Færsluflokkur: Bloggar
6.6.2007 | 18:47
Windows vista (..og birta)
Fékk lánstölvu í vinnunni þar sem ég þurfti að láta strauja mína. Hún er með nýja Windows Vista stýrikerfinu. Ég er að verða brjálaður út af því hvað tölvan er hægvirk. Gætið ykkar á að uppfæra í þetta stýrikerfi nema þið séuð með mjög öfluga tölvu. Ég er samt með nýlega HP nx8220.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.5.2007 | 17:27
Sí-malandi í Síma-landi
Árið 1990 eða þar um bil fékk ég svokallaðan símboða. Motolola Bravo-Plus sem ég á reyndar ennþá. Á þessum árum var enginn maður með mönnum nema hann væri með símboða í beltinu. Það var hægt að hringja í þetta tæki úr venjulegum símum og þá sá maður númerið sem hringt var úr og gat hringt til baka. Það var líka hægt að senda í þá sérstök númer og stutt skilaboð. Ég man að þessi tæki voru talin sérstaklega hentug fyrir landasala þar sem erfitt var að finna þá.
Seinna fékk ég svo ágætan síma Nokia 5110. Hann átti ég í nokkuð mörg ár, líklega fram yfir 2000. Ég held að þetta hafi verið fyrsti gemsinn minn en er þó ekki viss.
Því næst fékk ég Nokia 6310. Sá sími reyndist mér mjög vel en síðustu mánuði hefur hann verið að slökkva á sér í tíma og ótíma, jafnvel í miðju samtali. Stundum hefur það komið sér vel en oftar hefur það komið sér illa. Á kosninganóttina síðustu missti ég þennan vin minn ofan í skál með ídýfu og síðan þá hefur hann verið mjög erfiður í samstarfi.
Núna í vikunni fékk ég mér síðan Nokia E70. Með þessum síma er hægt að skoða og senda tölvupóst, fara á netið, finna gps staðsetningu, fara í ótal leiki, skrifa skjöl og fleira og fleira. Ekki er hann heldur verri fyrir það að það er bæði hægt er að hringja úr honum og taka á móti símtölum með honum. Það sem kom mér skemmtilega á óvart er að það er hægt að nota sama hleðslutækið fyrir hann og þann sem ég var með áður. Hingað til hefur það verið reynsla mín að það er álíka sjaldgæft og að hægt sé að nota sömu gillette rakvélarblöðin á milli rakvéla.
Þó sé sé ennþá ungur maður ólst ég upp þar sem hringingin heim var tvær stuttar og ein löng. Þær breytingar sem hafa orðið síðan eru ótrúlegar og ég ætla ekki að reyna að giska á hvar þessi þróun endar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.5.2007 | 16:52
....og framsóknarmönnum fækkar
Fleiri jarðarbúar í þéttbýli en dreifbýli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2007 | 21:57
Kolviður
Ég fór á vefinn www.kolvidur.is og athugaði hvað ég þyrfti að gróðursetja margar trjáplöntur til að kolefnisjafna bílinn minn svo ég komist til himnaríkis þegar ég dey. Niðurstaðan kom á óvart. Ef ég gróðurset 58 birkiplöntur binda þær 6 tonn af kolefni. Ein lítil birkiplanta sem lifir þrjá til fjóra mánuði á ári nær að binda ríflega 100 kíló af kolefni, eða næstum því kíló á dag. Mér finnst þetta með nokkrum ólíkindum!! Eða er ég að misskilja eitthvað?
Síðan var mér boðið að greiða 8573 kr. inn á bankareikning til að kolefnisjafna. Ég ákvað samt að bíða aðeins með það. Þetta minnir mig nefnilega dáldið á þegar páfinn í gamla daga var að selja aflátsbréf. Það kæmi mér ekki á óvart ef einhverntíman í framtíðinni komist menn að þvi að þetta sé röng nálgun á vandamálinu. En kannski skipti ég um skoðun þegar ég verð búinn að kynna mér þetta betur.....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.5.2007 | 21:16
Sumarið kemur og fer...
...stjórnin kemur og fer
...hamingjan kemur og fer
...golfsveiflan kemur og fer
...kaupið kemur og fer
Í gær þegar ég vaknaði í snjókomu og þurfti að skafa af bílnum þann 21 maí áttaði ég mig á því að það er bara einn mánuður þangað til dagurinn fer aftur að styttast hér á norðurhveli. Og það er búið að vera skítkalt í maí. Hver var að tala um hlýnun jarðar. Ég hef ekki orðið var við það. Getur verið um að ræða alþjóðlegt samsæri veðurfræðinga sem segja bráðum: TEKINN
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2007 | 22:48
Áfram Hrunamenn
http://www.sogusetur.is/Hestar/G0001.htm
Samið um reiðhöll í Hrunamannahreppi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.5.2007 | 15:24
Hátækni og mengun
Á hinn bóginn líta menn á atvinnustarfsemi eins og álframleiðslu, olíuhreinsun, málmvinnslu og annað slíkt sem mengunarvald. Verksmiðjunar spúa út koltvísýringi og þessi ófögnuður á helst hvergi að vera nema í þróunarlöndum eða þar sem enginn sér hann.
Ég hef heyrt menn dásama Nokia fyrirtækið finnska sem dæmi um mengunarlausa atvinnuuppbyggingu. Menn virðast líta þannig á að ef Nokia framleiðir síma og selur Exxon Mobil, sé Nokia ekki að stuðla að mengun. Ef á hinn bóginn Exxon Mobil framleiðir eldsneyti fyrir bílana og flugvélarnar sem Nokia notar, þá er Exxon Mobil að menga umhverfið!! Hátækniiðnaðurinn má ekki vera alveg stikkfrí í mengunarumræðunni. Hátækni þarf ýmis hráefni og orku sem er mengunarvaldandi. Hátækniiðnaður þrífst heldur ekki án viðskiptavina. Þeir eru oft á tíðum önnur fyrirtæki sem stunda iðnað sem venjulega er flokkaður sem mengandi eða fyrirtæki sem græða á slíkum iðnaði beint eða óbeint.
Hátækniiðnaður þarf mikið af menntuðu fólki. Háskólar á Íslandi og víðast eru reknir að verulegu leyti með skattfé. Atvinnulífið gefur af sér skattféð og atvinnulífið nærist alltaf að lokum á orkunotkun. Þannig kostar það brennslu þónokkurra lítra af olíu að mennta hvern háskólanema. Og það kostar talsverðan útblástur koltvísýrings að hafa háskólaprófessor á launum.
Hagkerfi heimsins er ein óslitin malandi hringekja þar sem fyrirtæki lifa á viðskiptum hvort við annað. Sum menga lítið með beinum hætti en málið er að það er neyslan sem drífur áfram allt hagkerfið og þar með mengununa. Allt líf nærist að lokum á einhverskonar orkunýtingu og hráefnisvinnslu. Við getum ekki minnkað mengun að ráði nema draga úr neyslu eða fara að nota hreinni orkugjafa á jafn hagkvæman hátt og núverandi orkugjafa.
Auðvitað eru bæði til fyrirtæki sem stuðla að góðri orkunýtingu og önnur sem gera það ekki. Það getur gilt bæði um hátæknifyrirtæki og önnur fyrirtæki. Dæmi um fyrirtæki sem hefur fengið sérstaka viðurkenningu betri orkunýtingu og umhverfisvernd er Alcan, sjá hér.
Mér finnst þess vegna ekki allskostar rökrétt þegar þeir sem segjast vera umhverfisverndarsinnar leggjast gegn því að íslendingar noti hreina umhverfisvænu orku til að framleiða ál og vilja frekar að við einblínum á uppbyggingu hátækniiðnaðar. Þetta má þó ekki skilja sem svo að ég sé á móti hátækniiðnaði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.5.2007 | 19:09
Í hvað fara skattarnir ?
Hér fyrir neðan er yfirlit um þróun ríkisútgjalda í tíð núverandi stjórnar (tekið af vef fjármálaráðuneytisins). Eftir að hafa lesið allan kosningaáróðurinn í dagblöðunum sem biðu mín meðan ég var erlendis ákvað ég að leita uppi staðreyndir til að reyna að glöggva mig á stöðu mála.
Í töflunni sést að opinber útgjöld hafa aukist um 31% síðustu 4 ár. Þetta er auðvitað sumpart vegna verðlagshækkana og fólksfjölgunnar. En einnig vegna eflingar atvinnulífsins sem leiðir til hækkunar skatttekna þrátt fyrir að helstu skattprósentur hafi lækkað.
Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að ríkissjóður hafi sterka tekjustofna svo hægt sé að reka gott velferðarkerfi til að hjálpa þeim sem eru aðstoðar þurfi.
En miðað við að útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamála hafa aukist um 37% þá finnst mér það umhugsunarefni ef rétt er að biðlistar eftir heilbrigðisþjónustu hafi aldrei verið lengri en núna. Þetta fullyrða sumir frambjóðendur um leið og þeir gagnrýna ríkisstjórnina líka fyrir að hafa aukið skatttekjur ríkisins sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.
Getur verið hægt að halda því fram að opinber þjónusta hafi versnað þegar horft er á þessa auknu fjármuni sem hefur verið varið í hana?
Bloggar | Breytt 2.5.2007 kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.5.2007 | 16:59
Barcelona - dagur #4 (heimferð með Heimsferðum)
Dagurinn fór í búðarráp á Römblunni, prútt við indverja sem ég er ekkert sérlega góður í. Rútan fór frá hótelinu klukkan 15:45. Heimferðin var langdregin og við vorum ekki alveg nógu ánægðir með Heimsferðir.
Og nú ætla ég að byrja að nöldra: Rútunni var snúið við til þess að ná í tvo farþega sem voru of seinir frekar en að láta þá taka leigubíl. Fyrir vikið vorum við seinir á flugvöllinn. Þar biðum við í biðröð í klukkutíma eftir inrituninni sem gekk ótrúlega hægt. Þar sem við vorum með þeim síðustu gátum við ekki fengið sæti saman nema í öftustu röðinni, við sögðum að það væri í góðu lagi og fengum sæti ABCD í röð 33. Þessar tafir leiddu til þess að við höfðum ekki tíma til að fá okkur snarl á flugvellinum eins og við ætluðum þar sem komið var go-to-gate þegar við komum inn. Við sögðum sem svo að það væri allt í lagi, við myndum bara kaupa mat í flugvélinni. Þegar við komum í vélina kom í ljós að í henni voru bara 31 sætaröð og sætin okkar þvi ekki til. Þuftum við að bíða þangað til allir hinir voru sestir en þá gátu flugfreyjurnar sem betur fer reddað okkur sætum ásamt hinum sem höfðu fengið sæti í röð 32 og 33. Þegar komið var að þvi að kaupa mat í vélinni var okkur sagt að það væru bara rækjusamlokur í boði þar sem mistök hefðu átt sér stað í afgreiðslu. Strákarnir vildu frekar svelta, en við gátum þó keypt muffins og pringles fyrir þá, auk þess sem ég var með smá harðfisk í bakpokanum sem ég hafði keypt á leiðinni út. Ég held að allur maturinn hafi klárast áður en búið var að bjóða síðustu farþegunum í vélinni mat.
En hvað um það. Það geta alltaf átt sér stað mistök og flugfreyjurnar reyndu að gera eins vel og hægt var. Þetta hefði svo sem getað verið verra eins og maðurinn sagði og ferðin var mjög skemmtileg og okkur gekk vel heim. Við Unnar vorum komnir í Melbæinn um klukkan 10 sem er mjög þægilegur komutími.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.4.2007 | 22:40
Barcelona - dagur #3
Svo var það hápunktur ferðarinnar, leikurinn sjálfur, Barcelona - Levante. Við vorum komir á Camp Nou um klukkan sex, klukkutíma fyrir leik. Við fengum ágæt sæti fyrir miðju vallarins, á svæði tvö. Þessi leikvangur er auðvitað einstakt mannvirki, tekur tæplega 100.000 manns í sæti. Til þess að setja þessa stærð í eitthvað samhengi þá gætu - miðað við síðustu skoðanakannanir - allir kjósendur sjálfstæðisflokksins í næstu alþingiskosningum komist fyrir þarna á sama tíma, og væri þó tíunda hvert sæti autt. Kannski er þetta hugmynd fyrir Geir Haarde ef hann vill leigja stað þar sem hann getur talað við alla stuðningsmenn sína í einu. Allir kjósendur framsóknarflokksins kæmust fyrir aftan við annað markið og frjálslyndi flokkurinn myndi hverfa á smá svæði bak við varamannabekkinn. Miðað við algengt miðaverð má geta sér til um að bara einn stórleikur eins og við Real Madrid geti gefið klúbbnum sem svarar 5 - 10 milljörðum IKR í aðgangsfé.
Fljótlega hlupu leikmenn Levante út á völlinn og byrjuðu að hita upp. Stuttu síðar komu leikmenn Barcelona sömuleiðis út við mikinn fögnuð áhorfenda. Við sáum strax að Eiður Smári yrði ekki í byrjunarliðinu þar sem hann hitaði upp sér með varamönnunum. Stuttu fyrir leikinn var komið með hóp barna í halarófu inn á völlinn þar sem þau stilltu sér upp fyrir myndatöku og upp úr klukkan sex stilltu leikmennirnir sér sjálfir upp með hefðbundnum hætti og leikurinn hófst. Barcelona tókst að skora í fyrri hálfleik þrátt fyrir að vera ekkert sérstaklega beittir og leikurinn var frekar tilþrifalaus fram af. Í seinni hálfleik var meira fjör og voru Barcelona menn mun sterkari. Þeir sóttu af miklum krafti en tókst ekki að skora þrátt fyrir mörg mjög góð tækifæri. Það voru talsverð vonbrigði að Eiður fékk ekkert að koma inn á en við vorum að vona að hann fengi tækifæri til að spreyta sig. Við sáum hann taka duglega upphitunarspretti allan seinni hálfleikinn og stundum stoppaði hann og horfði inn á völlin löngunaraugum, líf knattspyrnumannsins er ekki alltaf dans á rósum.
Miklil mannmergð var í nánd við leikvöllinn eftir leikinn og engin leið að ná í leigubíl. Það varð úr að við settumst inn á veitingastað stutt frá og fengum okkur að borða. Það var merkileg tilviljun að við fengum einmitt sæti við hliðina á þrem íslenskum mönnum sem höfðu líka verið á leiknum, okkur var sagt að á þessum leik hefðu verið um 200 Íslendingar. Eftir matinn fengum við fljótlega bíl og vorum komnir á hótelið um klukkan hálf tólf. Heimferðin er svo seinni partinn á morgun.
Bætti myndum dagsins í albúmið.
Bloggar | Breytt 30.4.2007 kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Þorsteinn Sverrisson
Nýjustu færslur
- Sparnaður í Excel en ekki í alvörunni
- Einræða Guðs um framtíð lífs á Jörðinni
- Leifur Eiríksson kemur alltaf aftur
- Taflmaðurinn
- Leitarvélar veita þjónustu
- Eitt sinn skal hver deyja
- Náttúruleg óhreinindi eru hollari en aukaefni
- Skáldfeðgar III
- Skáldfeðgar II
- Skáldfeðgar I
- Skilyrði fyrir lífi eru margþætt
- Lítil saga um verðskanna
- Fjórar vísur um sólarlagið við Faxaflóa
- Er rétt að allar auðlindir séu í þjóðareign?
- Þrúgur reiðinnar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar