Færsluflokkur: Ljóð
19.3.2012 | 20:38
Taflmaðurinn
Þér finnst þú vera
hrókur alls fagnaðar
í samkvæmum.
Slærð um þig með
bröndurum og
allir hlægja að þér.
Eða þú telur þig vera
riddarann á hvíta
hestinum sem kemur
á harðastökki og
sveiflar prinsessunni
upp í hnakkinn.
Kannski líður þér eins og þú
sért eitrað peð sem allir
óttast eða biskup í
prédikunarstól sem boðar
fagnaðarerindið og fólk
hlustar hugfangið.
Stundum heldur þú jafnvel
að þú sért kóngurinn eða
drottningin og allir vilji
fórna sér fyrir þig.
En þú gleymir því að þú
ert bara taflmaður.
Þú ert ekki skákmaðurinn.
Hann er miklu stærri.
Ljóð | Breytt 8.9.2014 kl. 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.8.2011 | 18:55
Fjórar vísur um sólarlagið við Faxaflóa
Sólarlagið er fallegast seint á sumrin þegar haustið stendur álengdar og bíður þess að leggja af stað. Ég hef ósjaldan verið á leið til Reykjavíkur að kvöldlagi á þessum árstíma og stolist til að líta af veginum út á roðagylltan Faxaflóann. Þá hafa þessar vísur orðið til og nýlega sá ég þessa gullfallegu ljósmynd frá nafna mínum Þorsteini Ásgeirssyni sem kallar fram sömu tilfinningar. Ljósmyndasafn Þorsteins er glæilegt og hann hefur hlotið margar viðurkenningar. Hægt er að skoða það hér.
Yst á himni blikar bjarmahringur
blóði drifinn er hinn lygni sjór.
Við fætur okkar sólarlagið syngur
seiðandi og fagur öldukór.
Sólin kann að mála fagrar myndir
á mjúkan flöt sem hafið breiðir út.
Í kyrrð og friði kvöldið burtu syndir
svo kemur nótt með dökkan skýluklút.
Sjórinn hefur frá svo mörgu að segja
samt hann velkist hljóður ár og ár.
Flestum okkar þykir betra að þegja
þegar sagan vekur sorg og tár.
Aldan fæðist út á reginsævi
og hún deyr í gömlu bátavör.
Líkt og ég hún endar sína ævi
eftir langa og hættulega för.
Ljóð | Breytt 22.8.2011 kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2010 | 22:15
Vantar ekki eitthvað í fréttina?
Til hamingju með verðlaunin Gerður Kristný. Ég skil hins vegar ekki hvers vegna ljóðið sjálft er ekki birt með fréttinni!! Er það aukaatriði? Var því kannski bara hent í eldinn eins og ástarljóðunum stundum í gamla daga?
En ég er einmitt með bókina Höggstaður eftir Gerði Kristný á náttborðinu hjá mér núna. Hún er flink og hugmyndaríkt skáld. Ég ætla að stelast til að birta hér eitt sniðugt ljóð úr bókinni þó svo að hana megi ekki AFRITA MEÐ NEINUM HÆTTI (undarlegir frasar í ljóðbókum því ljóð eiga að vera frjáls og fljúga um heiminn eins og fuglarnir).
Dánartilkynning trúlausa mannsins
Fyrir ofan myndina
ekki kyrrlátur kross,
heldur rós
eins og hann hafi trúað því
að eilíft líf biði hans
í blómabúð
Gerður Kristný hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ljóð | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2009 | 21:10
Limrur
Limrugerð er merkileg árátta sem Engilsaxar byrjuð að sýsla við fyrir næstum tveim öldum. Oftast er talað um að sá merki maður Edward Lear hafi gert limrukveðskap vinsælan þegar hann gaf út Fáránleikabókina "A book of Nonsense" áríð 1846. Hann var nokkuð þekktur breskur sérvitringur sem reyndar vann fyrir sér sem teiknari en ekki skáld. Eðvarð dó þegar hann var að halla í áttrætt árið 1888, eða um það leyti sem flutningur Íslendinga til vesturheims stóð sem hæst. Ekki hef ég þó heyrt um að skáld og hagyrðingar hér á Fróni hafi tamið sér þetta kvæðaform á því méli, allra síst vesturfararnir Stephan G og KN þó það hefði vissulega hæft vel þeim síðarnefnda.
Það var ekki fyrr en um og eftir miðja síðustu öld Íslendingar fóru að yrkja limrur að ráði og ruddu Þorsteinn Valdimarsson og Jóhann S. Hannesson brautina fyrir aðra snillinga eins og Jónas Árnason og Hrólf Sveinsson sem svo er kallaður, en sumir telja að það sé skáldanafn Helga Hálfdanarsonar. Að mínu mati er bókin ljóðmæli eftir Hrólf gullvagn íslenskra limra. Hér er dæmi um eina smellna úr því safni (hinar eru allar af svipuðum toga):
Hindúismi
Hún Indíra gamla Gandí
við gigtinni drekkur brandí,
og til að það betur
bragðist, hún setur
heilagra kúa hland í.
Efnistök limra (e. limereck) eiga sér yfirleitt rætur í einhverskonar útúrsnúningi, orðaleikjum eða skringilegheitum. Ef til vill hentar það forminu sem er nokkuð óvenjulegt þó bragarhátturinn sé nokkuð formfastur. Í limrum eru fimm braglínur og endarímið AABBA. Í A línunum eru þrír bragliðir en tveir í B línunum.
Nokkrar limrur hafa safnast upp í fórum mínum síðustu ár og hefst nú lesturinn.
Skýrsla Landlæknis 2005
Ég frétti að Véhildur veira
í vatnsnuddi hitti hann Geira,
gaf honum kvef,
kláða í nef,
og króníska bólgu í eyra.
Ævisaga
Hann fæddist á frostkaldri nóttu
er fram yfir komið var óttu,
lifði í öld
lést svo um kvöld
á legubekk vestur á Gróttu.
Málvísi
Staðfastur tel ég það stemmi,
að stórlega málvís er Hemmi,
mjög ber þess vott
máltækið gott
"Oft stoppar Strætó á Hlemmi"
Dansinn í Hruna
Gaman fannst Gústa í Hruna
að grípa í harmonikkuna,
en þáði eigi þökk
því kirkjan hún sökk
og danslagið hætti að duna.
Ölerindi
Að far með bjór í bað
og belgja sig út er það,
besta í heimi
því böli ég gleymi
og blóðsteymið fer af stað.
Afmæli
Hann gerist nú gildari og þyngri
og græðir á hverjum fingri,
þó er það eitt
sem enginn fær breytt
að hann hefur oft verið yngri.
Barlómur
Á barnum hún Friðrikka feita
fór á hann Magnús að leita,
hún káfaði og kyssti
hann kynlöngun missti
en kunni ekki við að neita.
Sumarstemma
Hjörleifur grillaði humar
hala með lauk í sumar,
með gamanmál fór
og gaf öllum bjór
glöddust þá fjölmargir gumar.
Gunnar geimvera
Gunnar bauð gestum í geim
en gaf engar ölveigar þeim,
vakti það furðu
og flestallir urðu
fúlir og héldu heim.
Silvía Svíadrottning í Lillehammer 1994
Hún Silvía sat oná dalli
á sólbrenndum timburpalli,
læst inná kamri
Litla á Hamri
og léttist um kíló af galli.
Frumvarp til kvótalaga
Gunnvör í Hnífsdal var gátlaus
en Guðný í Ólafsvík látlaus,
Gunnvör lauslát
en Guðný kaus gát
því bæði var kvóta- og bátlaus.
(Limran hér að ofan og sú næsta er með þannig sniði að rímorðin í þriðju og fjórðu línu eru víxluð rímorðin í fyrstu, annarri og fimmtu. Það er aðeins á færi allra bestu limrugerðarmanna að yrkja með þessum hætti)
Frumvarp til búvörulaga
Á Hóli bjó Finnbogi Fundvísi
en Stefán bróðir hans Stundvísi,
byrjaði í Mýsundi
búskap með vísundi
og bar síðan nafnið: Hinn Hundvísi.
Guttavísa
Hann horaðist mikið í Haag
og hita fékk mikinn í Prag,
mædd á þeim stutta
er mamma hans Gutta
og mælir hann oft á dag.
Skýrsla Landlæknis 2006
Í haust fékk hann Pétur í Pulu
parkinsonveiki og gulu,
en Loretta Ann
læknaði hann
með lagstúf úr særingarþulu.
Raunir knattspyrnukonu
Vesalings stelpan hún Vanda Sig
var með svo mikið handasig,
að niður á stétt
hún náði upprétt
og furðaði á þessum fjanda sig.
Tina Turner
Austur í Tungum ég sá Tínu
Turner liggjandi á dýnu,
í vaxbornum frakka
af Valda á Bakka
og vakti það talsverða kátínu.
Biskupasaga
Biskupa matreiddi af móði
mannætuflokkurinn óði,
Gizzur var sætur
og Grímur ágætur
en bestur var Guðmundur Góði.
Ljóð | Breytt 7.10.2009 kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.12.2008 | 11:12
Nokkrar vísur um fallandi snjókorn og ýmislegt annað sem fellur
Einar á Efri-Hjalla
allskonar fræði kann.
Snjókornin falla og falla,
fellur mér vel við hann.
Fegurðin upp til fjalla,
fyrst þegar hana sá.
Snjókornin falla og falla,
féll ég í stafi þá.
Ég ógæfu yfir mig kalla
ánetjast fjárhættuspil.
Snjókornin falla og falla,
mér fellur þó eitthvað til.
Þó að ég ýti á alla
enginn samt færist úr stað.
Snjókornin falla og falla,
mér fallast hendur við það.
Ingvar er alltaf að dralla,
annað eins hef varla séð.
Snjókornin falla og falla,
mér fellur það ekki í geð.
Hann var með heilmikla galla,
hún var ógurlegt skass.
Snjókornin falla og falla,
hún féll eins og flís við rass.
Bændur í sveitinni bralla
braska með hrúta og ær.
Snjókornin falla og falla,
það féll á einn víxill í gær.
Langan veg heimleiðis lalla
lúinn með augu hvít.
Snjókornin falla og falla,
fell ég í svefn og hrýt.
Það á ekki við um alla,
ég óvæntan glaðning hlaut.
Snjókornin falla og falla,
mér fellur gæfan í skaut.
Eins og svarkur ég svalla
svartfullur verð og ær.
Snjókornin falla og falla,
ég féll á bindindi í gær.
Dama er kölluð Dalla,
Davíð finnst ekki ljót.
Snjókornin falla og falla,
hann féll fyrir þessari snót.
Ef blíðlega höfðinu halla
hún verður kát og glöð.
Snjókornin falla og falla,
allt fellur í ljúfa löð.
Forynjur upp til fjalla
fara á stjá í kveld.
Snjókornin falla og falla,
mér fellur ketill í eld.
Þú ert ekki með öllum mjalla
þær mæltu og sendu mig heim
Snjókornin falla og falla,
ég féll ekki í kramið hjá þeim.
Ýmsir mig aula kalla
að mér presturinn hló.
Snjókornin falla og falla,
er féll ég um koll og dó.
Ljóð | Breytt 21.12.2008 kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.7.2007 | 00:41
Sumarnótt
mýrinni væri þögul
vöknuðu hestarnir
á bakkanum
þegar rauðdvergarnir
hófu að smíða
sólarskipin
og fleyta þeim út á
lækinn
á móti feimnum
morgninum við
endann á fjallinu
það voru bara síðustu
tvö sem festust í
sefinu við hólmann
og dönsuðu þar
vatnsins
hin flutu hratt áfram
eftir ljósrákum
þangað til straumurinn
í flúðunum leysti þau
upp í glitrandi gulldropa
við vorum ein á ferð þessa nótt
(úr óútkominni ljóðabók bloggritara)
Ljóð | Breytt s.d. kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.5.2007 | 21:00
Tveir steinar
tveir steinar
þrungnir af aldri
gefa frá sér þögn
yfir mosavaxna heiðina
bara tveir saman
hlunkarnir
í sínum sætum
gráir og þegjandi
öld eftir öld
uns dag nokkurn
við sólsetur
annar lítur á hinn
og segir:
- á morgun leggjum við af stað
(úr óútkominni ljóðabók bloggritara)
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.5.2007 | 20:30
Barnsminni
hvers vegna hlæja börnin
þegar þú horfir í augu þeirra?
hvers vegna hlaupa folöldin
á kyrrum vorkvöldum?
hvers vegna fara lömbin
í eltingaleik á túninu?
af því þau þekkja ekki
framtíðina sem stendur álengdar
sem bíður eftir þeim eins og
hvítklæddur öldungur
með torræðan svip
og kallar þau til sín
þegar þau eru tilbúin
lækurinn sprettur upp úr
lindinni, tær eins og
sannleikurinn, gegnsær
eins og gler
þegar ég var barn
lék ég mér oft í bæjargilinu
og hlustaði á lækinn
hríslast á milli steinanna
stundum á kvöldinn
þegar hljóðbært var
heyrði ég þungan dyn í fjarska
löngu seinna
komst ég að því
að þetta var niðurinn í stóra fljótinu
handan við heiðina
þangað sem vegurinn lá
þetta var niðurinn í stóra fljótinu
sem að lokum
hremmdi litla lækinn úr gilinu
og bar hann til sjávar
þegar ég var barn!
hvað er ég núna?
tíu stafa kennitala,
vegabréf,
færsla í þjóðskrá
tannhjól í úrverki
heimsvædds
hagkerfis
örsmá eining í
hagtölum
Seðlabankans
ég heyri ekki
lengur niðinn í fljótinu
fyrir umferðarndyn
og glamri í steypudælum
nú leik ég mér á
róluvelli lífsbaráttunnar
og hlæ til að komast
í gegn um daginn
Ljóð | Breytt 9.10.2007 kl. 19:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.3.2007 | 22:49
Samtök óvirkra bindindismanna
Ég bindindismaður ekki er
einstöku sinnum bragða vín.
Varast þó ölva vítis hver
og villubölvandi fyllisvín.
Hafa má yfir víni vald,
í vín má ekki greiða gjald
meira á ári en meðal lamb,
menn skulu varast ölva ramb.
Tæpast á barmi böls og hels
með bölva jarmi villuéls.
Að drekka sig full er dauðasynd,
Drottinn vor allra fyrirmynd
breytti í Kana, vatni í vín.
Vínið mót bana lækning mín
7 dropar sér á sólarhring
sæmilegt gömlum vesaling.
(Bjarni Guðmundsson Hörgsholti, kl 5,21 27/11 '67)
Dagdraumar koma ekki að drykkjukeppni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2007 | 21:02
Ljóð vikunnar
Síðustu viku lá ég andvaka nokkur kvöld og fór þá að yrkja ljóð undir áhrifum frá Steini Steinarr sem ég var að lesa einu sinni sem oftar. Þetta ljóð á sér ekki rætur í neinni sérstakri persóunlegri reynslu þó svo að allt sem við hugsum, gerum og segjum sé að einhverju leyti byggt á þeirri skynjun á veruleikanum sem við upplifum í lífinu.
Hrímhvítum augum leit veturinn heiðlöndin breið |
Ljóð | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Þorsteinn Sverrisson
Nýjustu færslur
- Sparnaður í Excel en ekki í alvörunni
- Einræða Guðs um framtíð lífs á Jörðinni
- Leifur Eiríksson kemur alltaf aftur
- Taflmaðurinn
- Leitarvélar veita þjónustu
- Eitt sinn skal hver deyja
- Náttúruleg óhreinindi eru hollari en aukaefni
- Skáldfeðgar III
- Skáldfeðgar II
- Skáldfeðgar I
- Skilyrði fyrir lífi eru margþætt
- Lítil saga um verðskanna
- Fjórar vísur um sólarlagið við Faxaflóa
- Er rétt að allar auðlindir séu í þjóðareign?
- Þrúgur reiðinnar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar