Færsluflokkur: Bloggar
9.5.2008 | 20:50
Hversu líklegt er að ég og þú þekkjum sama manninn
Þegar maður fer að ræða við einhvern ókunnugan kemur oftast fljótlega í ljós að báðir þekkja einhverja þriðju persónu sameiginlega. Ég hef oft undrað mig á hversu algengt þetta er og fór að velta fyrir mér hverjar líkurnar á þessu séu. Það vafðist fyrir mér að reikna það út þannig að ég lagði eftirfarandi spurningu fyrir vinnufélaga mína:
Segjum að Íslendingar séu 300.000
Hver Íslendingur þekkir 1000 manns
A og B eru Íslendingar en þekkjast ekki
Hverjar eru líkurnar á því að A og B þekki amk. einn Íslending sameiginlega?
Það er ekki alveg augljóst fyrir þá sem fást lítið við líkindareikning að finna þetta út. Þó það séu margir reikningshausar að vinna með mér þá fékk ég fá svör. Það svar sem mér finnst sennilegast er svona:
Mér reiknast til að líkurnar séu u.þ.b. 96,5%
Ég gerði þetta með því að reikna út líkurnar á að þeir þekktust ekki.A á 1000 vini, og svo byrjum við að skoða vinina hans B.
Fyrir fyrsta vinin hans B eru líkurnar 299.000/300.000 á að hann sé ekki einn af vinum A.
Fyrir næsta vinin hans B eru líkurnar 298.999/299.999 á að hann sé ekki einn af vinum A.
.
.
.Fyrir síðasta vinin hans B eru líkurnar 298.001/299.001 á að hann sé ekki einn af vinum A.
Til að að enginn af vinum A sé einn af vinum B þurfa öll þessi skilyrði að ganga upp, þ.e.
299.000/300.000 * 298.999/299.999 * ... * 298.001/299.001
Þar sem að 299.000/300.000 er nokkurn veginn sama og 298.001/299.001 þá notaði ég einfaldlega
(298.500/299.500) í 1000 asta veldi = 0,035.Það eru því 3,5% líkur á að enginn þeirra þekkist sem gerir 96,5% líkur á að einhver þekkist.
Birt án allrar ábyrgðar.
Miðað við reynslu mína þá trúi ég þessari niðurstöðu Sauðkræklingsins Þorsteins Þórssonar enda er hann þekktur fyrir að vera talnaglöggur.
Það er sem sagt aðeins í ca. fjórum af hverjum hundrað skiptum sem maður hittir einhvern nýjan Íslending sem þekkir ekki einhvern sem ég þekki líka.
Það væri gaman að heyra skoðanir blogglesenda á þessari niðurstöðu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
13.4.2008 | 17:11
Æsispennandi lokahringur í US Masters
1. Trevor Immelmann (-11 högg)
Suður Afríkubúi, fæddur 1979. Hefur aldrei unnið risamót.
2. Brandt Snedeker (-9 högg)
Bandaríkjamaður fæddur 1980. Hefur aldrei unnið risamót.
3. Steve Flesch (-8 högg)
Bandaríkjamaður, fæddur 1967. Hefur aldrei unnið risamót.
4. Paul Casey (-7)
Englendingur, fæddur 1977. Hefur aldrei unnið risamót.
5. Tiger Woods (-5)
Kóngurinn sjálfur. Hefur unnið 13 risamót. Langstigahæsti golfari í heiminum í dag og setti sér nýlega markmið um að vinna öll fjögur risamótin í ár.
6. Stewart Cink (-4)
Bandaríkjamaður, fæddur 1973. Hefur aldrei unnið risamót.
Það verður að segjast eins og er að fyrir utan Tiger er enginn í þessum hópi sem fyrirfram hefði verið talinn sérlega líklegur sigurvegari. En golf er nú einu sinni þannig íþótt að það geta allir sigrað á góðum degi og það hefur oft gerst á stórmótum. Það verður gaman að fylgjast með lokahringnum á Sýn þegar útsendingin hefst núna á eftir. Immelman er flottur golfari og ég hafði sjálfur gaman af því að sjá hann vinna. Hann er auk þess sá eini sem hefur spilað á Íslandi en hann tók þátt í pr-am golfmóti á Keilisvellinum fyrir nokkrum árum.
Immelman með tveggja högga forskot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2008 | 17:24
Mun sagan endurtaka sig ?
Er þriðja heimstyrjöldin við sjóndeildarhringinn? Þessi átök á milli múslima og annarra evrópubúa undanfarið minna um margt á árekstrana við gyðinga á árunum fyrir seinni heimstyrjöldina. Þó munu gyðingar líklega ekki hafa verið jafn herskáir og múslimar núna, en engu að síður voru þeir strangtrúaðir, sérstakir og lifðu í eigin borgarhverfum talsvert einangraðir frá öðrum.
Það er alveg ljóst að þessum átökum við múslima í vestur Evrópu er ekki lokið. Þau virðast vera að stigmagnast og sér ekki fyrir endan á þeim. Um leið og það má ekki láta múslima komast upp með að breyta okkar gildum, takmarka tjáningarfrelsi og rýra mannréttindi þá þarf að sýna þeim umburðarlyndi og gefa þeim kost á að koma undir sig fótunum. Þetta einstigi þarna á milli virðist vera mjög erfitt að þræða og báðir aðilar eiga sök á því.
Á árunum fyrir seinni heimstyrjöldina voru allir grandalausir um þá vá sem vofði yfir. Engann óraði fyrir þeim hörmungum sem áttu eftir að gerast. Getur sagan endurtekið sig? Auðvitað getur hún það. Lýðræðið er alls ekki eins sjálfgefið og við höldum. Hvað gerist ef öfga-rasistaflokkur í Danmörku, Frakklandi eða Hollandi nær meirihluta í kosningum og fer að beita múslima ofbeldi eða jafnvel hefja útrýmingu þeirra á laun, takmarka umferð um landamæri, hefta fjölmiðla og fréttaflutning, takmarka lýðræði og kosningar.
Eru hin Evrópuríkin líkleg til að grípa inn í? Nei þau myndu líklega bara sitja hjá, halda fundi, skrifa greinar og stjórnmálamenn myndu halda ræður á þjóðþingum. Við munum eftir vandræðaganginum þegar allt var í báli og brandi á Balkanskaganum fyrir nokkrum árum. Og aðgerðaleysinu þegar nasistarnir voru að hasla sér völl. Ef svona ástand skapaðist í einu landi gæti það fengið góðan tíma til að ná fótfestu og breiðst út. Kannski þangað til allt væri komið í óefni og þær evrópuþjóðir sem enn byggju við lýðræði myndu kalla á kanana aftur til að skakka leikinn.
Evrópuþjóðir verða að búa til umhverfi þannig að innflytjendur geti aðlagast og unnið sig upp úr fátækt. Eitt sem hægt er að gera er að lækka háan tekjuskatt sem bitnar mest á ungu fólki á ekkert nema metnað og dugnað. Annað er að aflétta hamlandi lögum um að fyrirtæki megi ekki segja upp starfsfólki sem leiðir til þess að fyrirtæki þora ekki að ráð fólk, og allra síst lítið menntað fóllk af erlendum uppruna. Þetta eru umdeildar reglur sem eiga að vernda þá sem eru verst settir en hafa þveröfug áhrif. Hvers vegna getur fólk af ótal trúarbrögðum og enn fleiri þjóðernum búið saman í Bandaríkjunum án hliðstæðra árekstra? Kannski er það að hluta til vegna þess að þar er auðveldara fyrir fátækt en duglegt fólk að vinna sig upp og njóta verðleika sinna.
Grafir múslíma svívirtar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
31.3.2008 | 19:48
Christopher Walken for president 2008
Bendi lesendum á vefsvæði þitt www.walken2008.com/ - Þar er hægt að kaupa t-boli og ýmsa fylgihluti til styrktar framboðinu.
Christopher Walken 65 ára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2008 | 16:21
Practice what you preach
Sjálfsagt er málefnið þarft en það fer yfirleitt betur á því að þeir sem eru að breiða út einhvern boðskap temji sér lífsstíl við hæfi og gangi á undan með góðu fordæmi.
Bent hefur verið á að Al Gore á risavillu í Belle Meade, Nashville. Á hverjum mánuði notar þessi glæsivilla meira rafmagn en meðalheimili í Bandaríkjunum á heilu ári. Á sama tíma hefur Gore hvatt landa sína til að draga úr rafmagnsnotkun.
Boðað til fundar með Al Gore | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.3.2008 | 17:01
Góðkynja og illkynja viðskiptahalli
Í sambandi við þessa frétt rifja ég upp grein sem ég las fyrir nokkru eftir Guðmund Ólafsson hagfræðing. þar segir hann að til sé bæði góðkynja og illkynja viðskiptahalli. Illkynja viðskiptahalli er t.d. þegar ríkissjóður er rekinn með miklum halla og opinberir aðilar stofna til mikillar skuldasöfnunar. Um góðkynja viðskiptahalla segir Guðmundur hins vegar:
"Öðru máli gegnir um viðskiptahalla sem kominn er til vegna þess að útlendingar eru fúsir að lána íslenskum einkafyrirtækjum. Verði hinn innlendi skuldunautur ekki gjaldfær, þá er það fyrst og fremst vandamál hins erlenda lánardrottins, sem tekið hefur á sig áhættu í íslensku atvinnulífi með slíkum lánveitingum. Raunar má segja að erlend skuldasöfnun einkafyrirtækja sé fyrst og fremst merki um góða trú útlendra fjárfesta á íslensku efnahagslífi og ætti mikill viðskiptahalli af þessum toga því að vera merki um styrka stöðu krónunnar. Jafnframt er ljóst að með erlendum lántökum eru einkafyrirtæki að flytja út áhættu, sem almennt leiðir til meiri stöðugleika og minni hættu á verðbólgu. Flestir hagfræðingar eru sammála um að viðskiptahalli og erlendar skuldir af þessu tagi séu ekki áhyggjuefni, aðalatriðið að fyrirtækin noti hið erlenda lánstraust til uppbyggilegra hluta."
Miðað við þetta er íslenski viðskiptahallinn frekar góðkynja enda eðlilegt þegar þjóðfélög eru að vaxa í efnahag og fólksfjölda að það sé viðskiptahalli. Ég heyrði líka einhverstaðar að það hefði verið stanslaus viðskiptahalli í Bandaríkjunum meira og minna í 200 ár þegar þau voru að byggjast upp.
Öll greinin er hér.
Guðmundur kenndi mér stærðfræði á Laugarvatni á árunum 1980-1984. Hann var afburða kennari og eftirminnileg persóna. Kann ég þó fáar sannanir í diffur- og tegurreikningi ennþá.
Íslandsbylgjan gæti skollið á mörgum löndum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.3.2008 | 16:45
...og Ronald Reagan var skagfirðingur !
Frægt frændfólk frambjóðenda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2008 | 12:11
Þrír bjórar, 5 léttvínsglös og 4 sterkir á viku !
Mér reiknast til að miðað við þessar tölur gæti meðal íslendingur verið að drekka á einni viku:
3 stóra bjóra,
5 léttvínsglös,
2 tvöfalda gin í tonic,
2 koníaksglös !!!
Þetta er heldur meira en maður gæti ímyndað sér. Og þó, það eru nú býsna margir sem skvetta hressilega í sig. Kannski gildir 80/20 reglan hér eins og víðar í tölfræðilegum dreifingum, þ.e. 20% af fólkinu drekkur 80% af áfenginu.
Annars er alltaf hægt að gagnrýna svona tölfræði. Hvað má gera ráð fyrir að erlendir ferðamenn og verkamenn drekki mikið hérlendis? Eru þeir ekki um 300 þúsund á ári? Það kemur reyndar á móti að Íslendingar drekka væntanlega talsvert í útlöndum líka. Svo er auðvitað ekki heldur inni í þessu vín sem Íslendingar taka með sér heim frá útlöndum og ekki það sem er bruggað í heimahúsum.
Áfengissala jókst um 7% á síðasta ári | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2008 | 19:25
Ferðasaga frá Færeyjum
Hér er síðbúin frásögn úr færeyjaferð okkar fyrir páska. Ég skrifaði þetta aðallega í ferðinni sjálfri en hef ekki getað sett þetta inn á bloggið fyrr vegna anna og stopuls netsambands.
Föstudagur 14. mars
Lögðum af stað frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 13:30. Til að losna við flugskjálftann fengum við okkur hvítvínsglas hjá Rúnari í Flugteríunni áður en farið var á loft. Rúnar var brattur og ætlaði að hitta okkur í Úthlíð um páskana. Heiðskýrt var á leiðinni austur eftir og var frábært að horfa niður á snævi þakið landið úr flugvélinni. Maður greindi stærstu ár og fjöll sem gaman var að virða fyrir sér í vetrarbúningi. Reyndum að taka myndir út um gluggann en þær heppnuðust ekki nema í meðallagi vel. Á myndinni hér til hliðar má þó greina Hvítá og Tungufljót. Lentum rúmlega 15 á flugvellinum í Vogey (Vágar) þar sem Doddi bróðir var mættur til að taka á móti okkur. Við ókum rakleitt í Kirkjubæ í gegn um nýju undirgöngin sem búið er að leggja frá yfir í Straumey.
Laugardagur 15. mars
Unnar kynntist strax frændfólki sínu í Kirkjubæ. Fjögur frændsystkini hans eru fædd á sama ári og hann 1996; Svanna Þórðardóttir, Sverrir Sjúrðarson, Elín dóttir Guðrúnar (allt systkynabörn mín) og Bergþóra dóttir Ingibjargar (dóttur föðursystir minnar). Úlvhildur dóttir Teits (bróðir Ingibjargar) er fædd í desember 1995. Auk þessara eru fjölmargir aðrir krakkar þarna í kring á svipuðum aldri. Áður en langt um leið var byrjað að spila fótbolta á Kirkjubæjar Stadium. Það er skemmtilegt mannlíf í þessu þorpi, fólk gengur inn til hvers annars án þess að banka, mætir í kaffi og talar mikið saman. Flestir eru skyldir og ættarnafnið Paturson algengt.
Fjölskyldan var á fullu að undirbúa ferminguna daginn eftir. Við komum með íslenskt hangikjöt, flatkökur og rúllutertubrauð. Ýmsir komu til að spjalla um daginn og veginn. Við hliðina á Dodda bróður býr Birna föðursystir. Maður hennar er Jóhann Henrik Poulsen, hann var áður prófessor við Fróðskaparsetrið í Færeyjum og hefur helgað líf sitt færeysku máli, verndun þess, orðasmíðum, ritstörfum og kennslu. Um morguninn var Jóhann að sækja kartöflur í eplaveltuna. Færeyingar kalla kartöflur epli (það sem við köllum epli kalla þeir súrepli) og orðið velta merkir plægt land, þ.a.l. eplavelta=kartöflugarður. Kartöflurnar sem hann tók upp í haust hafði hann grafið niður ca 20 cm og geymt þær þannig í veltunni. Aldrei frýs niður fyrir þessa dýpt þarna. Jóhann talar góða íslensku og er mikill áhugamaður um íslenskt mál. Færeyingar hafa leitað mikið til íslendinga í málvernd og hafa tekið upp mörg íslensk nýyrði svo sem bíll, sjónvarp, myndband og fleira. Eitt nýtt orð sagðist Jóhann hafa gefið íslendingum í staðin, þ.e. orðið geisladiskur sem er hugmynd sem Jóhann varpaði fram í samtali við Baldur Jónsson kollega sinn íslenskan þegar sú tækni var að ryðja sér til rúms. Endirinn var þó sá að Færeyingar notuðu sjálfir ekki það orð heldur tala þeir um flögu og hljómflögu.
Jóhann hefur þrisvar sinnum komið til Íslands með Norrænu og hjólað hálfan hringveginn, til skiptis norður og suðurleiðina. Þessar ferðir hefur hann farið á fimm ára fresti og stefnir á fjórðu ferðina næsta sumar.
Fórum um kvöldið út í Reykstofu að hjálpa til við að leggja á borð og undirbúa fermingarveisluna. Núverandi kóngsbóndi í Kirkjubæ heitir Jóannes Patursson, hann var þarna á þönum að ganga frá eftir hóp sem var að klára aðra veislu. Staðurinn er núna í hans yfirumsjón en Kirkjubær er ríkisjörð og ábúðarrétturinn gengur til elsta sonarins. Reykstofan er talin vera um 800 ára gömul, mjög merkilegt hús og kirkjan fyrir neðan er byggð 1111. Þá er kirkjumúrinn frægi þarna rétt hjá og er nýlega búið að byggja yfir hann stálbyrðing í tilraunaskyni til að athuga hvernig það virkar á steinveggina, en það þykir sæta nokkurri furðu hversu vel þeir hafa staðið óvarðir síðan á 14. öld þegar hafist var handa við að byggja kirkjuna sem aldrei var lokið við. Í framtíðinni er síðan fyrirhugað að smíða yfir múrinn varanlegra þak og loka byggingunni alveg. Búið er að gera líkan af því húsi og er það til sýnis í Reykstofunni.
Sunnudagur 16. mars - Fermingardagur Hjarnars
Vöknuðum um klukkan níu, fórum í sturtu og sparifötin. Færeyska fjölskyldan klæddi sig öll í þjóðbúning. Hjarnar fermingardrengur fékk nýjan búning í tilefni dagsins. Klukkan hálf ellefu gengum við til kirkjunnar í Kirkjubæ sem eins og áður sagði er um 900 ára gömul að stofni til, þ.e. grunnur útveggir og gluggar. Í henni er fræg altaristafla eftir Sámal Mikines sem ég hef nýlega bloggað um. Við sátum um það bil í miðri kirkjunni vinstra megin. Fyrir ofan okkur var örlítið gat ca 15x15 cm að stærð sem nú er lokað að utanverðu. Okkur var sagt að áður fyrr hefðu þeir holdsveiku þurft að hlýða á guðs orð í gegn um þetta gat, en þeim var ekki leyft að koma inn í kirkjuna.
Fermingarbörnin voru fjögur, þrír strákar og ein stelpa. Kirkjusóknin nær einnig yfir næsta þorp, Velbastað. Messan var áþekk íslenskum fermingarmessum nema ekki var almenn altarisganga. Sálmasöngur var einnig meira í anda færeyskrar söngdansahefðar, þ.e. sungið með forsöngvara án undirspils. Í færeysku sálmabókinni voru margir þýddir sálmar eftir íslensk sálmaskáld svo sem Gnúpverjann fræga Valdimar Briem.
Eftir ferminguna var gengið til Reykstofunnar. Þar var setið og spjallað góða stund en síðan hófst máltíð fyrir nánustu fjölskyldu fermingarbarnsins. Snæddur var þríréttaður matur, súpa, nautasteik og ís. Þessu var rennt niður með gosi, bjór eða rósavíni eftir því sem fólk kaus. Það er gaman að borða í þessu gamla tréhúsi og virða fyrir sér myndræna þakbitana, þrungna af margra alda sögu. Þarna er mikið af gömlum munum, myndum og ýmsum gjöfum sem staðnum hefur borist. Við fundum m.a. kaleik sem Skálholtskirkja hafði gefið Kirkjubæjarkirkju árið 1969.
Síðan fórum við aftur heim til fermingarbarnsins og tókum til við að undirbúa aðalveisluna sem er þar inni á heimilinu síðdegis. Fermingarveislur í Færeyjum eru yfirleitt mjög fjölmennar, ekki er boðið í þær en venjulega mætir í hana öll stórfjölskyldan, vinir, nágrannar og aðrir venslamenn. Búið var að setja veisluborð í stofuna og fólk fór að koma um klukkan fimm. Ekki mættu allir á sama tíma og margir stoppuðu ekki lengi, enda þurftu sumir að fara í 4-5 aðrar fermingarveislur þennan dag. Veislugestir gæddu sér á þjóðlegum mat, skerpukjöti, brauði, tertum og fiskmeti að ógleymdu hangikjötinu og flatkökunum sem Dísa gerði klárt daginn áður. Þetta kvöld komu allt í allt yfir 200 manns til að heiðra fermingabarnið. Gengum til náða um miðnætti en þá voru allir farnir heim fyrir nokkru síðan.
Mánudagur 17. mars
Færeyska vegakerfið er gott og vegalengdir stuttar. Lengsti bílvegur milli tveggja staða er aðeins um 100 kílómetrar. Eftir hádegi fórum við Dísa í ferð um norðureyjarnar. Unnar varð eftir hjá ættingjum sínum í Kirkjubæ. Síðan við ferðuðumst hér síðast hafa verið lögð göng milli Austureyjar og Borðeyjar þannig að nú er hægt að keyra til Klakksvíkur án þess að taka ferju. Þar sem göngin eru dýpst er búið að setja upp ljóslistaverk eftir Þránd Paturson; bláum, grænum og rauðum litum er varpað á gangnaveggina á þessum kafla djúpt undir Atlandshafinu. Mér finnst reyndar að í öllum neðansjávargöngum, eins og Hvalfjarðargöngunum ætti að vera merki við staðinn þar sem maður keyrir undir sjávarbotninn og síðan hvað maður er mörgum metrum undir sjávarmáli þar sem þau eru dýpst.
Við lögðum að stað um klukkan eitt og vorum komin til Klakksvíkur fyrir klukkan tvö þó við keyrðum rólega og stoppuðum af og til til að njóta útsýnisins og taka myndir. Það hafði snjóað nokkuð um nóttina og hvassir fjallatindarnir voru klæddir í hvítar húfur og sjöl. Þetta gefur byggðunum öðruvísi yfirbragð en að sumarlagi og maður gerir sér betur grein fyrir hörðum náttúruöflunum á þessum sæbröttu eyjum sem kaldar öldur norður Atlandshafsins lemja linnulaust alla daga og alla nætur.
Frá Klakksvík keyrðum við áfram norður eftir framhjá þorpi sem heitir Ánir og þaðan í gegn um tvenn jarðgöng þvert yfir Borðey. Hérna norður frá eru jarðgöngin ekki lengur tvíbreið og þeir sem aka suður þurfa að keyra út í útskot til að víkja fyrir þeim sem eru á norðurleið og eiga alltaf réttinn. Þarna fórum við yfir Hvannasund yfir í Viðey (Viðoy) sem er nyrsta eyja Færeyja. Sundið er svo mjótt að það er keyrt yfir það á landfyllingu. Borðeyjarmegin við sundið er þorpið Norðdepil en Viðeyjarmegin heitir byggðin Hvannasund. Þótti okkur merkilegt að þarna í Norðdepli er eini staðurinn sem við sáum götuljós utan Þórshafnar. En hvað um það, áfram héldum við og alla leið til þorps nyrst á Viðey sem heitir Viðareiði, það stendur á láglendiskafla sem liggur þvert yfir þessa annars brattlendu eyju. Viðareiði er stórkostlegur staður, nyrsta byggð í Færeyjum. Fyrir ofan þorpið er hæsta fuglabjarg heimsins, yfir 700 metra hátt. Kirkjan stendur úti á bjargbrúninni á vinstri hönd þegar þú ekur inn í bæinn. Mörg húsin hérna eru eins og víðar á þessum slóðum lítil og sérkennileg, af mörgum gerðum og máluð í ýmsum litum, milli þeirra eru þröngar og kræklóttar götur, hlaðnir veggir og girðingar þar sem sauðfé er á beit. Austanvert á eiðinu er stórkostleg útsýn yfir í Fugley og Skúfey.
Það er reyndar einkennandi fyrir Færeyjar hversu sauðfé er áberandi og má því segja að þær beri með sóma réttnefnið. Inni í flestum þorpum er sauðfé á beit og það sést jafnvel inni í Þórshöfn. Eins gengur sauðfé gjarnan sjálfala allt árið og á sumrin er það víða haft á beit í björgum og bröttum fjallshlíðum. Varla er færeyska féð ræktarlegt í augum íslenskra sauðfjárbænda, háfætt og stórbeinótt. Flestar kindur bera aðeins einu lambi. En líklega er þetta einmitt stofn sem hentar best fyrir aðstæður þarna. Algengt er að þorpsbúar t.d. í Þórshöfn eigi nokkrar kindur í afskekktari byggðum. Á haustin er farið í smalamennskur og fé slagtað í heimahúsum. Kjötið er mest verkað til heimbrúks og m.a. búið til skerpukjöt. Í flestum húsum eru hjallar til að þurrka kjöt og fisk. Ekki fannst mér skerpukjöt gott í fyrstu en núna er ég farinn að borða það með bestu lyst. Færeyingar hafa sloppið við reglugerðarhelsið og ofstjórnina sem Íslendingar hafa lent í varðandi sauðfjárrækt og heimaslátrun. Sauðfjárhald er því ennþá virkur þáttur í menningu allra eyjaskeggja og samofið mannlífinu.
Við skoðuðum okkur vel um í Viðareiði og héldum svo til baka. Lofuðum okkur að koma aftur þarna síðar og gefa okkur tíma til að ganga um svæðið. Ákváðum á bakaleiðinni að keyra út í Konueyju (Kunoy) sem er einnig tengd við Borðey með landfyllingu yfir Haraldarsund. Þar fórum við þvert í gegn um eyjuna um löng göng og síðan upp með vesturhlutanum í eina þorp eyjunnar og ber það sama nafn. Þorpið stendur á smá láglendisparti undir skálarlaga hamrabelti sem var hvítt af snjó og ís. Mjög sérstakur og heillandi staður í umhverfi sem manni finnst varla vera byggilegt. Útsýnin yfir í næstu eyju, Karlsey, er líka stórbrotin. Þangað er aðeins hægt að komast með ferju en síðan er hægt að keyra í gegn um nokkur göng eftir henni endilangri milli nokkurra smáþorpa sem hafa verið byggð nánast á hverri láglendisbrík þar sem hægt er að ímynda sér að hægt sé að láta hús standa án þess að það velti.
Að þessu sinni höfðum við ekki tíma til að fara út í Karlsey enda aðeins farið að skyggja. Héldum því heim á leið sömu leið að mestu, tókum þó smá krók inn í Fuglafjörð sem er nokkuð stór útgerðarbær á Austurey. Þar fannst manni húsakostur og bæjarbragur bera þess merki að fjárhagur fólks væri betri en víða annars staðar. Margt þarna minnti á íslensk útgerðarþorp.
Komum til baka í Kirkjubæ um klukkan átta. Þá voru ennþá veislugestir í húsinu, t.d. frændfólk mitt Ingibjörg, Hjördís, Hjörtur og Teitur börn Birnu móðursystur.
Við höfum nú heimsótt níu af þeim átján eyjum sem sagðar eru mynda Færeyja. Þær sem við eigum eftir að fara til eru Suðurey, Litli Dímon, Stóri Dímon, Sandey, Mikines, Nólsey, Karlsey, Skúfey og Fugley. Hægt er að ferðast út í allar þessar eyjar með bílferju eða þyrlu nema Litla Dímons sem reyndar er hálfgert svindl að telja með þar sem hún er afar lítil og óbyggileg.
Þriðjudagur 18. mars
Í dag förum við til Vestmanna í afmæli hjá Brandi syni Bjargar systur minnar. Hún á þrjá unga stráka, Eyði, Brand og Hanus. Maður hennar heitir John (sem er gamalt færeyskt nafn!) og er handboltamaður enda Vestmannabúar frægir handboltamenn í Færeyjum. Þarna var heilmikil veisla og Unnar fór með fjölda annarra krakka á sparkvöllinn í þorpinu þar sem keppt var í fótbolta. Guðrún systir mín var þarna einnig með krakkana sína Havar og Elsu.
Vestmanna er nokkuð stór byggð og þar er talsverð útgerð. Áður en göngin milli Vogeyjar og Straumeyjar voru gerð, voru allir flugfarþegar til og frá Færeyjum ferjaðir hingað yfir Vestmannasund. Á leiðinni til baka keyrðum við upp á útsýnisstað fyrir ofan Norðradal þar sem við tókum nokkrar myndir. Um kvöldið fengum við dýrindis svínasteik hjá Elsu húsmóðir í Kirkjubæ, konu pápa. Þar mættu líka Birna föðursystir og Jóhann Henrik maður hennar sem áður var getið.
Strax fyrsta kvöldið fann ég í bókahillunni hjá Dodda merkilega bók sem ég er búinn að vera að lesa fyrir svefninn og þegar tóm gefst. Hún heitir Ferðin til Síberíu" eftir Siggert Paturson, bróður Jóannesar Patursonar kóngsbónda og stjórnmálamanns, langafa okkar. Hann var fæddur 1869 og aðeins tvítugur að aldri fór hann einsamall í ferð til Síberíu þar sem hann þvældist um í tvö ár meðal veiðimanna og frumbyggja. Komst m.a. næstum því alla leið til Novaya Zemlya en varð að snúa við vegna ísreks. Eins og gefur að skilja lenti hann í ýmsum ævintýrum sem hann segir skemmtilega frá. Siggert varð mjög frægur af þessari ferð sinni, bæði í Færeyjum, Danmörku og víðar í Evrópu. Auk þess að gefa út ferðabókina hélt hann fyrirlestra víða og kynnti menningu og náttúrufar Síberíu með ýmsum hætti.
Siggert þvældist síðar víða um heim. Hann varð á endanum þjóðsagnapersóna og lífskúnstner sem stóð fyrir fyrir ýmsum furðulegum uppátækjum, m.a. í slagtogi við íslensk-færeyskan mann Karl Einarsson Dunganon, en um þessa kumpána er t.d. fjallað í Corda Atlantica, stórskemmtilegri smásögu Halldórs Laxness í Sjö stafa kverinu (Siggert er þar kallaður Sjúrur). Þá skrifaði Björns Th. Björnssonar leikritið Dunganon um Karl þennan og kemur Siggert fyrir í því. Meðal uppátækja þeirra félaga var stofnun Veraldarbankans, en markmið hans var að gera alla aðra banka heimsins gjaldþrota. Það tókst reyndar ekki en allir fjármunir bankans komust fyrir í einum vindlakassa. Bankinn hafði höfuðstöðvar á eyjunni St. Kilda sem er lítill óbyggður klettur út í miðju Atlandshafi, Karl Dunganon lýsti þessa eyju" sjálfstætt ríki og kallaði sig hertogann af St. Kilda. Karl bjó m.a. til þjóðfána ríkisins og gaf út frímerki í nafni þess.
Miðvikudagur 19. mars
Færeyjar hafa verið byggðar jafn lengi og Ísland og hérna settist að sama fólkið og flutti til Íslands í kring um árið 900. Sumir segja að víkingarnir hafi hent þeim sjóveiku hér í land á leiðinni til Íslands. Það finnst Færeyingum ekki fyndið enda telja þeir sig með bestu sjómönnum í heimi. Þótt eyjarnar séu hrjóstrugar og ekki búsældarlegar á okkar mælikvarða, hafa íbúarnir ekki lent í sömu hallærum og plágum og við frónbúar frændur þeirra. Líklega hefur þar munað mestu um að þeir hafa alltaf átt betra með sjósókn og samgöngur við eyjarnar hafa líklega verið betri en til Íslands þannig að þeir hafa ekki verið uppiskroppa með aðföng og veiðarfæri. Þá hafa þeir auðvitað sloppið við eldgos og afleiðingar þeirra auk þess sem vissulega munar talsvert um að þær liggja sunnar og hitastig er að meðaltali hærra þrátt fyrir rigningatíð.
Við fórum til baka heim til Íslands frá flugvellinum á Vogey (Vágar) um morguninn. Höfðum dvalið í góðu yfirlæti hjá Þórði og Kötu síðan á föstudag. Myndin hér til hliðar er af húsinu þeirra. Á flugmiðanum okkur (eða tölvupóstinum) stóð að brottför væri klukkan 11:30 en þegar við athuguðum þetta á netinu var brottför skráð klukkan 11:00. Við drifum okkur því af stað og tókst að vera komin á tilsettum tíma. Síðan kom reyndar í ljós að fleiri höfðu verið með rangar upplýsingar og gerðu ráð fyrir flugi 11:30, þannig að vélin fór ekki í loftið fyrr en þá.
Flugið til Reykjavíkur tekur um einn og hálfan tíma. Lentum í Reykjavík um klukkan eitt eftir skemmtilega daga hjá frændfólki í Fjáreyjum.
Fleiri myndir úr ferðinni eru hér.
Nokkrar fróðlegar vefslóðir um Færeyjar:
http://solberg.smugmug.com/ Frábærar myndir
http://www.visit-faroeislands.com/ Góð almenn upplýsingasíða
http://www.faroeislands.com/
http://www.patursson.fo/jp/index.php?id=46 Kirkjubær
http://www.koltur.com/bp/index.php Koltur þar sem Björn Paturson rekur ferðamannabúgarð
http://www.faereyjaferdir.is/
http://www.mykines.fo/
http://www.hotelnord.fo/pages/fo.php Hótelið í Viðareiði
http://www.sightseeing.fo/
http://www.kunning.fo/
http://www.visitsandoy.fo/Index.asp?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.3.2008 | 21:41
Þunglamalegt kerfi við gerð námssamninga
Ágúst Flóki sonur minn er að læra pípulagnir, byrjaði á samning hjá meistara á síðasta ári og stendur sig vel. Hann er núna að ganga frá pappírunum í kring um þetta. Það er stofnun sem heitir IÐAN Fræðslusetur sem hefur umsjón með gerð þessara samninga. Ég hef aðstoðað hann aðeins við pappírsvinnuna þar sem það er ekki hans sterka hlið! Það hefur komið mér á óvart hvað þetta er þunglamalegt og tímafrekt kerfi. En ferlið er svona:
1. Fyrst þarf að skila inn umsókn um gerð námssamnings.
1a. Sækja þarf eyðublað á vef Fræðslusetursins og fylla það út.
1b. Meistarinn þarf að skrifa á umsóknina
1c. Fá þarf yfirlit frá lífeyrissjóði síðustu 6 mánuði
1d. Fá þarf stimplað blað með námsferli frá Iðnskólanum
1e. Fara þarf með allt þetta til Fræðslusetursins (ég talaði reyndar við ágæta konu þar sem leyfði mér að senda þessi skjöl skönnuð í tölvupósti en hún sagði að það væri ekki venjan)
2. Síðan núna eftir ca tvo mánuði fær Ágúst samningseyðublöð í fjórriti sem hann þarf að fylla út.
2a. Hann þarf að fylla öll eyðublöðin fjögur út á sama hátt
2b. Hann þarf að láta meistarann skrifa AFTUR á ÖLL FJÖGUR blöðin
2c. Hann þarf AFTUR að fá stimpil frá skólanum á ÖLL FJÖGUR blöðin
2d. Hann þarf að fara í Menntamálaráðuneytið og láta þá stimpla á ÖLL FJÖGUR blöðin.
2e. Hann þarf að senda eitt eintak til skólans
2f. Hann þarf að senda eitt eintak til Menntamálaráðuneytisins
2g. han þarf að fara með eitt eintak til Fræðslusetursins
2h. Hann þarf að fara með eitt eintakið til meistarans - sem er kannski auðvelt þar sem hann vinnur hjá honum. (Hann fer með það krumpað í rassvasanum ef ég þekki hann rétt og kannski sleppur það við þvottavélina næst þegar buxurnar lenda í henni )
Ég bara spyr, er ekki hægt að gera þetta kerfi eitthvað einfaldara og skilvirkara ?
Bloggar | Breytt 12.3.2008 kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Þorsteinn Sverrisson
Nýjustu færslur
- Sparnaður í Excel en ekki í alvörunni
- Einræða Guðs um framtíð lífs á Jörðinni
- Leifur Eiríksson kemur alltaf aftur
- Taflmaðurinn
- Leitarvélar veita þjónustu
- Eitt sinn skal hver deyja
- Náttúruleg óhreinindi eru hollari en aukaefni
- Skáldfeðgar III
- Skáldfeðgar II
- Skáldfeðgar I
- Skilyrði fyrir lífi eru margþætt
- Lítil saga um verðskanna
- Fjórar vísur um sólarlagið við Faxaflóa
- Er rétt að allar auðlindir séu í þjóðareign?
- Þrúgur reiðinnar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar