Færsluflokkur: Bloggar
18.2.2009 | 21:05
Einfaldleikinn er bestur
Við lifum á tímum þar sem reglur og skipulag er mjög í hávegum haft. Þetta er líklega afleiðing aukinnar menntunar, margbrotnari tækni og flóknari tengsla í viðskipum og stjórnmálum. Regludýrkun er allsráðandi. Gerist eitthvað slæmt eru yfirleitt fyrstu viðbrögð fólks að það þurfi að setja strangari reglur, banna meira, takmarka meira, taka með sértækari hætti á einhverjum undantekningum o.s.frv.
Nema ef menn telja að reglurnar séu allt að því nægilegar þá er hrópað "Eftirlitið brást" eða "Það þarf að stórauka eftirlit". Kallað er á betri skilgreiningu á hlutverki eftirlitsstofnana. Vísað er í ábyrgð stjórnmálamanna og embættismanna.
Við sjáum þetta líka gerast í viðskiptalífinu. Amk. viðskiptalífinu eins og það var. Afleiður, framvirkir samningar, skortsala o.s.frv. Smátt og smátt þróaðist viðskiptalífið frá því að vera heilbrigð viðskipti með raunverulega vöru og þjónustu yfir í þokukennt umhverfi þar sem fólk hætti smátt og smátt að hafa yfirsýn yfir það sem það var að gera og tapaði sjónum á raunverulegum verðmætum.
Og þegar í ljós kemur að verðmætasköpun hefur verið byggð á sandi er enn og aftur kallað á meiri reglur, strangara eftirlit og óskilgreinda ábyrgð einhverra manna sem allir geta skýlt sér á bak við flókið regluverk og margbrotna löggjöf sem hefur þróast stig af stigi í langan tíma.
En getur verið að þessu sé einmitt öfugt farið. Getur verið að við séum að lenda í óhöppun og óæskilegum atvikum í meira mæli vegna þess að reglur eru orðnar of flóknar? Svo flóknar að það sé ekki á mannlegu valdi að fara eftir þeim. Svo flóknar að stjórnmálamenn og embættismenn skilja þær ekki, hvað þá almennir borgarar. Svo flóknar að þeir sem setja þær sjá ekki fyrir sér áhrifin og hvernig þær virka hverjar á aðra.
Getur verið að allir þeir kílómetrar af lögun og reglugerðum sem búnir eru til árlega og eiga að vernda borgarana séu orðin svo ofvaxin að þau snúist gegn markmiðum sínum?
Getur verið að við séum orðið með óþarflega mikið af stofnunum sem eiga að sinna eftirliti með hinu og þessu. Viðskiptalífi, ökutækjum, skipum, hreinlæti, heilbrigði fólks, lífsháttum og hvað það setur ofan í sig. Er skynsamlegt að setja svo mikið traust á eftirlitsstofnanir að ef einhverjir starfsmenn þeirra sofa á verðinum þá geti einkafyrirtæki steypt þjóðinni allri í risavaxnar skuldir eins og gerst hefur. Ég held ekki.
Ég mæli að minnsta kosti með því að menn hugleiði hvort það sé ekki skynsamlegt að fækka reglum, skera niður lög og einfalda of fækka svokölluðum eftirlitsstofnunum. Færa lög aftur í það form að þau verði hnitmiðuð, einföld og byggi á almennu siðferði og réttlætiskennd. Kannski eru boðorðin 10 allt að því nóg?
Bíðum og sjáum hvernig tillögur að nýrri stjórnarskrá kemur til með að líta út. Verður hún lengri eða styttir en núverandi stjórnarskrá? Vonandi styttri. Setjum okkur að minnsta kosti það markmið.
"Keep it simple"
Bjóða fram aðstoð vegna Icesave deilunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.2.2009 | 20:35
Mannbjörg varð....
Ég veit að það hefur verið erfitt fyrir Sigurjón að snúa við. Þrautreyndur ferðamaður og vélsleðagarpur. En það verður gaman að hitta ykkur og heyra ferðasöguna.
Með kalbletti á kinnunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2009 | 20:09
Six degrees á Facebook
Fyrir nokkru síðan bloggaði ég um þá kenningu að tvær hvaða tvær manneskjur sem er í heiminum geti yfirleitt tengst í gegnum sex liði. Þessi kenning hefur verið kölluð Six Degrees of Seperation.
Á Feisbúkkanum er hægt að ná í forrit sem hjálpar þér að finna tengslaleið til hvaða annarrar manneskju sem er í gegn um þá vini sem hver notandi hefur. Til að rannsaka aðeins kenningun þá prufaði ég að gamni nokkur tilvik.
Fyrst prófaði ég Eric Weiner sem er bandarískur rithöfundur og ég las nýlega bók eftir.
Og viti menn! Í gegn um sex liði get ég tengst honum.
Því næst prufa ég sjálfan Bill Gates.
Sko! Ef ég finn villu í Windows þá tala ég við Sigurð Ara, hann talar við Hafdísi Ósk og svo koll af kolli og skilaboðin komast til Bill Gates eftir sjö liði.
Reyndar má vara sig á frægu fólki á Feisbúkkanum. Yfirleitt hafa einhverjir spaugarar búið til falska notendur fyrir þá. Ég held samt að þetta sé réttur Bill Gates.
Nú geri ég handahófstilraun. Slæ inn John Smith og vel einn af fjölmörgun sem heita því algenga nafni.
Stendur heima. Sjö liðir. Líklega er þetta engilsaxi sem býr í Bretlandi eða Bandaríkjunum.
Hvað ef ég vel einhvern dana? Slæ inn Lars Hansen og vel síðan einhvern sem mér sýnist vera góðlegur.
Sjáiði þetta, bara fimm liðir!
Þessar tilraunir hér að ofan finnst mér að styðji kenninguna. Skrefin eru 5 - 7 og það þrátt fyrir að ekki séu nærri allir komnir á Feisbúkkann og þaðan af síður búnir að skrá inn alla sem þeir þekkja.
Það þarf varla að taka það fram að ef ég set inn einhvern Íslending sem ég þekki ekki þá eru það yfirleitt bara 2-3 liðir þrátt fyrir að ég sé ekki nema með um 150 skráða vini og þekki mun fleira fólk sem er ekki enn komið á Feisbúkkann. 96% kenning Þorsteins Þórssonar er líklega rétt.
En það þýðir lítið að reyna að ná í Barak Obama ef marka má þetta:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.1.2009 | 21:33
Skemmtileg bók um leitina að hamingjunni
Ísland hefur verið ofarlega í þessum mælingum undanfarin ár og stundum efst. Eric segir frá ferð sinni hingað veturinn 2007 - 2008. Honum verður tíðrætt um myrkrið, rigninguna, drykkjusiði Íslendinga, menningu og álfatrú. Hann tengir ákveðinn frasa við hvert land. Undirtitillinn á Íslandskaflanum er "Happiness is Failure". Það var sem sagt einhver sem sagði honum á bar að hérna væri fólki ekki refsað fyrir mistök. "Jæja, er það svo" gæti maður hugsað í dag!!!
Ekki fer á milli mála að Eric er mjög hrifinn af Íslandi og í öðrum köflum bókarinnar vitnar hann oft til íslandsheimsóknar sinnar. Hann er ekki eins hrifinn af ýmsum öðrum löndum t.d. Moldovu (Happiness is Somewhere Else) enda hefur það land verið einna neðst í GHI mælingum. Um Sviss segir hann "Happiness is Boredom" og ekki fer á milli mála að höfundinum finnst íbúar þar afar leiðinlegir en telur að þeim geti með einhverjum hætti látið sé líða ótrúlega vel í sínum leiðindaskap enda hafa þeir mælst hátt í GHI !!
Um Quatar segir Eric "Happiness is Winning Lottery Ticket". Honum finnst ekki mikið til þeirra koma, menningarsnautt fólk sem gengst upp í ríkidæmi sem það hlaut fyrir tilviljun.
Önnur lönd sem Eric heimsækir eru Holland, Bhutan, Thailand, Bretland, Indland og Bandaríkin.
Bókin kostar $11,19 á amazon.com.
Ætli Ísland sígi ekki eitthvað niður þennan lista næstu ár, en Eric bendir reyndar á þá alkunnu staðreynd að efnahagur og ríkidæmi fer ekki endilega saman. Í bókinni segir hann um hamingjurannsóknir í ýmsum löndum: Recent research reveals that money does indeed buy happiness. Up to a point. That point, though, is surprisingly low: about $1500 a year. After that, the link between economic growth and happiness evaporates.
En það er auðvitað sárara að missa peninga eins og Íslendingar hafa gert en að hafa aldrei fengið þá í hendur. Enn sárara er að tapa fjármunum út af kjánaskap og oflátungshætti einhverra sem maður þekki ekki einu sinni. Enginn vill missa það sem hann hefur. Þannig er mannlegt eðli og líklega þjóðareðli líka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2009 | 19:48
Hvenær mengar maður og hvenær ekki?
Í grófum dráttum er það þannig að þegar menn sjá reyk eða mistur þar sem atvinnustarfsemi fer fram, skítugt fólk og vinnuvélar, þá er sagt að þessi starfsemi sé mengandi. Ef á hinn bóginn allt er fínt, loftið hreint og starfsfólkið snyrtilegt þá er talað um umhverfisvænan iðnað.
En það er ekki allt sem sýnist. Hver atvinnugrein og hvert fyrirtæki lifir á viðskiptum við aðra. Allt hagkerfi heimsins er ein óslitin hringekja. Alcan framleiðir ál með rafmagni sem er framleitt af Landsvirkjun, Alcan þarf líka hugbúnað frá Microsoft og Oracle, tölvur frá SUN, bíla frá Toyota, síma frá Nokia, flutninga hjá Eimskip o.s.frv
Microsoft þar svo aftur tölvur til að búa til hugbúnað, þær eru gerðar úr dýrum málmum frá málmbræðslum. Tölvurnar eru knúnar af rafmagni sem ef til vill er framleitt með olíu eða kolum. Í besta falli vatnsafli. Microsoft þarf líka að nota flugvélar og bíla fyrir sína starfsemi, fjarskiptanet o.s.frv.
Engu að síður er það þannig að menn líta frekar á Microsoft sem umhverfisvænt fyrirtæki og Alcan mengangi fyrirtæki.
Til að búa til verðmæti þarf á endanum alltaf orku og hráefni. Verðmæti endurspeglast í fjármagni. Öll starfsemi sem þarf fjármagn er því mengandi. Og því meira fjármagn, því meiri mengun. Þannig kostar það útblástur koltvísýrings að hafa háskólaprófessora, lækna og alþingismenn á launum. Það er mengandi að reka Umhverfisráðuneytið og Heilbrigðiseftirlitið.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það bara neyslan sem mengar. Þau samfélög og þeir einstaklingar sem eru með mestu neysluna og hafa hæstu tekjurnar, knýja hagkerfið áfram af mestu afli og menga þar af leiðandi mest.
Þannig finnst mér alltaf dáldið öfugsnúið þegar eyðslu- og neyslutröll, t.d. listamenn með margfaldar tekjur, margfalda neyslu og margfaldar eignir á við venjulegt fólk, tala um nauðsyn þess að draga úr mengun!!!
Áhrif gúgls á umhverfið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.12.2008 | 12:17
20 ljósir punkar fyrir Íslendinga
Það er vissulega erfitt ár framundan hjá Íslendingum eins og reyndar flestum öðrum þjóðum. Það eru margir svartsýnir um þessar mundir og sumir því miður ekki að ástæðulausu. Lykillinn að því að komast út úr kreppunni er samt samtakamáttur, bjartsýni og dugur.
Mér finnst þrátt fyrir allt að forsavarsmenn þjóðarinnar, fjölmiðlungar og sérfræðingar ýmiskonar mættu vera meira hvetjandi á þessum tímum. Stundum finnst mér að allir séu í keppni um að mála ljótasta skrattann á vegginn. Mig langar því til þess að nefna hér 20 ljósa punkta fyrir Íslendinga.
1) Gott húsnæði
Húsin sem við búum í eru einhver þau best byggðu hjá nokkurri þjóð. Auk þess höfum við fleiri fermetra á hvern einstakling en víðast hvar annars staðar. Sama á við um atvinnushúnæði og íbúðarhúsnæði. Það skiptir ekki máli hvernig allt veltist, enginn tekur þessi lífsgæði frá okkur.
2) Ódýr og sjálfbær orka
Þó að við búum í stórum húsum í köldu landi þurfum við varla að kaupa olíudropa til þess að kynda og lýsa þessi hús. Heita vatnið streymir upp úr jörðinni og rafmagnið framleiðum við í fallvötunum. Þessar auðlindir spara meðalheimili örugglega tugi þúsunda á hverjum mánuði samanborið við kyndingu með olíu eða kjarnorku sem annars væri. Hugsum líka um lífsgæðin í sundlaugunum og að þurfa ekki að spara vatnið í sturtunni. Það sama gildir um þessar auðlindir og húsin, það fer enginn með þær úr landi.
3) Gott samgöngukerfi
Þrátt fyrir stórt land höfum við gott samgöngukerfi sem hefur verið stórbætt undanfarin ár í krafti aukinna skatttekna ríkisins í góðærinu.
4) Gott menntakerfi
Við höfum góða skóla og menntastofnanir. Skólum hefur fjölgað mikið síðustu ár en ef til vill þarf að aðlaga þá að nýju umhverfi og gera kennsluna hagkvæmari. Mig grunar að kostnaður á hvern nemanda hafi hækkað mikið undanfarin ár.
5) Hátt menntunarstig
Hér er líka hátt menntunarstig og fjöldi fólks sem hefur reynslu af viðskiptum á alþjóðavettvangi. Fræðistörf og áhugi á vísindum hefur alltaf verið inngróinn í íslenska þjóð.
6) Gott heilbrigðiskerfi
Við njótum góðrar heilbrigðisþjónustu. Fjárframlög til heilbrigðismála hafa stóraukist undanfarin ár og það er ef til vill dæmi um að þrátt fyrir sukk höfum við líka að einhverju marki fjárfest inn innviðum samfélagsins í góðærinu.
7) Getum lækkað opinber útgjöld
Ef opinber útgjöld á Íslandi hefðu verið fryst fyrir 10 árum og aðeins hækkað í samræmi við verðlag væru þau í dag ríflega 400 milljarðar í stað ríflega 600 milljarða. Miðað við það gætum við (ef við þurfum og viljum) sparað um 200 milljarða á hverju ári! Við gætum t.d. borgað 1000 milljarða skuld upp á 5 - 6 árum en samt haldið uppi sömu opinberu þjónustu og fyrir 10 árum. Ég man ekki betur en að þá hefði fólk það ágætt og við teldum okkur vera í fremstu röð.
8) Getum dregið saman einkaneyslu
Flestar fjölskyldur geta dregið talsvert úr einkaneyslu án þess að rýra lífsgæði sín að neinu marki. Hugsum t.d. um allar utanlandsferðirnar undanfarin ár. Það er hægt að kaupa áskrift að Travel Channel fyrir um 1000 krónur á mánuði.
9) Innlendur iðnaður styrkist
Við sjáum þess strax merki að ýmis innlendur iðnaður er að aukast vegna þess að of sterk króna hefur skemmt fyrir honum undanfarin ár. Á þessu sviði eiga eftir að verða til ný störf og útflutningstækifæri.
10) Matarkista í sjónum
Þessi litla þjóð, Íslendingar, hefur fyrir sig stóran hluta af Norður-Atlandshafi fullan af fiski. Þessa auðlind getum við áfram bæði nýtt til matar fyrir okkur sjálf og til að flytja út.
11) Veikari króna styrkir útflutningsgreinar
Þrátt fyrir verðlækkun munu álverin okkar halda áfram að skaffa stöðugar tekjur. Sama er hægt að segja um ferðaþjónustu sem hefur vaxið ár frá ári undanfarið. Tækni- og hugbúnaðarfyrirtæki ættu að geta nýtt sér breyttar forsendur til útflutnings á hugviti. Með breyttri stöðu krónunnar myndast líka stóraukin tækifæri fyrir nýjan og aukinn útflutning. Ýmis merki sjást um þetta nú þegar.
12) Getum framleitt meiri matvæli
Við eigum mikið af ónýttu landrými sem við getum án mikils viðbótar kostnaðar notað til að framleiða meira kjöt, kartöflur, grænmeti og jafnvel korn. Einnig mætti hugsa sér að nýta autt atvinnuhúsnæði í þessum tilgangi. Á Íslandi er líka mikið af ám og vötunum fullum af fiski sem væri hægt að nýta betur.
13) Við erum rík þrátt fyrir allt
Þó að við skuldum kannski nokkrar milljónir á mann þá eigum við líka mikið. Eignir íslensku lífeyrissjóðanna eru líklega um 1500 milljarðar þrátt fyrir bankahrunið. Þar eiga ríki og sveitarfélög inni óinnleystann tekjuskatt upp á amk 600 milljarða. Mér finnst líklegt að nettóeignir Íslendinga aðrar en lífeyrissjóðirnir séu amk 2-3 sinnum sú upphæð, eða kannski 4000 milljarðar. Það gera um 20 milljónir á mann. Við höfum því alveg bolmagn til að greiða skuldir okkar. Með þessu er ég þó ekki að segja að við eigum að steypa okkur í skuldir. Enn síður er ég að halda því fram að við eigum ekki að gera upp öll mál sem tengjast hruni bankanna.
14) Ónýtt orka
Við höfum líka mikla ónýtta orku í fallvötnum og jarðvarma. Hugsum um allt heita vatnið sem rennur til sjávar á degi hverjum. Margar þjóðir myndu nýta það til að ala fiska eða með einhverjum öðrum hætti.
15) Hreint loft
Ekki má gleyma hreina úthafsloftinu sem heldur okkur frískum og heilbrigðum.
16) Hreint vatn
Það eru mikil lífsgæði fólgin í hreina vatninu okkar sem streymir úr krönunum inn á hvert heimili. Fyrir utan peningana sem það sparar að þurfa ekki að kaupa drykkjarvatn.
17) Mikið lífsrými
Við eru fá sem búum í stóru landi. Það er nóg pláss fyrir alla.
18) Njótum hlýnandi veðurfars
Íslendingar munu hagnast á hlýnandi veðurfari sem margir spá og við sjáum reyndar merki um nú þegar. Undanfarin sumur hafa verið sólrík og hlý. Vonandi verður svo áfram.
19) Hér eru sterkustu karlmenn í heimi
Þetta er óumdeilt.
20) ......og fallegustu konurnar
Það er líka hafið yfir allan vafa
Að lokum óska öllum þeim sem rekast inn á þessa síðu auðnuberandi nýs árs. Ég þakka þeim sem hafa nennt að lesa þessa óskipulögðu og skrítnu pistla og skrifað kveðjur.
Bloggar | Breytt 1.1.2009 kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.12.2008 | 17:11
Tungið okkar er merkilegt fyrirbæri
Tunglið okkar er reyndar ekkert venjulegt tungl. Eiginlega ólíkt öllum öðrum tunglum sem við þekkjum í okkar sólkerfi. Það eru taldar sáralitlar líkur á því að pláneta eins og okkar sem er svo nálægt sólinni skuli hafa jafn stórt tungl. Mars hefur tvö tungl, Phobos og Diemos en þau eru varla nema grjóthnullungar, um 10 km í þvermál hvert um sig. Tunglið okkar er hins vegar næstum því einn þriðji af jörðinni að stærð. Það liggur við að það væri hægt að kalla það tvíburastjörnu.
En það merkilega er að líklega er tunglið eitt af því sem við eigum líf okkar að þakka. Tunglið hefur þrennskonar áhrif á jörðina sem sem skipta verulegu máli um skilyrði til lífs. Í fyrsta lagi sjávarföllin, í öðru lagi jafnar tunglið möndulhalla jarðar og í þriðja lagi hægir það á snúningi jarðarinnar. Það sem skiptir mestu máli er að tunglið heldur möndulhalla jarðar stöðugum m.t.t. sporbrautar um sólu. Væri möndulhalli jarðar ekki fastur í sínum ca 23 gráðum heldur óstöðugur eins og t.d. á Mars er mjög ólíklegt að jörðin væri byggileg sökum óstöðugleika í lofthjúpnum eða vegna þess að mest af vatninu væri frosið. Í nýlegri bloggfærslu fjallaði ég um fleiri flókin skilyrði fyrir lífi á Jörðinni.
En tunglið er líka á leiðinni í burtu! Það fjarlægist jörðina um fjóra sentimetra á ári. Það er vissulega ekki mikið en yfir langan tíma minnka áhrif tungsins jafnt og þétt. Eftir um tvær billjónir ára verður það komið svo langt í burtu að það hefur ekki lengur þessi demandi áhrif á snúning jarðar. En þetta er langur tími og líklega á ýmislegt eftir að gerast þangað til.
Það er talið að tunglið sé 3-4 billjóna ára gamalt. Ýmsar tilgátur eru um hvernig það varð til. Lengi vel var talið að það hefði brotnað úr jörðinni, líklega úr Kyrrahafinu. Síðan komu fram kenningar um að það hefði komið utan úr geimnum og Jörðin hefði fangað það á braut um sig. Einnig hefur því verið haldið fram að Tunglið og Jörðin hafi orðið til á sama tíma.
Sú tilgáta um tilurð Tunglsins sem þykir sennilegust í dag er að það hafi orðið til við gífurlegan árekstur, The Big Splash. Hnöttur (Teia) á stærð við hálfa Jörðina hafi komið utan úr geimum og smollið á hana með gífurlegu afli. Það var reyndar í kjölfar rannsókna á tunglgrjóti sem Neil Armstrong og félagar komu með í Appollo 11 leiðangrinum 1969 sem árekstrarkenningunni fór að vaxa fiskur um hrygg. Málmar sem finnast í tunglgrjóti eru þeir sem líklegt er að hafi ásamt öðrum léttari efnum sundrast á sporbaug um Jörðina eftir áreksturinn á meðan aðrir málmar svo sem járn soguðustu inn að möttlinum. Efnin sem þeyttust frá Jörðinni í árekstrinum mynduðu hring um Jörðina líkt og hringir Satúrnusar í dag. Á löngum tíma þéttist mest af þessu efni og til varð Tunglið sem við þekkjum í dag.
Á þessu myndbandi er atburðarásin í árekstrinum mikla sýnd.
Tunglið virðist óvenjustórt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.12.2008 | 18:22
Hvar eru allir?
Hvernig stendur á því að stöðug leit mannkynsins að vitsmunalífi utan jarðarinnar í langan tíma hefur engan árangur borið? Auðvitað getur verið þrautin þyngri að ná sambandi við einhvern sem er í tugi eða hundraða ljósára fjarlægð. Það getur stundum verið nógu erfitt að ná sambandi við sína nánustu.
Við höfum þó markvisst verið að fylgjast með radíóbylgjum utan úr geimnum undanfarna þrjá áratugi eða svo. Jarðarbúar hafa einnig um nokkurt skeið sent út radíómerki sem væri hægt að greina með sambærilegri tækni og við ráðum yfir, í meira en 100 ljósára fjarlægð.
Horfum aðeins til himins. Í vetrarbrautinni okkar eru talin vera um 2,5 x 1011 sólkerfi og um 7 x 1022 í öllum sýnilega alheiminum. Jafvel þó vitsmunalíf hefði aðeins þróast á örlitlu broti pláneta í þessum sólkerfum ættu að vera einhver fyrirbæri þarna úti sem eru jafn forvitin og við og geta beitt sambærilegri tækni til að skyggnast út í alheiminn. En samt sem áður, ekkert hljóð, ekki múkk neins staðar, grafarþögn !!
Það er sem sagt ansi þægileg vinna hjá þeim sem sitja í stjórnstöðinni hjá SETI stofnuninni og bíða eftir því að það komi skiljanleg merki utan úr geimnum. Tvisvar hafa menn talið sig geta greint mögulega vitsmunaleg munstur í radíóbylgjum. Í fyrra skiptið árið 1977 þegar svokallað WOW merki kom fram á Big Ear stjörnuathugunarstöðinni í Ohio. Seinna tilvikið var árið 2003 þegar Radio source SHGb02+14a merkið sem fannst við greiningu hjá SETI stofnuninni. Í báðum tilvikum hafa þessi merki verið úrskurðuð ómarktæk við nánari skoðun.
Þessi vöktun á radíómerkjum undanfarna áratugi hefur sum sé ekki skilað neinum árangri. Vísindamenn hafa því velt fyrir sér fleiri möguleikum til að greina þróað líf í öðrum sólkerfum. Sumir telja að með öflugum tækjum utan gufuhvolfsins væri með lifrófsgreiningu mögulegt að mæla lífræn efnasambönd, svo sem metan og súrefni, jafnvel koltvísýring og mengandi lofttegundir sem verða til í iðnaðarframleiðslu.
Þá hafa verið settar fram kenningar um að verur sem hafa náð langt í tækniþróun ættu að geta verið færar um að búa til svokölluð Von Neuman tæki (Von Neuman probes) sem væru send út í geiminn í leit að lífi. Þessi tæki myndu vera lítil og sparneytin. Nýta orku frá sólum og orkubeltum, t.d. þyngdarsviðum stórra stjarna. Tækin hefðu þann eiginleika að geta gert eftirmyndir af sjálfu sér (replicators), þ.e. fjölgað sér líkt og lífverur og þau hefðu samskipti sín á milli með ljósmerkjum eða radíógeislum. Sumir halda því fram að sé vitsmunalíf algengt hljóti ýmsum samfélögum að hafa tekist þetta. En sé sú raunin ættum við líka að verða vör við eitthvað svona dót. Reyndar hafa geimvísindastofanir verið að svipast um eftir tækjum á borð við þessi í sólkerfinu okkar alveg síðan 1950. En það er sama sagan, ekkert finnst.
Önnur skemmtileg tilgáta um hvernig hægt væri að bera kennsl á vitsmunalíf í öðrum sólkerfum hefur verið sett fram af dr. Freeman Dyson. Hugmyndin byggir á því að það sé eðli allra tæknisamfélaga að auka stöðugt orkuneyslu sína. Háþróaðar lífverur á plánetum fari smátt og smátt að nýta alla mögulega orku frá nærliggjandi sól og m.a. smíða mikið magn af einskonar fljúgandi geimvirkjunum (Dyson sphere) sem myndu umkringja sólina eins nálægt henni og hægt væri komast. Afleiðingin yrði sú að útgeislun viðkomandi sólar væri mjög trufluð af þessum virkjunum og sú truflun yrði greinanleg með stjörnusjónaukum annarrs staðar í geimnum. Þrátt fyrir að ekki sé ólíklegt að einhversstaðar hafi tækni getað þróast með þessum hætti sé líf í geimnum algengt, og að við höfum stöðugt verið að glápa á stjörnur með stöðugt fullkomnari græjum undanfarin 100 ár eða svo, þá höfum við samt aldrei séð hin minnustu merki um þetta.
En hvers vegna heyrum við ekkert og sjáum ekkert? Hvers vegna hefur mannkynið ekki fundið eina einustu marktæka vísbendingu um líf utan jarðarinnar? Þessi ráðgáta er oft köllið The Fermi Paradox eftir ítalska eðlisfræðingnum Enrico Fermi. Það hafa verið settar fram ýmsar kenningar til að skýra þess ráðgátu, sumar vísindalegar, aðrar heimspekilegar eða trúarlegar og enn aðrar skáldsagnakenndar. Hér á eftir fjalla ég um nokkrar þeirra.
1. Vitsmunalíf er afar sjáldgæft og jafnvel bara bundið við Jörðina
Ástæðan fyrir því að ég fór að pæla í þessari ráðgátu núna (hef reyndar alltaf verið forvitinn um þessi mál) er sú að ég las nýlega stórmerkilega bók, Rare Earth, eftir Peter Ward og Donald Browniee. Í bókinni er því haldið fram að svo mörg flókin, sérstök og samverkandi skilyrði hafi orðið til þess að þróað líf varð til á jörðinni, að líkurnar á því að það sama geti gerst í öðrum sólkerfum séu hverfandi, jafnvel þó reiknað sé með öllum þeim aragrúa sólkerfa sem við getum séð.
Fyrir það fyrsta stafi það mikilli geislun frá miðju hverrar vetrarbrautar að það sé aðeins í útjöðrum hennar sem aðstæður geti skapast fyrir þróað líf. Höfundarnir telja að aðeins um 5% af sólkerfum okkar vetrarbrautar sé byggilegt vegna geislunar.
Annað skilyrði er stærð sólarinnar. Án þess að ég fari út í það nánar þá færa þeir rök fyrir því að ef sólin okkar væri aðeins stærri eða aðeins minni væri þróað líf í sólkerfinu óhugsandi.
Þriðja skilyrðið er fljótandi vatn, en til þess að það geti verið til staðar þarf viðkomandi pláneta að vera í ákveðnu þröngu belti frá sólinni, ca +/-5% fjarlægð jarðarinnar frá sólu.
Fjórða skilyrðið er tunglið, okkar tungl er einstakt og ólíkt öðrum tunglum sem við þekkjum, en ef þess nyti ekki við væri það mikið ójafnvægi í ferli jarðarinnar umhverfis sólina að ekki hefðu skapast aðstæður fyrir þróað líf. Þeir leiða einnig líkum að því að það sé hæpið að líf hefði geta þróast ef sjávarfallanna vegna tunglsins nyti ekki við.
Fimmta skilyrðið er skjöldurinn okkar, risinn Júpíter, sem hefur svo stórt þyngdarsvið að hann dregur til sín nánast allar stórar halastjörnur og loftsteina sem koma inn í sólkerfið og myndu tortíma öllu lífi ef þeir lentu á Jörðinni.
Fleiri þætti nefna höfundarnir, svo sem segulsviðið, málmríkan kjarna jarðarinnar og jarðflekana sem nauðsynlegar forsendur fyrir þróuðu lífi. Og niðurstaðan er sem sagt sú að jafnvel þó frumstætt líf geti verið mjög algengt þá þurfi að vera til staðar mjög sérstakar aðstæður til þess að fjölfrumungar og síðan vitmunalíf nái að þróast.
Þeir benda líka á þann möguleika að vitsmunalíf hafi þróast einhverstaðar en skilyrði fyrir tækniþróun og iðnþróun ekki verið fyrir hendi eins og á jörðinni þar sem við höfum haft aðgang að gífulegum auðlindum af lífrænu eldsneyti. Það er enginn vafi á því að mannkynið væri ekki iðnvætt og líklega ekki fært um geimrannsóknir ef þróun jarðarinnar hefði verið með þeim hætti að olíuauðlindir hefðu ekki orðið til.
2. Vitsmunalíf útrýmir sjálfu sér á mjög stuttum tíma
Þeir sem halda fram þessari kenningu segja að samkeppni og valdabarátta séu drifkraftur þróunar á tæknisamfélögum. Venjulega líði því mjög stuttur tími frá því að tæknisamfélög komast á það stig að geta farið að gera vart við sig í himingeimnum þangað til þau eru búin að nota þessa sömu tækni til að útrýma sjálfum sér. Þetta er heldur óskemmtileg kenning fyrir okkur jarðarbúa en engu að síður sjáum við vísbendingar um að hún kunni að vera sönn.
3. Einhver eyðir skipulega öllu lífi í alheiminum
Þessi hugmynd byggir á því að einhverjar verur hafi náð slíku þróunarlegu forskoti að þær eyði skipulega öllu vitsmunalífi á stóru svæði áður en þeim fer að standa ógn af því. Þetta er algengt minni í vísindaskáldsögum en engu að síður hefur þessi möguleiki líka verið skoðaður af vísindamönnum.
Gagnrýnendur spyrja þá hvers vegna þessar verur séu ekki fyrir löngu búnar að eyða öllu lífi á jörðinni! Skýringin gæti verið sú að við séum einfaldlega ekki talin vera orðin svo merkileg að það taki því að eyða orku í okkur. Eða við séum einhvernvegin svo afskekkt að við höfum ekki fundist ennþá!
Ef menn teldu þessa kenningu almennt líklega myndum við varla vera að standa í því að senda merki út í geiminn til að vekja athygli á okkur. Þvert á móti væri þá betra að láta sem minnst á sér bera. Það er einmitt líka annar angi þessarar kenningar, þ.e. að vitsmunasamfélög reyni beinlínis að láta ekki bera á sér til að forðast einhver hættuleg öfl sem gætu ollið þeim skaða. En við erum ennþá svo vitlaus að við gólum út í heiminn af öllum kröftum án nokkurrar fyrirhyggju!
4. Við erum einstök, sköpuð af Guði
Allir þekkja sköpunarsögu Biblíunnar. Svonefndir sköpunarsinnar halda því fram að maðurinn sé skapaður af Guði og óhugsandi sé að jafn göfugar verur hafi þróast af sjálfu sér uppúr líflausri efnasúpu. Þessum skoðunum hefur vaxið fiskur um hrygg vestanhafs á undanförnum árum en eru litnar hornauga af vísindasamfélaginu. Engu að síður er það svo að jafnvel hámenntaðir menn hafa reynt að rökstyðja þessa skoðun og telja að þróunarkenning Darwins útskýri ekki til fulls hvernig flóknar lífverur hafi orðið til. Þekkt þrætuepli er t.d. fullyrðing þeirra um að líffæri eins og auga geti ekki hafa þróast yfir langt tímabil, "Hvaða samkeppnislegt forskot hefur lífvera af hálfu auga" spyrja þeir!
Með smá hártogun er hægt að gagnálykta á þá leið að Guð á himnum hljóti í sjáfu sér að vera sönnun þess að til sé einhverskonar líf fyrir utan Jörðina og óháð henni.
5. Annað vitsmunalíf er of fjarlægt til að við verðum vör við það
Eru önnur vitsmunasamfélög einfaldlega allt of langt í burtu til þess að við getum náð sambandi við þau? Ef fjarlægðin er hunduð eða þúsund ljósár og þá er vissulega líklegt að annað hvort samfélagið sé útdautt áður en nokkur vitræn samskipti geta átt sér stað. Gluggi tækifærisins er einfaldlega of lítill. Menn benda líka á að það eru innan við hudrað ár síðan við byrjuðum með vísindalegum og skipulegum hætti að fylgjast með merkjum um líf í geimum. Við megum ekki vera svona óþolinmóð. Ef til vill eru merki á leiðinni og fjarlægðir í tíma eru ekki síður miklar en í vegalengdum.
6. Við erum ekki að hlusta á réttan hátt
Getur verið að við séum að missa af merkjum sem er beint til okkar? Ef til vill nota aðrar vitsmunaverur aðra tíðni en við leitum á, eða gagnaþjöppum sem við höfum ekki þekkingu á að brjóta upp. Hægt er að senda út radíómerki með ýmsum hætti. Skýr merki á ákveðin punkt eða merki sem ná yfir stærri radíus en verða óskýrari.
Merkið sem við sendum út er svokallað Arecibo Message. Í því eru settar saman ýmsar upplýsingar t.d. tölurnar frá einum og upp í tíu. Númer efnanna í lotukerfinu sem mynda efnin í DNA. Kóðuð mynd af manni. Kóðuð mynd af sólkerfinu. Svo geta menn pælt í því hvort það sé einhver sem skilur þetta!
7. Annað vitsmunalíf er á allt öðru tæknistigi
Einn möguleiki er að tæknistig vitsmunasamfélaga séu svo ólík að það hindri stórlega alla möguleika til samskipta. Eða að þróun vitsmunalífs leiði smátt og smátt til þess að það færi sig út úr hinum efnislega heimi yfir í einskonar sýndarheim sem við skiljum ekki enn.
8. Við erum tilraunadýr
Samkvæmt Dýragarðskenningunni (Zoo hypothesis) erum við tilraunadýr og vitsmunaverur, miklu þróaðri en við fylgjast með okkur. Ef til vill hafa þessir rannsakendur einhver inngrip í þróun lífs og menningar án þess að við höfum orðið vör við það. Hér er þessi kenning farin að tengjast sköpunarsögunni.
Ef til vill munu þeir láta vita af sér þegar við höfum náð ákveðnu tæknistigi eða eftir að við höfum komist á ákveðið stig siðferðis, t.d. hætt að berjast og heyja stríð. Trúi þessi hver sem vill!
9. Þeir eru of ólíkir
Ef til vill höfum við algjörlega ofmetið líkurnar á því að annað vitsmunalíf hljóti að vera í líkingu við okkar eigið. Það er ekki víst að geimverur hafi tungumál, kunni að reikna, þekki eðlisfræðiformúlurnar okkar eða lotukerfið. Noti ekki sömu orkugjafa, sömu tækni og sömu aðferðir til að leita að öðru lífi.
10. Þeir eru hér, en við vitum það ekki!
Getur verið að geimverur séu þegar á Jörðinni en fari huldu höfði í skjóli einhverra tæknilegra yfirburða eða séu hreinlega á einhverju öðru tilverustigi sem gerir það að verkum að við getum ekki skynjað þær?
Nú eða yfirvöld eða stofnanir á borð við NASA vita af geimverum en haldi upplýsingunum leyndum af öryggisástæðum. Það hafa svo sem verið settar fram óteljandi samsæriskenningar í þá veru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.10.2008 | 15:53
Bankakerfi Kanada það besta í heimi
Manitobabúar fylgjast grannt með fréttum frá Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2008 | 22:36
Íslendingar og Færeyingar hafa frumkvæði að stofnun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins árið 1929
Á þessum tímum kreppu og peningaleysis er gaman að rifja upp aðdraganda þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var stofnaður. Frá því er sagt í smásögu Halldórs Kiljans Laxness, Corda Atlandica. Þar er fjallað um furðufuglinn og uppátækjasegginn Karl Einarsson Dunganon. Hann var fæddur á Seyðisfirði, fluttist ungur til Færeyja með foreldrum síðnum en á fullorðinsárum átti hann heima víða í Evrópu. Árið 1929, í heimskreppunni sem þá geysaði, bjó Karl í Bordeaux í Frakklandi. Þar kynninst hann færeyskum sérvitringi sem í sögunni er kallaður Sjúri (hét réttu nafni Siggert Patursson, langafabróðir bloggritara). Eitt af því sem þeir félagar taka sér fyrir hendur er stofnum alþjóðabanka. Í sögunni segir Laxness svo frá af sinni alkunnu list:
Um þessar mundir voru peníngar lokaðir inní baunkum um allan heim og ógjörníngur að ná þeim út nema fyrir þjófa; einkum var það erfitt fyrir þá sem þurftu á peníngum að halda. Þá stofnuðum við Sjúrur þar í borginni alþjóðabanka sem við nefndum Veraldarkassann. Allir vita að peníngar eru tilbúníngur. Heimurinn er líka tilbúníngur. Takmark þessa bánka var að gera alla peninga heimsins verðlausa. Myntin átti að heita Globus en var aldrei slegin. Hæst komu tíu krónur í kassann. Þetta var sem sagt rétt byrjunin, en uppúr því fór gjaldmiðli að hraka hvarvetna í heiminum. Nú er fyrirsjáanlegt að eftir sosum fimmhundruð ár verður farið að nota tölur og glerbrot fyrir penínga um allan heim eins og við krakkarnir gerðum í klínk á Seyðisfirði og í Þórshöfn þegar ég var að alast upp. Rétt á eftir var Sjúrur veikur af fjörefnaskorti. Þessi veiki lýsti sér í því að það brakaði í honum einsog gamalli mubblu. Við urðum að taka lán í bánkanum þángaðtil ekki urðu nema tvær krónur eftir. En fyrir lítið kom. Loks var mér ráðlagt að gefa Sjúra viðsmjör við brakinu og þá tæmdist heimskassinn. Síðan tóku Sameinuðu Þjóðirnar málið að sér og stofnuðu Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Ef til vill sjá einhverjir samsvörum við ástandið í dag í þessu sögubroti. Þá kann það að hugga suma að peníngar eru bara tilbúníngur.
Vill fá aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Þorsteinn Sverrisson
Nýjustu færslur
- Sparnaður í Excel en ekki í alvörunni
- Einræða Guðs um framtíð lífs á Jörðinni
- Leifur Eiríksson kemur alltaf aftur
- Taflmaðurinn
- Leitarvélar veita þjónustu
- Eitt sinn skal hver deyja
- Náttúruleg óhreinindi eru hollari en aukaefni
- Skáldfeðgar III
- Skáldfeðgar II
- Skáldfeðgar I
- Skilyrði fyrir lífi eru margþætt
- Lítil saga um verðskanna
- Fjórar vísur um sólarlagið við Faxaflóa
- Er rétt að allar auðlindir séu í þjóðareign?
- Þrúgur reiðinnar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar