Rugl og vitleysa

systemFlestir hafa sterka þörf fyrir að hafa alla hluti í frekar föstum skorðum. Borða á sama tíma, fara í vinnuna á sama tíma, setjast á sama stól við borð, leggja í sama bílastæði o.s.frv.  Flestir vilja líka hafa allt vel snyrt í kring um sig og hlutina á sínum stað.  Við sláum garðinn, en látum hann ekki vaxta, við klippum tré og runna o.s.frv.  Í skógrækt eru tré yfirleitt gróðursett í beinum línum þó svo að því fari víðs fjarri að það sé náttúrulegt.  Ég er eins og flestir alinn upp við frekar mikla almenna reglu og skipulag.  Auk þess lærði ég tölvunarfræði þar sem allir hlutir eru skilgreindir, allt er afleiðing af einhverju öðru og allt sem gert er, er gert í skilgreindum reiknanlegum skrefum.  Ef maður skilur ekki eitthvað þá getur einhver fróðari leitt mann í sannleikann með röksemdafærslu.

Vissulega er skipulag, regla og agi grundvöllur samfélags þar sem við þurfum að geta treyst öðru fólki, átt öruggt líf, stundað viðskipti og framkvæmt tæknileg verkefni. En stundum finnst manni að þjóðfélagið sé orðið of bundið í skipulagsfjötrum sem hindra framþróun, sköpunargleði og fjálsa hugsun.  Mikil trú á flóknum reglum, stöðlum, kerfum, ferlum og eftirlitsstofnunum einkennir samfélagið í dag.  

FreeMindÁður fyrr hafði fólk opnari huga en nú á tímum þegar allt þarf að vera í rökréttri samfellu. Tökum sem dæmi götur í nýju bæjarhverfi, þær eru látnar heita Akralind, Askalind, Berjalind o.s.frv.  Allt með sömu endingunni og raðað í stafrófsröð. Þetta er auðvitað mjög gott til að maður geti ratað á réttan stað ef maður er ekki kunnugur. En þetta tekur hins vegar ákveðinn „karakter" úr umhverfinu.  Það sama má segja um þegar sveitafélög eru sameinuð og fá nýtt nafn, Reykjanesbær, Snæfellsbær, Bláskógarbyggð, Fjallabyggð o.s.frv. Sem betur fer voru landnámsmenn Íslands ekki svona fastir í andlausum kerfum. Þá myndum við ekki eiga jafn falleg örnefni og Hekla, Fáskrúð, Dauðsmannskvísl, Gránunes, Slauka, Hvesta, Gláma, Stöng, Klifandi, Þegjandi, Kögur og svo mætti lengi telja. Í dag myndu árnar á Skeiðarársandi verða skírðar Jökulsá 1, Jökulsá 2, Jökulsá 3 eða eitthvað álíka ófrumlegt.

Stundum er gaman að upplifa eitthvað sem er svo ruglað að það stingur í stúf við allt sem maður er vanur. Í bókinni „The Analytical Language of John Wilkins" segir Jorge Luis Borges frá merkilegu flokkunarkerfi dýra sem á að hafa verið skráð í fornri bók kínverska keisarans.  Þar voru dýr flokkuð á eftirfarandi hátt:

a) Dýr sem tilheyra keisaranum
b) Uppstoppuð dýr
c) Dýr sem eru tamin
d) Grísir ennþá á spena
e) Hafmeyjar
f) Glæsileg dýr
g) Flækingshundar
h) Þau sem tilheyra þessum flokkum
i) Þau sem skjálfa þegar þau reiðast
j) Óteljandi dýr
k) Önnur dýr
l) Dýr sem hafa brotið blómavasa nýlega
m) Þau sem líta út eins og flugur í fjarlægð

Eins og allir sjá er þetta flokkunarkerfi gjörsamlega óskiljanlegt og ónothæft í allri vísindalegri vinnu.  Þetta stingur í augun og fer langt út fyrir allt sem okkur er tamt og finnst skynsamlegt.  Engu að síður hristir þetta aðeins upp í huganum og víkkar sjóndeildarhringinn.  Og minnir á að það hugsa ekki allir eins og hafa ekki alltaf gert.  

HorgsholtSumt fólk fúnkerar ekki vel í skipulögðu þjóðfélagi. Sveiflast ekki á sömu bylgjulengd og aðrir. Þetta fólk er kallað furðufulgar, rugludallar og í besta falli „lífskúnstnerar".  Ég man eftir einum manni úr minni barnæsku, Bjarna Guðmundssyni í Hörgsholti. Bjarni þótti skrítinn og forn í háttum.  Hann bjó einn á bæ sínum síðustu árin en dvaldi á veturnar í Reykjavík. Bjarni gaf út stórmerkilegt tímarit á árunum 1956 - 1970 sem hann kallaði Hreppamanninn. Þessi tímarit voru blanda af auglýsingum í bundnu máli, kveðskap, leikritum, sérkennilegum sagnaþáttum og hugleiðingum.  Í fyrsta tölublaðinu er inn á milli nokkurra erfiljóða kafli sem heitir spurningar. Þessi kafli eru ekki í samhengi við neitt annað í blaðinu.  Spurningarnar sem Bjarni setur fram eru eftirfarandi:

1. Er sósíalismi siðalögmál mannkynsins?
2. Hvað er kristnidómur?
3. Er ráðstjórnin í Rússlandi sósíalistastjórn?
4. Hvers vegna verða smáríkin að greiða henni fórn?
5. Er bergmál réttur endurómur?
6. Eru Bandaríkin í Ameríku þjóð?
7. Er tómatsósuterta góð?
8. Sjúga saklausar flugur blóð?
9. Vantar íslenzku þjóðina samvinnusjóð?
10. Er lífshætta fyrir allsgáðan mann að hlaupa hiklaust fram af 200 m háum sjávarhömrum?
11. Getur sá all, sem trúna hefur?
12. Nýtur sá þjóðvegar mest, sem landið gefur?
13. Eru nauðungargjafir neikvæðar?
14. Eru jarðeignagjafir jákvæðar?
15. Er hyggilegt að sameina alla hreppa í einn hrepp á milli Ölvusár-Hvítár og Þjórsár?
16. Verður vothey betra úr 14 m djúpum turn en úr 4 m djúpu hólfi í hlöðu með samsíða hólf fyrir þurra töðu?
17. Eru íslenzk lög sanngjörn og réttlát? (7 dæmi)
18. Eru 10 boðorð guðs óskeikul lög fyrir alla menn?
19. Þarf þjóðkirkja á Íslandi að hafa á launum 100 menn?
20. Getur sami maður verið læknir og prestur?
21. Hvort er betra fyrir námsfólk að fara í austur eða vestur?
22. Borgar sig að rækta beitartún?
23. Er hægt að rækta ísl. kornsúru til manneldis og fuglafóðurs?
24. Þarf að kaupa inn í land vort útlent fóður?
25. Hvað verður atvinnulífi og efnahag íslendinga betra til blessunar en Verðbótasjóður?

Þegar ég rakst á þetta um daginn minnti þessi spurningalisti mig á flokkunarkerfi keisarans í Kína.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Skemmtilegt. Og mikið er ég fegin að ég kom einu sinni að Hörgsholti til Bjarna. Þá vorum við krakkarnir í Grafarhverfinu í útreiðartúr um Austurkrókinn og auðvitað var komið við á bæjum. Okkur var boðið inn og þáðum veitingar í stofunni, mjólk og kex, eins og sjálfsagt þótti ef gesti bar að garði.

Sama þótt "gestirnir " væru kannski tíu, á aldrinum 8-14 ára. kv.

Helga R. Einarsdóttir, 7.3.2009 kl. 15:35

2 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Já það hefur örugglega verið mikið ævintýri. Ég man aðeins eftir karlnum. Hann drakk mikið súrmjólk sem var þá í svona plastpokum og svo skar hann pokana oft upp og skrifaði á þá.  Stundum kom hann í heimsókn og var frekar illa til fara en orti alltaf vísur. Orti einu sinni vísu um mig sem ég man því miður ekki en held að mamma muni hana.  Einu sinni gaf hann Jóni bróðir lamb og með henni fylgdi þessi vísa:
  Jón Guðmundur ég þér gef
  jarðskríðandi gráa kind (þ.e. nýfætt lamb)
  Guð þinn blessi gjafaféð
  Grákrúna er fyrirmynd.

Bjarni fór oft í Hrunalaug sem hann kallaði Áslaug því hún er í landi Áss.  Hann orti þetta líklega þar:
  Góða hreina Áslaug er
  allra meina bótin.
  Ljóðasveini býður ber
  að bleyta leynifótinn.

Þetta er sniðug vísa. Hringhend, sléttubönd og tvíræð.

Þorsteinn Sverrisson, 11.3.2009 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorsteinn Sverrisson

Höfundur

Þorsteinn Sverrisson
Þorsteinn Sverrisson
Tölvunarfræðingur, Árbæingur og Hrunamaður. Í Einherjaklúbbnum.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband