Færsluflokkur: Bloggar
1.5.2009 | 12:53
Fuglaflensa, síðan svínaflensa, hvað næst ?
Teitur Heindriksson frændi minn benti á þetta og segir: "Fyrst kom fuglakrím, og síðan svínakrím, verur tað næsta viðakrím? Fugloy Svínoy Viðoy :/".
Viðoy er næsta eyja við hinar tvær. Þó ég hafi nokkrum sinnum farið til Færeyja hef ég ekki enn komist í þessar tvær afskekktustu eyjar. Það er þó eitthvað sem ég vildi gera. Báðar er fallegar og með mikinn sjarma. Á þessari mynd er Fugloy til vinstri en Svinoy til hægri.
Í báðum eyjunum eru fallegar kirkjur. Þessi er í Svinoy.
Og þessi er í Fugloy.
Þar er þessi einstaklega fallega altaristafla máluð af Símoni Mikines og sýnir Jesú ganga á sjónum í ölduróti og bjarga drukkandi sjómanni. Trúin og áhættusöm sjómennskan voru sterkir þættir í lífi eyjaskeggja áður fyrr.
481 með svínainflúensu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2009 | 22:28
Merkilegur skortur á Hvítufjöllum á Íslandi
Nú eru tveir dagar þangað til við leggjum af stað upp á Hvannadalshnjúk. Til stendur að fara úr bænum á laugardaginn, vera kominn austur í Freysnes um klukkan 17, borða kvöldmat, leggja sig til klukkan eitt um nóttina og fara þá af stað. Þetta er alvöru píning.
Og þá heldur maður áfram að pæla í fjöllum og jöklum. Ég hef stundum verið að spá í hvers vegna svona fá fjöll á Íslandi bera nöfn eins og Hvítafjall, Hvítfell eða Hvítfjall. Nóg er um tignarleg fjöll hér á Fróni sem hafa snævi þakta toppa allt árið eða að minnsta kosti stærstan hluta ársins.
Í stuttri leit á netinu fann ég aðeins eitt dæmi um Hvítfell og eitt Hvítafjall á Íslandi. Hvorugt þeirra dregur nafn sitt af hvítum snjó eða jökli, heldur af ljósu líbaríti.
En það vill nefnilega þannig til að Hvítafjall er eitt algengasta fjallsnafn í heiminum og mörg fjöll með því nafni á tungum heimamanna eru með hæstu og tignarlegustu fjöllum á hverjum stað, annað hvort jökultindar eða há snævi þakin fjöll.
Allir þekkja Mount Blanc, hæsta tind Alpafjalla, en nafn hans merkir einfaldlega Hvíta Fjall.
Hið fræga fjall Mauna Kea á Hawaii er þekkt fyrir samnefnda stjörnurannsóknarstöð. Nafn þess merkir Hvíta Fjall á máli Hawaii búa.
Kilmanjaro er hæsta fjall Afríku. Talið er að nafn þess merki Hvíta Fjall á Swahili.
Þetta fallega fjall heitir White Mountain og er í Californíu.
Í Rússlandi er þessi glæsilegi tindur sem heitir белая rора eða Hvíta Fjall.
Í Chile er fjallgarður sem heitir á Spænsku Blanca Montana.
Í Brasilíu er þetta fjall sem heitir á máli heimamanna Portúgölsku, Montanha Branca.
Og í Guðbrandsdalnum í Noregi er frægt fjall Kvitfjell sem samnefndur skíðabær heitir eftir.
Hvað veldur því að landnámsmenn Íslands gáfu engu íslensku snævi þökktu háu og reisulegu fjalli nafni Hvítafjall veit ég ekki ?
Kannski hafa þeir gert það án þess að ég viti. En þau eru þá altént ekki mörg eða fræg.
1.maí 2009: Bæti við tveimur Hvítufjöllum í viðbót (sjá athugsemdir).
Tenerife er eyja byggð um fjallið El Teide og er að rúmmáli, þriðja stærsta eldfjall veraldar. Tenerife heitir eftri máli innfæddra, "tene-" (mountain) "-ife" (white).
Sjöundi hæsti tindur veraldar heitir Dhaulagiri sem þýðir Hvíta Fjall á máli heimamanna í Nepal. Á fyrri hluta 19. aldar var Dhaulagiri talinn hæsti tindur heims af landafræðingum.
Gaman væri að fá fleiri ábendingar um Hvítufjöll hjá þeim sem lesa þetta blogg.
Bloggar | Breytt 1.5.2009 kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.4.2009 | 22:14
Hvar er Hvannadalur?
En ég fór allt í einu að velta þvi fyrir mér hvar þessi Hvannadalur er, eða hefur verið, sem fjallið dregur nafn sitt af. Ég finn hvergi neitt um það á google eða yahoo eða leit.is ???
Sé reyndar að það eru til dalir með þessu nafni hérlendis, en hvergi í nánd við Hvannadalshnjúk - reyndar einn í Suðursveit - en samt allfjarri.
Hér að neðan er hins vegar mynd frá Angelica Valley í New York fylki USA
Og þessi stúka heitir Angelica Valley og býr í Rio de Janeiro Brailíu
Svona finnur maður margt sniðugt á leitarvélunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.4.2009 | 18:54
Það er auðveldara um að tala en í að komast
Það er líklega búið að slá nýtt met í því að verða samdauna kerfinu. Búsáhaldafólkið barði nú og hrópaði út af öðru eins. Það er ekkert mál fyrir hugmyndaríkt og sniðugt fólk að búa til frasa til að réttlæta hvað sem er af þessu tagi. Við sjáum stjórnmálamenn gera það með orðaleikjum á hverjum degi. Þetta eru yndislegir frasar frá Borgarahreyfingunni:
"verðlaun fyrir áður unnin störf"
Hvert fór gagnrýnin á eftirlaunafrumvarpið? Eru eftirlaun ekki verðlaun fyrir "áður unnin störf" ?
Er algengt að menn fái verðlaun fyrir óunnin störf?
"ekki hefðbundin laun í skilningi þess orðs"
Nú, hvað eru þá hefðbundin laun? Eru rithöfundalaun ekki hefðbundin? Ég hélt að þau væru einmitt réttlætt með því að ríkið ætti að gefa góðum rithöfundum kost á því að hafa eitthvað til að lifa af meðan þeir væru að vinna við að skrifa eitthvað skemmtilegt. Þegar menn eru í fullri vinnu sem þingmenn þá eru menn bara ekki í annarri vinnu. Hvað merkir orðið gæðgisvæðing aftur?
"Borgarahreyfingin er ný hreyfing og hefur enn ekki náð að setja sér skrifaðar reglur í öllum málum"
Ja hérna. Það veitir kannski ekki af nokkrum listamannalaunum til að búa til skrifaðar reglur í ÖLLUM MÁLUM. Það eins gott að þau gleymi ekki einu einasta máli sem getur komið upp.
"né heldur að setja sér nákvæmar reglur varðandi öll önnur mál er upp kunna að koma við þá nýju stöðu að vera orðinn hluti af lögjaffarvaldinu"
bla bla bla. Það er um að gera að setja nákvæmar skriflegar reglur um allt. Það mun taka tímann sinn að lesa þær. Alls ekki nota siðferðisvitundina og réttlætiskenndina, það er ekki gott.
Þetta er alveg dásamlegt. Það er auðveldara um að tala en í að komast.
Þráinn taki ákvörðun um heiðurslaunin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.4.2009 | 21:30
Lárus hunda skýtur
Þessi frétt minnir mig á söguna um Lárus nokkurn sem var hundaeftirlitsmaður í Reykjavík fyrir mörgum árum. Hann var gagnrýndur fyrir að vera stundum óþarflega fljótur að aflífa hunda sem hann taldi vera eigendalausa flækingshunda. Af þessu tilefni kvað Stefán Jónsson fréttamaður:
Langt af sínum bræðrum ber
betri verka nýtur.
Lætur yfir lítið sér
Lárus hunda skýtur.
Hóta að aflífa hreindýrskálf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.4.2009 | 18:35
....og enn kemur nýr skattur
Það er bara eitt sem er að, manni finnst skattarnir alltaf vera of háir. En auðvitað eru þeir nauðsynlegir og maður á líklega að vera þakklátur fyrir að geta lagt eitthvað að mörkum fyrir þjóðfélagið í heild. En þá vill maður líka vera viss um að það sé verið að nýta fjármunina sem best.
Og þannig er að nú er kominn alveg nýr skattur - Útvarpsgjald. 17.200 krónur á hvern framteljanda. Fyrir mitt heimili eru þetta tæpar 70.000 krónur eða sem svarar ríflega matarinnkaupum fjölskyldunnar í heilan mánuð.
Gróflega reiknað þá er ríkisútvarpið að fá milli 3 og 4 milljarða á ári með þessum tekjustofni auk auglýsingatekna og sértekna. Og nú hvíslar litli frjálshyggjupúkinn í hægra eyrað á mér: Er það alveg öruggt mál að þessi þvingaða gjaldtaka auki lífsgæði fólks meir en ef það fengi að ráðstafa þessum peningum að eigin vild?
Eða væri hægt að auka hamingju fleiri með því að nýta þessa fjármuni til þess að hlynna sjúkum og fátækum?
Persónulega hlusta ég og horfi ekki mikið á ríkisfjölmiðlana. Stundum á fréttir og einstaka fræðsluþætti í sjónvarpi. Svo kemur fyrir að ég hlusta á áhugaverða þætti á Rás 1 fyrir svefninn.
Eiginlega átta ég mig ekki á hlutverki ríkisútvarpsins. Fyrir menninguna? Já en mér sýnist að það sé mest verið að endurútvarpa erlendum þáttum og sinfóníum. Í öryggisskyni? Já en þá væri nóg að hafa eina útvarpsrás. Fyrir frjáls skoðanaskipti? Já en það yrði til svigrúm fyrir margar útvarps- og sjónvarpsstöðvar ef ríkisfjölmiðlarnir hættu.
Svo fylgist maður með litlum einkastöðvum eins og Útvarpi Sögu, ÍNN og fleiri búa til mjög skemmtilega þætti með margfalt minni tilkostnaði en ríkisstöðvarnar - en þurfa samt að berjast um auglýsingar við þær. Ég hallast að því að hægt væri að nýta þessa fjármuni betur og virkja einkaaðila til að gera íslenskt menningarefni með margfalt minni tilkostnaði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.3.2009 | 20:36
Næstforkvinnan
Það er oft gaman að lesa fréttirnar á færeysku netmiðlunum. Á www.kringluvarp.fo er sagt:
Íslendski Sjálvstæðisflokkurin hevur í dag valt nýggjan formann, eftir Geir Haarde.
Nýggi formaðurin eitur Bjarni Benediktsson, meðan næstforkvinnan eitur Torgerður Katrin Gunnarsdóttir. Hon varð afturvald. Hetta veit íslendska kringvarpið, RÚV, at siga frá.
Landsfundurin valdi formann millum tinglimirnar Bjarni Benediktsson og Kristjan Thór Júliusson.
Næstforkvinna er frábært orð. Auðskilið og gegnsætt eins og svo mörg orð í færeyska málinu og væri hægt að nota í íslensku án vandræða. Jóhönnu Sigurðardóttur mætti á sama hátt kalla forkvinnu Samfylkingarinnar.
Hér eru að gamni nokkur fleiri færeysk orð úr bók sem ég las nýlega og væru fullbrúkleg í íslensku máli:
Dálkaðir: Skornir/tálgaðir (í framan), þ.e. skylt dálkur er til í íslensku sem hnífur
Fyrir tilvild: Fyrir tilviljun
Fráskila: Afburðar, frábær
Harðbalinn: Harðskeyttur
Augleiddi: Horfði á / fylgdist með
Óróaði: Truflaði
Manningi: Maður
Ávegis: Áleiðis
Mótburður: Mótlæti
Höfðum tilhald: Höfðumst við
Vorum veðurfastir: Vorum veðurtepptir
Þorgerður Katrín fékk 80,6% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.3.2009 | 14:09
Flanagan vill ekki flana að neinu..
Mér finnast þessar hugmyndir um að fella niður 20% allra íbúðalána bæði óréttlátar og erfiðar í framkvæmd. Í fyrsta lagi má spyrja sig hvort 20% breyti einhverju fyrir það fólk sem er mest aðstoðar þurfi og stjórnvöld ættu að einbeita sér að því að hjálpa.
Og svo er það hvernig á að reikna þessi 20%. Á maður sem skuldar 20 milljónir en á 10 milljónir á bankareikningi, 10 milljón króna bíl og hús á Spáni að fá jafn mikið niðurfellt og sá sem skuldar 20 milljónir og á ekki neitt?
Á að fella niður 20% skulda þeirra sem hafa tekið lán út á húsið sitt til að kaupa sumarbústað eða til að fjármagna neyslu?
Á að fella niður 20% skulda þeirra sem hafa keypt húsnæði til að leigja út?
Á að fellla niður 20% skulda þeirra sem hafa keypt sér allt of stórt húsnæði og láta þá sem sýndu meiri hófsemi greiða fyrir það?
Það eru margar hliðar á öllum málum. Og það er því miður oft þannig með opinber afskipti að þau ná ekki markmiðum sínum og virka jafnvel stundum þveröfugt.
Þjónkun IMF við stjórnvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.3.2009 | 21:02
Er það ný uppgötvun að dýr hugsi fram í tímann?
Ég var næstum því búinn að keyra yfir mjallahvítan ref eins og þennan á móts við Mosfell í Grímsnesi síðastliðið föstudagskvöld. Hann stökk yfir veginn rétt fyrir framan bílinn og ég þurfti að snarbremsa til að keyra ekki yfir hann. Hann var nú kannski ekki að hugsa mikið fram í tímann sá!
Mörg dýr eru ótrúlega skynug eins og alkunna er. Hvar mörkin eru á milli eðlisávísunar annars vegar og hugsunar hins vegar er líklega skilgreiningaratriði.
Á árum áður las ég talsvert um hegðun dýra og rannsóknir á þeim, t.d. bækur Konrad Lorenz og The Selfish Gene eftir Richard Dawkins sem er tímamótaverk á sviði líffræði. Konrad Lorenz gerði margar skemmtilegar tilraunir og athuganir á viltum dýrum. Mig minnir að það hafi verið hann sem setti fram kenningu um þróunarfræðilegar ástæður þeirrar áráttu hunda að hlaupa geltandi á eftir hröfnum. Hrafnar geta flogið yfir stórt svæði og séð veikburða dýr. Þeir narra síðan úlfana (forfeður hunda) til að elta sig þangað sem dýrið er svo þeir geti drepið það. Hrafnarnir fá svo að launum leifarnar af kjötinu þegar úlfarnir hafa étið nægju sína.
Í ljósi núverandi aðstæðna í heiminum má svo má kannski deila um það hvað mannskepnan er góð í því að hugsa fram í tímann!
Simpansar hugsa fram í tímann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.3.2009 | 21:30
Rugl og vitleysa
Flestir hafa sterka þörf fyrir að hafa alla hluti í frekar föstum skorðum. Borða á sama tíma, fara í vinnuna á sama tíma, setjast á sama stól við borð, leggja í sama bílastæði o.s.frv. Flestir vilja líka hafa allt vel snyrt í kring um sig og hlutina á sínum stað. Við sláum garðinn, en látum hann ekki vaxta, við klippum tré og runna o.s.frv. Í skógrækt eru tré yfirleitt gróðursett í beinum línum þó svo að því fari víðs fjarri að það sé náttúrulegt. Ég er eins og flestir alinn upp við frekar mikla almenna reglu og skipulag. Auk þess lærði ég tölvunarfræði þar sem allir hlutir eru skilgreindir, allt er afleiðing af einhverju öðru og allt sem gert er, er gert í skilgreindum reiknanlegum skrefum. Ef maður skilur ekki eitthvað þá getur einhver fróðari leitt mann í sannleikann með röksemdafærslu.
Vissulega er skipulag, regla og agi grundvöllur samfélags þar sem við þurfum að geta treyst öðru fólki, átt öruggt líf, stundað viðskipti og framkvæmt tæknileg verkefni. En stundum finnst manni að þjóðfélagið sé orðið of bundið í skipulagsfjötrum sem hindra framþróun, sköpunargleði og fjálsa hugsun. Mikil trú á flóknum reglum, stöðlum, kerfum, ferlum og eftirlitsstofnunum einkennir samfélagið í dag.
Áður fyrr hafði fólk opnari huga en nú á tímum þegar allt þarf að vera í rökréttri samfellu. Tökum sem dæmi götur í nýju bæjarhverfi, þær eru látnar heita Akralind, Askalind, Berjalind o.s.frv. Allt með sömu endingunni og raðað í stafrófsröð. Þetta er auðvitað mjög gott til að maður geti ratað á réttan stað ef maður er ekki kunnugur. En þetta tekur hins vegar ákveðinn karakter" úr umhverfinu. Það sama má segja um þegar sveitafélög eru sameinuð og fá nýtt nafn, Reykjanesbær, Snæfellsbær, Bláskógarbyggð, Fjallabyggð o.s.frv. Sem betur fer voru landnámsmenn Íslands ekki svona fastir í andlausum kerfum. Þá myndum við ekki eiga jafn falleg örnefni og Hekla, Fáskrúð, Dauðsmannskvísl, Gránunes, Slauka, Hvesta, Gláma, Stöng, Klifandi, Þegjandi, Kögur og svo mætti lengi telja. Í dag myndu árnar á Skeiðarársandi verða skírðar Jökulsá 1, Jökulsá 2, Jökulsá 3 eða eitthvað álíka ófrumlegt.
Stundum er gaman að upplifa eitthvað sem er svo ruglað að það stingur í stúf við allt sem maður er vanur. Í bókinni The Analytical Language of John Wilkins" segir Jorge Luis Borges frá merkilegu flokkunarkerfi dýra sem á að hafa verið skráð í fornri bók kínverska keisarans. Þar voru dýr flokkuð á eftirfarandi hátt:
a) Dýr sem tilheyra keisaranum
b) Uppstoppuð dýr
c) Dýr sem eru tamin
d) Grísir ennþá á spena
e) Hafmeyjar
f) Glæsileg dýr
g) Flækingshundar
h) Þau sem tilheyra þessum flokkum
i) Þau sem skjálfa þegar þau reiðast
j) Óteljandi dýr
k) Önnur dýr
l) Dýr sem hafa brotið blómavasa nýlega
m) Þau sem líta út eins og flugur í fjarlægð
Eins og allir sjá er þetta flokkunarkerfi gjörsamlega óskiljanlegt og ónothæft í allri vísindalegri vinnu. Þetta stingur í augun og fer langt út fyrir allt sem okkur er tamt og finnst skynsamlegt. Engu að síður hristir þetta aðeins upp í huganum og víkkar sjóndeildarhringinn. Og minnir á að það hugsa ekki allir eins og hafa ekki alltaf gert.
Sumt fólk fúnkerar ekki vel í skipulögðu þjóðfélagi. Sveiflast ekki á sömu bylgjulengd og aðrir. Þetta fólk er kallað furðufulgar, rugludallar og í besta falli lífskúnstnerar". Ég man eftir einum manni úr minni barnæsku, Bjarna Guðmundssyni í Hörgsholti. Bjarni þótti skrítinn og forn í háttum. Hann bjó einn á bæ sínum síðustu árin en dvaldi á veturnar í Reykjavík. Bjarni gaf út stórmerkilegt tímarit á árunum 1956 - 1970 sem hann kallaði Hreppamanninn. Þessi tímarit voru blanda af auglýsingum í bundnu máli, kveðskap, leikritum, sérkennilegum sagnaþáttum og hugleiðingum. Í fyrsta tölublaðinu er inn á milli nokkurra erfiljóða kafli sem heitir spurningar. Þessi kafli eru ekki í samhengi við neitt annað í blaðinu. Spurningarnar sem Bjarni setur fram eru eftirfarandi:
1. Er sósíalismi siðalögmál mannkynsins?
2. Hvað er kristnidómur?
3. Er ráðstjórnin í Rússlandi sósíalistastjórn?
4. Hvers vegna verða smáríkin að greiða henni fórn?
5. Er bergmál réttur endurómur?
6. Eru Bandaríkin í Ameríku þjóð?
7. Er tómatsósuterta góð?
8. Sjúga saklausar flugur blóð?
9. Vantar íslenzku þjóðina samvinnusjóð?
10. Er lífshætta fyrir allsgáðan mann að hlaupa hiklaust fram af 200 m háum sjávarhömrum?
11. Getur sá all, sem trúna hefur?
12. Nýtur sá þjóðvegar mest, sem landið gefur?
13. Eru nauðungargjafir neikvæðar?
14. Eru jarðeignagjafir jákvæðar?
15. Er hyggilegt að sameina alla hreppa í einn hrepp á milli Ölvusár-Hvítár og Þjórsár?
16. Verður vothey betra úr 14 m djúpum turn en úr 4 m djúpu hólfi í hlöðu með samsíða hólf fyrir þurra töðu?
17. Eru íslenzk lög sanngjörn og réttlát? (7 dæmi)
18. Eru 10 boðorð guðs óskeikul lög fyrir alla menn?
19. Þarf þjóðkirkja á Íslandi að hafa á launum 100 menn?
20. Getur sami maður verið læknir og prestur?
21. Hvort er betra fyrir námsfólk að fara í austur eða vestur?
22. Borgar sig að rækta beitartún?
23. Er hægt að rækta ísl. kornsúru til manneldis og fuglafóðurs?
24. Þarf að kaupa inn í land vort útlent fóður?
25. Hvað verður atvinnulífi og efnahag íslendinga betra til blessunar en Verðbótasjóður?
Þegar ég rakst á þetta um daginn minnti þessi spurningalisti mig á flokkunarkerfi keisarans í Kína.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Þorsteinn Sverrisson
Nýjustu færslur
- Sparnaður í Excel en ekki í alvörunni
- Einræða Guðs um framtíð lífs á Jörðinni
- Leifur Eiríksson kemur alltaf aftur
- Taflmaðurinn
- Leitarvélar veita þjónustu
- Eitt sinn skal hver deyja
- Náttúruleg óhreinindi eru hollari en aukaefni
- Skáldfeðgar III
- Skáldfeðgar II
- Skáldfeðgar I
- Skilyrði fyrir lífi eru margþætt
- Lítil saga um verðskanna
- Fjórar vísur um sólarlagið við Faxaflóa
- Er rétt að allar auðlindir séu í þjóðareign?
- Þrúgur reiðinnar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar