28.9.2008 | 17:03
Skotgolf
Hér er sagt frá því þegar fjögur pör spiluðu golf á fjórum skoskum linksvöllum á fjórum dögum, 25 28 september á því herrans ári 2008. Ferðin var skipulögð af hjónunum Snorra Guðmundssyni og Ingu Geirsdóttir sem reka fyrirtækið Skotganga í Glasgow. Þau bjóða bæði upp á gönguferðir, golfferðir, borgarferðir og sérsniðnar ferðir um Skotaland. Ég mæli virkinklega með þjónustu þeirra enda heppnaðist þessi ferð sérstaklega vel.
Flugvél IcelandAir seinkaði aðeins þannig að við vorum um halftima á eftir áætlun þegar við vorum komin út úr flugstöðinni. Þar biðu okkar tveir bílar sem keyrðu okkur á The Gailes hotel þar sem við gistum. Þetta er lítið sveitahótel, mjög þægilegt og fínt. Hótelið sér um að keyra okkur til og frá golfvöllunum sem við spilum á.
Við vorum komin á Irvine Bogside golfvöllinn rétt fyrir bókaðan rástíma klukkan 13:30. Höfðum ekki haft tíma til að borða og fengum því að seinka okkur aðeins meðan við fengum okkur samlokur í klúbbhúsinu. Byrjuðum síðan að spila upp úr klukkan tvö. Þetta er gamall og rótgróinn golfklúbbur, stofnaður árið 1887! Hér eru greinilega starkar hefðir og mikil saga undir fótum manns. Á veggnum í andyri klúbbhússins hanga t.d. tveir skildir, á öðrum eru nöfn þeirra klúbbmeðlima sem létust í fyrri heimsstyrjöldinni, og á hinum nöfn þeirra sem létust í seinni heimsstyrjöldinni. Þarna tók á móti okkur reffilegur maður og kynnti fyrir okkur aðstæður og staðhætti. Þetta var sérviskulegur en mjög hress karl. Fór með okkur um allt. Lét í okkur té aðgangskóða að búningsherbergjum karla og kvenna o.s.frv. Sýndi okkur veitingastaðinn, golfvöruverlunina og sagði okkur frá vellinum. Það er greinilega lagt kapp á að taka vel á móti gestum í þessum kúbbi. Þegar við fórum á teig kom hann með skilti sem á stóð að hérna væru gestir á ferð og aðrir ættu að taka tillit til þess. Veðrið var frábært, glampandi sól og örugglega um 20 stiga hiti.
Irvine Bogside er nokkuð erfiður völlur, líka nokkuð óvenjulega hannaður, sennilega vegna þess hvað hann er gamall og lítið breyttur. Bara ein par 5 braut er á honum en margar par 4 brautir mjög langar, um og yfir 400 metrar. Bara ein par 3 braut er á fyrri 9 en tvær á seinni. Eins og á öðrum breskum völlum er hér mikið af djúpum sandgryfjum. Fyrir utan brautirnar er víða djúpt lyng og kjarr þannig að það gat verið erfitt að finna bolta sem fóru út fyrir. Týndi ég þónokkrum boltum. Borðuðum um kvöldið á hótelinu þar sem er mjög góður veitingastaður. Kynnt voru úrslit dagsins. Það var spiluð útfærsla af punkrakeppni milli para. Úrslitin voru sem hér segir:
1. sæti: Guðmundur Ásmundsson og Jóhanna Helga Guðlaugsdóttir, 42
2. sæti: Sigurður Skagfjörð Sigurðsson og Hrönn Greipsdóttir, 36
3. sæti: Mattias Waage og Bryndís Fjóla Sigmundsdóttir, 30
4. sæti: Þorsteinn Sverrisson og Hjördís Björnsdóttir, 29
Á föstudagsmorguninn ál leiðin á Kilmarnock Barassie völlinn sem er við þorpið Troon. Um fimm mínútna akstur frá Gailes. Hér var spiluð parakeppni.. Á fyrsta teig var dregið um hverjir spiluðu saman. Einnig var keppt í sérstöku "Yellow ball" móti á milli holla. Hvort lið hafði einn gulan bolta sem spilarar skiptust á að spila með á hverri braut. Kilmarnock er einnig gamalgróinn völlur, stofnaður litlu seinna en Irvine, þ.e. árið 1887. Hann er samt aðeins öðruvísi, hefur verið breytt meira refsar ekki eins mikið fyrir mistök. Nokkrar brautir eru þó upprunalegar, t.d. önnur, þriðja og átjánda. Ég týndi aðeins þrem boltum á þessum 18 holum en örugglega tíu á Irvine daginn áður.
Hér eins og í Irvine er klúbbhúsið þrungið af sögu. Meira en 120 ára gamlir listar yfir klúbbmeistara hanga uppi í klúbbhúsinu. Mikið er af erfiðum glompum hérna, allt að mannhæðarháum sem getur verið mjög erfitt að slá upp úr, sérstaklega ef boltinn er nálægt veggnum. Á myndinni hér er ég að slá upp úr erfiðri glompu á 16 braut, boltinn var innan við fet frá brúninni, ég opnaði kylfuna mikið og þrykkti síðan af alefli undir hana. Hún skondraðist í vegginn ofarlega og þaðan upp úr glompunni til hliðar. Úrslit í dag voru sem hér segir (talið var betra skor í punktum á hverri braut) :
1. Gummi og Bidda, 38
2. Þorsteinn og Hrönn, 31
3. Siggi og Hjördís, 30
4. Matti og Helga, 29
"Yellow ball" keppnina unnu Siggi, Þorsteinn, Hrönn og Dísa. Þau komust með boltann allan hringinn án þess að týna honum, á 107 höggum. Hitt hollið týndi sínum strax á annari braut út í þyrnirunna.
Á laugardagsmorguninn var dálítill vindur af vestri og ekki heiðskýrt eins og dagana á undan. Við lögðum af stað á Dundonalds völlinn klukkan korter yfir tíu, áttum bókaðan rástíma klukkan ellefu. Dundonalds er líklega besti völlurinn sem við spilum á að þessu sinni. Hann er í eigu sömu aðila og eiga hinn fræga völl Loch Lomonth. Þar eru klúbbfélagar aðallega frægar stjörnur og viðskiptamógúlar. Hann er afgirtur, þyrlur fljúga yfir hann og aðeins klúbbfélagar og gestir þeirra geta spilað þar. Loch Lomonth keypti Dundonalds til þess að auka fjölbreytni fyrir klúbbfélaga og fyrst í stað var hann líka lokaður. En svo var hann opnaður fyrir almenning til að nýta hann betur. Eigendurnir rifu gamla klúbbhúsið og nú er í notkun þar bráðabirgðakúbbhús. Bygging á nýju kúbbhúsi hefur tafist vegna fjármálakreppunnar. Þetta sagðir ræsirinn okkur allt saman. Þarna er ýmislegt sem maður hefur ekki séð áður á golfvelli, skórnir eru burstaðir fyrir mann, allir fá tí og blíanta eins og þeir vilja á fyrsta teig og á áttunda teig er sími þar sem hægt er að panta veitingar eftir fyrri níu.
Þessi golfvöllur er auðvitað alveg frábær. Hver braut er eins og listaverk. Mikið landslag, fallegt umhverfi og þú sérð aldrei neitt nema bara brautina sem þú ert að spila á. Flatirnar voru ógurlega stórar og hraðar. Maður var lengi að venjast þeim. Mikið er af mjög djúpum sandgryfum, þó enginn eins og djúpa gryfjan á bak við flötina á 13 braut (Hell's bunker), sem betur fer var ég of stuttur! Á síðustu brautunum fór að eins að dropa úr lofti og stuttu eftir að við komum í klúbbhúsið kom úrhellisrigning. Að þessu sinni spiluðu karlarnir saman í holli og konurnar sér. Keppt var í punktakeppni. Efstu þrír voru:
1. Helga Guðlaugsdóttir, 28
2. Sigurður Skagfjörð Sigurðsson, 26
3. Guðmundur Ásmundsson, 24
Á sunnudeginum var spilað á Troon Darley vellinum. Hann er inni í miðju Troon þorpinu, stutt frá þeim fræga velli Royal Troon þar sem Opna Breska meistaramótið fer fram ca í sjöunda hvert skipti. Reyndar eru óteljandi golfvellir á þessu svæði hér í kring. Ef maður skoðar Google Earth sér maður golfvöll við golfvöll meðfram sjónum á löngum kafla. Það er greinilega mikill ferðaiðnaður í kring um þetta sport, mikið af golfhótelum og golfbúðum. Urðum t.d. vör við marga svía. Troon Darley er almenningsvöllur, þ.e. sveitarfélagið á hann og það er ekki sérstakur klúbbur starfræktur þar. Þetta er skemmtilegur völlur og margar mjög fallegar brautir. Hann er samt ekki eins vel hirtur og umgjörðin ekki í sama klassa og á völlunum sem við vorum á áður. Hér náði ég mínum fyrsta fugli, sló inn á flöt á þriðju braut sem er 250 metra par fjögur. Tvö pútt og fuglinn lá dauður. Hollið á undan skildi eftir bikar með snafs fyrir mig!.. Úrslit dagsins voru svona:
Matti og Bidda, 56
Þorsteinn og Hjördís, 51
Gummi og Helga, 46
Siggi og Hrönn, 37
Myndir úr ferðinni eru hér.
Um bloggið
Þorsteinn Sverrisson
Nýjustu færslur
- Sparnaður í Excel en ekki í alvörunni
- Einræða Guðs um framtíð lífs á Jörðinni
- Leifur Eiríksson kemur alltaf aftur
- Taflmaðurinn
- Leitarvélar veita þjónustu
- Eitt sinn skal hver deyja
- Náttúruleg óhreinindi eru hollari en aukaefni
- Skáldfeðgar III
- Skáldfeðgar II
- Skáldfeðgar I
- Skilyrði fyrir lífi eru margþætt
- Lítil saga um verðskanna
- Fjórar vísur um sólarlagið við Faxaflóa
- Er rétt að allar auðlindir séu í þjóðareign?
- Þrúgur reiðinnar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.