Færsluflokkur: Bloggar

Með mömmu á tíræðisaldri í kosningabaráttu

RobertaMcCainÞetta hefur allt þróast öðruvísi en maður bjóst við.  Ég hélt fyrirfram að Giuliani myndi koma sterkari inn í þessa baráttu eftir alla þá viðurkenningu sem hann hlaut sem borgarstjóri NY í árásunum á tvíburaturnana 9/11.  John McCain hefur verið að stögla í frambjóðendaprófkjörum ótal sinnum og er auk þess orðinn vel við aldur. Ég hefði haldið að fólk væri þreytt á honum.  En þetta er alltaf reffilegur karl og kemur vel fyrir.  Hann á auk þess að baki merkilega sögu og lífsreynslu sem aflar honum örugglega virðingar.

Ég heyrði um daginn að móðir hans Roberta McCain tekur virkan þátt í kosningabaráttunni.  Hún er 95 ára gömul og eldspræk. John vísar gjarnan til mömmu sinnar þegar hann er spurður út í aldur sinn.  Nýlega var sú gamla á ferðalagi í París.  Hún vildi leigja bíl en fékk það ekki vegna aldurs.  Þá gerði hún sér lítið fyrir, keypti sjálf bíl og keyrði um allt.
mbl.is Schwarzenegger styður McCain
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta ekki allt sprungið í tætlur núna ?

Það vakti athygli mína í þessari frétt að sagt er "OJ287, er í öruggri fjarlægð frá okkar sólkerfi eða í 3,5 milljarða ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu krabbanum"

Þ.e. þegar við horfum á þetta svarthol frá jörðinni núna sjáum við það eins og það var fyrir meira en 3,5 milljörðum ára.

Síðan er talið að annað svarthol muni rekast á þetta og valda gífurlegri sprengingu og sagt, "Ég þori ekki einu sinni að hugsa um það. Þetta verður ótrúlega öflug sprenging. Sem betur fer verður hún ekki á okkar tíð heldur eftir 10-20 þúsund ár"

Hefur þessi sprenging þá ekki fyrir löngu átt sér stað? Við sjáum hana bara ekki fyrr en eftir einhverja milljarða ára?

En tíminn er afstæður !!
mbl.is Gríðarstórt svarthol fundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju fá Reykvíkingar ekki Gunnar I Birgisson ?

GunnarIAf hverju semjum við ekki við Gunnar I Birgisson um að taka að sér að vera borgarstjóri í Reykjavík? Ég hugsa að hann gæti bara tekið það með vinstri með Kópavoginum. Ef Gunnar væri búin að vera borgarstjóri í Reykjavík jafn lengi og í Kópavogi væri:

  • fyrir löngu búið að leggja þessa Sundabraut,
  • gömul hús annað hvort rifin eða gerð myndarlega upp,
  • ekki þörf á að flytja í önnur sveitarfélög til að fá lóðir,
  • ekki bannað að selja bjór úr kælumí Austurstræti,
  • saklausu ráðstefnufólki ekki bannað að gista á hótelum bæjarins 
  • o.s.frv. o.s.frv...

mbl.is Ólafur tekur við lyklum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftir veturinn kemur vor

Hlutabréf á NYSE eru að verða mjög ódýr mæld á P/E mælikvarðann. Það er hægt að finna fyrirtæki með mjög fína arðsemi eiginfjár, mikinn vöxt og hátt EBIDTA með P/E um eða undir 10.  Jafnvel fyrirtæki sem eru með góða eiginfjárstöðu og því mikið til óháð lánsfjármagni.  Það er mikil fjármunamyndun í heiminum í dag, í Kína, Indlandi, Suður Ameríku, Arabalöndunum, Austur Evrópu og víðar. Fyrr en síðar kemur að því að menn fara að fjárfesta fyrir þessa peninga. Spái því að það verði mjög mikið ris á mörkuðum loks þegar þeir taka við sér, en fyrst verða örugglega nokkrar spastískar sveiflur upp og niður.
mbl.is Miklar sveiflur á mörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er tann stundin komin til handa

JoannesPatursonJóannes Paturson í Kirkjubæ langabbi minn hefði líklega orðið glaður að heyra þessar fréttir.  Hann var einlægur sjálfstæðissinni og mikill baráttumaður fyrir færeyskri tungu og menningu.  Á jólafundi þjóðfrelsissinna í Þórshöfn 1888 flutti hann frumort ljóð, 22 ára gamall.  Þetta ljóð hefur síðan gjarnan verið tengt við baráttu Færeyinga fyrir sjálfstæði.  Það byrjar svona....

Nú er tann stundin komin til handa
á hesum landi,
at vit skulu taka lógvatak saman
máli til frama.


mbl.is Þjóðveldisflokkurinn stærstur í Færeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasti séns að gera stríðshetju að forseta

John McCain barðist í Víetnam, var skotin niður í flugvél, slasaðist illa, var nærri druknaður þegar fallhlífin hans lenti í vatni, var síðan hnepptur í fangelsi þar sem hann var pyntaður illa. Um þetta má lesa hér.

Það hljóta að vera töggur í þessum manni.  Hann er fæddur 1936 og því orðin 68 ára gamall og þremur árum betur! Þetta reiknaði ég rangt í gær og var bent á það og leiðréttist hér með

Ronald Reagan var 70 ára þegar hann var kjörinn forseti og sat í átta ár.
mbl.is McCain með forskot í Suður-Karólínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur íslenskur landbúnaður orðið stóriðja ?

angusGetur verið að landbúnaður, þessi öskubuska íslensks atvinnulífs, eigi eftir að rísa upp úr öskustónni á næstu arum, slíta af sér fjötra kvótakerfis og ofstjórnar og spretta út í ljósið eins og fangi sem hefur verið járnaður í dýflissu ?

Eiga Íslendingar sem nú eru að vaxa úr grasi eftir að sjá þúsund kúa fjós á Suðurlandi, gullna kornakra bylgjast í haustgolunni á gervöllum söndum Skaftafellssýslna og hjarðir holdanauta á rása í beitarhólfum á Möðrudalsöræfum?

Ef hlýnandi veðurfar og tækniframfarir leggjast á árarnar með hækkandi verði á landbúnaðarvörum gætu skapast mikil tækifæri fyrir íslenska bændur á næstu áratugum. 

foodindexVísitala fæðuverðs tók stökk á síðasta ári. Síðan í vor hefur verð á hveiti tvöfaldast og hækkað um 60% á maís. Í kjölfarið hafa kjötvörur og mjólk einnig hækkað. Ástæðurnar eru annarsvegar aukinn hagvöxtur og kaupgeta almennings í Indlandi, Kína og öðrum þróunarlöndum og hinsvegar stóraukin notkun á korni til framleiðslu á etanoli sem notað er sem eldsneyti í stað jarðolíu. Nú fer um þriðjungur  af maís sem framleiddur er í USA til framleiðslu etanols. Meðal kínverji borðar í dag yfir 50 kg af kjöti á ári en lét sér nægja 20 kg fyrir tveim áratugum. Ég veit ekki hvort þeir borða ennþá hunda :)

Því er spáð að þessu þróun eigi eftir að halda áfram. Land er takmörkuð auðlind og stöðugt þrautnýttara. Mest af ónýttu ræktanlegu landi í heiminum í dag er talið vera í Súdan, Kazakhstan og Brasilíu – en þessum svæðum stendur reyndar öllum ógn af hlýnandi veðurfari. Á hinn bóginn lítur út fyrir að Frónbúar eigi eftir að njóta ávinnings af hækkandi hita á jörðinni. Það gæti leitt til þess að á okkar stórum landflæmum sem nú eru lítið eða ekkert nýtt verði í framtíðinni bleikir akrar og slegin tún, líkt og á landnámsöld, þegar veðurfar var mun hlýrra en núna og landnemar ræktuðu korn án tilbúins áburðar og díselknúinna vinnuvéla.

Annað sem við eigum umfram aðra er nánast ótakmarkað vatn.  Í miðríkum Bandaríkjanna er vatn orðin einn mest takmarkandi þáttur í landbúnaði.  Búið er að setja stífa kvóta á uppdælingu vatns til þess að grunnvatnsstaðan lækki ekki niður fyrir hættumörk, en sumir telja reyndar að svo sé nú þegar.  Vatnsmiðlun úr ám er einnig takmörkunum háð og kosnaðarsöm. Á meðan renna milljónir tonna af íslensku ferskvatni til hafs á hverri mínútu.
john_deere_8030
Enn ein birtingarmynd þessara aðstæðna er að verðmæti fyrirtækja sem framleiða landbúnaðarvörur og aðföng fyrir landbúnað hefur aukist mikið. Hlutabréf fyrirtækja sem framleiða gamla kunningja eins og John Deere, Massey Ferguson, Fahr og Deutz hafa rokið upp eins og rakettur síðustu misseri. Verða Sláturfélag Suðurlands og Mjólkurbú Flóamanna skráð á Nasdaq þegar fram líða stundir?


Um opinberar ráðningar

Mikið er rætt um opinberar stöðuveitingar ráðherra þessa dagana.  Þetta hefur reyndar verið stöðugt umræðuefni í þjóðfélaginu síðan ég man eftir mér.  Ég ætla ekki að leggja mat á þessi mál sem nú ber hæst en langar til þó til að benda á eftirfarandi:

Margir virðast líta þannig á að þegar valinn er maður í mikilvægt opinbert embætti eigi að vera hægt að reikna það út næstum eins og stærðfræðiformúlu hver sé hæfastur.  Þ.e. sett er inn í jöfnuna prófgráða, einkunnir, starfsaldur, lífaldur, fyrri störf, greinaskrif o.þ.h.  Sá sem skorar hæst er hæfastur.

Ég hef stundað stjórnunarstarf lengi og oft komið að ráðningu sérhæfra starfsmanna.  Þegar maður þarf að velja einstakling úr hópi fólks sem hefur allt ákveðna grunnmenntun og grunnreynslu þá skipta mannlegir þættir eins og dugnaður, jákvæðni, samskiptahæfni, glaðlyndi og samviskusemi oftast meira máli en menntun og reynsla.  Mér sýnist á umræðunni að þessir þættir eigi ekkert að vega þegar ráðið er í opinberar stöður.

Svo er annað.  Er það rétt að embættismenn velji nýja embættismenn?  Að "kerfið" viðhaldi sjálfu sér og lifi sjálfstæðu lífi? Mér finnst það einn helsti lýðræðishalli á Íslandi í dag að "fólk í kerfinu" - þó það sé oft ágætt - ræður meiru um opinbera stjórnsýslu en kjörnir fulltrúar.  Er ekki betra að kjörnir fulltrúar skipi bara í opinberar stöður án ráða einhverra matsnefnda og leggi svo verk sín í mat kjósenda á fjögra ára fresti. Það er þá ekkert að því að þeir skipi fólk sem hefur sömu viðhorf og hugsjónir, enda standa þær væntanlega fyrir þær skoðanir sem kjósendur aðhyllast, amk. til langs tíma litið.
mbl.is Segir rangfærslur í yfirlýsingu Árna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru dýrgripir Musterisriddaranna faldir í Hrunamannahreppi ?

LoftVestanÁ 23. fundi hreppsnefndar Hrunamannahrepps var veitt leyfi til þess að leita að dýrgripum Musterisriddaranna í svonefndum Skipholtskrók, lengst inn á Hrunamannaafrétti.  Ítalinn Giancario Gianazza hefur stundað viðamiklar rannsóknir á málinu um nokkra hríð og útskýrir hugmyndir sínar m.a. í bókinni I custodi del messaggio.

Musterisriddararnir var munkaregla, stofnuð um 1118, kennd við musteri Salómons konungs í Jerúsalem þar sem voru þeirra höfuðstöðvar. Riddararnir höfðu m.a. það hlutverk að gæta ýmissa dýrgripa kristinna manna svo sem Kaleiksins helga sem Jesú drakk úr í síðustu kvöldmáltíðinni. Um 1300 var reglan upprætt af Páfa og Frakkakonungi og eigur hennar gerðar upptækar.

Þrálátar sögur hafa síðan gengið um að hluti reglubræðranna hafi starfað áfram með leynd og viðhaldið reglunni með því að velja inn í hana nýja og nýja félaga, jafnvel til dagsins í dag. Því hefur verið haldið fram að ýmsir frægir vísindamenn og listamenn miðalda hafi verið í þessum hópi. Frægar bækur hafa verið skrifaðar um þessa arfsögn, m.a. The Da Vincy Code og The Dante Club.

LastSupperGianazza telur að í ýmsum frægum listaverkum séu fólgnar vísbendingar um að dýrgripir Musterisriddara séu faldir á miðju Íslandi.  Aðallega styðst hann við vísbendingar úr Gleðileik Dantes auk þess sem hann telur að kort af Skipholtskrók sé falið í hinu fræga málverki Leonardos Da Vinci af síðustu kvöldmáltíðinni.  Hægt er að lesa greinagóðar útskýringar á málinu á heimasíðu Gísla Ólafs Péturssonar, hér.

Þá telur Þórarinn Þórarisson arkitekt að í Sturlungu séu vísbendingar um að Snorri Sturluson hafi aðstoðað Musterisriddarana við að koma dýrgripunum fyrir hér á landi. Ef til vill hefur Snorri sjálfur verið Musterisriddari!  Ég er samt að velta fyrir mér hvernig þetta passar því Snorri deyr 1241, þ.e. áður en ofsóknir á hendur reglunni hefjast.

Þórarinn og Ginazza hafa farið í tvær vettvangsferðir en nú í sumar stendur sem sagt til að grafa tveggja metra djúpan skurð á svæðinu og leita að grafarhverfingu með jarðsjá.

Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með þessu verkefni og vonandi fáum við fréttir af því næsta sumar.

Jólastemming í sveitinni

Mikið er gaman að fá svona jólasnjó eftir rigningarnar síðustu vikur.  Við fórum austur í Úthlíð í gærkvöldi og í morgun tók ég nokkrar myndir. 

DSC02981
Kofinn okkar var á kafi í snjó og það þurfti að moka frá hurðinni.


DSC02959
Það var ró yfir kirkjunni en það verður líklega meira líf í jólamessunni á morgun.

 
DSC02971
Yfir golfvellinum var þykkur snjór sem er gott og vonandi helst hann sem lengst því það er gott fyrir gróðurinn. Séð vestur eftir fimmtu braut.


DSC02974
Það voru ekki margir á tjaldstæðunum


DSC02976
.... og ekki fleiri í sundlauginni


DSC02964
Hrossunum fannst gott að fá rúllur enda nærri hagbönn


DSC02982
Jesúbarnið var ekki í fjárhúsinu en þar eiga nú heima 40 lömb sem komu frá Hofi í Öræfum í haust



« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þorsteinn Sverrisson

Höfundur

Þorsteinn Sverrisson
Þorsteinn Sverrisson
Tölvunarfræðingur, Árbæingur og Hrunamaður. Í Einherjaklúbbnum.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband