim enn. Hann rekur einnig verktakafyrirtæki sem sér um heyskap og getur við góðar aðstæður heyjað 5 hektara á klukkustund, þ.e. frá því að heyið er slegið þar til það er komið í vetrargeymslu. Þegar ég var að alast upp fyrir ríflega 30 árum var meðalbú kannski með 50 - 80 hektara tún og það var verið að basla við heyskapinn allt sumarið. Þetta er sem sagt hægt að heyja á 2 dögum núna, nánast óháð veðurfari!!!
Það segir sig sjálft að með tæknibreytingum af þessu tagi hlýtur þróunin að verða sú að hver einasta bújörð verður ekki setin með sama hætti og áður, óháð því hverjir koma til með að eiga jarðirnar. Þannig eiga mörk þéttbýlis og sveita eftir að dragast saman og það er líka góð þróun þar sem sá rígur sem oft hefur verið þarna á milli hefur ekki verið góður.
Sveitamenn eru þekktir fyrir íhaldssemi. Hún er góð í hófi, en reynslan sýnir að þeir sem eru framfarasinnaðir hafa alltaf betur að lokum. Þær breytingar sem hafa orðið á landbúnaði og sveitalífi síðastliðinn mannsaldur eru með ólíkindum og sér ekki fyrir endann á þeim. Enginn vafi er á því að lífsgæði sveitafólks hafa aldrei verið eins góð og núna. Heimsmarkaðsverð á landbúnaðarvörum svo sem mjólk, kjöti og korni hefur verið að hækka mikið síðustu ár. Íslenskur landbúnaður gæti með nútímatækni orðið stóriðja á næstu áratugum.
Bændur á Suðurlandi telja miklar breytingar hafi orðið á búsetumálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Þorsteinn Sverrisson
Nýjustu færslur
- Sparnaður í Excel en ekki í alvörunni
- Einræða Guðs um framtíð lífs á Jörðinni
- Leifur Eiríksson kemur alltaf aftur
- Taflmaðurinn
- Leitarvélar veita þjónustu
- Eitt sinn skal hver deyja
- Náttúruleg óhreinindi eru hollari en aukaefni
- Skáldfeðgar III
- Skáldfeðgar II
- Skáldfeðgar I
- Skilyrði fyrir lífi eru margþætt
- Lítil saga um verðskanna
- Fjórar vísur um sólarlagið við Faxaflóa
- Er rétt að allar auðlindir séu í þjóðareign?
- Þrúgur reiðinnar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 59970
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.