Færsluflokkur: Bloggar

Nautin lögð af stað

bullNú telja menn sig vera stadda á miklum nautamarkaði.  Þessi hækkun í dag er staðfesting á því að nautin eru að sleppa út úr girðingunni sem hinga til hefur haldið þeim innilokuðum.  Nú ryðjast þau ólm út með miklum fyrirgangi.

Þetta er mesta hækkun á Dow Jones á einum degi í fjögur ár. 
mbl.is Hækkun á Wall Street
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarnótt

bogfogþó dalalæðan yfir

mýrinni væri þögul

vöknuðu hestarnir

á bakkanum
 

þegar rauðdvergarnir

hófu að smíða

sólarskipin

og fleyta þeim út á

lækinn

á móti feimnum

morgninum við

endann á fjallinu

það voru bara síðustu

tvö sem festust í

sefinu við hólmann

og dönsuðu þar

twoí takt við hreyfingar

vatnsins

hin flutu hratt áfram

eftir ljósrákum

þangað til straumurinn

í flúðunum leysti þau

upp í glitrandi gulldropa

við vorum ein á ferð þessa nótt

(úr óútkominni ljóðabók bloggritara)


Olíufat hvað ?

fatHvað þýðir að segja fólki að olíufat kosti 73 dali á heimsmarkaði? Hvernig virkar þessi heimsmarkaður eiginlega?  Koma menn með svona föt og láta fylla þau af olíu fyrir 73 dali. Og af hvernu segja menn ekki dollarar í staðin fyrir dali?   Af hverju er ekki hægt að tala um krónur á lítra þegar sagt er frá olúverði á heimsmarkaði.  Þá gæti fólk sett þetta aðeins í samhengi við verðið á bensíndælunum hérna heima.

Skrítið hvað fjölmiðlar nota oft sömu frasana í fréttum um sömu mál. Hver kannast ekki við að þegar sagðar eru fréttir af eldsvoðum, þá er alltaf tekið þannig til orða að slökkvistarfið hafi "gengið greiðlega".  Þetta orð "greiðlega" virðist alltaf þurfa að vera með þegar sagt er frá slökkvistarfi en er annars lítið notað. Ég man meira að segja eftir frétt þar sem sagt var: "slökkvistarfið gekk greiðlega, en þó tókst ekki að ráða niðurlögum eldsins fyrr en allt var brunnið sem brunnið gat" !!!!!
mbl.is Stefnir í hækkun á bensíni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkur sækir líkan heim

churchmodelEftirfarandi brandari var valinn leiðinlegasti brandari ársins 2001 á Bylgjunni.  

Það var samkeppni milli arkitekta um nýja kirkju í Hveragerði. Arkitektarnir komu hver á eftir öðrum með líkan af kirkju í keppnina og maður nokkur sat við borð skráði niður nöfn þeirra.  Einn arkitektinn hét Líkur Eyjólfsson.  Þegar hann kom að borðinu uppgötvaði hann að hann hafði gleymt líkaninu sínu heima og þurfti að snúa við til að ná í það. Þá skrifaði maðurinn í móttökunni í bókina sína: "Líkur sækir líkan heim"  LoLLoLLoL


mbl.is Stálu líkani af kirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný aðferð við kolefnisjöfnun

Kunningi minn sendi mér þessa sniðugu mynd um daginn, eftir að ég hafði bloggað um kolviðarátakið.  Hér er maður sem ætlar að vera rúmliggjandi og hefur opnað vefsíðu þar sem menn geta keypt sér kolefniskvótan hans.

CarbonCredit


Dularfullt símtal (sagan á bak við fréttina)

waterloobridgeNN = Dularfullur maður með whiskýrödd
SP = Sally Poulter starfsstúlka hjá Christie's

(Ring, ring...)
SP: Halló
NN: Halló, er þetta hjá Christie's
SP: Jú það passar
NN: Eruð þið með málverkið Waterloobrúin í skýjuðu veðri til sölu?
SP: Já það er einmitt verið að bjóða það upp núna
NN: Ég var að hugsa um að kaupa það
SP: Hver er þetta með leyfi?
NN: Ég gef það ekki upp
SP: Jæja, þá er ég hrædd um að þú getir ekki keypt það
NN: En ef ég býð bara í gegn um símann
SP: Allt í lagi, hvað ætlar þú að bjóða hátt
NN: Ég býð sem svarar 2,2 milljörðum króna
SP: Vá, það er bara eins og 220 milljarðar fyrir myntbreytingu!!!
NN: Dugar það ekki til (hæðnislegur hlátur) ?
SP: Jú ég reikna nú með því
NN: Segðu mér reikningsnúmerið ykkar og ég millifæri þetta í heimabankanum
SP: Það er reikningsnúmer 4055, útibú 115 og höfuðbók 26, kennitala 330403-3489
NN: Bíddu ég finn ekki auðkennislykilinn
SP: Ég er líka alltaf að týna honum, láttu mig þekkja það
NN: Jú hérna er hann, hann hefur dottið af lyklakyppunni. Ég millifæri þá núna
(smá stund)
SP: Þetta er komið
NN: Gott, getur þú sent mér þetta með DHL
SP: Já, hver er addressan
NN: NN, BOX 234, Pósthúsið Hraunbæ 110 Reykjavík Íslandi
SP: Allt í lagi, þetta fer bara núna á eftir
NN: Kærar þakkir fyrir þetta
SP: Takk sömuleiðs, blessaður
NN: Bless
(lagt á)





mbl.is Málverk eftir Monet seldist á 2,2 milljarða króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessu hefur verið haldið fram áður

The_Amazon_RiverÍ heimsmetabók Guinness útgáfu 1989 segir að það hvort Níl eða Amazon sé lengri sé fremur matsatriði en úr því verði skorið með mælingu. Árnar Paraná og Amazon renna saman og sé farið niður Amazon og yfir í Paraná er um lengri vatnaleið að ræða en lengd Nílar.

Amazon er lang vatnsmesta fljót veraldar og ber meira vatn til sjávar en allar ár Evrópu til samans. Kristniboðar kölluðu hana áður fyrr Rio Mar eða Árhaf. Pinzón, sá er fyrstur fann Brasilíu nefndi ósa hennar Mar Dulce, Ósaltur Sær. Ferskvatnsálar Amazon ná sumstaðar mörg hundruð kílómetra á haf út og stundum er hægt að greina þá úr lofti. Sagnir herma að eitt sinn hafi skip verið nauðuglega statt í lygnæjum sæ nær tvöhundruð kílómetra frá landi undan ósum Amazon. Áhöfnin var vatnslaus og að dauða komin þegar þeir eygja annað skip. Þeir ná að vekja athygli á sér og þegar hitt skipið nálgaðist gáfu skipverjar merki um að þeir væru vatnslausir. Þeir fengu það svar að sökkva fötu í sjóinn og smakka. Þeim fannst þetta heldur grátt gaman en létu þó tilleliðast og skutu skjólu útbyrðis. Og viti menn, sjórinn reyndist ferskur eins og bergvatn og raunir þeirra á enda.

amazonurAmazon er grískt orð og merkir valkyrja þar sem a er neitandi forskeyti og mazon er geirvarta. Merkingin er því kona sem geirvartan hefur verið skorin af til þess að þær dygðu betur í hernaði og ættu betra með að fara með boga. Uppruni orðsins er rakinn til þess að spánskir landkönnuðir hafi talið sig eiga í höggi við valkyrjur sem í raun voru índíánskir stríðsmenn en hárprýði þeirra hafi glapið spanjólunum sýn.

Ég hef alltaf verið áhugasamur um Amazon svæðið og á mér þann draum að komast þangað einhverntíman.

mbl.is Amasonfljótið það lengsta í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Unnar Geir fær viðurkenningu yfirbloggara

P1010216Hann Unnar Geir sonur minn og bloggvinur fékk aldeilis viðurkenningu í gær þegar einn vinsælasti og skemmtilegasti bloggari landsins, Pétur Tyrfingsson, skrifaði pistil um hann, sjá hér.  Pétur leggur út af lýsingu Unnars á viðureign Fylkis og Skagamanna fyrir stuttu.  Sjálfum finnst mér bloggin hans Unnars frábær og beint frá hjartanu.  Við mamma hans viljum helst ekkert hjálpa honum því það myndi bitna á hans náttúrulegu framsetningu sem er óbundin af þessu venjulega þjálfaða ritmáli og menntuðu hugsun. Þó geta glöggir lesendur merkt það á nokkrum fyrri pistulum að þar hefur móðir hans lagt fingur á lyklaborð.

Eins og öllum er ljóst er Unnar mikill áhugamaður um knattspyrnu og æfir stíft með fimmta flokki Fylkis. Hann stundar reyndar líka golf og fleiri íþróttir.  Í næstu viku er hann að fara á golfnámskeið hjá GR.

Á myndinni hér til hægri er Unnar (lengst til hægri í Fylkistreyju) í Vatnaskógi í fyrrasumar ásamt þrem öðrum strákum úr Árbænum.  Það er gaman að sjá þessa pjakka taka þátt í bænastund svona alvarlega.

Ætli hann hafi átt þetta skilið?

OetzitheIcemanÞað var að sumarlagi fyrir ríflega 5000 árum. Ungur maður var á gangi í fallegum dal í Ölpunum þar sem tungur skriðjöklanna teygja sig niður.  Hann gekk greiðlega enda léttur á fæti, um 165 cm á hæð og 38 kíló að þyngd. Það var komið kvöld og Ötzi var í góðu skapi þegar hann heyrir stein detta á bak við sig.  Hann hægði á sér og leit við, honum fannst í eitt augnablik sem hann sæi mannveru skjótast á bak við hól. En þar sem hér var yfirleitt lítið um mannaferðir dró hann þá ályktun að þetta hlyti að hafa verið geit eða dádýr. Það var enda orðið skuggsýnt og ekki nema hraustir og reyndir ferðamenn sem styttu sér leið hérna yfir jökusporðinn eins og hann ætlaði að gera.  Ötzi hélt því strax áfram þar sem hann vildi komast yfir jökulinn meðan birtu nyti. Þegar hann hafði gengið í skamma stund fékk hann skyndilega högg í bakið og síðan mikinn sting.  Hann missti máttinn og hné niður.  Hann reyndi að líta við en var of máttlaus.  Dofinn og máttvana lagðist hann á grúfu og beið örlaga sinna. Blóð lak úr munnvikinu niður í gráan mosann.

Var Ötzi drepinn af óvinveittum miskunarlausum ræningja sem ágirndist eitthvað sem Ötzi hafi í farteski sínu?

Var morðinginn úr öðrum ættflokki sem áleit Ötzi réttdræpan?

Eða hafði Ötzi sjálfur eitthvað á samviskunni.  Hafði hann farið í annað þorp, drepið mann og stolið mat. Síðan verið eltur af einhverjum sem vildi ná fram hefndum?

Við þessu fæst víst aldrei svar.

http://en.wikipedia.org/wiki/%C3%96tzi_the_Iceman


mbl.is „Ísmanninum“ blæddi út eftir að hann fékk ör í bakið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þorsteinn Sverrisson

Höfundur

Þorsteinn Sverrisson
Þorsteinn Sverrisson
Tölvunarfræðingur, Árbæingur og Hrunamaður. Í Einherjaklúbbnum.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband