22.11.2007 | 21:44
Punktaferð nemanda í 5-10 bekk Árbæjarskóla
Sonur minn er í 6. bekk Árbæjarskóla. Þar er punktakerfi og krakkar fá refsipunkta ef þeir mæta seint, læra ekki heima, eru með læti o.s.frv. Í dag var farið með alla krakka sem voru með minna en 7 punkta í leikhúsferð en þeir sem voru með fleiri punkta þurftu að vera í skólanum á meðan. Sonur minn slapp og komst í ferðina. Sjálfur hefði ég líklega ekki komist með því ég var óþægur í skóla. Ég fór að hugsa um þetta og það vöknuðu nokkrar spurningar.
Krakkar á þessum aldri eru viðkvæmir, getur það ekki bara brotið þá niður að refsa þeim með þessum hætti? Getur ekki verið hætta á því að þau börn sem eru sett svona skör lægra fari ósjálfrátt að líta á sig sem lélegri einstaklinga?
Krakkar búa við misjafnar heimilisaðstæður. Það eru ekki allir foreldrar jafn duglegir að láta þá fara að sofa, vekja þá á morgnana og láta þá læra heima. Á að refsa börnum fyrir hvernig foreldra þeir eiga?
Þetta punktakerfi er oft háð mati. Stundum eru læti í tímum og þá fá einn eða tveir áberandi strákar punkta. Kannski ekki þeir sem eru lúmskir og koma látunum af stað.
Ég er ekki viss um að þetta sé réttlát eða góð uppeldisaðferð.
Kæmi mér ekki að óvart þó að eftir nokkra áratugi væri farið að líta þetta sömu augum og við lítum á það í dag þegar krökkum var refsað með því að berja þau með priki áður fyrr.
Annars er ég að mestu sáttur við skólastarfið.
Um bloggið
Þorsteinn Sverrisson
Nýjustu færslur
- Sparnaður í Excel en ekki í alvörunni
- Einræða Guðs um framtíð lífs á Jörðinni
- Leifur Eiríksson kemur alltaf aftur
- Taflmaðurinn
- Leitarvélar veita þjónustu
- Eitt sinn skal hver deyja
- Náttúruleg óhreinindi eru hollari en aukaefni
- Skáldfeðgar III
- Skáldfeðgar II
- Skáldfeðgar I
- Skilyrði fyrir lífi eru margþætt
- Lítil saga um verðskanna
- Fjórar vísur um sólarlagið við Faxaflóa
- Er rétt að allar auðlindir séu í þjóðareign?
- Þrúgur reiðinnar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 59970
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er byggt á atferlisfræðum, komið frá Pavlov og Skinner og er notað mikið núorðið á mörgum sviðum því komið hefur í ljós hvað eftir annað að þetta virkar. Það felst í því að umbuna fyrir rétta hegðun og refsa fyrir ranga. Við sjáum þetta nú þegar í umferðinni, punktakerfinu þar og tryggingarumbun til þeirra sem keyra tjónlausir. Kennslufræðingar hafa notað þetta í ýmsum tilgangi, m.a. til að byggja upp sjálfstraust fólks svo sem með hlutverkaleikjum og þróa kennslumódel eða sjálfsagamódel fyrir þá agalausu.
Svo er hægt að hafa bara helminginn af kerfinu í gangi. Þ.e. umbuna fyrir rétta hegðun og taka umbunina ef rétt hegðun sýnir sig ekki. Það er kallað jákvæði skilyrðing. Að refsa fyrir neikvæða hegðun er hægt líka og þá er talað um neikvæða skilyrðingu. Mér sýnist þetta punktakerfi þeirra í Árbæjarskólanum hafa örlitla neikvæða slagsíðu sem mætti leiðrétta með því að hafa jákvætt punktabókhald líka, þ.e. gefa stjörnur fyrir framúrskarandi hegðun og umbuna svo ríkulega þeim sem hafa stjörnur. Þá sækjast flestir eftir að fá stjörnu og reyna strax að vinna upp óþægðina og grípa hvert tækifæri sem gefst til að gera einhver góðverk.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 23.11.2007 kl. 23:34
Held að við hefðum allir komist á rúntinn með Óla Két, hefði þetta verið notað á Laugarvatnsárum. Kannast ekkert við að þú hafir verið svo ódæll Þorsteinn! - GÓÐA HELGI -
Gunnlaugur B Ólafsson, 24.11.2007 kl. 00:01
Sæll
Ég er ekki sammála svona kerfi og finnst þetta ekki réttlátt gagnvart þeim börnum sem eiga erfiðara en önnur börn að hemja skap sitt á einhvern hátt.. við erum jú öll misjöfn.
Hér í Sæmundarskóla höfum við þann háttinn á að bekkurinn er allur saman að vinna að einhverri umbun. Nemendur fá "pökka" fyrir góða hegðun og er þeim safnað saman í krukku sem er á kennaraborðinu. Í lok dagsins eru "pökkarnir" svo taldir af umsjónarmönnum og litað er á þar til gert blað fjölda "pökkana". Bekkurinn minn er t.d. í sameiningu að safna 450 "pökkum" og höfum við í sameiningu valið nokkra þætti sem við viljum gera þegar takmarkinu er náð. Það fer svo eftir bekknum hvað við erum lengi eða fljót að vinna okkur inn umbun. Þetta hefur gengið gríðarlega vel hér í skólanum og enginn skilinn eftir heldur fá þeir sem eiga í einhverjum hegðunarvanda tækifæri til að sýna sig og sanna og fá "pökk" eftir þeirra getu en ekki annarra.
Þessi mál eru þó oft mjög flókin og ekki allir sammála þessari leið en hún hefur gengið mjög vel og við engar kvartanir frá foreldrum fengið.
Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir, 30.11.2007 kl. 12:06
Mér finnst þetta mjög sniðugt kerfi Guðbjörg. Með þessum hætti myndast meiri hópkennd hjá krökkunum innan frá í stað þess að það sé eitthvað yfirvald sem refsar.
Gulli, ég var nú nokkuð ódæll í Flúðaskóla en miklu rólegri í menntaskóla.
Og Ragnar, mér sýnist að stjörnukerfið sem þú talar um sé ekki ólíkt pökkakerfinu hennar Guðbjargar nema í hennar kerfi þá er það hópurinn í heild sem nýtur ávinningsins og keppir allur að sama markmiði.
Þorsteinn Sverrisson, 30.11.2007 kl. 20:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.