Færsluflokkur: Bloggar

Skotgolf

Skotgolf2008Hér er sagt frá því þegar fjögur pör spiluðu golf á fjórum skoskum linksvöllum á fjórum dögum, 25 – 28 september á því herrans ári 2008. Ferðin var skipulögð af hjónunum Snorra Guðmundssyni og Ingu Geirsdóttir sem reka fyrirtækið Skotganga í Glasgow.  Þau bjóða bæði upp á gönguferðir, golfferðir, borgarferðir og sérsniðnar ferðir um Skotaland. Ég mæli virkinklega með þjónustu þeirra enda heppnaðist þessi ferð sérstaklega vel.

Flugvél IcelandAir seinkaði aðeins þannig að við vorum um halftima á eftir áætlun þegar við vorum komin út úr flugstöðinni.  Þar biðu okkar tveir bílar sem keyrðu okkur á The Gailes hotel þar sem við gistum.  Þetta er lítið sveitahótel, mjög þægilegt og fínt.  Hótelið sér um að keyra okkur til og frá golfvöllunum sem við spilum á.

Við vorum komin á Irvine Bogside golfvöllinn rétt fyrir bókaðan rástíma klukkan 13:30.  Höfðum ekki haft tíma til að borða og fengum því að seinka okkur aðeins meðan við fengum okkur samlokur í klúbbhúsinu. Byrjuðum síðan að spila Irvineupp úr klukkan tvö.  Þetta er gamall og rótgróinn golfklúbbur, stofnaður árið 1887!  Hér eru greinilega starkar hefðir og mikil saga undir fótum manns.  Á veggnum í andyri klúbbhússins hanga t.d. tveir skildir, á öðrum eru nöfn þeirra klúbbmeðlima sem létust í fyrri heimsstyrjöldinni, og á hinum nöfn þeirra sem létust í seinni heimsstyrjöldinni. Þarna tók á móti okkur reffilegur maður og kynnti fyrir okkur aðstæður og staðhætti.  Þetta var sérviskulegur en mjög hress karl. Fór með okkur um allt.  Lét í okkur té aðgangskóða að búningsherbergjum karla og kvenna o.s.frv. Sýndi okkur veitingastaðinn, golfvöruverlunina og sagði okkur frá vellinum. Það er greinilega lagt kapp á að taka vel á móti gestum í þessum kúbbi.  Þegar við fórum á teig kom hann með skilti sem á stóð að hérna væru gestir á ferð og aðrir ættu að taka tillit til þess.  Veðrið var frábært, glampandi sól og örugglega um 20 stiga hiti.

Irvine Bogside er nokkuð erfiður völlur, líka nokkuð óvenjulega hannaður, sennilega vegna þess hvað hann er gamall og lítið breyttur. Bara ein par 5 braut er á honum en margar par 4 brautir mjög langar, um og yfir 400 metrar. Bara ein par 3 braut er á fyrri 9 en tvær á seinni. Eins og á öðrum breskum völlum er hér mikið af djúpum sandgryfjum.  Fyrir utan brautirnar er víða djúpt lyng og kjarr þannig að það gat verið erfitt að finna bolta sem fóru út fyrir. Týndi ég þónokkrum boltum. Borðuðum um kvöldið á hótelinu þar sem er mjög góður veitingastaður. Kynnt voru úrslit dagsins. Það var spiluð útfærsla af punkrakeppni milli para.  Úrslitin voru sem hér segir:
    1. sæti: Guðmundur Ásmundsson og Jóhanna Helga Guðlaugsdóttir, 42
    2. sæti: Sigurður Skagfjörð Sigurðsson og Hrönn Greipsdóttir, 36
    3. sæti: Mattias Waage og Bryndís Fjóla Sigmundsdóttir, 30
    4. sæti: Þorsteinn Sverrisson og Hjördís Björnsdóttir, 29

glompaÁ föstudagsmorguninn ál leiðin á Kilmarnock Barassie völlinn sem er við þorpið Troon. Um fimm mínútna akstur frá Gailes. Hér var spiluð parakeppni.. Á fyrsta teig var dregið um hverjir spiluðu saman. Einnig var keppt í sérstöku "Yellow ball" móti á milli holla.  Hvort lið hafði einn gulan bolta sem spilarar skiptust á að spila með á hverri braut. Kilmarnock er einnig gamalgróinn völlur, stofnaður litlu seinna en Irvine, þ.e. árið 1887.  Hann er samt aðeins öðruvísi, hefur verið breytt meira refsar ekki eins mikið fyrir mistök. Nokkrar brautir eru þó upprunalegar, t.d. önnur, þriðja og átjánda. Ég týndi aðeins þrem boltum á þessum 18 holum en örugglega tíu á Irvine daginn áður. 

Hér eins og í Irvine er klúbbhúsið þrungið af sögu.  Meira en 120 ára gamlir listar yfir klúbbmeistara hanga uppi í klúbbhúsinu.  Mikið er af erfiðum glompum hérna, allt að mannhæðarháum sem getur verið mjög erfitt að slá upp úr, sérstaklega ef boltinn er nálægt veggnum. Á myndinni hér er ég að slá upp úr erfiðri glompu á 16 braut, boltinn var innan við fet frá brúninni, ég opnaði kylfuna mikið og þrykkti síðan af alefli undir hana. Hún skondraðist í vegginn ofarlega og þaðan upp úr glompunni til hliðar. Úrslit í dag voru sem hér segir (talið var betra skor í punktum á hverri braut) :
   1. Gummi og Bidda, 38
   2. Þorsteinn og Hrönn, 31
   3. Siggi og Hjördís, 30
   4. Matti og Helga, 29

"Yellow ball" keppnina unnu Siggi, Þorsteinn, Hrönn og Dísa.  Þau komust með boltann allan hringinn án þess að týna honum, á 107 höggum.  Hitt hollið týndi sínum strax á annari braut út í þyrnirunna.

Á laugardagsmorguninn var dálítill vindur af vestri og ekki heiðskýrt eins og dagana á undan. Við lögðum af stað á Dundonalds völlinn klukkan korter yfir tíu, áttum bókaðan rástíma klukkan ellefu.  Dundonalds er líklega besti völlurinn sem við spilum á að þessu sinni.  Hann er í eigu DunDonaldssömu aðila og eiga hinn fræga völl Loch Lomonth. Þar eru klúbbfélagar aðallega frægar stjörnur og viðskiptamógúlar.  Hann er afgirtur, þyrlur fljúga yfir hann og aðeins klúbbfélagar og gestir þeirra geta spilað þar. Loch Lomonth keypti Dundonalds til þess að auka fjölbreytni fyrir klúbbfélaga og fyrst í stað var hann líka lokaður. En svo var hann opnaður fyrir almenning til að nýta hann betur.  Eigendurnir rifu gamla klúbbhúsið og nú er í notkun þar bráðabirgðakúbbhús.  Bygging á nýju kúbbhúsi hefur tafist vegna fjármálakreppunnar.  Þetta sagðir ræsirinn okkur allt saman. Þarna er ýmislegt sem maður hefur ekki séð áður á golfvelli, skórnir eru burstaðir fyrir mann, allir fá tí og blíanta eins og þeir vilja á fyrsta teig og á áttunda teig er sími þar sem hægt er að panta veitingar eftir fyrri níu.

Þessi golfvöllur er auðvitað alveg frábær.  Hver braut er eins og listaverk. Mikið landslag, fallegt umhverfi og þú sérð aldrei neitt nema bara brautina sem þú ert að spila á.  Flatirnar voru ógurlega stórar og hraðar.  Maður var lengi að venjast þeim. Mikið er af mjög djúpum sandgryfum, þó enginn eins og djúpa gryfjan á bak við flötina á 13 braut (Hell's bunker), sem betur fer var ég of stuttur! Á síðustu brautunum fór að eins að dropa úr lofti  og stuttu eftir að við komum í klúbbhúsið kom úrhellisrigning.  Að þessu sinni spiluðu karlarnir saman í holli og konurnar sér. Keppt var í punktakeppni.  Efstu þrír voru:
  1. Helga Guðlaugsdóttir, 28
  2. Sigurður Skagfjörð Sigurðsson, 26
  3. Guðmundur Ásmundsson, 24

SveiflaÁ sunnudeginum var spilað á Troon Darley vellinum.  Hann er inni í miðju Troon þorpinu, stutt frá þeim fræga velli Royal Troon þar sem Opna Breska meistaramótið fer fram ca í sjöunda hvert skipti.  Reyndar eru óteljandi golfvellir á þessu svæði hér í kring.  Ef maður skoðar Google Earth sér maður golfvöll við golfvöll meðfram sjónum á löngum kafla. Það er greinilega mikill ferðaiðnaður í kring um þetta sport, mikið af golfhótelum og golfbúðum.  Urðum t.d. vör við marga svía.  Troon Darley er almenningsvöllur, þ.e. sveitarfélagið á hann og það er ekki sérstakur klúbbur starfræktur þar. Þetta er skemmtilegur völlur og margar mjög fallegar brautir.  Hann er samt ekki eins vel hirtur og umgjörðin ekki í sama klassa og á völlunum sem við vorum á áður. Hér náði ég mínum fyrsta fugli, sló inn á flöt á þriðju braut sem er 250 metra par fjögur.  Tvö pútt og fuglinn lá dauður.  Hollið á undan skildi eftir bikar með snafs fyrir mig!..  Úrslit dagsins voru svona:
   Matti og Bidda, 56
   Þorsteinn og Hjördís, 51
   Gummi og Helga,  46
   Siggi og Hrönn, 37

Myndir úr ferðinni eru hér.


Ráðgátan um landnám víkinga í N-Ameríku

viking_shipÞað er stórmerkilegt ef Patricia Sutherland hefur komist að því að víkingar hafi verið komnir til Norður Ameríku allt að 100 árum fyrr en almennt hefur verið talið. Það þýðir að þeir hafa verið þar nánast á sama tíma og land var numið hér. Þetta eru sterkar vísbendingarnar ef aldursgreiningin er örugg.

Reyndar má leiða líkum að þvi að einhver víkingaskip hafi í á landnámsöld hrakist til vesturheims undan veðrum og eins er möguleiki að rottur og ýmislegt dót hafi rekið þangað með timbri og í skipsflökum og síðan dreifst um.

Það vantaði bara herslumuninn á að víkingarnir næðu varanlegri fótfestu í Norður Ameríku. Ef ekki hefði kólnað skyndilega í veðri um þetta leyti hefðu þeir líklega haft nægilegan styrk til að standast árásir Skrælingja. Hefði þeim líka tekist að flytja með sér nautgripi og hross hefðu þeir fljótt náð umtalsverðu forskoti á frumbyggja sem höfðu ekki sambærileg húsdýr til dráttar og akuryrkju.  Þá kunnu víkingar einnig að smíða áhöld og vopn úr járni en ekki frumbyggjar.

Lanse_aux_MeadowsÞað er gaman að geta sér til um hverju þetta hefði breytt fyrir mannkynssöguna. Norrænir menn hefðu væntanlega stofnað ríki á borð við það sem þeir gerðu á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi.  Þ.e. stofnað alþingi, byggt kirkjur, farið að rita bækur á skinn o.s.frv.  Kólumbus hefði þá aldrei fundið Ameríku, heldur hefðu aðrir Evrópubúar smátt og smátt flust þangað í kjölfar víkinganna, en þó líklega ekki að ráði fyrr en eftir nokkur hundruð ár.  Á meðan hefðu norrænir menn með sínum dugnaði og ferðaþrá getað fjölgað sér mikið og dreifst út um allt meginland Ameríku.

Eins hefði sagan mögulega getað þróast þannig að norrænir menn hefðu einangrast í Ameríku, þ.e. ef þeir hefðu verið búnir að nema þar land varanlega, en skipaferðir við Grænland og Ísland síðan lagst af vegna kólnandi veðurfars. Þá hefðu Sigurður og Þorgerður ef til vill tekið á móti Kristófer Kólumbus 500 árum síðar og boðið í slátur og kjötsúpu.

ColumbusMargt hefur verið rætt og ritað um ferðir evrópubúa til Ameríku fyrir 1500. Fundist hafa vísbendingar um að Kristófer Kólumbus hafi komist til Íslands áður en hann lagði upp í leiðangurinn til Ameríku. Hér hefði hann aflað sér gagna og undirbúið sig fyrir leiðangurinn. 

Eins hefur því verið haldið fram að Baskneskir og Enskir sjómenn (sérstakelga frá Bristol) hafi verið farnir að stunda siglingar og veiðar á Kanadamiðum talsvert áður en Kólumbus „fann" þessa heimsálfu árið 1492. Þeir hefðu hins vegar haldið þessari vitneskju leyndri til að geta setið einir að þessari fengsælu fiskislóð. Þá hafa verið settar fram kenningar um að Ameríka hafi ekki verið skýrð eftir Americo Vespucci ritara Kólumbusar, heldur Richard Americe sem kostaði landkönnunarleiðangra Johns Cabots til Nýja Heimsins.

mbl.is Fóru víkingar fyrr til Ameríku en haldið var?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Golfsumarið 2008 (og aðeins meira um tengslanet)

GolfÉg hef notað tímann yfir æsispennandi Ryder keppninni í sjónvarpinu til að rifja aðeins upp eigin golfiðkun í sumar þar sem ég náði að spila á fleiri völlum en oft áður.  Mest að sjálfsögðu á mínum heimavelli í Úthlíð þar sem við eigum sumarbústað.  Úthlíðarvöllur hefur verið í fínu standi og aðsóknin líklega aldrei jafn mikil.  Klúbbfélagar hafa verið ánægðir og mótin ágætlega sótt. 

Veðrið í sumar var sérlega hagstætt til golfiðkunar, sérstaklega í júlí þegar flestir dagar voru sólríkir og hlýir. Mælanlegur árangur minn var þó enginn, forgjöfin hækkaði úr 20,4 í 21 enda er ég afar óstöðugur spilar!  En það er samt yfirleitt gaman að brasa í þessu.  Og andstætt því sem margir halda þá er golf ekki dýrt sport, t.d. borið saman við mótorsport, hestamennsku og fleira. Golf er líka orðið langvinsælasta almenningsíþrótt á Íslandi.

Tvo velli ætlaði að spila á árinu en er ekki búinn að því.  Þ.e. Urriðaholtsvöllinn er margir telja besta völl landsins, til stóð að fara á hann með doktor Sigurpáli en við höfum ekki fundið tíma.  Eins ætlaði ég að spila á golfvellinum í Ásatúni Hrunamannahreppi en það komst heldur ekki í verk. Hér á eftir segi ég frá nokkrum völlum sem ég hef heimsótt í sumar.

Hvaleyrarvöllur
keilirÉg spilaði Hvaleyrina snemma í vor með Dísu í Glitnismótaröðinni. Reyndar bara fyrri níu holurnar í hrauninu.  Keilisvöllurinn er einn best hirti og flottasti völlur landsins. En brautirnar þarna í hrauninu heillar mig ekkert sérstaklega og þær henta mér ekki alveg jafn villtur og óstöðugur ég er í höggunum.  Spiluðum með skemmtilegu fólki, Gylfa Árnasyni og Sigrúnu Ólafsdóttur.  Á eftir var verðlaunaafhending í klúbbskálanum.  Þar sá ég golfskó númer 39 auglýsta á korktöflunni. Einmitt stærðina sem Unnar Geir sonur minn notar og hann hafði verið að kvarta yfir því að sig vantaði skó. Ég hringdi í konuna sem hafði gefið upp símanúmerið og mælti mér mót við hana daginn eftir þar sem við Unnar mættum. Skórnir voru ónotaðir og ég keypti þá fyrir Unnar við góðu verði. Þeir höfðu verið of litlir henni.  En það merkilega (og þó kannski ekki) var að þessi kona hafði einmitt verið fararstjóri hjá okkur á Spáni fyrir nokkrum árum. Það mundi hún en ekki ég! Þegar ég sagði henni að ég hefði nýlega spilað golf í Bilbaó sagðist hún hafa búið þar um nokkurt skeið!  Þegar ég sagði henni að ég ætti bústað í Úthlíð í Biskupstungum og væri formaður í golfklúbbnum kom í ljós að systir hennar átti einnig bústað þar!!  Þetta rifja ég að gamni upp til að minna á skrif mín um tengslanet síðastliðið vor, hér og hér.

Strandarvöllur við Hellu (og Hvolsvöll)
HellaSpilaði hann í lok júní. Einn fallegan sumardag í björtu veðri á Rangárvöllunum. Það eftirminnilegasta var að ég náði yfir 300 metra teighöggi - og á miðja braut!  Þetta var á 5. braut, par 5 niður í móti með vindinn í bakinn.  Brautirnar voru grjótharðar og boltinn rúllaði vel.  Svona högg verða til þess að maður heldur áfram að nota dræverinn þó svo að annað hvert högg að eða fleiri lendi utan brautar að jafnaði.  Sannir karlmenn eiga að slá með dræver af teig ef það er löng braut framundan.  Maður slær aldrei draumahögg nema maður reyni það.  Strandarvöllurinn er gamall og gróinn með langa hefð. Mjög góður golfvöllur og vel hirtur. Falleg er fjallsýnin frá Strandarvelli, með Heklu gömlu beint framundan á mörgum brautum.

Reyndar hafa kunningar mínir frá Hvolsvelli alltaf ímugust á því að völlurinn sé yfirleitt kenndur við Hellu.  Þeir telja að Hvolsvellingar eigi ekki síður tilkall til vallarins enda hafi þeir átt að minnsta kosti jafn mikinn þátt í því að búa hann til.  Sveitarígur er alltaf skemmtilegur.

Jaðarsvöllur á Akureyri
jadarsvollurSpiluðum þarna í byrjun júlí þegar Unnar var í N1 mótaröðinni.  Ég hafði aldrei spilað þennan völl áður en oft heyrt talað um hann.  Þetta er góður völlur. Talsverðar framkvæmdir standa nú yfir, t.d. er verið að byggja upp þrjár nýjar flatir og á meðan er spilað á brautarflötum sem auðvitað er ekki eins gott.  Það sem kannski má finna að vellinum er hvað hann er víða á mýrlendi og því blautur í vætutíð. Sumstaðar eru líka gamlir skurðir sem alltaf eru til leiðinda á golfvöllum og á nokkrum brautum er slæmt röff sem hefði mátt slá betur niður. 

Fyrstu níu holurnar spiluðum við ein en á seinni níu slóust í för með okkur tveir heimamenn, íþróttakennari, og ungur sonur hans. Íþróttakennarinn fann reyndar talsvert að vellinum, fannst hirðingin ekki nógu góð.  Ég var nú ekki alveg sammála því.  Og svo ég haldi áfram að tala um tengslanet þá hafði íþróttakennarinn verið í skóla á Laugarvatni og þekkti ágætlega kunningja okkar. 

Vífilstaðavöllurinn
vifilsstadirSpiluðum hann einn góðviðrisdaginn í júlí með Jóhönnu Helgu og Gumma Ásmunds. Þetta var í fyrsta skipti sem ég spilaði nýja hlutann af vellinum, Leirdalinn. Hann kom mér á óvart. Ég hélt að brautirnar væru þrengri og erfiðari en þær eru.  Spilamennskan gekk ágætlega til að byrja með en síðan fóru að koma verri kaflar og ég réði ekki nógu vel við dræverinn. Man ekki alveg skorið en það var ekkert sérstakt.  Vífilstaðavöllurinn er mjög fínn golfvöllur enda búið að fjárfesta mikið í honum á undanförnum árum.  Hann er vel hirtur og vel gróinn.

Seinna í sumar spilaði ég Mýrina, þ.e. gamla 9 holu völlinn í byrjun september. Með Vigfúsi Erlendssyni, Torfa Rúnari Kristjánssyni og Sturlu félaga hans. Ég er að vinna með Torfa og Vigfúsi í verkefni um að koma upp nýrri útgáfu af Schengen upplýsingakefinu á Íslandi. Þetta var daginn sem handboltaliðið kom heim og þegar við vorum búnir með nokkrar brautir flaug þotan lágflug yfir völlinn ásamt gömlu áburðarvélinni Páli Sveinssyni og tveim þyrlum.  Tignarlegt var það. Við Vigfús spiluðum holukeppni á móti Torfa og Sturlu.  Það var æsispennandi, fyrir síðustu braut var jafnt, en þá náði Torfi frábæru teighöggi, aðeins nokkra metra frá pinna.  Boltinn minn endaði hins vegar í glompunni við hliðina á flötinni hægra megin. Þetta réði úrslitum. Þeir unnu síðustu holuna og þar með leikinn.  Ég þurfti því að kaupa bjórinn.

Kiðjabergsvöllurinn
kidjabergVið hjónin fórum á Kiðjabergið með Sigga Skagfjörð og Hrönn Greips síðasta sunnudaginn í júlí.  Í frábæru veðri, steikjandi hita, og það var erfitt að bera settið á bakinu upp og niður allar brekkurnar þarna.  En völlurinn er algjör perla.  Að mínu fallegasta vallarstæði nokkurs golfvallar á Íslandi. Ég hafði aldrei spilað nýja hlutann af vellinum áður, en hann kom mér á óvart.  Náttúrufegurðin og útsýnið er engu líkt, og gefur gamla hlutanum ekkert eftir. Að sjá yfir Hestvatnið, Hesteyjuna og Hestfjallið þegar komið var upp á fjórðu braut var dásamlegt. Vinarlegir ásarnir sem liggja makindalega, ilmandi lyngið, móinn, kjarrið, vatnið og beljandi jökulfljótið við fætur manns á 12. braut. Þetta gerir völlinn að einstökum unaðsreit. Skorið var svona í meðallagi, eitthvað ríflega 100 högg. En ég var meira en sáttur. Reyndar fannst mér furðu fáir að spila völlinn þennan fallega sunnudag í einstakri veðurblíðu um hásumar. Við vorum nánast ein á vellinum!

Þorlákshafnarvöllur
ThorlakshofnÉg spilaði Þorlákshafnarvöllinn með Markúsi vinnufélaga mínum síðustu vikuna í júlí, líklega þriðjudaginn fyrir verslunarmannahelgina. Þetta var enn einn hitadagurinn þessa viku. Við vorum komnir á teig upp úr klukkan eitt. Völlurinn er í mjög sérstöku umhverfi og ekki líkur neinum öðrum golfvelli á landinu.  Síðast þegar ég spilaði þarna hafði verið rigningartíð og mikið vatn í kring um brautirnar, en nú var allt þurrt og sprinklerar víða í gangi.  Vegna þess að völlurinn er allur á sandi þarf örugglega að vökva vel í þurrkatíð.

En þessi golfvöllur er mjög góður, vel hirtur og flatirnar fínar. En það er ekki gott að lenda utan brautar í sandinum og melgresinu.  Reyndar er léttara að finna bolta þarna en maður gæti haldið, melgresið er ekki þétt. En það reyndist mér samt erfitt að slá boltann upp úr því, þó manni sýndist boltinn vera auðsláanlegur endaði það oft með klámhöggi.

Öndverðarnesið
ondverdarnesÁ heitasta degi sumarsins fórum við Unnar Geir og öttum kappi við Sigurpál Scheving hjartalækni á hans heimavelli, en fjölskylda hans á fallegan sumarbústað þarna rétt hjá. Við hittum Sigurpál ásamt Hildi og krökkunum í Þrastarlundi. Þá stóð hitamælirinn í bílnum í 29 gráðum Celsíus.  Eftir að hafa fengið okkur ís lögðum við af stað.  Komum við hjá doktor Scheving til að sækja settið hans og þaðan fórum við á teig.  Unnar var orðinn nokkuð þreyttur og slappur eftir fyrri 9 holurnar og ég lánaði honum kerruna mína. Ég var hræddur um að hann fengi sólsting!  

Einum fugli náði ég, á 11. braut. Þá skálaði ég við hjartalæknirinn, og aftur var skálað eftir 18. braut þar sem hjartalæknirinn náði fugli. Maður fyllist alltaf öryggistilfinningu að spila með manni sem maður veit að getur gripið inn í ef maður dettur niður með hjartastopp. En þetta var enn einn hringurinn á ríflega 100 höggum. Margir boltar týndust í þessari ferð. Dræverinn þoldi hitann illa og ef það einhverstaðar var möguleiki að týna bolta utan brautar þá endaði teighöggið yfirleitt þar. En enn einn ógleymanlegur dagur þar sem slegin voru fleiri met í hita en golfi.

Selsvöllurinn á Efra Seli (hjá Flúðum)
SelsvollurSíðasta laugardaginn í ágúst fórum við á Selsvöllinn.  Þetta var lokamótið í Glitnismótaröðinni. Völlurinn er í minni heimabyggð, Gull-Hreppunum, sem einhver biskup kallaði svo. Þar er gott að eiga heima eins og Sr. Árni Þórarinsson prófastur sagði frá. Hann var alinn upp í Götu Hrunamannahreppi. Fyrsta bókin í æviminningum Árna sem Þórbergur Þórðarson skráði hét Fagurt mannlíf og fjallaði um uppvaxtarár hans. Árna líkaði ekki eins vel á Snæfellsnesinu þar sem hann var síðan prestur.  Önnur bókin sem fjallar um þann tíma heitir Hjá vondu fólki! 

Halldór á Seli og fjölskylda hans hafa unnið kraftaverk með því að búa til þennan völl. Dæmi um hve miklu einstalingar geta áorkað með dugnaði og eljusemi. Ég hef spilað þarna á flest sumur undanfarin ár og finnst að völlurinn sé alltaf að verða betri og betri. Mikill trjágróður er farinn að setja sterkan svip á brautirnar fyrir neðan veginn og gefur þeim hlýlegt yfirbragð.  Ég er ekki viss um að ég hafi spilað á betri flötum í sumar. Þær eru alveg frábærar og ég hef heyrt fjölmarga kylfinga hrósa þeim, bæði í sumar og undanfarin ár.  Leyndarmál Halldórs veit ég ekki en, en hvaða aðferðum sem hann beitir þá hafa þær skilað árangri.  Golfklúbburinn á Flúðum er öflugur en þó kvartaði Dóri yfir því að endurnýjun sé ekki nóg.  Finnst mér með ólíkindum að yngri íbúar á Flúðum og í nágreni skuli ekki njóta þessarar frábæru aðstöðu. Ég hvet alla kylfinga til að spila á Selsvelli - og lesa ævisögu Árna prófasts.

Bakkakotið Mosfellssveit
bakkakotVið Unnar fórum á Bakkakotið síðdegis fyrsta dag septembermánaðar.  Spiluðum með Donna bekkjarbróðir hans og Boga föður hans.  Þeir eru í klúbbnum þarna. Ég var óheppinn til að byrja með, boltinn lenti í einhverju drasli rétt fyrir utan fyrstu og þriðju braut. En svo fór að rætast úr þessu. Endaði með að ná fugli á síðustu braut. Þetta er stutt 82 metra par þrjú braut.  Tók fullt högg með SW, boltinn flaug himinhátt og lenti um tvo metra frá holunni. Svo einpúttaði ég af öryggi. Spilaði á 43 höggum samtals.  Þetta er reyndar mjög léttur völlur og brautirnar yfirleitt stuttar. Vinarlegur og dálítill sveitabragur á honum.




Kjölur í Mosfellsbæ
KjolurFórum eitt kvöldið seinni part ágústs á Kjölinn í Mosfellsbæ með Walter vinnufélaga mínum og Kristbjörgu konu hans.  Það er verið að stækka þennan völl.  Við spiluðum 14 holur. Þ.e. gamla níu holu völlinn og fimm af nýju brautunum. Nýi hlutinn verður rosalega flottur og nýja staðsetningin á klúbbhúsinu glæsileg.  Flatirnar eru mjög stórar, einhverjar þær stærstu sem maður hefur séð á íslenskum velli.  Þetta er þróunin, flatirnar alltaf að stækka.  Maður verður að fara að æfa sig í 40-50 metra púttum til að vera liðtækur í golfi.  Kjalarvöllurinn verður örugglega með flottustu 18 holu völlum á landinu, en jafnframt einn erfiðasti.  En þó völlurinn sé erfiður er hann engu að síður skemmtilegur og hefur mikinn karakter eins og sagt er um handboltamenn á góðum stundum. Spilamennskan var misjöfn eins og venjulega.  Einhver pör fékk ég þó inn á milli.


Nesvöllurinn á Seltjarnarnesi
nesvollurinnSpiluðum þarna með Sigga og Hrönn um miðjan ágúst. Holukeppni.  Siggi og Hrönn unnu fjórar holur, við þrjár og tvær féllu.  Jafnara gat það ekki verið nema jafnt væri. Ég var frekar brokkgengur, spilaði sumar brautirnar ágætlega en klúðraði öðrum. Á síðustu brautinni sagði ég við Sigga, "Ég ætla að slá inn á green". "Miðaðu þá á mastrið" sagði Siggi. Einhvernveginn tókst mér að ná frábæru teighöggi. Sló beint yfir húsið, framhjá mastrinu hægra megin og þegar við gengum upp á flötinni var boltinn bara nokkra metra frá henni. Gallinn var bara sá að það var sandgryfja á milli og pinninn mjög framarlega á flötinni. Ég náði því ekki betra skori en pari út úr þessu.  Held að ég hafi endað á 46 höggum í heildina.




Kálfatjarnavöllurinn á Vatnsleysuströndinni
Kalfatjorn_LidakeppniÉg skipulagði mót fyrir vinnufélaga mína í Kögun í byrjun september. Þátttakan var nú ekki neitt sérstök enda afleit veðurspá. Reyndar var slagviðri allan daginn í Reykjavík og sumir fóru að tala um frestun sem ég tók ekki í mál.  En viti menn, þegar við komum suður á Kálfatjarnarvöll þriðjudaginn 9. september klukkan fimm var stafalogn og úrkomulaust.  Hér hafði sem sagt gerst kraftaverk líkt og þegar Móses leiddi Ísraelsmenn gangandi þurrum fótum yfir Rauðahafið. Við kepptum þarna bæði í einstaklingskeppni og liðakeppni.  Einstaklingskeppnina vann Leirukóngurinn Haukur Ragnarsson en mér tókst einhvernvegin að sigra liðakeppnina enda með góða spilara með mér, Þorstein Má Þorsteinsson og Daða Árnason sem sjást hér á myndinni til vinstri.  Völlurinn var alveg afburðagóður þó komið væri fram á haust. Flatirnar frábærar, alveg eins og flauel, minntu mig á flatirnar á Flúðum.


Grafarholtið og Korpúlfsstaðirnir
grafarholtAuk þess að vera í Golfklúbbnum í Úthlíð er ég líka í GR. Ég hef spilað Grafarholtið nokkrum sinnum í sumar. Er ekki nama 5 mínútur að keyra þangað úr Melbænum og ég sé yfir hann úr vinnunni.  Völlurinn er alltaf sjarmerandi en mér finnst flatirnar þar alveg til skammar hjá þessum stærsta klúbbi landsins.  Það verða þeir að laga. Ef til vill ættu þeir að fá ráð hjá Halldóri á Seli um hvernig eigi að búa til og viðhalda almennilegum flötum. Og hér kemur enn ein saga um tengslanet.  Þarna voru við Hákon Óli vinur minn að spila einn góðviðrisdag í sumar með tveim konum í holli.  Eitthvað kom til tals að ég væri úr Gull-Hreppunum.  Hún sagðist þá vera góð vinkona fyrrum prestfrúarinnar í Hruna.  "Það er merkilegt sagði ég, "einmitt um síðustu helgi var ég í fjallgöngu með hundinum hennar".  Þ.e. við gengum á Högnhöfða með Sigurði Strange og fleirum, hann var að passa hund eiginkonu Sr. Halldórs Reynissonar fyrrum hrunaklerks. Konan þekkti Sigurð auðvitað vel líka.

Korpa_13_brautKorpúlfstaðavöllurinn er fínn og flatirnar miklu betri en á Grafarholtinu finnst mér.  Hef líka spilað hann nokkrum sinnum og fór m.a. á eitt mót þar þann 17. júní. Helsti gallinn er hvað það er langur gangur á milli brauta sumstaðar. Mér finnst brautirnar meðfram sjónum alltaf mjög fallegar og hef gaman að því að spila þær.  Og svo á ég auðvitað eina uppáhaldsbraut á þessum velli, braut númer 13 núna (fyrrum númer fjögur) en þar fór ég holu í höggi 29. ágúst 2002. Þetta er löng par 3 braut, eða tæplega 200 metrar. Við Dísa vorum að spila þarna með fullorðnum hjónum. Það var orðið skuggsýnt og ég sá bara að boltinn flaug vel, skondraðist yfir sandgryfjuna og inn á flötina.  Konurnar sem stóðu nær flötinni sáu boltann rúlla ofan í.  Ég trúði því ekki fyrr en ég sá það.


Að lesa minningargrein um sjálfan sig

KrossSteve Jobs er heppinn. Ég hef oft verið að hugsa um hvað það er mikil synd að þeir sem skrifað er um í minningargreinum missi af því að geta lesið um hvað þeir hafi verið dásamlegir og hvað allir hafa horft á þá með miklum aðdáunaraugum. Kannski er það stundum svo að enginn hefur lagt gott orð til mannsins þangað til hann er fallinn frá.  Þá eru allir einstök, góðmenni, hetjur, dugnaðarforkar og snillingar.

Stundum finnst mér reyndar að þeir sem skrifa minningargreinar séu að vekja meiri athygli á sjálfum sér en þeim látna.  Að þeir hafi nú þekkt þennan merkismann, unnið með honum, verið góðir vinir hans og þeir hafi nú brallað margt skemmtilegt saman.

Ég veit ekki um nokkurn Íslending sem hefur fengið að lesa minningargreinar um sjálfan sig.  Ef til vill hefur það þó einhverntíman gerst. Hvað með Hvolsvellinginn sem birtist fyrir nokkrum árum eftir að hafa verið talinn af í mörg ár?  Ég veit ekki hvort um hann voru skrifaðar minningargreinar en það kann að vera.

Kannski hefur Geir Haarde líka verið með minningargreinina sína um þann merka mann Sigurbjörn biskup tilbúna í skúffunni. Altént birist hún mjög stuttu eftir andlátsfréttina í dag. Sigurbjörn lifði það reyndar að vera hampað mjög í lifanda lífi - enda átti hann það skilið.
mbl.is Andlát Steve Jobs „stórlega ýkt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íþróttahelgi

marathon2Jæja ég hljóp maraþon í gær - eða næstum því!  10 kílómetra.  Þetta var stórskemmtilegt.  Hópurinn lagði af stað klukkan 9:30.  Maður komst hægt áfram til að byrja með, en þegar komið var upp á Suðurgötuna fór aðeins að teygjast úr þvögunni.  Ég var með þeim síðustu úr marki en skv hlaup.is var ég númer 1112 í röðinni í mark á 57:47 en mældur tími á flögunni, sem er í reynd réttur tími var 56:13.  Ef ég hefði verið í fremstu línunni af stað hefði ég endað í kring um 910 sætið.  Keppendur voru alls um 3000!

Ég hef ekki hlaupið áður með tónlist í eyrunum en núna fékk ég lánaðan ipodinn hjá Unnari syni mínum. Ég hlóð inn á hann völdum lögum með Rolling Stones, Springsteen og fleirum.  Ég er ekki frá því að það hafi gefið mér nokkurn aukakraft. Ég fékk maraþonmyndina hér til hliðar hjá Kjartani Pétri Sigurðssyni bloggvini mínum til að skreyta þennan pistil (hún er reyndar frá því í fyrra).

handballÍ morgun vöknuðum við svo fyrir átta til að horfa á gullleikinn.  Hann endaði ekki eins og maður hefði helst viljað en auðvitað er þetta frábær árangur hjá svona lítilli þjóð. Þetta er annað silfrið sem íslendingar hafa fengið í sögunnni. Auk þess höfum við fengið tvö brons.

Íslandingar monta sig gjarnan af því að þeir séu bestir miðað við höfðatölu.  Það er þó alls ekki svo með fjölda verðalaunapeninga á Olympíuleikum. Tölfræðin sýnir að margar aðrar þjóðir hafa náð mun betri árangri er við, jafnvel þó miðað sé við höfðatölu eins og sjá má hér. Þannig hafa Norðmenn fengið 145 medalíur og eru þó ekki nema um 5 milljónir talsins. Jamaíkabúar sem ég skrifaði um um daginn eru um 2,6 milljónir en eiga 53 verðlaun. Svíar eru afburða góðir íþróttamenn, hafa unnið 475 medalíur, um 9 milljónir.  Ef Íslendingar væru jafnokar Svía hefðum við unnið 16 sinnum til verðlauna á Olympíuleikum.


Reggae power - Hlaupagen Jamaíkabúa

OtteyHvernig stendur á því að lítil og fátæk smáþjóð eins og Jamaíka fóstrar alla þessa yfirburða spretthlaupara? "Reggae power" sagði Shelly-Ann Fraser eftir að hún tók við gullinu fyrir sigurinn í 100 metra hlaupinu um daginn. 

Í samanlagri sögu Ólympíuleikanna eru verðlaun Jamaíkabúa að nálgast 50 og það í sjálfum höfðuðgreinum leikanna, spretthlaupunum, þar sem samkeppnin er einna mest.

Margir frægustu spretthlauparar í sögunni eru frá Jamaíka, svo sem Herb McKenley, George Rhoden, Don Quarrie, Merlene Ottey, Veronica Campbell-Brown og núna Usain Bolt og Shelly-Ann Fraser.  Auk þess eru frægir hlaupagikkir eins og Donovan Bailey sem keppti fyrir Kanada, Linford Christie sem keppti fyrir Bretland og Sanya Richards sem nú keppir fyrir Bandaríkin öll fædd á Jamaíka.

Nú hafa rannsóknir sýnt að Vestur Afríski kynstofninn á Jamaíka inniheldur mun meira af ACTN3 genabreytileikanum en aðrar þjóðir. Einstaklingar með þessi gen hafa mjög öfluga svokallaða fast-twitch vöðva sem gefur þeim meiri sprengikraft en þeim sem hafa öðruvísi vöðvabyggingu. Bolt 

Fólk af Vestur-Afrískum uppruna er reyndar almennt skapað til að hlaupa hratt. Langflestir bestu spretthlauparar heims síðustu áratugi eiga ættir að rekja þangað. Á hinn bóginn virðast síðan Austur-Afríkubúar t.d. Kenía- og Eþíópíumenn hafa álíka yfirburði í langhlaupum. Þeir hafa að sama skapi mjög lítið af ACTN3 genabreytileikanum.

Lítið fer fyrir innfæddum spretthlaupurum Vestur-Afríku í dag.  Líklega hafa þrælasalar á fyrri öldum haft auga fyrir því að velja hæfustu einstaklingana til að flytja á plantekrur Ameríku.  Ef til vill hefur það viljað þannig til að einstaklingar með sérstaklega góða eiginleika til hlaupa hafa verið fluttir til Jamaíka.  

En það er ekki nóg að hafa þessa náðargjöf að geta hlaupið hraðar en flestir aðrir.  Skólar á Jamaíka eru sniðnir til að velja og þjálfa efnilega spretthlaupara og margir af færustu þjálfurum heims starfa þar.  Þannig koma stöðugt nýir og nýir glæsilegir hlaupara frá þessu landi. 


mbl.is Þriðja gullið hjá Bolt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirbúningur fyrir Maraþonið

Steini2006Jæja, nú ætla ég að skella mér 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis á laugardaginn. Þetta verður þá þriðja árið sem ég hleyp þessa vegalengd.  Ég er reyndar ekki langhlaupari að upplagi og var alltaf betri á sprettinum á yngri árum.

En ég er í alveg þokkalegu formi núna, skokkaði átta kílómetra áðan í Elliðaárdalnum í frábæru veðri, 15 stiga hita og sól.  Það munar líka um að ég er bara um 77 kíló en var líklega 79-80 í fyrra.  Þetta sá ég á viktinni í morgun!! Það eru örugglega nokkrar kalóríur sem þarf til að flytja tvö kíló heila 10 kílómetra.

Að þessu sinni hleyp ég til styrktar ABC barnahjálp.  Ég borga 3000 krónur sjálfur og Glitnir kemur líka Binnameð 3000 krónur í mótframlag, þ.e. 300 krónur á hvern kílómetra.  Það er gott að fjármálakreppan hefur ekki sett strik í maraþonreikninginn þeirra. Hægt er að heita á mig með því að smella hérna

Ein kona er búinn að heita á mig nú þegar, Bryndís Þóra Þórsdóttir frá Sauðárkróki. Nú lyfjafræðingur og kennari við FÁ.  Bryndís er einn besti matargerðarmaður sem ég þekki. Kann ég henni bestu þakkir fyrir og vonast til að fá fleiri framlög næstu daga.


Hvíslararnir

TheWhisperersÞað var tilviljun að ég var að einmitt að merkilega stóra bók um Rússland þegar þessi átök í Georgíu brutust út. Það er ekki oft sem maður fær í hendurnar nærri 700 blaðsíðna doðrant og les hann á skömmum tíma nánast frá orði til orðs. Ég er að tala um bókina The Whisperers eftir Orlado Figes. Ég pantaði hana á Amazon í vor ásamt fleiri álitlegum bókum og notaði lausar stundir í sumarfríinu til að berjast í gegn um hana.  Í bókinni er sagt frá lífi alennings í Sovétríkjunum á Stalínstímanum og reyndar líka nokkuð fyrir hann og eftir.  Uppistaðan í bókinni eru einskonar smásögur byggðar á endurminningum fólks sem komið hafa í dagsljósið eftir að kommúnistastjórnin leið undir lok, sem og viðtölum Figes sjálfs og hans starfsmanna við fullorðna sovéska borgara á síðustu árum.

 

Frásagnir af daglegu lífi fólks rista mun dýpra og eru átakanlegri en það sem fram kemur í fréttum og hefðbundinni sagnfræði þar sem manneskjan er oftast falin á bak við pólitík og hagstærðir. Ef maður brynjar sig fyrir þeim hræðilegu afleiðingum sem þessi þjóðfélagstilraun hafði þá er út af fyrir sig fróðlegt að sjá hvaða áhrif hún hafði á hegðun fólks. Allir voru hræddir. Hræddir við nágrana sína, samstarfsmenn, vini og jafnvel fjölskyldumeðlimi.  Fólk talaði ekki saman að nauðsynjalausu af ótta við að orð þess yrðu túlkuð sem gagnrýni á stefnu kommúnistana.  Margir reyndu að sýna sjórnvöldum tryggð sína með því að njósna um aðra og ljóstra upp um þá sem þeir töldu að væru óvinir ríkisins.

Enginn vissi hvaða nótt yrði bankað upp á og fulltrúar öryggislögreglunnar nymu þig á brott í Gúlagið. Margir höfðu ferðatöskuna tilbúna undir rúminu til að vera við öllu búnir. Foreldrar sögðu börnum sínum hvernig þau ættu að bregðast við ef bæði pabbinn og mamman yrðu sótt einhverja nóttina.

 

gulagÍ hverju byggðarlagi voru stofnuð ráð til að framfylgja stefnu flokksins.  Í því fólst að gera eigur fólks upptækar, ríkisvæða alla atvinnustarfsemi, koma á samyrkjubúskap, ráðstafa húsnæði og síðast en ekki síst senda þá sem ekki voru hliðhollir flokknum í vinnubúðirnar.  Yfirleitt völdust í þessi ráð ofstopafullir undirmálsmenn sem höfðu litla reynslu af atvinnustarfsemi en töldu sig eiga harma að hefna gagnavart einhverjum sem höfðu það betra.  Að sjálfsögðu endaði þetta allt með skelfingu.  Milljónir manna fóru á vergang og dóu úr hungri. Munaðarlaus börn fóru um í hópum betlandi. Fólk dó umvörpum af harðneskju í vinnubúðunum. Svona var ástandið á þegar íslensk skáld ortu ljóð eins og „Sovét-Ísland óskalandið, hvenær kemur þú“.

 

Sagt er frá ævintýralegum flótta fólks úr vinnubúðunum eða frá heimilum sínum þegar það skynjaði hættuna.  Sumar frásagnirnar minna á sögurnar um Fjalla-Eyvind og Höllu.  Árið 1931 flúði Aleksei Okorokov úr fangalest á leið í vinnubúðir og gekk 900 kílómetra til baka til þorpsins Ilinka þar sem hann hann átti heima.  Þegar þangað kom höfðu kona hans og tvær dætur einnig verið handteknar sendar í Narym fangabúðirnar. Aleksei gekk aftur af stað fótgangandi um 800 kílómetra leið þangað sem konu hans og börnum var haldið föngnum og einhvernvegin tókst honum að frelsa þær. Fjölskyldan var á flótta í 10 daga, þau gengu á næturnar en létu fyrir berast á daginn.  

 

gulagprisonersElleftu nóttina voru þau umkringd af lögreglu sem skaut að þeim  og Aleksei særðist í kviðarholi. Lögreglunni tókst að handtaka þau og voru þau send aftur til Narym í lest. Á leiðinni mútaði Yevdokiia kona Aleksei þorpsbúa til að gera varðmannsins ofurölvaðan þannig að þeim tækist að flýja aftur.  Þau lögðu því aftur á flótta og reyndu að komast til borgarinnar Tomsk.  Á leiðinni komu þau í þorp Kerzhaki fólks þar sem flest börn höfðu dáið úr sjúkdómi.  Þorpshöfðinginn bauð Aleksei að gefa þeim vistir og aðstoða þau við flóttann í skiptum fyrir yngri dóttirina Tamöru. Þau dvöldu í þorpinu í viku og söfnuðu kröftum.  Síðan lagði Aleksei af stað með eldri dótturina og konu sína yfirbugaða af harmi en skildi Tamöru eftir. Þau fengu með sér vistir og búnað en fóru ekki langt. Aleksei skildi konu sína og dóttur eftir í fylgsni en sneri sjálfur aftur til þorpsins. Fjórum dögum síðar kom hann til baka með Tamöru á bakinu.

 

En raunum Okorokov fjölskyldunnar var ekki lokið. Lögreglan fann þau aftur og flutti þau nú í búðir um átt kíkómetra frá Tomsk. Þar voru þau í sex mánuði. Aleksei var látinn keyra grænmetisvagn til Tomsk en Yevdokiia og dæturnar unnu með hinum föngunum.  Í Tomsk komst Aleksei í kynni við mann sem lofaði að hjálpa þeim við að flýja.  Dag nokkurn faldi Aleksei dæturnar sínar á vagninum undir kartöflupokum og ók þeim til borgarinnar þar sem vinur þeirra skaut yfir þau skjólshúsi. Fjölskyldan sameinaðist síðan þegar Yevdokiia kom til þeirra, en hún hafði flúið á sama tíma með því að stökkva upp á lestarvagn. Eftir að hafa dvalið þarna í nokkra daga fóru þau með lest til borgarinnar Kuznetsk þar sem þau settust og foreldrarnir fengu vinnu. Á þessum tíma hafði fólk möguleika á að villa á sér heimildir og jafnvel taka upp ný nöfn. 

 

stalin_gulagEftir nokkra mánuði var síðan farið að koma á skilríkjakerfinu alræmda og Aleksei freistaði þess að fara til sinnar heimaborgar Ilinka til að fá skrásetningu. Þar var hann stax handtekinn og sendur í vinnubúðir á ný.  Eftir langa hríð fékk Yevdokiia bréf frá honum. En þar sem öll bréf voru lesin af yfirvöldum óttaðist hún að það kæmist upp um verustað þeirra og flúði til borgarinnar Tashtagol þar sem skilríkjakerfið var enn ekki komið. Stuttu síðar kom Aleksei til þeirra eftir að hafa enn einu sinni tekst að flýja. Þarna héldu þau til um tíma en að lokum voru þau handtekin enn á ný árið 1934.  Eftir skrítna og tilviljunarkennda atburðarás atvikaðist það svo að þau lentu öll í sömu vinnubúðunum. Þar gátu þau búið saman við harðan kost saman í hreysi eins og aðrir fangar. Saga þessa fólks er ekki sögð lengri í bókinni en endar á tilvitnun í orð eldri dótturinnar Maríu, „After three years of living on the run, my sister and I had grown accustomed to not talking. We had learned to whisper rather than to talk“

Líka eru átakanlegar sögurnar sögurnar af endurfundum fólks þegar það slapp úr vinnubúðunum í þýðunni eftir að Krúshoff komst til valda. Í mörgum tilvikum var fólk svo skemmt andlega og líkamlega að það var ófært um að lifa eðlilegu lífi. Margar tilraunir til þess mistókust. Sumir sneru aftur í vinnubúðirnar.

 

russiansoldierLíklegt er að þessar harðneskjulegu tilraunir á lifandi fólki sem þarna fóru fram móti enn mannlíf og tilfinningar almennings í Rússlandi og öðrum löndum sem tilheyrðu Sovétríkjunum. Í næstum öld lifði fólk við aðstæður þar sem besta leiðin til að komast af var fals, illmennska og sviksemi.  Á bak við fréttirnar um átökin í Gerorgíu eru örugglega margar sögur af fólki sem ekki heyrast. Fólki sem man tíma ógnarstjórnarinnar, átti foreldra, afa eða ömmur sem urðu fórnarlömb hennar. Fólki sem tilheyrðu þjóðfélagshópum sem ekki voru þóknanlegir stjórnvöldum. Fólki sem veit hverjir sáu til þess að þeirra nánustu voru sendir í búðirnar. Fjölskyldum sem misstu hús sín og jarðir í hendur kommúnistana og sjá nýríka töffara leika sér að þeim í dag. Bæði Rússneskir stjórnmálmenn, hermennirnir og fórnarlömb þeirra, almenningur í Georgíu eru spottin upp úr þessu umhverfi.

 

Það er fróðlegt að skoða heimasíðu Orlando Figes þar sem hann segir frá gerð bókarinnar og birtir ýmislegt ítarefni.

http://www.orlandofiges.com/


mbl.is Skýr skilaboð til Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöðnun í golfinu

Við spiluðum Grafarholtið í kvöld í mjög góðu veðri.  Ég er í smá vandræðum með sveifluna, húkka mikið, sérstaklega teighöggin. Brynjar Geirsson golfkennari sagði mér að það væri vegna þess að ég kem of mikið utan á boltann í högginu.  Ég veit að það er rétt en á erfitt með að venja mig af þessu. 

Grafarholtsvöllurinn er ágætur núna.  Miklu betri en í fyrravor en þá voru sumar flatirnar mjög illa farnar. Gróandinn er óvenjumikill miðað við árstíma.  Við sáum gæs með unga við 16. teig sem ég held að hljóti að vera óvenjulegt í byrjun júni.  Eitt af því sem gerir Grafarholtið skemmtilegt eru allir fuglarnir, hér er þó ekki átt við fuglana i skorinu, amk ekki í mínu tilviki, heldur hina. Í kvöld sá ég fyrir utan gæsirnar, lóur, spóa, stokkendur, óðinshana, tjald og hrossagauk.

Ég ætla að reyna að vera duglegur að skrá inn skorið á www.golf.is núna í sumar. Eins og sést á þessu yfirliti þá er ég frekar staðnaður.  Hef verið í rúmlega 20 í mörg ár.  Ég hef heldur ekki lagt mikinn metnað í golfið en veit að ég gæti lækkað mig talsvert ef ég myndi spila aðeins meira og æfa mig.

forgjof

Six degrees of separation

handshakesÍ síðustu bloggfærslu fjallaði ég um tengslanet og hvernig ókunnugt fólk getur oftast tengt sig saman með skjótum hætti. Ég færði rök fyrir því að það væru allt að 97% líkur á því að hverjir tveir ókunnugir fullorðnir Íslendingar þekki sameiginlega þriðja mann. Auðvitað má gagnrýna þennan útreikning eins og Hreinn Stefánsson gerði í athugasemd en það breytir því ekki að margföldunaráhrifin í tengslanetum eru mikil.

Að sjálfsögðu er þetta eitthvað sem hefur verið pælt í áður. Kenningin "Six degrees of separation" var sett fram árið 1929 af Ungverska rithöfindinum Frigyes Karinthy í smásögunni "Chains" eða Hlekkir. Kenningin er sú að hverjir tveir jarðarbúar séu að jafnaði tengdir saman í gegn um aðeins fimm persónur. Þ.e. ef A og G eru tveir jarðarbúar valdir af handahófi þá sé oftast hægt að búa til svona tengslakeðju:
A þekkir B
B þekkir C
C þekkir D
D þekkir E
E þekkir F
F þekkir G

socialnetworkÝmsar tilraunir hafa verið gerðar til að rannsaka þetta. Árið 1967 gerði bandaríski félagsfræðingurinn Stanley Milgram merkilega tilraun.  Hann valdi fólk af handahófi í miðvesturríkjum og lét það hafa pakka sem það átti að senda til ókunnugs einstaklings í Massachusetts. Sendandinn fékk aðeins að vita nafn viðtakandans, starf og götuheiti. Sendandinn átti síðan að senda pakkann til einhvers sem hann þekkti og taldi líklegastan til að geta komið honum áleiðis. Sá átti síðan að gera það sama og svo koll af kolli þangað til pakkinn væri kominn í hendurnar á réttum viðtakanda.

Niðurstaðan kom nokkuð á óvart. Flestir hefðu giskað á að pakkinn væri búinn að fara í gegn um hendurnar á fleiri tugum manns áður en hann kæmist loks á áfangastað.  Reyndin var hins vegar sú að það voru að meðaltali aðeins á milli fimm og sex einstaklingar í þessari keðju.  Hér ber líka að hafa í huga að í þessari tilraun hefur örugglega ekki alltaf verið farin stysta mögulega leið.

Árið 2001 gerði Duncan Watts prófessor við Columbia háskólann sambærilega tilraun en notaði tölvupóst sem flutningseiningu.  Þ.e. tiltekinn einstaklingur fékk að vita nafn og staðsetningu á ókunnugum manni sem gat verið staðsettur í 157 löndum. Hann átti að senda þessum manni tölvupóst í gegn um þá einstaklinga sem hann var sjálfur með á tölvupóstlista. Niðurstaðan var svipuð, eftir sex sendingar að meðaltali fékk viðtakandinn tölvupóstinn í hendur. Hér má aftur gera ráð fyrir því að ekki hafi alltaf verið farin stysta leið í tengslanetinu milli þessa tveggja einstaklinga.

Auðvitað eru þessar niðurstöður ekki algildar og ofangreindar tilraunir hafa verið gagnrýndar vegna þess að í báðum tilvikum var stór hluti sendinga sem aldrei komust til skila vegna þess að fólk hirti ekki um að taka þátt og koma þeim áfram, þ.e. keðjan slitnaði.  Ekki er ólíklegt að það hafi frekar gerst þegar leiðin var löng en stutt. 

sixdegreesEngu að síður er það staðreynd að tengslakeðjur milli fólks eru miklu styttri en maður myndi í fyrstu ætla, jafnvel þó um sé að ræða mengi allra jarðarbúa.  Vissulega er maður þá að undanskilja mjög einangraða þjóðflokka eða þjóðfélagshópa.  Þá er líka rétt að hafa í huga að hér er verið að tala um fullorðið fólk sem hefur safnað reynslu og byggt upp tengs við annað fólk.  Þ.e. börn eru undanskilin. Einnig fólk sem er orðið gamalt, farið að tapa minni og einangrast.

Ef maður hugsar tengslanet út frá veldisfalli og leikur sér aðeins í excel kemst maður fljótt að því hversu mikil margföldunaráhrifin eru.  Ef við gefum okkur þá varfærnu forsendu að hver einstaklingur þekki aðeins 500 aðra og einnig að tengslanetið stækki aðeins um 5% í hverju skrefi vegna þess hversu stór hluti tenginganna eru innbyrðis þá kemur eftirfarandi í ljós.
1: A þekkir 500
2: Þeir sem þekkja einhvern sem þekkir A eru 500*500*0,05 = 1.250
3: Þeir sem þekkja einhvern sem þekkir einhvern sem þekkir A eru 1.250 * 500 * 0,05 = 312.500
4: Í fjórða skrefi erum við komin í 7,8 milljónir (312.500 * 25)
5: Í fimmta skrefi eru við komin í 195 milljónir (7,8 milljónir * 25)
6: Í sjötta skrefi þá erum við komin í tæpa 4,9 milljarða (195 milljónir * 25)

4,9 milljarðar er örugglega meira en fjöldi allra fullorðinna einstaklinga á jörðinni miðað við að heildarfjöldi jarðarbúa sé um 6,5 milljarðar. Hér erum við enn og aftur að sjá að fjöldi meðaltenginga er á milli fimm og sex.  Dæmið sýnir líka mikið bil á milli fimmta og sjötta liðar sem styður þá staðreynd að niðurstöður mismunandi tilrauna liggi einhverstaðar þar á milli.

boysÞað er gaman að velta því fyrir sér hvað hægt væri að gera ef öll tengsl fólks væru skráð í sameininlegan gagnagrunn. Þá væri hægt að reikna út á svipstundu stystu tengslaleiðir milli hvaða tveggja einstaklinga sem er. Vísir að þessu hefur þegar verið settur upp á Facebook. Þar geta notendur skráð inn vini og kunningja og síðan er hægt að finna tengslakeðju milli hvaða tveggja Facebook notenda sem er. Nú eru 4,5 milljónir manna á Facebook og furðulegt nokk þá er meðallengt tengslakeðju milli fólks 5,7.

Í raun væri hægt að gera það sama á þessu bloggsvæði hjá mbl.is. Mogginn gæti sem sagt boðið upp á þá þjónustu að leyfa hverjum bloggara að finna stystu bloggvinakeðju milli sín og annars bloggara.  Þá kæmi kannski margt fróðlegt í ljós.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þorsteinn Sverrisson

Höfundur

Þorsteinn Sverrisson
Þorsteinn Sverrisson
Tölvunarfræðingur, Árbæingur og Hrunamaður. Í Einherjaklúbbnum.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband