Færsluflokkur: Bloggar
24.9.2007 | 20:00
Sveitirnar breytast
Undanfarin ár hefur maður fylgst með þeirri þróun í sveitum suðurlands að fólk af þéttbýlissvæðum kaupir jarðir og sest þar að til að stunda einhverskonar afþreyingu eða jafnvel atvinnurekstur. Þá hafa jarðir eða hlutar þeirra verið teknar undir sumarhúsabyggðir. Sumir telja þetta áhyggjuefni en í reynd er þetta bara ákveðin þróun sem ekkert er hægt að gera við, eflir tengsl þéttbýlis og dreifbýlis og hefur í flestum tilvikum styrkt sveitarfélögin mikið að mínu mati.
Þar sem ég þekki til hafa þéttbýlisbúar byggt jarðir myndarlega upp og komið með fjármagn inn í samfélagið, bæði í formi útsvars og með kaupum á ýmiskonar þjónustu. Í flestum tilvikum hafa þeir einnig lagt sig fram um að taka þátt í mannlífi og bundist traustum böndum við sveitina og aðra íbúa.
Mér finnst þau viðhorf sem koma fram í fréttinni óþarflega neikvæð og fráleitt að taka þannig til orða að jarðir fari í eyði þó þar sé ekki stundaður hefðbundinn landbúnaður með heilsársbúsetu.
Félagslegt umhverfi getur breyst að einhverju marki ef föst búseta á ákveðnum jörðum minnkar en á Suðurlandi þar sem ég þekki til hefur þrátt fyrir þetta orðið fólksfjölgun en búseta hefur í auknum mæli færst af sveitabæjum í þéttbýliskjarna. Félagsleg áhrif ættu því í heildina ekki að þurfa að vera neikvæð enda kemur á móti að samgöngur hafa batnað og hreppar sameinast.
Það má heldur ekki gleyma því að þær breytingar sem eru að verða á hefðbundnum landbúnaði leiða óhjákvæmilega til þess að jörðum í fastri búsetu fækkar. Búin eru stöðugt að stækka og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun. Ég hitti Sigurð Ágústsson bónda í Birtingaholti um daginn. Hann er með vel á annað hundrað mjólkandi kýr og ætlar að fjölga þeim enn. Hann rekur einnig verktakafyrirtæki sem sér um heyskap og getur við góðar aðstæður heyjað 5 hektara á klukkustund, þ.e. frá því að heyið er slegið þar til það er komið í vetrargeymslu. Þegar ég var að alast upp fyrir ríflega 30 árum var meðalbú kannski með 50 - 80 hektara tún og það var verið að basla við heyskapinn allt sumarið. Þetta er sem sagt hægt að heyja á 2 dögum núna, nánast óháð veðurfari!!!
Það segir sig sjálft að með tæknibreytingum af þessu tagi hlýtur þróunin að verða sú að hver einasta bújörð verður ekki setin með sama hætti og áður, óháð því hverjir koma til með að eiga jarðirnar. Þannig eiga mörk þéttbýlis og sveita eftir að dragast saman og það er líka góð þróun þar sem sá rígur sem oft hefur verið þarna á milli hefur ekki verið góður.
Sveitamenn eru þekktir fyrir íhaldssemi. Hún er góð í hófi, en reynslan sýnir að þeir sem eru framfarasinnaðir hafa alltaf betur að lokum. Þær breytingar sem hafa orðið á landbúnaði og sveitalífi síðastliðinn mannsaldur eru með ólíkindum og sér ekki fyrir endann á þeim. Enginn vafi er á því að lífsgæði sveitafólks hafa aldrei verið eins góð og núna. Heimsmarkaðsverð á landbúnaðarvörum svo sem mjólk, kjöti og korni hefur verið að hækka mikið síðustu ár. Íslenskur landbúnaður gæti með nútímatækni orðið stóriðja á næstu áratugum.
Bændur á Suðurlandi telja miklar breytingar hafi orðið á búsetumálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.8.2007 | 20:29
Dularfullt póstkort
Mér barst dularfullt póstkort í gær sem ég veit ekki hvernig á að túlka. Það er póstlagt í Reykjavík 2x.08.2007 en ég sé ekki dagsetninguna nákvæmlega. Framan á því er mynd af lunda og í kortinu sem reyndar er mjög vinarlegt stendur:
Kæri drengurinn okkar væni. Þessi ferð okkar hingað norður er í boði Glitnis, að við höldum! Sviplegt fráfall Skjöldu fékk mjög á okkur. Fjós eru til margs gagnleg. Í jesú nafni. amen. Nefndin.
Kortaritarinn virðist ekki vera í miklum samskiptum við mig að öllu jöfnu þar sem hann hefur ekki vitað húsnúmerið mitt. Ég dreg þó eftirfarandi ályktanir:
1. Viðkomandi hefur rætur í sveit og sennilega mjólkað kýr á yngri árum
2. Hefur þekkt mig nokkuð lengi
3. Er lífsglaður og jákvæður
4. Hefur einlæga barnatrú og hefur líklega sungið í kirkjukór
5. Býr núna á höfuðborgarsvæðinu
6. Hefur aldrei sent mér jólakort né nokkurt póstkort áður
7. Hefur skáldagáfu og bælda þörf fyrir listræna tjáningu
8. Á amk. tvær lopapeysur
9. Drekkur töluvert en samt innan hóflegra marka
10. Hefur ekki miklar fjármagnstekjur
Ef einhver sem sér þetta getur veitt frekari upplýsingar um þetta dularfulla póstkort eru þær vel þegnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
30.8.2007 | 19:36
Doddi bróðir drepur grind
Tórður Paturson bróðir minn var að senda mér meil í gær með myndum af sér að drepa grindhval núna nýlega. Þetta eru alltaf frekar subbulegar aðfarir hjá færeyingunum en hefðin er sterk.
Linkurinn á myndirnar eru hér:
http://www.portal.fo/myndafrasogn.php?tn=874
Doddi á mynd 2 og 8
Það eru mjög merkilegar og fastmótaðar reglur um hvernig kjötinu af grindinni er skipt á milli byggða og heimila. Þar er t.d. farið eftir fjölskyldustærð. Þeir sem taka þátt í drápinu fá líka sérstakan skerf og sá sem fystur sá grindartorfuna fær besta bitann, man ekki hvort það var lifrin eða hjartað! Sérstakir menn eru skiptastjórar. Í þessu myndbandi (sem ég býst við að fáum þyki skemmtilegt) er sagt frá því hvernig þetta fer fram:
http://www.setur.fo/00841/00844/ (Smellið á Grind og grindabýti)
Ein stoltur beiggi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2007 | 20:57
Er til einhver listi yfir þessa snillinga?
Mér finnst að það ætti að vera hægt að sjá lista um þá sem hafa farið holu í höggi á par fjögur brautum á www.golf.is en ég sá það ekki!
Ásta Birna fór holu í höggi á par 4 braut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.8.2007 | 15:24
Skemmitlegur dagur
Byrjuðum á því að hlaupa 10 km í morgun. Fyrsta kílómetrann eða svo komst maður varla áfram vegna þvögunnar. Um 3000 manns voru í hlaupinu, um 1% þjóðarinnar!!! Mér tókst ekki að hlaupa undir 60 mínútum eins og ég ætlaði mér en það skiptir ekki öllu máli. Unnar Geir hljóp 3 km og á myndinni er hann með Ágústu frænku sinni nýkominn í mark.
Veðrið var frábært og gaman hvað margir íbúar koma út og hvetja hlauparana. Sumir hlauparar voru í skemmtilegum búningum eins og þessi heiðurshjón sem ég tók líka mynd af. Eftir hlaupið fórum við í sund í nýju sundlaugina í Mosfellsbænum. Mjög flott sundlaug og skemmtilegar rennibrautir.
Fórum aftur niður í bæ og gengum um, það var allstaðar pakkað af fólki og maður hitti marga. Ég fór með Unnar og frændsystini hans í Logos II skipið við Ægisgarð þar sem við fengum gefins biblíu í skiptum fyrir myntur sem við vorum með. Fullorðin kona sem tók á móti okkur við landganginn vildi endilega gefa okkur biblíuna en sagði að við yrðum að gefa henni eitthvað í staðin, þó alls ekki peninga. Sem betur fer var Unnar með óátekinn myntupakka frá Golfklúbbnum Oddi í vasanum og þeirri gömlu fannst mikill fengur í slíkum kjörgrip. Þetta er merkilegt skip, siglir um öll heimsins höf. Skipverjar sem að sögn eru sjálfboðaliðar selja bækur og eru með ýmiskonar menningartengda dagskrá. Í skipinu er líka kaffihús. Þá er þar á vegg mikið málverk sem sýnir siglingarleiðir og viðkomustaði. Þarna er hægt að kaupa mjög eigulegar bækur á lágu verði. Aðallega þó bækur um trúarlegt efni en einnig alfræðirit ýmiskonar.
Fórum að borða með fleira fólki í Humarskipinu sem rekið er af þeim bræðrum Gunnari og Hilmari Stefánssonum í tengslum við fyrirtækið Hvalalíf. Skipið er í reynd gamli Baldur sem var Breiðafjarðarferja en liggur nú við landfestar fyrir neðan veitingastaðinn Tvo Fiska og búið að innrétta sem veitingastað. Fengum dýrindis humarsúpu. Ég gaf Hilmari biblíuna í kveðjugjöf enda nauðsynlegt að hafa guðsorðið nálægt sér á hverju skipi.
Svo gengum við nokkur upp á Miklatún og fylgdumst með tónleikunum. Mér fannst þeir svona þokkalegir en stemmingin ekkert sérstök og flytjendurnir ekki allir ná til fólksins. Prógrammið hjá Mannakornum og Ellenu Kristjánsdóttur fannst mér standa upp úr. Eyvör frænka var full mikið í þessum sérstöku lögum sínum sem ekki hafa mjög grípandi laglínu og líkjast meira galdrakvæðum en söng. Hefði átt að taka nokkra smelli líka við þessar aðstæður. Enduðum kvöldið á því að sjá frábæra flugeldasýningu.
Verkefnisstjórn Menningarnætur lýsir yfir ánægju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.8.2007 | 07:59
Maraþon dagurinn mikli - fleiri áheit
Þá er hann runninn upp bjartur og fagur. Ég fór í Laugardalshöllina í gær til að ná í kittið og í leiðinni keypti ég mér asics hlaupabuxur og sokka. Snilld hjá þeim að vera með sölubás þarna enda allt að klárast. Ég hef hingað til bara hlaupið í joggingbuxum en þetta á að vera betra - kemur í ljós. Borðaði líka barilla pasta sem nóg var af í höllinni.
Tveir í viðbót hafa heitið á mig síðan ég bloggaði á miðvikudagskvöldið. Ég verð að geta þeirra líka svo ég brjóti ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar:
Bæring Bjarnar Jónsson, skólafélagi minn úr menntaskóla, hólmari og arkitekt í dag. Hann hleypur líka 10 km og ég hét á hann á móti. Kom reyndar á óvart að það eru tveir Bæringar sem hlaupa, þetta er ekki algengt nafn og örugglega heimsmet að tveir Bæringar hlaupi í sama hlaupinu.
Jónína Birna Björnsdóttir, elskuleg mágkona mín sem starfar á markaðsdeild Landsbankans. Af visa korti mínu fór áheit á hana líka þar sem hún hleypur 10 km eins og ég.
Ekki má heldur gleyma sjálfum Glitni sem heitir á mig 5000 kr. Auðvitað frábært framtak hjá þessum banka og myndarlegra gert.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2007 | 20:45
Gerist sjö sinnum á ári
Vonandi fjölgar vestur Íslendingum sem mest á næstu árum. Staðreyndin er sú að í dag er fleira fólk í Norður Ameríku sem er afkomendur vestur Íslendinga en íbúar Íslands sjálfir.
Eignaðist eineggja fjórbura; líkurnar einn á móti 13 milljónum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.8.2007 | 21:15
Nokkrir hafa heitið á mig
Í gær sendi út tilkynningu til fjölmargra vina, vandamanna, vinnufélaga og fleiri þar sem ég bauð þeim að heita mig í hlaupinu á laugardaginn. Áheitin renna til SEM samtakanna, Samtök Endurhæfðra Mænuskaddaðra. Ætli það hefi ekki verið svona 100 - 200 manns á póstlistanum. Þegar þetta er ritað eru 7 búnir að skrá sig fyrir áheitum. Þetta er svipað endurheimuthlutfall og ég hef heyrt að sé á hafbeitarstöðvum sem sleppa laxaseiðum í sjó.
Ennþá er hægt að heita á mig með því að smella á eftirfarandi link:
http://www.marathon.is/pages/aheit/?prm_participant_id=16824&prm_action=2
Hver veit nema einhver bloggvina minna opni veskið, dragi upp kreditkortið og láti slag standa.
Áheitsgjafar núna eru þessir:
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir, vinnufélagi. ljósmyndari og átaksbloggari.
Stella Aðalheiður Norðfjörð, tölvunarfræðingur og starfsfélagi minn til margra ára, fyrst hjá VKS og núna hjá Kögun.
Haraldur Haraldsson, einnig vinnufélagi minn, golfari og hlaupagikkur. Hann ætlar að hlaupa 1/2 maraþon á laugardaginn og ég er búinn að heita á hann á móti.
Konan mín Hjördís Björnsdóttir, hljóp 1/2 maraþon í fyrra en er ekki góð í fótunum núna. Ætlar samt að reyna að hlaupa 10 km.
Ólafur Björnsson hestaréttar- og hæstaréttarlögmaður á Selfossi og mágur minn. Hann verður í reiðtúr á Löngufjörum á laugardaginn.
Finnbogi V Finnbogason, starfar í upplýsingatæknideild Símans. Er knár golfari og hefur meðal annars spilað með Nick Faldo.
Vinur minn Sverrir Daníel Halldórsson frá Miðey í Austur Landeyjum. Hann er líffræðingur og starfar við hvalarannsóknir hjá Hafrannsóknarstofnun. Um Dalla var ort: Í Miðey enginn maður er, mæddur yfir trjánum, Sverrir vel þar sómir sér, sólbrenndur á tánum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.8.2007 | 19:35
Undirbúningur fyrir Glitnis "maraþon"
Lífið er að komast í fastari skorður eftir sumarfrí. Frá því í júlíbyrjun höfum við að mestu haldið til í Costa del Úthlíð þar sem verið hefur slík einmuna verðursæld að elstu menn muna ekki annað eins (reyndar muna sumir orðið ansi fátt!). Húsið okkar í Melbænum er ennþá í rúst þar sem verið er að skipta um eldhúsinnréttingu og fleira. Við eldum núna við útlegubúnað en sem betur fer gátum við tengt vaskinn. Kom sér vel að Ágúst Flóki sonur minn er að læra pípulagnir. Við erum búin að bíða eftir rafvirkja, pípara, flísara, smið, steinsmiðum, innréttingaversluninni, aftur rafvirkja, aftur flísara, aftur steinsmiðum o.s.frv o.s.frv.
Vonandi fara hlutabréfamarkaðirnir ekki til fjandans en það er búinn að vera mikill titringur á þeim undanfarið. Seðlabankar í Japan og Evrópu eru farnir að dæla út peningum til að laga ástandið. Ég ætla að fylgjast vel með fréttum og ekki missa af því þegar Davíð Oddsson seðlabankastjóri fer niður í Austurstræti með fullt bretti af 5000 köllum og byrjar að dreifa þeim til fólks til að örva íslenska hagkerfið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.7.2007 | 08:44
Nú er mælirinn fullur
Ég hefði hins vegar talað um "lyginn mælir" en ekki "lygamælir" í fréttinni. Eins og menn vita þá er lygamælir tæki sem notað er til þess að skynja hvort sagt sé satt eða ekki. Ég veit ekki til þess að lygamælar hafi verið settir á hitamæla en eftir þetta atvik finnst mér að það ætti að setja í lög að allstaðar þar sem eru hitamælar á opinberum stöðum eins og við Kringluna, þá ættu að vera við hliðina á þeim lygamælar sem sýna grænt ef hitamælirinn er réttur en rautt ef hitamælirinn er að ljúga.
Einnig væri gott að setja lygamæla á veðurfréttamennina í sjónvarpinu þannig að áhorfendur geti séð hvort þeir séu að spá réttu veðri á morgun, eða hvort þeir séu hreinlega að ljúga eins og maður hefur stundum lent í.
Fólk ætti að gjalda varhug við veðurmælingum. Nú er ég alveg hættur að treysta hitamælum enda hef ég oft tekið eftir skrítnum hitatölum og veðurlýsingum sem passa alls ekki við það sem maður upplifir. Fyrir nokkrum árum vorum við á Egilsstöðum í roki og rigningu og hlustuðum á það í útvarpinu að besta veðrið væri á austurlandi, sól og blíða !!!
Það er líka alkunna að fólk hefur sterka tilhneigingu til þess að ýkja gæði veðurfars í sínum heimabyggðum.
Lygamælir slær met | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Þorsteinn Sverrisson
Nýjustu færslur
- Sparnaður í Excel en ekki í alvörunni
- Einræða Guðs um framtíð lífs á Jörðinni
- Leifur Eiríksson kemur alltaf aftur
- Taflmaðurinn
- Leitarvélar veita þjónustu
- Eitt sinn skal hver deyja
- Náttúruleg óhreinindi eru hollari en aukaefni
- Skáldfeðgar III
- Skáldfeðgar II
- Skáldfeðgar I
- Skilyrði fyrir lífi eru margþætt
- Lítil saga um verðskanna
- Fjórar vísur um sólarlagið við Faxaflóa
- Er rétt að allar auðlindir séu í þjóðareign?
- Þrúgur reiðinnar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar