Færsluflokkur: Bloggar
19.2.2007 | 21:02
Ljóð vikunnar
Síðustu viku lá ég andvaka nokkur kvöld og fór þá að yrkja ljóð undir áhrifum frá Steini Steinarr sem ég var að lesa einu sinni sem oftar. Þetta ljóð á sér ekki rætur í neinni sérstakri persóunlegri reynslu þó svo að allt sem við hugsum, gerum og segjum sé að einhverju leyti byggt á þeirri skynjun á veruleikanum sem við upplifum í lífinu.
Hrímhvítum augum leit veturinn heiðlöndin breið |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2007 | 22:14
Dow Jones slær met
Þarna sést t.d. að vísitalan stóð hæst í 380 stigum í júlí 1929 fyrir fallið mikla í kreppunni og náði ekki aftur sama styrk fyrr en í október 1954. DJIA fór í 11900 stig í janúar 2000, tók svo fræga dýfu sem náði lágmarki í október 2002 og var ekki komin í sama gildi fyrr en seint á síðasta ári. Meðal spekúlanta eru skiptar skoðanir um hvað næstu misseri hafa í för með sér. Sumir telja að vísitalan muni gefa eftir en aðrir benda á að hlutabréf séu ekki dýr í sögulegu samhengi og aukin stærð heimshagkerfisins muni styrkja hlutabréfamarkaðinn og draga úr sveiflum.
Hér á blog.is vantar eiginlega færsluflokk um fjármál og hlutabréf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2007 | 21:59
Reynslan af kvótakerfinu
Orti þessa limru fyrir nokkru síðan. Er að útvíkka limruformið þannig að rímorðin í 3. og 4 . línu eru víxluð miðað við þau í fyrstu, annarri og fimmtu. Þetta er svokölluð víxllimra. Er búinn að yrkja nokkrar fleiri svona sem kannski komast á bloggið síðar.
Gunnvör í Hnífsdal var gátlaus
en Guðný í Ólafsvík látlaus.
Gunnvör lauslát
en Guðný kaus gát
því bæði var kvóta og bátlaus.
Bloggar | Breytt 19.2.2007 kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2007 | 22:25
Bill Gates spilar bridge við íslendinga
Ég sá að Bill Gates sagði á ráðstefnu í Bretlandi að hann hefði spilað brids við Íslendinga á netinu. Það var gaman að heyra þennan áhrifamann nefna þetta og mig minnir að spilamennska þessi hafi einnig borið á góma í samræðum þeirra Ólafs Ragnars fyrir skömmu. Unglingur lærði ég brids Flúðaskóla hjá Jóhannesi Sigmundssyni en Hrunamenn hafa langa bridshefð og spila ennþá af krafti. Þá hefði mig ekki grunað að eftir um tvo áratugi gæti maður hérna á skerinu spilað við fólk um veröld víða eins og það sæti við hliðina á manni. Ég spila stundum bridge á Yahoo og á tímabili þegar ég spilaði nokkuð stöðugt var maður farin að kynnast fólki víðsvegar um heiminn. Um daginn var ég að spila við konu í Brasilíu og andstæðingarnir voru í Oklahoma og Svíþjóð. Maður getur líka spjallað við spilafélagana, spurt um veðrið og hitt og þetta. Það hefur vakið athygli mína hversu margt harðfullorðið fólk í Bandaríkjunum er að spila brids á netinu. Ég hef orðið var við marga ellilífeyrisþega í Flórída sem stunda netbrids enda er ennþá hádagur hjá þeim þegar maður sest sjálfur við tölvuna hérna á síðkvöldum.
Þó ég sé bara maður á miðjum aldri þá voru tölvur varla til nema í háskólum þegar ég var að alast upp og þegar ég byrjaði að vinna við forritun 1988 var tölvupóstur ekki til og internetið ekki heldur. Í dag vinnur meira en helmingur þjóðarinnar sín störf nánast eingöngu við tölvur. Þessar breytingar eru ótrúlegar og sér ekki fyrir endann á þeim.
Bill Gates er líklega sá einstaklingur sem hefur haft mest áhrif á þessa gífurlegu þróun sem kölluð hefur verið upplýsingabyltingin. Fyrirtækið Microsoft sem hann stofnaði og gerði að stórveldi ásamt félögum sínum hefur með einhverjum hætti ætíð tekist að koma með réttar vörur á réttum tíma. Þannig hafa þeir yfirleitt haft yfirhöndina í samkeppni við önnur fyrirtæki þó halda megi því fram að þau hafi stundum verið með betri vöru.
Ég sá Bill eitt sinn halda fyrirlestur í á tölvuráðstefnu Chicago. Við félagi minn vöknuðum eldsnemma því við höfðum verið varaðir við því að árið áður hefðu færri komist að en vildu. Þegar við komum í rástefnuhöllina var löng biðröð en við náðum sætum að lokum og hlustuðum á karlinn kynna einhverjar nýjungar sem ég man ekki lengur hverjar voru.
En altént er Bill Gates ríkasti maður í heimi í dag - og holdgerfingur Ameríska draumsins. Hann er líklega ekki sá vesti til að bera þann kyndil. Virðist látlaus og alþýðlegur og berst ekki mikið á. Frægt er hversu mikið fé hann lætur af hendi rakna til góðgerðarmála og engum dylst að hann hefur miklar hugsjónir um nýtingu upplýsingatækninnar í þágu allra jarðarbúa.
Bloggar | Breytt 4.2.2007 kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2007 | 17:26
Fyrsta bloggfærsla
Er einn heima að ná mér eftir flensu og datt inn á þetta bloggsvæði af moggavefnum. Ég hef verið áskrifandi að mogganum síðan ég flutti til Reykjavíkur 1984. Var með hita í allan gærdag og í hálfgerðu móki en svaf þokkalega í nótt eftir að hafa tekið paratabs og er hressari í dag. Var búinn að vera slappur síðustu viku en harkaði samt af mér og mætti í vinnuna. Er enda að upplagi hraustur og ekki kvillasækinn.
Á föstudagskvöldið komu til okkar félagar úr Barcelonaferð síðatliðið vor og við vorum að skoða myndir, drekka og kjafta til kl. tvö. Það hefur líklega verið gott fyrir veirurnar sem þó eru að lúta í lægra haldi núna. Myndin sem ég setti hérna á prófílinn er einmitt af einum kubbnum. Þarna er ég á fyrsta teig á Sant Joan golfvellinum við Barcelona, nýbúinn að slá eitt af mínum frægu 250 metra upphafshöggum á miðja braut. Þetta var mjög góður völlur og ekki síður Masia Bach völlurinn sem við spiluðum á í sömu ferð en margir kannast við samnefnd vín sem framleidd eru á þessum búgarði af sömu fjölskydu.
Á bíórásinni er að klárast myndin Mean Girls með Lindsey Lohan í aðalhlutverki. Ágæt mynd og vel leikin.
Horfði áður á kastljósið og svo landsleik Íslendinga og Þjóðverja.
Reikna ekki með að verða virkur bloggari en ég er að minnsta kosti búinn að fara í gegn um uppsetninguna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Þorsteinn Sverrisson
Nýjustu færslur
- Sparnaður í Excel en ekki í alvörunni
- Einræða Guðs um framtíð lífs á Jörðinni
- Leifur Eiríksson kemur alltaf aftur
- Taflmaðurinn
- Leitarvélar veita þjónustu
- Eitt sinn skal hver deyja
- Náttúruleg óhreinindi eru hollari en aukaefni
- Skáldfeðgar III
- Skáldfeðgar II
- Skáldfeðgar I
- Skilyrði fyrir lífi eru margþætt
- Lítil saga um verðskanna
- Fjórar vísur um sólarlagið við Faxaflóa
- Er rétt að allar auðlindir séu í þjóðareign?
- Þrúgur reiðinnar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar