6.10.2009 | 21:10
Limrur
Limrugerð er merkileg árátta sem Engilsaxar byrjuð að sýsla við fyrir næstum tveim öldum. Oftast er talað um að sá merki maður Edward Lear hafi gert limrukveðskap vinsælan þegar hann gaf út Fáránleikabókina "A book of Nonsense" áríð 1846. Hann var nokkuð þekktur breskur sérvitringur sem reyndar vann fyrir sér sem teiknari en ekki skáld. Eðvarð dó þegar hann var að halla í áttrætt árið 1888, eða um það leyti sem flutningur Íslendinga til vesturheims stóð sem hæst. Ekki hef ég þó heyrt um að skáld og hagyrðingar hér á Fróni hafi tamið sér þetta kvæðaform á því méli, allra síst vesturfararnir Stephan G og KN þó það hefði vissulega hæft vel þeim síðarnefnda.
Það var ekki fyrr en um og eftir miðja síðustu öld Íslendingar fóru að yrkja limrur að ráði og ruddu Þorsteinn Valdimarsson og Jóhann S. Hannesson brautina fyrir aðra snillinga eins og Jónas Árnason og Hrólf Sveinsson sem svo er kallaður, en sumir telja að það sé skáldanafn Helga Hálfdanarsonar. Að mínu mati er bókin ljóðmæli eftir Hrólf gullvagn íslenskra limra. Hér er dæmi um eina smellna úr því safni (hinar eru allar af svipuðum toga):
Hindúismi
Hún Indíra gamla Gandí
við gigtinni drekkur brandí,
og til að það betur
bragðist, hún setur
heilagra kúa hland í.
Efnistök limra (e. limereck) eiga sér yfirleitt rætur í einhverskonar útúrsnúningi, orðaleikjum eða skringilegheitum. Ef til vill hentar það forminu sem er nokkuð óvenjulegt þó bragarhátturinn sé nokkuð formfastur. Í limrum eru fimm braglínur og endarímið AABBA. Í A línunum eru þrír bragliðir en tveir í B línunum.
Nokkrar limrur hafa safnast upp í fórum mínum síðustu ár og hefst nú lesturinn.
Skýrsla Landlæknis 2005
Ég frétti að Véhildur veira
í vatnsnuddi hitti hann Geira,
gaf honum kvef,
kláða í nef,
og króníska bólgu í eyra.
Ævisaga
Hann fæddist á frostkaldri nóttu
er fram yfir komið var óttu,
lifði í öld
lést svo um kvöld
á legubekk vestur á Gróttu.
Málvísi
Staðfastur tel ég það stemmi,
að stórlega málvís er Hemmi,
mjög ber þess vott
máltækið gott
"Oft stoppar Strætó á Hlemmi"
Dansinn í Hruna
Gaman fannst Gústa í Hruna
að grípa í harmonikkuna,
en þáði eigi þökk
því kirkjan hún sökk
og danslagið hætti að duna.
Ölerindi
Að far með bjór í bað
og belgja sig út er það,
besta í heimi
því böli ég gleymi
og blóðsteymið fer af stað.
Afmæli
Hann gerist nú gildari og þyngri
og græðir á hverjum fingri,
þó er það eitt
sem enginn fær breytt
að hann hefur oft verið yngri.
Barlómur
Á barnum hún Friðrikka feita
fór á hann Magnús að leita,
hún káfaði og kyssti
hann kynlöngun missti
en kunni ekki við að neita.
Sumarstemma
Hjörleifur grillaði humar
hala með lauk í sumar,
með gamanmál fór
og gaf öllum bjór
glöddust þá fjölmargir gumar.
Gunnar geimvera
Gunnar bauð gestum í geim
en gaf engar ölveigar þeim,
vakti það furðu
og flestallir urðu
fúlir og héldu heim.
Silvía Svíadrottning í Lillehammer 1994
Hún Silvía sat oná dalli
á sólbrenndum timburpalli,
læst inná kamri
Litla á Hamri
og léttist um kíló af galli.
Frumvarp til kvótalaga
Gunnvör í Hnífsdal var gátlaus
en Guðný í Ólafsvík látlaus,
Gunnvör lauslát
en Guðný kaus gát
því bæði var kvóta- og bátlaus.
(Limran hér að ofan og sú næsta er með þannig sniði að rímorðin í þriðju og fjórðu línu eru víxluð rímorðin í fyrstu, annarri og fimmtu. Það er aðeins á færi allra bestu limrugerðarmanna að yrkja með þessum hætti)
Frumvarp til búvörulaga
Á Hóli bjó Finnbogi Fundvísi
en Stefán bróðir hans Stundvísi,
byrjaði í Mýsundi
búskap með vísundi
og bar síðan nafnið: Hinn Hundvísi.
Guttavísa
Hann horaðist mikið í Haag
og hita fékk mikinn í Prag,
mædd á þeim stutta
er mamma hans Gutta
og mælir hann oft á dag.
Skýrsla Landlæknis 2006
Í haust fékk hann Pétur í Pulu
parkinsonveiki og gulu,
en Loretta Ann
læknaði hann
með lagstúf úr særingarþulu.
Raunir knattspyrnukonu
Vesalings stelpan hún Vanda Sig
var með svo mikið handasig,
að niður á stétt
hún náði upprétt
og furðaði á þessum fjanda sig.
Tina Turner
Austur í Tungum ég sá Tínu
Turner liggjandi á dýnu,
í vaxbornum frakka
af Valda á Bakka
og vakti það talsverða kátínu.
Biskupasaga
Biskupa matreiddi af móði
mannætuflokkurinn óði,
Gizzur var sætur
og Grímur ágætur
en bestur var Guðmundur Góði.
Um bloggið
Þorsteinn Sverrisson
Nýjustu færslur
- Sparnaður í Excel en ekki í alvörunni
- Einræða Guðs um framtíð lífs á Jörðinni
- Leifur Eiríksson kemur alltaf aftur
- Taflmaðurinn
- Leitarvélar veita þjónustu
- Eitt sinn skal hver deyja
- Náttúruleg óhreinindi eru hollari en aukaefni
- Skáldfeðgar III
- Skáldfeðgar II
- Skáldfeðgar I
- Skilyrði fyrir lífi eru margþætt
- Lítil saga um verðskanna
- Fjórar vísur um sólarlagið við Faxaflóa
- Er rétt að allar auðlindir séu í þjóðareign?
- Þrúgur reiðinnar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 59970
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hún lagðist á bekkinn með Leiðólfi kokk
og lét sig um ástarfar dreyma.
Atlotum svaraði átt' ekki smokk .
Æi elskan ég gleymd'onum heima.
Margrét (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 14:58
Adam lá Edens á vellinum
ofaná kerlingarhrellinum.
Og stóð eins og manni
því stoltur með sanni
hann státaði af einasta bellinum.
Feilan (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 15:02
Hvurjir eru það sem svo kveða ?
Þorsteinn Sverrisson, 15.1.2010 kl. 20:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.