Færsluflokkur: Bloggar
27.10.2010 | 18:44
Argentína = Stóra Ísland
Eva Perón var að vísu aldrei kosin í opinbert embætti en gengdi engu að síður forystuhlutverki í Argentínu. Hún var tilnefnd til varaforseta á sínum tíma en varð að hætta við það vegna veikinda og andstöðu hersins. En Ísabel Perón, þriðja kona Juans Perón (Eva var önnur), var kosin fyrst kvenna þjóðhöfðingi í samanlagðri Ameríku árið 1974.
Argentínumenn virðast gefnir fyrir að láta eiginkonur fyrrverandi forseta taka við völdum því ekkja Nestors Kirchners sem lést í dag, Cristina Fernandez de Kricher var kosin forseti þegar maður hennar lét af völdum árið 2007 og gegnir því embætti enn. Mörgum þykir Cristina fegursti forseti veraldar á vorum dögum.
En það eru fleiri merkilegar tengingar milli landanna. Árið 1525 sendi spánarkonungur sæfara nokkurn Sebastian Caboto að nafni í leiðangur til að kanna Suður Ameríku, leita nýrra landa og sveigja þau undir Spán. Af leiðangri Sebastians er mikil saga, en hann kannaði einna fyrstur manna landsvæði það sem nú er Argentína. Hann lenti í ýmsum hremmingum og komst síðar upp á kant við Spánverja og sneri aftur til Englands þar sem hann fæddist. Sebastian er einnig frægur fyrir að hafa uppgötvað segulskekkjuna fyrstur manna.
Faðir Sebastians hét Giovanni Caboto og var ættaður frá Ítalíu. Hann var mikill landkönnuður og sigldi um norður Atlandshaf, m.a. til Íslands. Hafði veður af landafundum norrænna manna fyrr á öldum og var sendur í leiðangur af Englandskonungi til að leita að landi hins mikla Kans í vestri. Hann sigldi í átt til Íslands en hreppti mikið óveður og rak þá óðfluga til vesturs uns þá bar að strönd Kanada þar sem nú er Labrador.
Englendingar áttu í miklum viðskiptum við Íslendinga á þessum árum og stunduðu veiðar hér við land. Sumir telja meira segja að sjómenn frá Bristol hafi komið til Ameríku á undan Kólumbusi þar sem þeir stunduðu veiðar þar sem í dag eru Nýfundnalandsmið. Það urðu Giovanni mikil vonbrigði þegar hann gerði sér grein fyrir því að hann hafði ekki fundið leiðina til Kryddlandanna, eða Kína. Hann séri því heim til Englands aftur með skip og mannskap.
Mjög líklegt er að Sebastian Caboto hafi verið með föður sínum í þessum leiðangri og öðrum um norðurhöf. Þekking á siglingatækni þessara tíma var ekki meðfædd og ungir menn urðu að öðlast reynslu undir handleiðslu reyndari manna. Hafi svo verið þá er Sebastian Caboto sennilega fyrsti maðurinn sem stigið hefur fæti á bæði Íslenska á Argentínska grund.
En Giovanni Caboto (eða John Cabot eins og Engilsaxar kölluðu hann) er þó í talsverðum metum í dag og talinn hafa fundið Norður Ameríku á sama hátt og Kólumbus fann Suður Ameríku. Á hverju ári er Cabot dagurinn haldinn hátíðlegur sumstaðar í Kanada þann 24. júní.
Nestor Kirchner látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 21.3.2011 kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2010 | 16:40
Það er betra að auðlindir séu í einkaeign
Nú tala allir um að auðlindir eigi að vera í þjóðareign. Það er fallegra orð yfir það að ríkið eigi að eignast allar auðlindir landsins.
Hverjar eru auðlindir Íslendinga? Jú fiskimiðin, tún bændanna, beitilandið þeirra, kornakrar, afréttir, heita vatnið, kalda vatnið, virkjanleg vatnsföll, námur, laxveiðiár, silungsvötn, malartekja, dúntekja og önnur gæði á sjó og landi.
Þetta vill ríkisstjórnin sem sagt allt þjóðnýta með því að breyta stjórnarskránni!
Stjórnarskráin er í mínum huga ekki til þess að tryggja rétt ríkisins eða þjóðarinnar. Hún er til þess að tryggja réttindi og frelsi einstaklinganna.
En þetta er ekki nýtt í mannkynssögunni. Stalín þjóðnýtti allar auðlindir Sovétríkjanna. Sama gerði Hitler og aðrir alræðissinnar. Afleiðingarnar hafa hvarvetna verið þær að ríkisvaldið hefur notað þessi yfirráð til að kúga þegnana.
Krafan um að auðlindir séu þjóðareign er mest vegna þess ósættis sem hefur verið með kvótakerfið í sjávarútveginum, hvernig kvóta var úthlutað í upphafi og hvernig farið hefur verið með hann síðan. Það er mál sem þarf að taka á sérstaklega en best væri að nýta einkaframtak og séreignarrétt í þeirri atvinnugrein eins og öðrum.
Yfirleitt er það þannig að þegar auðlindir eru í einkaeigu og um þær gilda almennar nýtingarreglur, þá er hugsað vel um þær og þær nýttar vel. Þegar ríkisvaldið á auðlindir eru þær nýttar illa, pólitísk spilling ræður hverjir njóta gæðanna og aðgangur er takmarkaður.
Tökum dæmi um íslensku laxveiðiárnar. Þær eru í eigu einkaaðila sem nýta þær og hafa búið til úr þeim mjög arðbæra atvinnugrein sem skapar marga milljarða í gjaldeyristekjur á hverju ári. Um þær gilda hins vegar almenn lög til að tryggja að ekki sé gengið á fiskistofna. Ef þessar auðlindir væru í eigu ríkisins þá er ég viss um að arðsemin væri ekki sú sama.
Er ekki nógu mikill kommúnismi að banna litlu jólin í skólunum? Þarf líka líka að þjóðnýta allar auðlindir ?
Vill umhverfisrétt í stjórnarskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.9.2010 | 18:18
50 - 70 % raunskattur á fjármagnstekjur
Mér sýnist nokkuð ljóst að þessar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar eru hættar að skila ríkissjóði auknum skatttekjum. Þvert á móti þá dregur þetta úr afköstum hagkerfisins, minnkar þjóðarframleiðslu og rýrir lífskjör.
Skattar á fjármagnstekjur leggjast eins og kunnugt er bæði á verðbætur og vexti. Ekki er tekið tillit til þess að krónan rýnar í verðbólgu.
Gamall maður á eina milljón á verðtryggðum reikningi. Verðbólgan er 10% og vextir 4%. Hann fær þá 100.000 kr. í verðbætur og 40.000 kr. í vexti. Samtals 140.000 kr. Eiginlegar fjármagnstekjur eru þó aðeins 40.000 kr. Verðbæturnar eru bara leiðrétting höfuðstólnum m.t.t rýnun krónunnar í verðbólgunni.
Fjármagnstekjuskattur er reiknaður 20% af 140.000 kr. Það gera 28.000 kr.
Skattlagningin á raunverulegu fjármagnstekjurnar er því 28.000 / 40.000 * 100 = 70%
Segjum að verbólgan sé bara 7%. Þá yrði raunskattur á fjármagnstekjur 55%
Reyndar hefur verðbólga verið minni undanfarið en ekki er hægt að ganga út frá því að svo verði um langan tíma. Meðalverðbólga á Íslandi síðustu áratugi hefur verið 5 - 10%. Verði gjaldeyrishöftum aflétt þá má gera ráð fyrir að krónan veikist og verðbólga aukist.
Hvað gerir gamli maðurinn þegar hann kemst að því að hann getur ekki geymt peninga sína í íslenskum bönkum vegna ofurskattlagningar? Jú hann hlýtur að reyna að skipta þeim í erlenda mynt og færa í erlenda banka um leið og það verður hægt þegar gjaldeyrishöftunum verður aflétt.
Kannski það sem ríkisstjórnin vill !!
Tillögur um hærri skatta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2010 | 21:03
Mikil samgöngubót en hefði getað verið enn betri
Ókosturinn er að þurfa að keyra þessa hlykkjóttu og blindu leið í gegn um þjóðgarðinn fyrir norðan vatnið. Slysahætta á þeirri leið eykst með því að þessi leið verður fjölfarnari en sú gamla.
Ég var hrifnastur af tillögu 3, þ.e. að leggja veg fyrir sunnan vatnið. Enn er hægt að gera það og líklega verður það einhverntíman að veruleika. Nýi vegurinn liggur á leið 2 á myndinni hér til hliðar. Sá gamli er leið 1.
Ég geri ráð fyrir að vegalengdin úr Reykjavík styttist verulega þegar kominn verður vegur fyrir sunnan vatnið. Þá verður líka hægt að keyra Nesjavallaleiðina frá höfuðborgarsvæðinu inn á þann veg.
Ómar Ragnarsson hafði áhuga á því, sjá hér.
Væri góður vegur austur á Nesjavelli og þaðan suður fyrir vatnið myndi það minnka verulega álagið á veginn yfir Hellisheiði. Allir sem væru að fara í austanvert Grímsnes, Laugardal og austurhluta Biskupstungna myndu velja þá leið. Þá myndi það minnka verulega umferð um þjóðgarðinn.
Lyngdalsheiðarvegur opnaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2010 | 21:30
Duglegur strákur
Það hlýtur að vera einhver saga á bak við þetta ferðalag sem fróðlegt væri að heyra.
Vestur Sahara er á sama tímabelti og Ísland en er eitt fátækasta ríki í heimi meðan við erum ennþá eitt ríkasta þrátt fyrir allt.
Þar ríkir pólitískt upplausnarástand sem jafnvel pólitíkin á Íslandi stenst ekki samanburð við.
Nágrannaríkin herja stöðugt á þjóðina þannig að erjur okkar við Breta og Hollendinga eru eins og skemmtilegur samkvæmisleikur á móti því.
Svona ungur piltur leggur þetta væntanlega ekki á sig nema það sé eitthvað í hann spunnið. Eigum við ekki að taka hann að okkur og gera hann að manni?
Okkur vantar fleira duglegt og sjálfbjarga fólk núna.
Flýr ófrelsi í Vestur-Sahara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.8.2010 | 18:30
Vasaútgáfa af Stalínisma
Það er alltaf dálítið ógnvekjandi þegar stjórnmálamenn breiða út landakort fyrir framan sig og fara að gera strik.
Rétt eins og þegar þegar Stalín og kommisararnir hans merktu inn á kort af Rússlandi hvar ættu að vera samyrkjubú, dráttarvélaverksmiðjur, borgir, hafnir o.s.frv.
Það er auðvelt að reikna út í excel hvernig sé best að stjórna þjóðfélagi eins og svínabúi. En það gleymist ótrúlega fljótt hvað óþarfa afskiptasemi stjórnmálamanna er slæm og hvað hún hefur oft haft hörmulegar afleiðingar.
Eru Íslendingar ekki búnir að fá nóg af þessu sameiningaræði á öllum sviðum?
Litlar einingar eru yfirleitt betur reknar og hagkvæmari. Oft er talað um hagkvæmni stærðarinnar eins og hún sé algild en óhagkvæmni stærðarinnar er oft vanmetin.
Fólki líður betur þegar boðleiðir eru stuttar, það þekkir þá sem það vinnur með og hefur greiðan aðgang að þeim sem fara með hagsmuni þeirra.
Hvers vegna eru mörg best stæðu sveitarfélögin lítil?
Og hvers vegna eru hæstu skuldir á íbúa oftast í stórum sveitarfélögum?
Leyfum fólkinu sem býr í sveitarfélögunum að ráða þessu sjálfu án afskipta og þrýstings.
Vill 20 sveitarfélög árið 2012 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.6.2010 | 12:38
Ekki einfalt að reikna þetta út
Það er auðvelt að reikna út í excel að samkeppni kosti of mikið. Með því að taka alla aðila sem eru að selja olíu nánast hlið við hlið og segja, "Það er auðvitað mikið hagkvæmara að reka bara eina stöð".
Með sama hætti er hægt að rökstyðja að það sé hægt að fækka matvöruverslunum um helming eða meira, heildsölum, framleiðslufyrirtækjum o.s.frv.
Á þessum rökum m.a. voru hagkerfi kommúnista í Rússlandi og öðrum austantjaldslöndum reist á sínum tíma.
Þ.e. að það sé milku hagkvæmara að láta einhverja gáfaða menn skipuleggja atvinnulífið í smáatriðum til að ná sem mestri hagkvæmni fram.
En sumt er ekki hægt að reikna út. Ef það er einhver að reka bensínstöð eða verslun við hliðina á þinni verða þú að vera duglegur að finna út leiðir til að reka þitt fyrirtæki með hagkvæmari hætti en hinn eða bjóða upp á betri eða sérhæfðari þjónustu.
Þennan hvata er ekki hægt að reikna út í excel með góðu móti. En ávinningurinn er samt augljóst í flestu tilvikum.
Samkeppnin kostar helling | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2010 | 20:05
Peningastyrkir til frambjóðenda eru góðir
Það er miklu verra að setja einhver sýndarhámörk á svona framlög. Slíkt leiðir til þess að menn finna upp á einhverjum krókaleiðum til að styðja við framboðin sín. Auglýsingastofurnar, birtingafyrirtækin og fjölmiðlarnir verða látin senda reikningana eitthvað annað. Gerviafslættir verða búnir til. Leigupennar verða gerðir út á kostnað stuðningsmanna.
Miklu betra að hafa þetta sem mest uppi á borðinu. Ef einhver frambjóðandi fer offari í auglýsingamennsku og skrumi þá fer það ekki framhjá neinum og kjósendur geta sniðgengið hann.
Sumir frambjóðendur hafa aðgang að ókeypis leiðum til að koma sér á framfæri. Fjölmiðlafólk og þeir sem eru þekktir í þjóðfélaginu nota tengsl og vináttu til að auglýsa sig. Manni hefur oft ofboðið hvað fólk með slíkan bakgrunn getur fengið mikið pláss í fjölmiðlum.
Einnig geta auðmenn fjármagnað sína prófkjörsbaráttu sjálfir.
En svo á að banna eða torvelda litla óþekkta manninum að safna fé hjá þeim sem hafa trú á honum til að koma sér á framfæri.
Hámark eða bann á peningastyrkjum til frambjóðenda mun þess vegna snúast gegn markmiðum sínum.
Stundum eru hlutirnir ekki hugsaðir til enda.
Guðlaugur hyggst ekki víkja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.3.2010 | 17:28
Ljóshraðinn er stórhættulegur
Fólk ætti að varast að ferðast á hraða ljóssins eða hraðar en það. Ekki nóg með að maður geti rekist á banvæn vetnisatóm heldur getur komið fyrir að sá hinn sami fari aftur í tímann eins og kemur fram í þessari limru sem ég heyrði einhverntíman en man ekki hvar?
Svo hraðfleyg er Monika mær
að meira en ljóshraða nær,
og leggi hún í dag,
upp í ljósferðalag,
þá lendir hún aftur í gær.
Það er öruggara að halda sig innan við 90 km/klst. En hver er hraði myrkursins?
Sársaukafullt að nálgast ljóshraða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2010 | 21:26
Þar elur þjóð við eld af fornum glóðum....
Kjartan Ólafsson hagfræðingur ferðaðist um Suður Ameríku á árunum 1947 og 1948. Hann ritaði tvær ómetanlegar bækur eftir þessi ferðalög, Eldóradó og Sól í fullu suðri. Þessi rit eru að mínu mati skemmtilegustu ferðabækur sem skrifaðar hafa verið á íslensku, bæði vegna mikils fróðleiks og sagnagleði höfundarins, en ekki síður vegna þess að stílsnilld og málnotkun Kjartans er einstök.
Bókin Eldóradó hefst á kafla um Chile. Kjartan segir að sumir telji nafn landsins dregið af tchilli (eða chiri) í quechua indíánamáli og merki snjór eða kuldi. Aðrir segja af chilli á tungumáli aymara sem þýðir endimörk veraldar. Landið er 4300 kílómetra langt en yfirleitt 100 - 400 km breitt. Má ætla að land þessarar gerðar sé ekki sérlega hagkvæmt í rekstri hvað varðar t.d. samgöngur, flutninga og veitukerfi. En landfræðilega markast austurhluti þess að mestu af Andesfjöllum.
Sæfarinn Magellann leit fyrstur evrópumanna strendur Chile í hnattsiglingunni árið 1519. Eftir það fór fyrir Chile eins og öðrum löndum Suður Ameríku að spánskir Conquistadorar herjuðu á frumbyggja í leit að gulli og öðrum verðmætum og síðan lögðu landsmenn þeirra landið smátt og smátt allt undir sig.
Indjánar þeir sem einkum byggðu Chile kölluðust Araucanar og voru hærri og ljósari vexti en aðrir frumbyggjar hins nýja heims. Þeir voru líka meiri stríðsmenn og harðskeyttari í bardögum. Lærðu þeir mjög herlist af Spánverjum og það var ekki fyrr en 1881 sem síðustu þeirra voru knúskaðír til undirgefni. Allt fram til ársins 1860 höfðu Araucanar fengið að vera nokkuð óáreittir sunnan Bio Bio árinnar sem rennur til sjávar við borgina Concepcion. Landskjálftarnir í dag áttu upptök sín þar nokkru ofar.
Þarna átti sér sum sé stað sama blóði drifna sorgarsagan og annarstaðar þar sem Evrópubúar lögðu undir sig lönd nýja heimsins. Hvíti maðurinn hafði allstaðar sitt fram á endandum í krafti meiri tæki og herstyrks. Indíánarnir voru hnepptir inni í einöngruðum byggðum, sneyptir og særðir stolti. Það eru hins vegar þjóðsögur að frumbyggjar ameríku hafi verið friðsæl náttúrubörn, grimmd margra kynstofna þeirra var ógurleg, jafnvel gegn eigin fólki.
Grimmd Aracuna indíána var alræmd og þeir lögðu sér mannakjöt til munns eins og fleiri frumbyggjar Suður Ameríku. Aracunar voru nábúar Inka og áttu við þá ýmis viðskipti þótt þeir teljist ekki sama menningarþjóð. Þeir höfðu þó allgóða þekkingu á líffærafræði og lækningum, en beittu þessum vísdómi ekki síst til þess að kvelja óvini sína af list og kunnáttu. Spænska herforingjann Valdiva hertóku þeir og stífðu af honum hendur og fætur og átu að honum ásjáandi meðan hann kvaldist til dauða í þrjú dægur að því er sögur herma.
Einn frægasti herforingi Spánverja hét Alonso de Ercilla. Hann var að því leyti líkur Agli Skallagríssyni að hann var vígamaður mikill en jafnramt stórskáld. Var ættaður frá Baskalandi og bar af öðrum mönnum að hreysti og hersnilli. Í hléum frá bardögum orti Ercilla mikinn ljóðabálk, La Araucana sem telur 25 þúsund ljóðlínur. Þar er kveðið um landafræði Chile, siði, háttu bardaga og orrustur. Í bókinni Eldóradó eru glefsur úr ljóðinu þýddar af Guðmundi Sigurðssyni, m.a. þessi hending sem minnir á íslenskan rímnakveðskap:
Hauslausir bolir engjast alla vega,
á aftekin höfuð stafar feigðarbliku,
er ranghverfum augum lygna, lostnum trega,
löðrandi enn í blóði sínu kviku.
Ercilla braust að lokum alveg niður á suðurenda Chile og kannaði eyjarnar sunnan Magellansunds. Hefur þá líklega enginn Evrópubúi komist fyrr svo sunnarlega á jarðarkringluna. Þar segir sagan að Ercilla hafi reist þessa vísu á trjábörk:
Á ramman trjábol reit ég skýrum orðum
rúnir þær er standast tímans mistur,
Hér De Alonso de Ercilla forðum
dreka sínum lenti manna fyrstur.
Um sollið haf í húmi ótal nátta
hann hingað kom með liðstyrk ekki fríðan,
í febrúaris fimmtíu og átta
að fimmhundruð viðbættum og síðan
til sinna manna seint á hinsta degi
hann sigldi aftur veðurbörðu fleyi.
Hér er að lokum eitt erindi til úr La Araucana.
Á suðurskautsins sögufrægu slóðum
er Chile, land með gróðurríkum byggðum,
um aldir dáð af öllum heimsins þjóðum,
svo ægimáttugt bæði í stríði og tryggðum.
Þar elur þjóð við eld af fornum glóðum,
sinn aldur, stolt og fræg af hetjudyggðum,
sem aldrei hefur öðru valdi þjónað
né yfir henni konungsmaður trónað.
Ekki heyrt frá 15 Íslendingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 28.2.2010 kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Þorsteinn Sverrisson
Nýjustu færslur
- Sparnaður í Excel en ekki í alvörunni
- Einræða Guðs um framtíð lífs á Jörðinni
- Leifur Eiríksson kemur alltaf aftur
- Taflmaðurinn
- Leitarvélar veita þjónustu
- Eitt sinn skal hver deyja
- Náttúruleg óhreinindi eru hollari en aukaefni
- Skáldfeðgar III
- Skáldfeðgar II
- Skáldfeðgar I
- Skilyrði fyrir lífi eru margþætt
- Lítil saga um verðskanna
- Fjórar vísur um sólarlagið við Faxaflóa
- Er rétt að allar auðlindir séu í þjóðareign?
- Þrúgur reiðinnar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar