21.9.2008 | 11:36
Golfsumarið 2008 (og aðeins meira um tengslanet)
Ég hef notað tímann yfir æsispennandi Ryder keppninni í sjónvarpinu til að rifja aðeins upp eigin golfiðkun í sumar þar sem ég náði að spila á fleiri völlum en oft áður. Mest að sjálfsögðu á mínum heimavelli í Úthlíð þar sem við eigum sumarbústað. Úthlíðarvöllur hefur verið í fínu standi og aðsóknin líklega aldrei jafn mikil. Klúbbfélagar hafa verið ánægðir og mótin ágætlega sótt.
Veðrið í sumar var sérlega hagstætt til golfiðkunar, sérstaklega í júlí þegar flestir dagar voru sólríkir og hlýir. Mælanlegur árangur minn var þó enginn, forgjöfin hækkaði úr 20,4 í 21 enda er ég afar óstöðugur spilar! En það er samt yfirleitt gaman að brasa í þessu. Og andstætt því sem margir halda þá er golf ekki dýrt sport, t.d. borið saman við mótorsport, hestamennsku og fleira. Golf er líka orðið langvinsælasta almenningsíþrótt á Íslandi.
Tvo velli ætlaði að spila á árinu en er ekki búinn að því. Þ.e. Urriðaholtsvöllinn er margir telja besta völl landsins, til stóð að fara á hann með doktor Sigurpáli en við höfum ekki fundið tíma. Eins ætlaði ég að spila á golfvellinum í Ásatúni Hrunamannahreppi en það komst heldur ekki í verk. Hér á eftir segi ég frá nokkrum völlum sem ég hef heimsótt í sumar.
Hvaleyrarvöllur
Ég spilaði Hvaleyrina snemma í vor með Dísu í Glitnismótaröðinni. Reyndar bara fyrri níu holurnar í hrauninu. Keilisvöllurinn er einn best hirti og flottasti völlur landsins. En brautirnar þarna í hrauninu heillar mig ekkert sérstaklega og þær henta mér ekki alveg jafn villtur og óstöðugur ég er í höggunum. Spiluðum með skemmtilegu fólki, Gylfa Árnasyni og Sigrúnu Ólafsdóttur. Á eftir var verðlaunaafhending í klúbbskálanum. Þar sá ég golfskó númer 39 auglýsta á korktöflunni. Einmitt stærðina sem Unnar Geir sonur minn notar og hann hafði verið að kvarta yfir því að sig vantaði skó. Ég hringdi í konuna sem hafði gefið upp símanúmerið og mælti mér mót við hana daginn eftir þar sem við Unnar mættum. Skórnir voru ónotaðir og ég keypti þá fyrir Unnar við góðu verði. Þeir höfðu verið of litlir henni. En það merkilega (og þó kannski ekki) var að þessi kona hafði einmitt verið fararstjóri hjá okkur á Spáni fyrir nokkrum árum. Það mundi hún en ekki ég! Þegar ég sagði henni að ég hefði nýlega spilað golf í Bilbaó sagðist hún hafa búið þar um nokkurt skeið! Þegar ég sagði henni að ég ætti bústað í Úthlíð í Biskupstungum og væri formaður í golfklúbbnum kom í ljós að systir hennar átti einnig bústað þar!! Þetta rifja ég að gamni upp til að minna á skrif mín um tengslanet síðastliðið vor, hér og hér.
Strandarvöllur við Hellu (og Hvolsvöll)
Spilaði hann í lok júní. Einn fallegan sumardag í björtu veðri á Rangárvöllunum. Það eftirminnilegasta var að ég náði yfir 300 metra teighöggi - og á miðja braut! Þetta var á 5. braut, par 5 niður í móti með vindinn í bakinn. Brautirnar voru grjótharðar og boltinn rúllaði vel. Svona högg verða til þess að maður heldur áfram að nota dræverinn þó svo að annað hvert högg að eða fleiri lendi utan brautar að jafnaði. Sannir karlmenn eiga að slá með dræver af teig ef það er löng braut framundan. Maður slær aldrei draumahögg nema maður reyni það. Strandarvöllurinn er gamall og gróinn með langa hefð. Mjög góður golfvöllur og vel hirtur. Falleg er fjallsýnin frá Strandarvelli, með Heklu gömlu beint framundan á mörgum brautum.
Reyndar hafa kunningar mínir frá Hvolsvelli alltaf ímugust á því að völlurinn sé yfirleitt kenndur við Hellu. Þeir telja að Hvolsvellingar eigi ekki síður tilkall til vallarins enda hafi þeir átt að minnsta kosti jafn mikinn þátt í því að búa hann til. Sveitarígur er alltaf skemmtilegur.
Jaðarsvöllur á Akureyri
Spiluðum þarna í byrjun júlí þegar Unnar var í N1 mótaröðinni. Ég hafði aldrei spilað þennan völl áður en oft heyrt talað um hann. Þetta er góður völlur. Talsverðar framkvæmdir standa nú yfir, t.d. er verið að byggja upp þrjár nýjar flatir og á meðan er spilað á brautarflötum sem auðvitað er ekki eins gott. Það sem kannski má finna að vellinum er hvað hann er víða á mýrlendi og því blautur í vætutíð. Sumstaðar eru líka gamlir skurðir sem alltaf eru til leiðinda á golfvöllum og á nokkrum brautum er slæmt röff sem hefði mátt slá betur niður.
Fyrstu níu holurnar spiluðum við ein en á seinni níu slóust í för með okkur tveir heimamenn, íþróttakennari, og ungur sonur hans. Íþróttakennarinn fann reyndar talsvert að vellinum, fannst hirðingin ekki nógu góð. Ég var nú ekki alveg sammála því. Og svo ég haldi áfram að tala um tengslanet þá hafði íþróttakennarinn verið í skóla á Laugarvatni og þekkti ágætlega kunningja okkar.
Vífilstaðavöllurinn
Spiluðum hann einn góðviðrisdaginn í júlí með Jóhönnu Helgu og Gumma Ásmunds. Þetta var í fyrsta skipti sem ég spilaði nýja hlutann af vellinum, Leirdalinn. Hann kom mér á óvart. Ég hélt að brautirnar væru þrengri og erfiðari en þær eru. Spilamennskan gekk ágætlega til að byrja með en síðan fóru að koma verri kaflar og ég réði ekki nógu vel við dræverinn. Man ekki alveg skorið en það var ekkert sérstakt. Vífilstaðavöllurinn er mjög fínn golfvöllur enda búið að fjárfesta mikið í honum á undanförnum árum. Hann er vel hirtur og vel gróinn.
Seinna í sumar spilaði ég Mýrina, þ.e. gamla 9 holu völlinn í byrjun september. Með Vigfúsi Erlendssyni, Torfa Rúnari Kristjánssyni og Sturlu félaga hans. Ég er að vinna með Torfa og Vigfúsi í verkefni um að koma upp nýrri útgáfu af Schengen upplýsingakefinu á Íslandi. Þetta var daginn sem handboltaliðið kom heim og þegar við vorum búnir með nokkrar brautir flaug þotan lágflug yfir völlinn ásamt gömlu áburðarvélinni Páli Sveinssyni og tveim þyrlum. Tignarlegt var það. Við Vigfús spiluðum holukeppni á móti Torfa og Sturlu. Það var æsispennandi, fyrir síðustu braut var jafnt, en þá náði Torfi frábæru teighöggi, aðeins nokkra metra frá pinna. Boltinn minn endaði hins vegar í glompunni við hliðina á flötinni hægra megin. Þetta réði úrslitum. Þeir unnu síðustu holuna og þar með leikinn. Ég þurfti því að kaupa bjórinn.
Kiðjabergsvöllurinn
Við hjónin fórum á Kiðjabergið með Sigga Skagfjörð og Hrönn Greips síðasta sunnudaginn í júlí. Í frábæru veðri, steikjandi hita, og það var erfitt að bera settið á bakinu upp og niður allar brekkurnar þarna. En völlurinn er algjör perla. Að mínu fallegasta vallarstæði nokkurs golfvallar á Íslandi. Ég hafði aldrei spilað nýja hlutann af vellinum áður, en hann kom mér á óvart. Náttúrufegurðin og útsýnið er engu líkt, og gefur gamla hlutanum ekkert eftir. Að sjá yfir Hestvatnið, Hesteyjuna og Hestfjallið þegar komið var upp á fjórðu braut var dásamlegt. Vinarlegir ásarnir sem liggja makindalega, ilmandi lyngið, móinn, kjarrið, vatnið og beljandi jökulfljótið við fætur manns á 12. braut. Þetta gerir völlinn að einstökum unaðsreit. Skorið var svona í meðallagi, eitthvað ríflega 100 högg. En ég var meira en sáttur. Reyndar fannst mér furðu fáir að spila völlinn þennan fallega sunnudag í einstakri veðurblíðu um hásumar. Við vorum nánast ein á vellinum!
Þorlákshafnarvöllur
Ég spilaði Þorlákshafnarvöllinn með Markúsi vinnufélaga mínum síðustu vikuna í júlí, líklega þriðjudaginn fyrir verslunarmannahelgina. Þetta var enn einn hitadagurinn þessa viku. Við vorum komnir á teig upp úr klukkan eitt. Völlurinn er í mjög sérstöku umhverfi og ekki líkur neinum öðrum golfvelli á landinu. Síðast þegar ég spilaði þarna hafði verið rigningartíð og mikið vatn í kring um brautirnar, en nú var allt þurrt og sprinklerar víða í gangi. Vegna þess að völlurinn er allur á sandi þarf örugglega að vökva vel í þurrkatíð.
En þessi golfvöllur er mjög góður, vel hirtur og flatirnar fínar. En það er ekki gott að lenda utan brautar í sandinum og melgresinu. Reyndar er léttara að finna bolta þarna en maður gæti haldið, melgresið er ekki þétt. En það reyndist mér samt erfitt að slá boltann upp úr því, þó manni sýndist boltinn vera auðsláanlegur endaði það oft með klámhöggi.
Öndverðarnesið
Á heitasta degi sumarsins fórum við Unnar Geir og öttum kappi við Sigurpál Scheving hjartalækni á hans heimavelli, en fjölskylda hans á fallegan sumarbústað þarna rétt hjá. Við hittum Sigurpál ásamt Hildi og krökkunum í Þrastarlundi. Þá stóð hitamælirinn í bílnum í 29 gráðum Celsíus. Eftir að hafa fengið okkur ís lögðum við af stað. Komum við hjá doktor Scheving til að sækja settið hans og þaðan fórum við á teig. Unnar var orðinn nokkuð þreyttur og slappur eftir fyrri 9 holurnar og ég lánaði honum kerruna mína. Ég var hræddur um að hann fengi sólsting!
Einum fugli náði ég, á 11. braut. Þá skálaði ég við hjartalæknirinn, og aftur var skálað eftir 18. braut þar sem hjartalæknirinn náði fugli. Maður fyllist alltaf öryggistilfinningu að spila með manni sem maður veit að getur gripið inn í ef maður dettur niður með hjartastopp. En þetta var enn einn hringurinn á ríflega 100 höggum. Margir boltar týndust í þessari ferð. Dræverinn þoldi hitann illa og ef það einhverstaðar var möguleiki að týna bolta utan brautar þá endaði teighöggið yfirleitt þar. En enn einn ógleymanlegur dagur þar sem slegin voru fleiri met í hita en golfi.
Selsvöllurinn á Efra Seli (hjá Flúðum)
Síðasta laugardaginn í ágúst fórum við á Selsvöllinn. Þetta var lokamótið í Glitnismótaröðinni. Völlurinn er í minni heimabyggð, Gull-Hreppunum, sem einhver biskup kallaði svo. Þar er gott að eiga heima eins og Sr. Árni Þórarinsson prófastur sagði frá. Hann var alinn upp í Götu Hrunamannahreppi. Fyrsta bókin í æviminningum Árna sem Þórbergur Þórðarson skráði hét Fagurt mannlíf og fjallaði um uppvaxtarár hans. Árna líkaði ekki eins vel á Snæfellsnesinu þar sem hann var síðan prestur. Önnur bókin sem fjallar um þann tíma heitir Hjá vondu fólki!
Halldór á Seli og fjölskylda hans hafa unnið kraftaverk með því að búa til þennan völl. Dæmi um hve miklu einstalingar geta áorkað með dugnaði og eljusemi. Ég hef spilað þarna á flest sumur undanfarin ár og finnst að völlurinn sé alltaf að verða betri og betri. Mikill trjágróður er farinn að setja sterkan svip á brautirnar fyrir neðan veginn og gefur þeim hlýlegt yfirbragð. Ég er ekki viss um að ég hafi spilað á betri flötum í sumar. Þær eru alveg frábærar og ég hef heyrt fjölmarga kylfinga hrósa þeim, bæði í sumar og undanfarin ár. Leyndarmál Halldórs veit ég ekki en, en hvaða aðferðum sem hann beitir þá hafa þær skilað árangri. Golfklúbburinn á Flúðum er öflugur en þó kvartaði Dóri yfir því að endurnýjun sé ekki nóg. Finnst mér með ólíkindum að yngri íbúar á Flúðum og í nágreni skuli ekki njóta þessarar frábæru aðstöðu. Ég hvet alla kylfinga til að spila á Selsvelli - og lesa ævisögu Árna prófasts.
Bakkakotið Mosfellssveit
Við Unnar fórum á Bakkakotið síðdegis fyrsta dag septembermánaðar. Spiluðum með Donna bekkjarbróðir hans og Boga föður hans. Þeir eru í klúbbnum þarna. Ég var óheppinn til að byrja með, boltinn lenti í einhverju drasli rétt fyrir utan fyrstu og þriðju braut. En svo fór að rætast úr þessu. Endaði með að ná fugli á síðustu braut. Þetta er stutt 82 metra par þrjú braut. Tók fullt högg með SW, boltinn flaug himinhátt og lenti um tvo metra frá holunni. Svo einpúttaði ég af öryggi. Spilaði á 43 höggum samtals. Þetta er reyndar mjög léttur völlur og brautirnar yfirleitt stuttar. Vinarlegur og dálítill sveitabragur á honum.
Kjölur í Mosfellsbæ
Fórum eitt kvöldið seinni part ágústs á Kjölinn í Mosfellsbæ með Walter vinnufélaga mínum og Kristbjörgu konu hans. Það er verið að stækka þennan völl. Við spiluðum 14 holur. Þ.e. gamla níu holu völlinn og fimm af nýju brautunum. Nýi hlutinn verður rosalega flottur og nýja staðsetningin á klúbbhúsinu glæsileg. Flatirnar eru mjög stórar, einhverjar þær stærstu sem maður hefur séð á íslenskum velli. Þetta er þróunin, flatirnar alltaf að stækka. Maður verður að fara að æfa sig í 40-50 metra púttum til að vera liðtækur í golfi. Kjalarvöllurinn verður örugglega með flottustu 18 holu völlum á landinu, en jafnframt einn erfiðasti. En þó völlurinn sé erfiður er hann engu að síður skemmtilegur og hefur mikinn karakter eins og sagt er um handboltamenn á góðum stundum. Spilamennskan var misjöfn eins og venjulega. Einhver pör fékk ég þó inn á milli.
Nesvöllurinn á Seltjarnarnesi
Spiluðum þarna með Sigga og Hrönn um miðjan ágúst. Holukeppni. Siggi og Hrönn unnu fjórar holur, við þrjár og tvær féllu. Jafnara gat það ekki verið nema jafnt væri. Ég var frekar brokkgengur, spilaði sumar brautirnar ágætlega en klúðraði öðrum. Á síðustu brautinni sagði ég við Sigga, "Ég ætla að slá inn á green". "Miðaðu þá á mastrið" sagði Siggi. Einhvernveginn tókst mér að ná frábæru teighöggi. Sló beint yfir húsið, framhjá mastrinu hægra megin og þegar við gengum upp á flötinni var boltinn bara nokkra metra frá henni. Gallinn var bara sá að það var sandgryfja á milli og pinninn mjög framarlega á flötinni. Ég náði því ekki betra skori en pari út úr þessu. Held að ég hafi endað á 46 höggum í heildina.
Kálfatjarnavöllurinn á Vatnsleysuströndinni
Ég skipulagði mót fyrir vinnufélaga mína í Kögun í byrjun september. Þátttakan var nú ekki neitt sérstök enda afleit veðurspá. Reyndar var slagviðri allan daginn í Reykjavík og sumir fóru að tala um frestun sem ég tók ekki í mál. En viti menn, þegar við komum suður á Kálfatjarnarvöll þriðjudaginn 9. september klukkan fimm var stafalogn og úrkomulaust. Hér hafði sem sagt gerst kraftaverk líkt og þegar Móses leiddi Ísraelsmenn gangandi þurrum fótum yfir Rauðahafið. Við kepptum þarna bæði í einstaklingskeppni og liðakeppni. Einstaklingskeppnina vann Leirukóngurinn Haukur Ragnarsson en mér tókst einhvernvegin að sigra liðakeppnina enda með góða spilara með mér, Þorstein Má Þorsteinsson og Daða Árnason sem sjást hér á myndinni til vinstri. Völlurinn var alveg afburðagóður þó komið væri fram á haust. Flatirnar frábærar, alveg eins og flauel, minntu mig á flatirnar á Flúðum.
Grafarholtið og Korpúlfsstaðirnir
Auk þess að vera í Golfklúbbnum í Úthlíð er ég líka í GR. Ég hef spilað Grafarholtið nokkrum sinnum í sumar. Er ekki nama 5 mínútur að keyra þangað úr Melbænum og ég sé yfir hann úr vinnunni. Völlurinn er alltaf sjarmerandi en mér finnst flatirnar þar alveg til skammar hjá þessum stærsta klúbbi landsins. Það verða þeir að laga. Ef til vill ættu þeir að fá ráð hjá Halldóri á Seli um hvernig eigi að búa til og viðhalda almennilegum flötum. Og hér kemur enn ein saga um tengslanet. Þarna voru við Hákon Óli vinur minn að spila einn góðviðrisdag í sumar með tveim konum í holli. Eitthvað kom til tals að ég væri úr Gull-Hreppunum. Hún sagðist þá vera góð vinkona fyrrum prestfrúarinnar í Hruna. "Það er merkilegt sagði ég, "einmitt um síðustu helgi var ég í fjallgöngu með hundinum hennar". Þ.e. við gengum á Högnhöfða með Sigurði Strange og fleirum, hann var að passa hund eiginkonu Sr. Halldórs Reynissonar fyrrum hrunaklerks. Konan þekkti Sigurð auðvitað vel líka.
Korpúlfstaðavöllurinn er fínn og flatirnar miklu betri en á Grafarholtinu finnst mér. Hef líka spilað hann nokkrum sinnum og fór m.a. á eitt mót þar þann 17. júní. Helsti gallinn er hvað það er langur gangur á milli brauta sumstaðar. Mér finnst brautirnar meðfram sjónum alltaf mjög fallegar og hef gaman að því að spila þær. Og svo á ég auðvitað eina uppáhaldsbraut á þessum velli, braut númer 13 núna (fyrrum númer fjögur) en þar fór ég holu í höggi 29. ágúst 2002. Þetta er löng par 3 braut, eða tæplega 200 metrar. Við Dísa vorum að spila þarna með fullorðnum hjónum. Það var orðið skuggsýnt og ég sá bara að boltinn flaug vel, skondraðist yfir sandgryfjuna og inn á flötina. Konurnar sem stóðu nær flötinni sáu boltann rúlla ofan í. Ég trúði því ekki fyrr en ég sá það.
Um bloggið
Þorsteinn Sverrisson
Nýjustu færslur
- Sparnaður í Excel en ekki í alvörunni
- Einræða Guðs um framtíð lífs á Jörðinni
- Leifur Eiríksson kemur alltaf aftur
- Taflmaðurinn
- Leitarvélar veita þjónustu
- Eitt sinn skal hver deyja
- Náttúruleg óhreinindi eru hollari en aukaefni
- Skáldfeðgar III
- Skáldfeðgar II
- Skáldfeðgar I
- Skilyrði fyrir lífi eru margþætt
- Lítil saga um verðskanna
- Fjórar vísur um sólarlagið við Faxaflóa
- Er rétt að allar auðlindir séu í þjóðareign?
- Þrúgur reiðinnar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Glæslieg úttekt Þorsteinn.
Þú verður að kíkja á Silfurnesvöll á Hornafirði. Ég hlakka til að lesa þá úttekt.
Ég var á Flúðum yfir tvo heitustu daga sumarsins. Hitinn fór í 27.7 gráður. Við kíktum á Selsvöll í hitanum og æfðum upphafsskotin úr skotbásunum. Flott aðstaða. Klúbbhúsið er glæsilegt, fín þjónusta enda fjórir starfsmenn.
Við í 85 árgangum höfum árlegt golfmót, ML85 Closed. Við spilum á Sogsvelli. Það er yfirleitt fámennt á þessu öfluga móti.
Ein ábending, þú mættir taka þessa fínu samantekt saman í töflu.
Sigurpáll Ingibergsson, 22.9.2008 kl. 19:11
Án þess að hafa vit á golfi að þá sýnist mér þetta vera góð úttekt. Er ekki þörf á bók með smá lýsingu og myndum af golvöllum landsins? Þetta gæti verið ágæt tómstundaiðja að elta uppi alla velli á úkjálkum og annesjum undir því fororði að þetta hluti af heildarúttekt. Allir vellir hafa sinn "karakter" og það er gaman að heyra af þessum breytileika. Mbk, G
Gunnlaugur B Ólafsson, 23.9.2008 kl. 13:23
Takk fyrir kveðjurnar kæru Skaftfellingar! Þó skömm sé frá að segja þá hef ég ekki spilað Silfurnesvöllinn en heyrt að hann sé dáldið sérstakur. Mikið slegið yfir víkur og voga. Reyni að láta verða af því næsta sumar. Ég veit að þú skráir örugglega alla golfhringi í excel Sigurpáll, man eftir línuritinu yfir einkunirnar þínar sem þú hafðir upp á vegg á Laugarvatni
Það er til ágæt bók íslensk um alla golfvelli hérlendis. Hún heiti Golfhringur um Ísland eftir Edwin Rögnvaldsson. Það eru nú um 60 golfvellir á Íslandi og það væri ágætis áskorun fyrir einhvern að spila þá alla á 60 dögum. Mér hefur dottið það í hug en hef ekki fundið tíma ennþá!
Ég hef nefnilega heyrt um menn (fleiri en einn) sem hafa spilað golf í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna á 50 dögum. T.d. Chad Chastain sem gerði þetta árið 2003, byrjaði í Alaska og endaði á Hawaii. Hann var að safna fé fyrir krabbameinssjúk börn.
Þorsteinn Sverrisson, 23.9.2008 kl. 19:08
Skemmtileg skrif um golfvelli landsins.
Það er sérstaklega gaman að þú fílar Hlíðarvöll í Mosfellsbæ. Við erum stolt af vellinum okkar og þá sérstaklega stækkuninni. Þó ég segi sjálfur frá er grjóthleðslan á nýju teigunum listaverk.
Verið velkomin á völlinn þegar allur nýi hlutinn verður komin í notkun.
Walter Hjartarson (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 00:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.