Hvíslararnir

TheWhisperersÞað var tilviljun að ég var að einmitt að merkilega stóra bók um Rússland þegar þessi átök í Georgíu brutust út. Það er ekki oft sem maður fær í hendurnar nærri 700 blaðsíðna doðrant og les hann á skömmum tíma nánast frá orði til orðs. Ég er að tala um bókina The Whisperers eftir Orlado Figes. Ég pantaði hana á Amazon í vor ásamt fleiri álitlegum bókum og notaði lausar stundir í sumarfríinu til að berjast í gegn um hana.  Í bókinni er sagt frá lífi alennings í Sovétríkjunum á Stalínstímanum og reyndar líka nokkuð fyrir hann og eftir.  Uppistaðan í bókinni eru einskonar smásögur byggðar á endurminningum fólks sem komið hafa í dagsljósið eftir að kommúnistastjórnin leið undir lok, sem og viðtölum Figes sjálfs og hans starfsmanna við fullorðna sovéska borgara á síðustu árum.

 

Frásagnir af daglegu lífi fólks rista mun dýpra og eru átakanlegri en það sem fram kemur í fréttum og hefðbundinni sagnfræði þar sem manneskjan er oftast falin á bak við pólitík og hagstærðir. Ef maður brynjar sig fyrir þeim hræðilegu afleiðingum sem þessi þjóðfélagstilraun hafði þá er út af fyrir sig fróðlegt að sjá hvaða áhrif hún hafði á hegðun fólks. Allir voru hræddir. Hræddir við nágrana sína, samstarfsmenn, vini og jafnvel fjölskyldumeðlimi.  Fólk talaði ekki saman að nauðsynjalausu af ótta við að orð þess yrðu túlkuð sem gagnrýni á stefnu kommúnistana.  Margir reyndu að sýna sjórnvöldum tryggð sína með því að njósna um aðra og ljóstra upp um þá sem þeir töldu að væru óvinir ríkisins.

Enginn vissi hvaða nótt yrði bankað upp á og fulltrúar öryggislögreglunnar nymu þig á brott í Gúlagið. Margir höfðu ferðatöskuna tilbúna undir rúminu til að vera við öllu búnir. Foreldrar sögðu börnum sínum hvernig þau ættu að bregðast við ef bæði pabbinn og mamman yrðu sótt einhverja nóttina.

 

gulagÍ hverju byggðarlagi voru stofnuð ráð til að framfylgja stefnu flokksins.  Í því fólst að gera eigur fólks upptækar, ríkisvæða alla atvinnustarfsemi, koma á samyrkjubúskap, ráðstafa húsnæði og síðast en ekki síst senda þá sem ekki voru hliðhollir flokknum í vinnubúðirnar.  Yfirleitt völdust í þessi ráð ofstopafullir undirmálsmenn sem höfðu litla reynslu af atvinnustarfsemi en töldu sig eiga harma að hefna gagnavart einhverjum sem höfðu það betra.  Að sjálfsögðu endaði þetta allt með skelfingu.  Milljónir manna fóru á vergang og dóu úr hungri. Munaðarlaus börn fóru um í hópum betlandi. Fólk dó umvörpum af harðneskju í vinnubúðunum. Svona var ástandið á þegar íslensk skáld ortu ljóð eins og „Sovét-Ísland óskalandið, hvenær kemur þú“.

 

Sagt er frá ævintýralegum flótta fólks úr vinnubúðunum eða frá heimilum sínum þegar það skynjaði hættuna.  Sumar frásagnirnar minna á sögurnar um Fjalla-Eyvind og Höllu.  Árið 1931 flúði Aleksei Okorokov úr fangalest á leið í vinnubúðir og gekk 900 kílómetra til baka til þorpsins Ilinka þar sem hann hann átti heima.  Þegar þangað kom höfðu kona hans og tvær dætur einnig verið handteknar sendar í Narym fangabúðirnar. Aleksei gekk aftur af stað fótgangandi um 800 kílómetra leið þangað sem konu hans og börnum var haldið föngnum og einhvernvegin tókst honum að frelsa þær. Fjölskyldan var á flótta í 10 daga, þau gengu á næturnar en létu fyrir berast á daginn.  

 

gulagprisonersElleftu nóttina voru þau umkringd af lögreglu sem skaut að þeim  og Aleksei særðist í kviðarholi. Lögreglunni tókst að handtaka þau og voru þau send aftur til Narym í lest. Á leiðinni mútaði Yevdokiia kona Aleksei þorpsbúa til að gera varðmannsins ofurölvaðan þannig að þeim tækist að flýja aftur.  Þau lögðu því aftur á flótta og reyndu að komast til borgarinnar Tomsk.  Á leiðinni komu þau í þorp Kerzhaki fólks þar sem flest börn höfðu dáið úr sjúkdómi.  Þorpshöfðinginn bauð Aleksei að gefa þeim vistir og aðstoða þau við flóttann í skiptum fyrir yngri dóttirina Tamöru. Þau dvöldu í þorpinu í viku og söfnuðu kröftum.  Síðan lagði Aleksei af stað með eldri dótturina og konu sína yfirbugaða af harmi en skildi Tamöru eftir. Þau fengu með sér vistir og búnað en fóru ekki langt. Aleksei skildi konu sína og dóttur eftir í fylgsni en sneri sjálfur aftur til þorpsins. Fjórum dögum síðar kom hann til baka með Tamöru á bakinu.

 

En raunum Okorokov fjölskyldunnar var ekki lokið. Lögreglan fann þau aftur og flutti þau nú í búðir um átt kíkómetra frá Tomsk. Þar voru þau í sex mánuði. Aleksei var látinn keyra grænmetisvagn til Tomsk en Yevdokiia og dæturnar unnu með hinum föngunum.  Í Tomsk komst Aleksei í kynni við mann sem lofaði að hjálpa þeim við að flýja.  Dag nokkurn faldi Aleksei dæturnar sínar á vagninum undir kartöflupokum og ók þeim til borgarinnar þar sem vinur þeirra skaut yfir þau skjólshúsi. Fjölskyldan sameinaðist síðan þegar Yevdokiia kom til þeirra, en hún hafði flúið á sama tíma með því að stökkva upp á lestarvagn. Eftir að hafa dvalið þarna í nokkra daga fóru þau með lest til borgarinnar Kuznetsk þar sem þau settust og foreldrarnir fengu vinnu. Á þessum tíma hafði fólk möguleika á að villa á sér heimildir og jafnvel taka upp ný nöfn. 

 

stalin_gulagEftir nokkra mánuði var síðan farið að koma á skilríkjakerfinu alræmda og Aleksei freistaði þess að fara til sinnar heimaborgar Ilinka til að fá skrásetningu. Þar var hann stax handtekinn og sendur í vinnubúðir á ný.  Eftir langa hríð fékk Yevdokiia bréf frá honum. En þar sem öll bréf voru lesin af yfirvöldum óttaðist hún að það kæmist upp um verustað þeirra og flúði til borgarinnar Tashtagol þar sem skilríkjakerfið var enn ekki komið. Stuttu síðar kom Aleksei til þeirra eftir að hafa enn einu sinni tekst að flýja. Þarna héldu þau til um tíma en að lokum voru þau handtekin enn á ný árið 1934.  Eftir skrítna og tilviljunarkennda atburðarás atvikaðist það svo að þau lentu öll í sömu vinnubúðunum. Þar gátu þau búið saman við harðan kost saman í hreysi eins og aðrir fangar. Saga þessa fólks er ekki sögð lengri í bókinni en endar á tilvitnun í orð eldri dótturinnar Maríu, „After three years of living on the run, my sister and I had grown accustomed to not talking. We had learned to whisper rather than to talk“

Líka eru átakanlegar sögurnar sögurnar af endurfundum fólks þegar það slapp úr vinnubúðunum í þýðunni eftir að Krúshoff komst til valda. Í mörgum tilvikum var fólk svo skemmt andlega og líkamlega að það var ófært um að lifa eðlilegu lífi. Margar tilraunir til þess mistókust. Sumir sneru aftur í vinnubúðirnar.

 

russiansoldierLíklegt er að þessar harðneskjulegu tilraunir á lifandi fólki sem þarna fóru fram móti enn mannlíf og tilfinningar almennings í Rússlandi og öðrum löndum sem tilheyrðu Sovétríkjunum. Í næstum öld lifði fólk við aðstæður þar sem besta leiðin til að komast af var fals, illmennska og sviksemi.  Á bak við fréttirnar um átökin í Gerorgíu eru örugglega margar sögur af fólki sem ekki heyrast. Fólki sem man tíma ógnarstjórnarinnar, átti foreldra, afa eða ömmur sem urðu fórnarlömb hennar. Fólki sem tilheyrðu þjóðfélagshópum sem ekki voru þóknanlegir stjórnvöldum. Fólki sem veit hverjir sáu til þess að þeirra nánustu voru sendir í búðirnar. Fjölskyldum sem misstu hús sín og jarðir í hendur kommúnistana og sjá nýríka töffara leika sér að þeim í dag. Bæði Rússneskir stjórnmálmenn, hermennirnir og fórnarlömb þeirra, almenningur í Georgíu eru spottin upp úr þessu umhverfi.

 

Það er fróðlegt að skoða heimasíðu Orlando Figes þar sem hann segir frá gerð bókarinnar og birtir ýmislegt ítarefni.

http://www.orlandofiges.com/


mbl.is Skýr skilaboð til Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorsteinn Sverrisson

Höfundur

Þorsteinn Sverrisson
Þorsteinn Sverrisson
Tölvunarfræðingur, Árbæingur og Hrunamaður. Í Einherjaklúbbnum.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 59738

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband