Á toppi Íslands

FreysnesHér er sagt frá leiðangri á Hvannadalshnjúk síðastliðinn sunnudag 3. maí.  Við lögðum af stað úr Reykjavík um hádegi á laugardag á tveim langferðabílum. Alls um sjötíu manns, flestir starfsmenn Íslandsbanka sem skipulögðu ferðina. Upphaflega stóð til að ganga á hnjúkinn 1. maí en hætt var við það vegna slæmrar veðurspár. Með stuttu stoppi í Víkurskála vorum við komin um klukkan fimm á Hótel Skaftafell í Feysnesi. Fljótlega var snæddur kolvetnaauðugur pastaréttur og brauð. 

Leiðangursstjórinn Haraldur Örn Ólafsson er tvímælalaust mesti ferðagarpur Íslands. Hann hefur farið á báða pólana og klifið marga af hæstu tindum heims. Faðir hans Ólafur Haraldsson var einnig einn af átta fararstjórum í ferðinni. Haraldur var í stöðugu sambandi við veðurfræðinga og tilkynnti í kvöldmatnum að lagt yrði af stað frá hótelinu klukkan tvö um nóttina og gengið af stað um klukkan hálf þrjú.  

Við gengum því til náða klukka átta um kvöldið og stilltum vekjaraklukkuna á eitt. Það er vissulega óvenjulegt á laugardagskvöldi enda varð lítið um svefn.  Maður reyndi að slaka á og dorma en í draumaheim komst maður ekki þessa nótt enda efirvæntingin talsverð og ekki vildi maður sofa yfir sig.

HaraldurOrnÞað var blíðuveður þegar við vöknuðum klukkan eitt og fengum okkur snemmbúnasta morgunmat sem ég man eftir að hafa snætt. Við klæddum okkur og útbjuggum samkvæmt fyrirmælum enda kom í ljós að ekki veitti af. Gangan hófst í myrkri undir Sandfelli á tilsettum tíma. Flestir voru með ljós á höfðinu enda varla ratljóst orðið. Haraldur Örn gekk fyrst.  Hann lagði mikla áherslu á að fara hægt af stað og ganga á jöfnum hraða til að spara kraftana. Það fór að birta milli klukkan þrjú og fjögur.  Fögur fjallasýn kom í ljós í vestri.

Við gengum með nokkrum pásum upp í 1100 metra hæð.  Þá vorum við farin að ganga á snjó að mestu og jökullinn framundan. Nú var fólkinu skipt í átta hópa sem bundu sig saman í línu og var einn fararstjóri fremstur í hverjum hóp. Okkar hóp leiddi Ingþór nokkur ferðagarpur, sem m.a. hafði gengið þvert yfir Grænlandsjökul.  Svo var byrjað að tosast upp á jökulinn hægt en bítandi.  Það er seinlegra að ganga svona í línu en frjáls.

Nú fór fljótlega að þykkna upp og hvessa. Skyggnið minnkaði smátt og smátt og maður fór að finna fyrir kulda um leið og stoppað var.  Fararstjórarnir stoppuðu reglulega til að láta fólk borða og drekka jafnvel þó matarlystin væri ekki mikil.  En maður fann að maður hresstist alltaf við þetta.  Það  tók mjög langan tíma að ganga upp jökulbrekkuna upp í 1800 metra hæð, þar sem sléttan byrjar. Veðrið versnaði smátt og smátt. Ofarlega mættum við hóp sem hafði snúið við á brúninni. Þeir sögðu að það væri vitlaust veður uppi og höfðu hætt við.  Nokkrar sprungur voru þarna á leiðinni upp en við gátum stikað yfir þær. Einn úr hópnum sem kom á móti okkur féll reyndar til hálfs niður í sprungu og þá sáum við hversu nauðsynlegar línurnar er.

Loks komumst við upp á 1800 metra brúnina. Þar tekur við ganga á nánast jafnsléttu í vestur um fjóra kílómetra. Eitthvað var rætt um hvort snúa ætti við. Ég var alveg til í það, sá ekki fram á að það yrði gaman að ganga í þessu veðri og sumum var orðið kalt, sérstaklega þegar stoppað var. En eftir að fararstjórinn hafði talað við Harald Örn sem var nokkuð á undan skipaði hann okkur að halda áfram. Seggur sá er ekki vanur að snúa við. Hann fullyrti að það myndi lægja og birta til. Ég átti fullt í fangi með að halda á mér hita í pásunum, sérstaklega á höndunum þar sem maður þurfti að taka af sér vefttlingana til að borða. 

FaridILinurEn um leið og maður fór að ganga hlýnaði manni og góð fötin héldu okkur þurrum.  Ég var í ullarnærfötum sem sönnuðu gildi sitt. Keypum þau í Janusi, góð föt á góðu verði. Tvöföldum ullarsokkum úr sömu búð. Í powerstrets flísbuxum og peysu á milli.  Yst í góðum Gore-Tex buxum og úlpu. Ég hefði viljað vera í einu lagi meira að ofan innundir, annað hvort flís eða auka ullarpeysu. Við vorum með dúnúlpur sem við settum yfir okkur í pásum og stundum í göngu.  Þær komu sér rosalega vel. Ég var í góðum skíðavetlingum en hefði frekar átt að vera í góðum lúffum úr þæfðri ull eða tvöföldum. Á hausnum var ég í lambhúshettu úr flís og annari húfu þar yfir. Að sjálfsögðu vorum við í skíðagleraugum en sólgleraugun settum við ekki upp. Flestir fengu líka heitt vatn í hitabrúsa í Freysnesi og voru með heitt te eða kakó.  Það var æðislegt.  En númer eitt, þið sem farið í svona ferðir, búið ykkur vel og farið að öllum ráðum fararstjóra.

HnjukurinnGangan eftir sléttunni gekk ágætlega en ekki hratt. Vindurinn og skafrenningurinn hélst samt áfram og var aðeins í fangið núna. En þegar við áttum eftir tæpan kílómetra að hnjúknum birti skyndilega yfir og kóngurinn á svæðinu kom í ljós. Haraldur pólfari hafði haft rétt fyrir sér um að það myndi létta til.   Sjaldan hefur maður séð jafn stórbrotna sjón og þetta tröll birtast liggjandi fram á lappir sínar í hvítri brynju og grimmúðlegt. Það var stoppað vel undir hjnúknum og borðað.  Hér skildu allir eftir bakpokana sína og göngustafina en settu á sig mannbrodda og tóku ísaxir í hönd. Það er nokkuð bratt upp á hnjúkinn sjálfann en þar sem snjór var mikill reyndi lítið á axirnar og broddana.  Þessi ganga úr 1800 í 2109 metra var því ekki sérlega erfið bakpokalaus og í þokkalegu veðri.

Það var síðan stórkostleg tilfinning að standa á toppnum. Útsýnið austur yfir sléttuna (sem er í reynd askja fulla af klaka) var ægifagurt. Við sáum ekki mikið í vestur eða norður. Eftir fagnaðarlæti, hamingjuóskir og myndatökur var svo gengið sömu leið niður.  Nú vildi fararstjórinn vera síðastur og það lenti á mér að vera fyrstur í línunni niður þar sem ég var aftastur áður.  Það gekk allt vel en við þurfum reyndar að stoppa af og til til að hleypa öðrum línum upp. Það var svo stoppað aftur í búðunum fyrir neðan hnjúkinn og fólk tók mannbroddana af sér og gengu aftur frá ísöxunum.

AToppnumSvo hófst gangan til baka.  Hægt og bítanadi austur yfir sléttuna sem maður tók nú eftir að hafði verið talsvert undan fæti hina leiðina því nú fann maður fyrir álíðandi brekkunni upp í móti. Og þá fór ég að finna fyrir þreytunni enda búinn að vera í göngu í um hálfan sólarhring, ósofinn. Það fór líka að hvessa á ný og nú byrjaði ofankoma og snjórinn varð þungur undir fæti. Það var samt hlýrra en á leiðinni upp. Gangan niður brekkuna reyndi á þolrifin.  Snjórinn var nú orðinn mjög þungur undir fæti en það hafði hlýnað og maður var berhentur.  Á sama stað í um 1100 metra hæð fengum við að leysa okkur úr línunum og gengum frjáls niður. Ég fór að finna talsvert til í hnjánum í grjótinu og skriðunum. Gekk því frekar hægt og reyndi að hlífa löppunum. 

Mín lína var komin niður um klukkan sex.  Við vorum því um 15 klukkustundir á göngu. Þeir síðustu komu ekki niður fyrr en klukkan var farin að ganga níu.  Það var kærkomið að fá hamborgarar í Freysnesi. Góð stemming var í hópnum eins og vænta mátti.  Dísa sem hafði séð um skipulag og undirbúning þakkaði öllum fyrir frábæra frammistöðu og fararstjórum fyrir örugga leiðsögn. Tilfinningin var eins og maður hefði unnið stórafrek og auðvitað var það svo.  Þetta er mjög erfitt og væri ekki hægt nema með þessum góða útbúnaði og undir stjórn þessara reyndu fararstjóra.  Maður sem hefði verið í lélegum fatnaði sem hafði ekki haldið vatni og hita í veðrinu sem var þarna uppi hefði króknað á stuttum tíma.  Rúturnar lögðu af stað heim um klukkan tíu. Mér tókst að dotta aðeins á leiðnni en við komumst ekki í bólið fyrr en hálf fjegur. Í vinnuna var ég samt mættur upp úr klukkan átta og hana nú. Bara merkilega hress.  Hefði kannski þegið að taka mér frí og sofa út ef ég hefði ekki verið með nokkra fundi bókaða þennan dag. Þetta var mikill sigur og ævintýri sem ég á eftir að muna alla mína ævi. 

Hér eru nokkrar mynir sér ég tók.

Hér er síðan betra myndasafn frá Árna Guðmundssyni.

En við fengum ekki sama útsýnið og Sigurpáll Ingibergsson sem tók þessa mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margith Eysturtún

Hlýtur að veða æðislegt að vera á svona ferð, flottar myndir.

Margith Eysturtún, 8.5.2009 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorsteinn Sverrisson

Höfundur

Þorsteinn Sverrisson
Þorsteinn Sverrisson
Tölvunarfræðingur, Árbæingur og Hrunamaður. Í Einherjaklúbbnum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 59970

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband