Limrur

edward_learLimrugerð er merkileg árátta sem Engilsaxar byrjuð að sýsla við fyrir næstum tveim öldum. Oftast er talað um að sá merki maður  Edward Lear hafi gert limrukveðskap vinsælan þegar hann gaf út Fáránleikabókina "A book of Nonsense" áríð 1846. Hann var nokkuð þekktur breskur sérvitringur sem reyndar vann fyrir sér sem teiknari en ekki skáld.  Eðvarð dó þegar hann var að halla í áttrætt árið 1888, eða um það leyti sem flutningur Íslendinga til vesturheims stóð sem hæst.  Ekki hef ég þó heyrt um að skáld og hagyrðingar hér á Fróni hafi tamið sér þetta kvæðaform á því méli, allra síst vesturfararnir Stephan G og KN þó það hefði vissulega hæft vel þeim síðarnefnda.  

Það var ekki fyrr en um og eftir miðja síðustu öld Íslendingar fóru að yrkja limrur að ráði og ruddu Þorsteinn Valdimarsson og Jóhann S. Hannesson brautina fyrir aðra snillinga eins og Jónas Árnason og Hrólf Sveinsson sem svo er kallaður, en sumir telja að það sé skáldanafn Helga Hálfdanarsonar. Að mínu mati er bókin ljóðmæli eftir Hrólf gullvagn íslenskra limra. Hér er dæmi um eina smellna úr því safni (hinar eru allar af svipuðum toga):

                              Hindúismi
                              Hún Indíra gamla Gandí
                              við gigtinni drekkur brandí,
                                og til að það betur
                                bragðist, hún setur
                              heilagra kúa hland í.

Efnistök limra (e. limereck) eiga sér yfirleitt rætur í einhverskonar útúrsnúningi, orðaleikjum eða skringilegheitum.  Ef til vill hentar það forminu sem er nokkuð óvenjulegt þó bragarhátturinn sé nokkuð formfastur.  Í limrum eru fimm braglínur og endarímið AABBA. Í A línunum eru þrír bragliðir en tveir í B línunum.

Nokkrar limrur hafa safnast upp í fórum mínum síðustu ár og hefst nú lesturinn.


                              Skýrsla Landlæknis 2005
                             
Ég frétti að Véhildur veira
                              í vatnsnuddi hitti hann Geira,
                                gaf honum kvef,
                                kláða í nef,
                              og króníska bólgu í eyra.


                              Ævisaga
                             
Hann fæddist á frostkaldri nóttu
                              er fram yfir komið var óttu,
                                lifði í öld
                                lést svo um kvöld
                              á legubekk vestur á Gróttu.


                              Málvísi
                             
Staðfastur tel ég það stemmi,
                              að stórlega málvís er Hemmi,
                                mjög ber þess vott
                                máltækið gott
                              "Oft stoppar Strætó á Hlemmi"


                              Dansinn í Hruna
                             
Gaman fannst Gústa í Hruna
                              að grípa í harmonikkuna,
                                en þáði eigi þökk
                                því kirkjan hún sökk
                              og danslagið hætti að duna.


                              Ölerindi
                             
Að far með bjór í bað
                              og belgja sig út er það,
                                besta í heimi 
                                því böli ég gleymi
                              og blóðsteymið fer af stað.


                              Afmæli
                             
Hann gerist nú gildari og þyngri
                              og græðir á hverjum fingri,
                                þó er það eitt 
                                sem enginn fær breytt
                              að hann hefur oft verið yngri.


                              Barlómur
                             
Á barnum hún Friðrikka feita
                              fór á hann Magnús að leita,
                                hún káfaði og kyssti
                                hann kynlöngun missti
                              en kunni ekki við að neita.


                              Sumarstemma
                             
Hjörleifur grillaði humar
                              hala með lauk í sumar,
                                með gamanmál fór
                                og gaf öllum bjór
                              glöddust þá fjölmargir gumar.


                              Gunnar geimvera
                             
Gunnar bauð gestum í geim
                              en gaf engar ölveigar þeim,
                                vakti það furðu
                                og flestallir urðu
                              fúlir og héldu heim.


                              Silvía Svíadrottning í Lillehammer 1994
                             
Hún Silvía sat oná dalli
                              á sólbrenndum timburpalli,
                                læst inná kamri
                                Litla á Hamri
                              og léttist um kíló af galli.


                              Frumvarp til kvótalaga
                             
Gunnvör í Hnífsdal var gátlaus
                              en Guðný í Ólafsvík látlaus,
                                Gunnvör lauslát
                                en Guðný kaus gát
                              því bæði var kvóta- og bátlaus.

(Limran hér að ofan og sú næsta er með þannig sniði að rímorðin í þriðju og fjórðu línu eru víxluð rímorðin í fyrstu, annarri og fimmtu.  Það er aðeins á færi allra bestu limrugerðarmanna að yrkja með þessum hætti)


                              Frumvarp til búvörulaga
                             
Á Hóli bjó Finnbogi Fundvísi
                              en Stefán bróðir hans Stundvísi,
                                byrjaði í Mýsundi
                                búskap með vísundi
                              og bar síðan nafnið: Hinn Hundvísi.


                              Guttavísa
                             
Hann horaðist mikið í Haag
                              og hita fékk mikinn í Prag,
                                mædd á þeim stutta
                                er mamma hans Gutta
                              og mælir hann oft á dag.


                              Skýrsla Landlæknis 2006
                             
Í haust fékk hann Pétur í Pulu
                              parkinsonveiki og gulu,
                                en Loretta Ann
                                læknaði hann
                              með lagstúf úr særingarþulu.


                              Raunir knattspyrnukonu
                             
Vesalings stelpan hún Vanda Sig
                              var með svo mikið handasig,
                                að niður á stétt
                                hún náði upprétt
                              og furðaði á þessum fjanda sig.


                              Tina Turner
                             
Austur í Tungum ég sá Tínu
                              Turner liggjandi á dýnu,
                                í vaxbornum frakka
                                af  Valda á Bakka
                              og vakti það talsverða kátínu.


                              Biskupasaga
                             
Biskupa matreiddi af móði
                              mannætuflokkurinn óði,
                                Gizzur var sætur
                                og Grímur ágætur
                              en bestur var Guðmundur Góði.


Gross National Happiness

Happiness_Ave_439750Samkvæmt þessari frétt virðist Nikulás Sarkozy ekki vita um mælikvarðann Gross National Happiness sem ég hélt reyndar að væri nokkuð þekktur. Hér er hægt að lesa um hann.

Ísland var áður fyrr alltaf meðal efstu þjóða í mælingum skv þessu mælikvarða en ég veit ekki hvort honum hefur verið beitt eftir bankahrunið.

Ég bloggaði (sjá hér) fyrir nokkru um skemmtilega bók eftir mann sem ferðaðist um mörg lönd og skrifaði um hvort hamingja íbúanna væri í samræmi við þessar hamingjumælingar.  Ein niðurstaða höfundarins Erics Weiner var þessi: Recent research reveals that money does indeed buy happiness. Up to a point.  That point, though, is surprisingly low: about $1500 a year. After that, the link between economic growth and happiness evaporates.  

Svona er það. Ef fólk hefur það þokkalegt á annað borð þá er hamingjan fólgin í öðru en efnislegum verðmætum. Hún kemur innan frá.  Eins og einhver gáfaður maður sagði: Allt það besta í lífinu er ókeypis.

Svo er álitamál hvort það sé einhver þörf á að mæla og vega alla hluti. Skilgreiningarveiki og mælingasýki getur verið hættuleg ef hún gengur of langt.  Þættir eins og gleði, ást og hamingja eru nú líklega þess eðlis að það er varla hægt að leggja á slíkt einhverja mælistiku. En gaman er að spá í þessa hluti. 


mbl.is Verg landshamingja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytt heimsmynd

adam_evaÞessari furðuskepnu manninum er alltaf að fjölga á Jörðinni.  Kannski gildir það lögmál að þessari dýrategund fjölgi með veldisvexti þar til mikið hrun verður í stofninum vegna stríðs, sjúkdóma eða vegna þess að auðlindirnar sem hún lifir á klárast.  Svoleiðis ferli eru alþekkt í vistkerfinu.

En fólki fjölgar ekki allstaðar. Í mörgum Evrópulöndum er fæðingartíðni orðin svo lág að hún nægir ekki til þess að viðhalda fólksfjölda.  Dæmi um þetta er Þýskaland þar sem hver kona eignast nú að meðaltali aðeins 1,35 barn.  Hver kona þarf að sjálfsögðu að eignast meira en tvö börn til þess að viðhalda tegundinni þar sem karlar eignast ekki börn eins og alkunna er.

Margar fjölmennar þjóðir eins og Rússar, Kínverjar og Japanir eru einnig vel undir viðhaldsmörkum í fæðingartíðni.

Íslendingar eru einna frjósamastir V-Evrópubúa, en hér eignast kona að meðaltali 2,05 börn.  Ef litið er til þess og að við eigum öfluga lífeyrissjóði til viðbótar þá er framtíð okkar björt að þessu leyti, hvað sem öðru líður.

Þær þjóðir sem fjölga sér örast eru í Afríku og svo Indland og Brasilía af stórum löndum.  Þá fjölgar innfæddum íbúum Bandaríkjanna og Kanada miklu meira en íbúum V-Evrópu.  Innflytjendur sækja einnig mest til N-Ameríku sem er dáldið merkilegt þar sem þar er tekjuskipting einna ójöfnust í heiminum.  Það er umhugsunarefni fyrir þá sem telja að jöfnun tekna sé æskilegt markmið, en um slíkt tókust íslenskir félagsfræðimenn mjög á um á meðan hér lék allt í lyndi.

mother_babyÞær breytingar sem eru fyrirsjáanlegar í Evrópu á næstu áratugum eru því þær að eldra fólki mun fjölga verulega.  Það mun skapa mikinn þrýstinn á velferðarkerfi þessara landa þar sem þau hafa yfirleitt ekki góða lífeyrissjóði eins og við.  Það mun myndast spenna á milli kynslóða og innflutningur ungs fólks frá öðrum löndum sem vinnuafl mun aukast.  Þessi spenna mun koma til viðbótar þeirri spennu sem á eftir að vaxa á milli innflytjenda og upprunalegra íbúa þessara landa.

Önnur afleiðing gæti verið veiking Evrópu gagnvart Bandaríkjunum þar sem fólksfjölgun er yfir viðhaldsmörkum. Meðalaldur Bandaríkjamanns í dag er 35 ár en Evrópubúa 38 ár. Árið 2050 er því spáð að Evrópubúi verði að meðaltali 53 ára en Bandaríkjamaður 36 ára.

Hvernig stendur á því að í Evrópu þar sem fólk fær fæðingarorlof og velferðarkerfið hlúir einna best að barnafólki.  Þar er fæðingartíðnin minnst?  Evrópubúar virðast álíta að börn séu íþyngjandi og trufli starfsframa. Fólk giftist eldra sem eykur líkur eru á ófrjósemi og barneignartíminn verður styttri. 

Dæmigerður innfæddur Evrópubúi verður í framtíðinni ofdekrað einbirni  (Eurostar) sem erfir verulegar eignir og ríkidæmi eftir foreldra sína. Jafnaldrar hans verða gjarnan innfluttir múslimar, afkomendur þeirra eða innflytjendur frá öðrum löndum svo sem Kína, Afríku eða S-Ameríku.

Hvernig verður lífið í einbirnalandi Evrópu eftir 4-5 áratugi?  Samkvæmt rannsóknum eru einbirni haldin fullkomnunaráráttu, þola illa gagnrýni en eru framtakssöm og hafa leiðtogahæfileika.  Þau hafa hlotið athygli foreldra sinna óskerta sem hafa líka gert miklar kröfur til þeirra. Dæmi um einbirni eru Tiger Woods, Leonardo Da Vinci, Franklin Delano Roosevelt og Frank Sinatra sem gerði hlutina "his way".  Það verður gaman að fylgjast með þessu.


mbl.is Mannkyn nálgast 7 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjábakkavegurinn er afar slæmur núna

GjabakkavegurÍ gær fór ég Gjábakkaveg eins og oft áður í sumar. Rétttrúnaðarmenn í landafræði benda gjarnan á að vegurinn milli Þingvalla og Laugavatns sé ekki yfir Lyngdalsheiði enda sé hún talsvert sunnar.

En hvað um það.  Vegurinn er afar slæmur og man ég varla eftir öðru eins. Ungt þýskt par á litlum fólksbíl stoppaði okkur og spurði hvað væri langt eftir á Laugarvatn.  Þau héldu að þau hefðu villst af aðalveginum inn á einhvern slóða!!  Ég hitti fleiri erlenda ferðamenn um helgina sem töluðu um hvað vegurinn hefði verið slæmur.  Að mínu mati ætti að setja skilti við veginn og benda ferðamönnum á að keyra niður Grímsnes frá Þingvöllum og síðan þaðan upp Biskupstungnabraut.

Ég hef farið þennan veg oft á sumri í mörg ár. Það er alltaf sama sagan. Fyrst á vorinn er hann þokkalegur eftir að búið er að hefla hann og ef til vill bera í hann á stöku stað. Síðsumars verður hann yfirleitt nánast ókeyrandi, sérstaklega í rigningartíð.  Ég held samt að hann hafi sjaldan verið jafn slæmur og núna, þvottabrettin ógurleg og sumstaðar hefur runnið mikið úr honum. 

Vonandi kemst vinna við nýjan Gjábakkaveg í gang aftur sem fyrst. Lítið hefur miðað í sumar vegna gjaldþrots verktakans og veit ég ekki hvernig staðan er í því máli núna.  Hér er mynd af núverandi leið og tillögum um ný vegastæði.  Það er leið 2 sem var ákveðið að fara en ég hefði reyndar viljað að menn hefðu farið leið 4 eða 5 og gert nýjan veg fyrir sunnan vatnið.  Um það bloggað ég fyrir nokkru síðan, sjá hér.

gjabakkakostir 


mbl.is Vegurinn yfir Lyngdalsheiði eins og þvottabretti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofar en Ísland í Ljóssteinungalandi

Nýlega þurfti ég að fara í vinnuferð til Liechtenstein ásamt félaga mínum Högna Eyjólfssyni. Ljóssteinungaland er ákaflega fallegt, ekki síst þegar það er komið í sumarbúninginn. Það er í raun aðeins lítil ræma meðfram Rín, Sviss er fyrir vestan en Austurríki fyrir austan. Einungis um 160 ferkílómetrar að stærð, eða álíka og lítið sveitarfélag á Íslandi.  Við gistum í litlu þorpi sem heitir Triesenberg.  Það er í hæðinni fyrir ofan höfuðborgina Vaduz.

malbun2Eftir stífan vinnudag er fátt betra en að hressa sig við með góðri gönguferð.  Fyrra kvöldið gengum við út frá Triesenberg, út úr þorpinu og göngustíg upp hlíð fyrir austan þorpið og síðan niður aftur. Útsýnið var stórbrotið. Við vorum um tvo tíma á leiðinni og gengum rösklega.  Víða lá göngustígurinn í gegn um skóg en á milli voru rjóður með gömlum húsum. Útsýnið var eins og á póstkorti eða úr ævintýrabókunum um Heiðu. Talsvert var af búpeningi þarna og víða gripahús með hlöðulofti þar sem kýr eru hafðar yfir vetrartímann frá nóvember fram í mars var okkur sagt af heimamanni.  Einnig sáum við geitur, hross og asna. 

Seinna kvöldið var markið sett hærra. Á hótelinu hafði ég séð kort af svæðinu og þarna blöstu við nokkrir flottir fjallstindar á bilinu 2000 - 2500 háir.  Því er ekki að neita að það kitlaði hégómagirndina að komast á hærra fjall en Hvannadalshnjúk sem ég hafði gengið á um tveim vikum áður. Við ókum sem leið lá upp í fallegt skíðaþorp sem heitir Malbun. Þar var frekar eyðilegt og augljóslega meira mannlíf þar um vetur en Marmotað sumarlagi. Bjálkahúsin og hótelin stóðu auð og aðeins einn og einn bíll á stangli. 

Við okkur blasti fallegur fjallahringur. Á flesta fjallstoppana höfðu verið settir krossar sem gera þá tignarlegri. Talsverður snær var ennþá í hlíðum fjallanna. Við hófum uppgönguna um klukkan fimm að staðartíma en þarna er þorpið í um 1600 metra hæð.  Góðir göngustígar liggja upp fjallið og þræddum við þá að mestu en styttum okkur leið á köflum með því að fara beint upp brekkurnar í stað þess að ganga alla hlykkina. Þarna sáum við mikið af litlum jarðíkornum, Marmots.  Brekkurnar voru sundurgrafnar af holum þessara kvikinda og þau hafa líklega verið nýlega vöknuð af vetrardvala.

AugstenBergEftir ríflega klukkustundar gang vorum við komnir upp á tind sem á korti heitir einfaldlega Spitz (sem þýðir bara tindur sagði Högni mér). Hann er hluti af fjallgarði sem er kallaður Silvretta og rétt hjá er annar hærri tindur sem heitir Augstenberg.  Þessi Spitz er 2186 metra hár. Hinum megin sáum við niður í fallegan dal Austurríkismegin. Augstenberg er hins vegar um 2300 metra hár.  Við horfðum þangað og hefðum eflaust keifað þangað upp nema af því að okkur þótti veðurútlitið vera orðið heldur tvísýnt. Miklar drunur og skýjabólstrar voru í vestri. Við snerum því snarlega við og flýttum okkur niður. Og það skipti engum togum að það skall á þrumuveður og eldingum sló niður allt í kring um okkur þar sem við hlupum kengbognir niður brekkurnar í þesslags slagviðri að maður var holdvotur inn að skinni þegar við komum aftur að bílnum um klukkan sjö. 

Það var mjög kærkomið að fá sér orkumikið pasta og bjór á veitingastaðnum við hliðina á hótelinu um kvöldið. Við hrósuðum happi yfir að hafa ekki fengið eldingar í hausinn en heimamenn sem við borðuðum með okkur í hádeginu höfðu sagt okkur frá því að nýlega hefðu tveir drengir í skólaferðalagi dáið af völdum eldingar þegar þeir leituðu skjóls í yfirgefnum kofa þarna á svæðinu.

Liechtenstein er einstaklega fallegt land en lítt þekkt á Íslandi.  Heimamenn eru á hinn bóginn mjög meðvitaðir um Ísland þar sem við erum bandalagsþjóð þeirra í EES ásamt Noregi. Flestir photo_sm_liechtensteinfundir byrja á því að maður situr fyrir svörum um áform Íslands um aðild að Evrópusambandinu sem þeim hugnast lítt.  Sjálfir vilja þeir forðast EB í lengstu lög og telja sér betur borgið með fullu sjálfstæði. Þeir óttast að það veiki sína stöðu ef þeir missa Ísland sem bandalagsþjóð og það sé ekki gott fyrir EES samninginn. Mig grunar að Ljóssteinungar séu vannýtt vinaþjóð okkar ef svo má að orði komast. Ég gæti trúað að þarna væru fleiri tækifæri í viðskiptum og samvinnu ýmiskonar.  Í landinu eru frábærir möguleikar til útivistar. Mikið um stórbrotnar gönguleiðir og hjólastígar í fjöllunum að ógleymdum skíðasvæðunum á veturna. Margir ferðamenn koma þarna árlega til að stunda útivist. Það er galli að ekki skuli vera flogið beint frá Íslandi til Zurich, en þaðan er aðeins ríflega klukkustundar akstur til Vaduz höfuðborgar Ljóssteinunga eftir ákaflega fagurri leið.  Frá Frankfurt er um þriggja tíma akstur.

Á toppi Íslands

FreysnesHér er sagt frá leiðangri á Hvannadalshnjúk síðastliðinn sunnudag 3. maí.  Við lögðum af stað úr Reykjavík um hádegi á laugardag á tveim langferðabílum. Alls um sjötíu manns, flestir starfsmenn Íslandsbanka sem skipulögðu ferðina. Upphaflega stóð til að ganga á hnjúkinn 1. maí en hætt var við það vegna slæmrar veðurspár. Með stuttu stoppi í Víkurskála vorum við komin um klukkan fimm á Hótel Skaftafell í Feysnesi. Fljótlega var snæddur kolvetnaauðugur pastaréttur og brauð. 

Leiðangursstjórinn Haraldur Örn Ólafsson er tvímælalaust mesti ferðagarpur Íslands. Hann hefur farið á báða pólana og klifið marga af hæstu tindum heims. Faðir hans Ólafur Haraldsson var einnig einn af átta fararstjórum í ferðinni. Haraldur var í stöðugu sambandi við veðurfræðinga og tilkynnti í kvöldmatnum að lagt yrði af stað frá hótelinu klukkan tvö um nóttina og gengið af stað um klukkan hálf þrjú.  

Við gengum því til náða klukka átta um kvöldið og stilltum vekjaraklukkuna á eitt. Það er vissulega óvenjulegt á laugardagskvöldi enda varð lítið um svefn.  Maður reyndi að slaka á og dorma en í draumaheim komst maður ekki þessa nótt enda efirvæntingin talsverð og ekki vildi maður sofa yfir sig.

HaraldurOrnÞað var blíðuveður þegar við vöknuðum klukkan eitt og fengum okkur snemmbúnasta morgunmat sem ég man eftir að hafa snætt. Við klæddum okkur og útbjuggum samkvæmt fyrirmælum enda kom í ljós að ekki veitti af. Gangan hófst í myrkri undir Sandfelli á tilsettum tíma. Flestir voru með ljós á höfðinu enda varla ratljóst orðið. Haraldur Örn gekk fyrst.  Hann lagði mikla áherslu á að fara hægt af stað og ganga á jöfnum hraða til að spara kraftana. Það fór að birta milli klukkan þrjú og fjögur.  Fögur fjallasýn kom í ljós í vestri.

Við gengum með nokkrum pásum upp í 1100 metra hæð.  Þá vorum við farin að ganga á snjó að mestu og jökullinn framundan. Nú var fólkinu skipt í átta hópa sem bundu sig saman í línu og var einn fararstjóri fremstur í hverjum hóp. Okkar hóp leiddi Ingþór nokkur ferðagarpur, sem m.a. hafði gengið þvert yfir Grænlandsjökul.  Svo var byrjað að tosast upp á jökulinn hægt en bítandi.  Það er seinlegra að ganga svona í línu en frjáls.

Nú fór fljótlega að þykkna upp og hvessa. Skyggnið minnkaði smátt og smátt og maður fór að finna fyrir kulda um leið og stoppað var.  Fararstjórarnir stoppuðu reglulega til að láta fólk borða og drekka jafnvel þó matarlystin væri ekki mikil.  En maður fann að maður hresstist alltaf við þetta.  Það  tók mjög langan tíma að ganga upp jökulbrekkuna upp í 1800 metra hæð, þar sem sléttan byrjar. Veðrið versnaði smátt og smátt. Ofarlega mættum við hóp sem hafði snúið við á brúninni. Þeir sögðu að það væri vitlaust veður uppi og höfðu hætt við.  Nokkrar sprungur voru þarna á leiðinni upp en við gátum stikað yfir þær. Einn úr hópnum sem kom á móti okkur féll reyndar til hálfs niður í sprungu og þá sáum við hversu nauðsynlegar línurnar er.

Loks komumst við upp á 1800 metra brúnina. Þar tekur við ganga á nánast jafnsléttu í vestur um fjóra kílómetra. Eitthvað var rætt um hvort snúa ætti við. Ég var alveg til í það, sá ekki fram á að það yrði gaman að ganga í þessu veðri og sumum var orðið kalt, sérstaklega þegar stoppað var. En eftir að fararstjórinn hafði talað við Harald Örn sem var nokkuð á undan skipaði hann okkur að halda áfram. Seggur sá er ekki vanur að snúa við. Hann fullyrti að það myndi lægja og birta til. Ég átti fullt í fangi með að halda á mér hita í pásunum, sérstaklega á höndunum þar sem maður þurfti að taka af sér vefttlingana til að borða. 

FaridILinurEn um leið og maður fór að ganga hlýnaði manni og góð fötin héldu okkur þurrum.  Ég var í ullarnærfötum sem sönnuðu gildi sitt. Keypum þau í Janusi, góð föt á góðu verði. Tvöföldum ullarsokkum úr sömu búð. Í powerstrets flísbuxum og peysu á milli.  Yst í góðum Gore-Tex buxum og úlpu. Ég hefði viljað vera í einu lagi meira að ofan innundir, annað hvort flís eða auka ullarpeysu. Við vorum með dúnúlpur sem við settum yfir okkur í pásum og stundum í göngu.  Þær komu sér rosalega vel. Ég var í góðum skíðavetlingum en hefði frekar átt að vera í góðum lúffum úr þæfðri ull eða tvöföldum. Á hausnum var ég í lambhúshettu úr flís og annari húfu þar yfir. Að sjálfsögðu vorum við í skíðagleraugum en sólgleraugun settum við ekki upp. Flestir fengu líka heitt vatn í hitabrúsa í Freysnesi og voru með heitt te eða kakó.  Það var æðislegt.  En númer eitt, þið sem farið í svona ferðir, búið ykkur vel og farið að öllum ráðum fararstjóra.

HnjukurinnGangan eftir sléttunni gekk ágætlega en ekki hratt. Vindurinn og skafrenningurinn hélst samt áfram og var aðeins í fangið núna. En þegar við áttum eftir tæpan kílómetra að hnjúknum birti skyndilega yfir og kóngurinn á svæðinu kom í ljós. Haraldur pólfari hafði haft rétt fyrir sér um að það myndi létta til.   Sjaldan hefur maður séð jafn stórbrotna sjón og þetta tröll birtast liggjandi fram á lappir sínar í hvítri brynju og grimmúðlegt. Það var stoppað vel undir hjnúknum og borðað.  Hér skildu allir eftir bakpokana sína og göngustafina en settu á sig mannbrodda og tóku ísaxir í hönd. Það er nokkuð bratt upp á hnjúkinn sjálfann en þar sem snjór var mikill reyndi lítið á axirnar og broddana.  Þessi ganga úr 1800 í 2109 metra var því ekki sérlega erfið bakpokalaus og í þokkalegu veðri.

Það var síðan stórkostleg tilfinning að standa á toppnum. Útsýnið austur yfir sléttuna (sem er í reynd askja fulla af klaka) var ægifagurt. Við sáum ekki mikið í vestur eða norður. Eftir fagnaðarlæti, hamingjuóskir og myndatökur var svo gengið sömu leið niður.  Nú vildi fararstjórinn vera síðastur og það lenti á mér að vera fyrstur í línunni niður þar sem ég var aftastur áður.  Það gekk allt vel en við þurfum reyndar að stoppa af og til til að hleypa öðrum línum upp. Það var svo stoppað aftur í búðunum fyrir neðan hnjúkinn og fólk tók mannbroddana af sér og gengu aftur frá ísöxunum.

AToppnumSvo hófst gangan til baka.  Hægt og bítanadi austur yfir sléttuna sem maður tók nú eftir að hafði verið talsvert undan fæti hina leiðina því nú fann maður fyrir álíðandi brekkunni upp í móti. Og þá fór ég að finna fyrir þreytunni enda búinn að vera í göngu í um hálfan sólarhring, ósofinn. Það fór líka að hvessa á ný og nú byrjaði ofankoma og snjórinn varð þungur undir fæti. Það var samt hlýrra en á leiðinni upp. Gangan niður brekkuna reyndi á þolrifin.  Snjórinn var nú orðinn mjög þungur undir fæti en það hafði hlýnað og maður var berhentur.  Á sama stað í um 1100 metra hæð fengum við að leysa okkur úr línunum og gengum frjáls niður. Ég fór að finna talsvert til í hnjánum í grjótinu og skriðunum. Gekk því frekar hægt og reyndi að hlífa löppunum. 

Mín lína var komin niður um klukkan sex.  Við vorum því um 15 klukkustundir á göngu. Þeir síðustu komu ekki niður fyrr en klukkan var farin að ganga níu.  Það var kærkomið að fá hamborgarar í Freysnesi. Góð stemming var í hópnum eins og vænta mátti.  Dísa sem hafði séð um skipulag og undirbúning þakkaði öllum fyrir frábæra frammistöðu og fararstjórum fyrir örugga leiðsögn. Tilfinningin var eins og maður hefði unnið stórafrek og auðvitað var það svo.  Þetta er mjög erfitt og væri ekki hægt nema með þessum góða útbúnaði og undir stjórn þessara reyndu fararstjóra.  Maður sem hefði verið í lélegum fatnaði sem hafði ekki haldið vatni og hita í veðrinu sem var þarna uppi hefði króknað á stuttum tíma.  Rúturnar lögðu af stað heim um klukkan tíu. Mér tókst að dotta aðeins á leiðnni en við komumst ekki í bólið fyrr en hálf fjegur. Í vinnuna var ég samt mættur upp úr klukkan átta og hana nú. Bara merkilega hress.  Hefði kannski þegið að taka mér frí og sofa út ef ég hefði ekki verið með nokkra fundi bókaða þennan dag. Þetta var mikill sigur og ævintýri sem ég á eftir að muna alla mína ævi. 

Hér eru nokkrar mynir sér ég tók.

Hér er síðan betra myndasafn frá Árna Guðmundssyni.

En við fengum ekki sama útsýnið og Sigurpáll Ingibergsson sem tók þessa mynd.


Fuglaflensa, síðan svínaflensa, hvað næst ?

Sú eyja Færeyja sem er lengst í norð-austur heitir Fugloy, sú sem er næst henni fyrir sunnan heitir Svínoy.  Fyrst kom fuglaflensan, síðan svínaflensan!  Svona tilviljanir eru skemmtilegar.

Teitur Heindriksson frændi minn benti á þetta og segir: "Fyrst kom fuglakrím, og síðan svínakrím, verur tað næsta viðakrím? Fugloy Svínoy Viðoy :/". 

Viðoy er næsta eyja við hinar tvær.  Þó ég hafi nokkrum sinnum farið til Færeyja hef ég ekki enn komist í þessar tvær afskekktustu eyjar.  Það er þó eitthvað sem ég vildi gera.  Báðar er fallegar og með mikinn sjarma.  Á þessari mynd er Fugloy til vinstri en Svinoy til hægri.

Fugloy_Svinoy


Í báðum eyjunum eru fallegar kirkjur. Þessi er í Svinoy.

kirke_Svinoy


Og þessi er í Fugloy.

kirke_Fugloy2


Þar er þessi einstaklega fallega altaristafla máluð af Símoni Mikines og sýnir Jesú ganga á sjónum í ölduróti og bjarga drukkandi sjómanni.  Trúin og áhættusöm sjómennskan voru sterkir þættir í lífi eyjaskeggja áður fyrr.

kirke_Fugloy


mbl.is 481 með svínainflúensu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegur skortur á Hvítufjöllum á Íslandi

Nú eru tveir dagar þangað til við leggjum af stað upp á Hvannadalshnjúk.  Til stendur að fara úr bænum á laugardaginn, vera kominn austur í Freysnes um klukkan 17, borða kvöldmat, leggja sig til klukkan eitt um nóttina og fara þá af stað.  Þetta er alvöru píning.

Og þá heldur maður áfram að pæla í fjöllum og jöklum. Ég hef stundum verið að spá í hvers vegna svona fá fjöll á Íslandi bera nöfn eins og Hvítafjall, Hvítfell eða Hvítfjall. Nóg er um tignarleg fjöll hér á Fróni sem hafa snævi þakta toppa allt árið eða að minnsta kosti stærstan hluta ársins.

Í stuttri leit á netinu fann ég aðeins eitt dæmi um Hvítfell og eitt Hvítafjall á Íslandi.  Hvorugt þeirra dregur nafn sitt af hvítum snjó eða jökli, heldur af ljósu líbaríti.

En það vill nefnilega þannig til að Hvítafjall er eitt algengasta fjallsnafn í heiminum og mörg fjöll með því nafni á tungum heimamanna eru með hæstu og tignarlegustu fjöllum á hverjum stað, annað hvort jökultindar eða há snævi þakin fjöll.

Allir þekkja Mount Blanc, hæsta tind Alpafjalla, en nafn hans merkir einfaldlega Hvíta Fjall.

mountBlanc


Hið fræga fjall Mauna Kea á Hawaii er þekkt fyrir samnefnda stjörnurannsóknarstöð.  Nafn þess merkir Hvíta Fjall á máli Hawaii búa.

MaunaKea


Kilmanjaro er hæsta fjall Afríku. Talið er að nafn þess merki Hvíta Fjall á Swahili.

kilimanjaro


Þetta fallega fjall heitir White Mountain og er í Californíu.

white_mountain_CA


Í Rússlandi er þessi glæsilegi tindur sem heitir белая rора eða Hvíta Fjall.

белая_гора


Í Chile er fjallgarður sem heitir á Spænsku Blanca Montana.

BlancaMontana


Í Brasilíu er þetta fjall sem heitir á máli heimamanna Portúgölsku, Montanha Branca.

montanha_branca


Og í Guðbrandsdalnum í Noregi er frægt fjall Kvitfjell sem samnefndur skíðabær heitir eftir.

Kvitfjell


Hvað veldur því að landnámsmenn Íslands gáfu engu íslensku snævi þökktu háu og reisulegu fjalli nafni Hvítafjall veit ég ekki ?

Kannski hafa þeir gert það án þess að ég viti.  En þau eru þá altént ekki mörg eða fræg.


1.maí 2009: Bæti við tveimur Hvítufjöllum í viðbót (sjá athugsemdir).

Tenerife er eyja byggð um fjallið El Teide og er að rúmmáli, þriðja stærsta eldfjall veraldar. Tenerife heitir eftri máli innfæddra,  "tene-" (mountain) "-ife" (white).

Tenerife



Sjöundi hæsti tindur veraldar heitir Dhaulagiri sem þýðir Hvíta Fjall á máli heimamanna í Nepal.  Á fyrri hluta 19. aldar var Dhaulagiri talinn hæsti tindur heims af landafræðingum.

dhaulagiri_001



Gaman væri að fá fleiri ábendingar um Hvítufjöll hjá þeim sem lesa þetta blogg.


Hvar er Hvannadalur?

Jæja, þá er komið í ljós að það verður ekki gengið á Hvannadalshnjúk á föstudaginn eins og til stóð.  Ég sem var búinn að gíra mig alveg inn á það.  En það á að gera tilraun til þess á sunnudaginn, leggja af stað klukkan 1 um nóttina !!!   Ég er að lesa mig til um fjallið núna.  Margir bloggarar hafa skrifað um gönguferðir upp á þetta hæsta fjall Íslands sem er víst 2109 metrar skv nýjustu mælingum.

En ég fór allt í einu að velta þvi fyrir mér hvar þessi Hvannadalur er, eða hefur verið, sem fjallið dregur nafn sitt af.  Ég finn hvergi neitt um það á google eða yahoo eða leit.is ???

Sé reyndar að það eru til dalir með þessu nafni hérlendis, en hvergi í nánd við Hvannadalshnjúk - reyndar einn í Suðursveit - en samt allfjarri.

Hér að neðan er hins vegar mynd frá Angelica Valley í New York fylki USA

angelicavalley











Og þessi stúka heitir Angelica Valley og býr í Rio de Janeiro Brailíu

Angelica_Valley















Svona finnur maður margt sniðugt á leitarvélunum.


Það er auðveldara um að tala en í að komast

greed2Það er líklega búið að slá nýtt met í því að verða samdauna kerfinu. Búsáhaldafólkið barði nú og hrópaði út af öðru eins. Það er ekkert mál fyrir hugmyndaríkt og sniðugt fólk að búa til frasa til að réttlæta hvað sem er af þessu tagi.  Við sjáum stjórnmálamenn gera það með orðaleikjum á hverjum degi.  Þetta eru yndislegir frasar frá Borgarahreyfingunni:

"verðlaun fyrir áður unnin störf"
Hvert fór gagnrýnin á eftirlaunafrumvarpið?  Eru eftirlaun ekki verðlaun fyrir "áður unnin störf" ? 
Er algengt að menn fái verðlaun fyrir óunnin störf?

"ekki hefðbundin laun í skilningi þess orðs"
Nú, hvað eru þá hefðbundin laun?  Eru rithöfundalaun ekki hefðbundin? Ég hélt að þau væru einmitt réttlætt með því að ríkið ætti að gefa góðum rithöfundum kost á því að hafa eitthvað til að lifa af meðan  þeir væru að vinna við að skrifa eitthvað skemmtilegt. Þegar menn eru í fullri vinnu sem þingmenn þá eru menn bara ekki í annarri vinnu. Hvað merkir orðið  gæðgisvæðing aftur?

"Borgarahreyfingin er ný hreyfing og hefur enn ekki náð að setja sér skrifaðar reglur í öllum málum"
Ja hérna.  Það veitir kannski ekki af nokkrum listamannalaunum til að búa til skrifaðar reglur í ÖLLUM MÁLUM.  Það eins gott að þau gleymi ekki einu einasta máli sem getur komið upp. 

"né heldur að setja sér nákvæmar reglur varðandi öll önnur mál er upp kunna að koma við þá nýju stöðu að vera orðinn hluti af lögjaffarvaldinu"
bla bla bla.  Það er um að gera að setja nákvæmar skriflegar reglur um allt. Það mun taka tímann sinn að lesa þær.  Alls ekki nota siðferðisvitundina og réttlætiskenndina, það er ekki gott.

Þetta er alveg dásamlegt.  Það er auðveldara um að tala en í að komast.


mbl.is Þráinn taki ákvörðun um heiðurslaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lárus hunda skýtur

Þessi frétt minnir mig á söguna um Lárus nokkurn sem var hundaeftirlitsmaður í Reykjavík fyrir mörgum árum. Hann var gagnrýndur fyrir að vera stundum óþarflega fljótur að aflífa hunda sem hann taldi vera eigendalausa flækingshunda.  Af þessu tilefni kvað Stefán Jónsson fréttamaður:

Langt af sínum bræðrum ber
betri verka nýtur.
Lætur yfir lítið sér
Lárus hunda skýtur.


mbl.is Hóta að aflífa hreindýrskálf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

....og enn kemur nýr skattur

taxmanJæja, þá er maður búinn að skila framtalinu á www.skattur.is. Framtalsvefur RSK er líklega ein best heppnaða aðgerðin í rafrænni stjórnsýslu á Íslandi.  Skattframtalið verður einfaldara með hverju árinu. Það er af sem áður var þegar maður þurfti að taka heila helgi í að berjast í gegn um pappíra, færa inn tölur og leggja saman með reiknivél. Nú tekur þetta smá stund og maður fær auk þess gott yfirlit yfir sínar gífurlegu eignir og örlitlu skuldir.

Það er bara eitt sem er að, manni finnst skattarnir alltaf vera of háir. En auðvitað eru þeir nauðsynlegir og maður á líklega að vera þakklátur fyrir að geta lagt eitthvað að mörkum fyrir þjóðfélagið í heild. En þá vill maður líka vera viss um að það sé verið að nýta fjármunina sem best.

Og þannig er að nú er kominn alveg nýr skattur - Útvarpsgjald.  17.200 krónur á hvern framteljanda. Fyrir mitt heimili eru þetta tæpar 70.000 krónur eða sem svarar ríflega matarinnkaupum fjölskyldunnar í heilan mánuð.

Gróflega reiknað þá er ríkisútvarpið að fá milli 3 og 4 milljarða á ári með þessum tekjustofni auk auglýsingatekna og sértekna. Og nú hvíslar litli frjálshyggjupúkinn í hægra eyrað á mér: Er það alveg öruggt mál að þessi þvingaða gjaldtaka auki lífsgæði fólks meir en ef það fengi að ráðstafa þessum peningum að eigin vild?

Eða væri hægt að auka hamingju fleiri með því að nýta þessa fjármuni til þess að hlynna sjúkum og fátækum?

old-radioPersónulega hlusta ég og horfi ekki mikið á ríkisfjölmiðlana. Stundum á fréttir og einstaka fræðsluþætti í sjónvarpi. Svo kemur fyrir að ég hlusta á áhugaverða þætti á Rás 1 fyrir svefninn.

Eiginlega átta ég mig ekki á hlutverki ríkisútvarpsins. Fyrir menninguna? Já en mér sýnist að það sé mest verið að endurútvarpa erlendum þáttum og sinfóníum. Í öryggisskyni? Já en þá væri nóg að hafa eina útvarpsrás.  Fyrir frjáls skoðanaskipti? Já en það yrði til svigrúm fyrir margar útvarps- og sjónvarpsstöðvar ef ríkisfjölmiðlarnir hættu.

Svo fylgist maður með litlum einkastöðvum eins og Útvarpi Sögu, ÍNN og fleiri búa til mjög skemmtilega þætti með margfalt minni tilkostnaði en ríkisstöðvarnar - en þurfa samt að berjast um auglýsingar við þær. Ég hallast að því að hægt væri að nýta þessa fjármuni betur og virkja einkaaðila til að gera íslenskt menningarefni með margfalt minni tilkostnaði.

Næstforkvinnan

tkoÞað er oft gaman að lesa fréttirnar á færeysku netmiðlunum.  Á www.kringluvarp.fo er sagt:

Íslendski Sjálvstæðisflokkurin hevur í dag valt nýggjan formann, eftir Geir Haarde. 

Nýggi formaðurin eitur Bjarni Benediktsson, meðan næstforkvinnan eitur Torgerður Katrin Gunnarsdóttir. Hon varð afturvald. Hetta veit íslendska kringvarpið, RÚV, at siga frá.

Landsfundurin valdi formann millum tinglimirnar Bjarni Benediktsson og Kristjan Thór Júliusson.

Næstforkvinna er frábært orð. Auðskilið og gegnsætt eins og svo mörg orð í færeyska málinu og væri hægt að nota í íslensku án vandræða. Jóhönnu Sigurðardóttur mætti á sama hátt kalla forkvinnu Samfylkingarinnar.

Hér eru að gamni nokkur fleiri færeysk orð úr bók sem ég las nýlega og væru fullbrúkleg í íslensku máli:
  Dálkaðir: Skornir/tálgaðir (í framan), þ.e. skylt dálkur er til í íslensku sem hnífur
  Fyrir tilvild: Fyrir tilviljun
  Fráskila: Afburðar, frábær
  Harðbalinn: Harðskeyttur
  Augleiddi: Horfði á / fylgdist með
  Óróaði: Truflaði
  Manningi: Maður
  Ávegis: Áleiðis
  Mótburður: Mótlæti
  Höfðum tilhald: Höfðumst við
  Vorum veðurfastir: Vorum veðurtepptir


mbl.is Þorgerður Katrín fékk 80,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flanagan vill ekki flana að neinu..

housemortgageÞað er ljóst að Mark Flanagan vill ekki flana að neinu eða gana eitthvað út í óvissuna. Framsóknarmenn eru alltaf jafn hugmyndaríkir.  Fyrst láta þeir hækka húsnæðislán upp í 90% af veðhlutfalli. Svo leggja þeir til að 20% af þessum lánum verði felld niður! 

Mér finnast þessar hugmyndir um að fella niður 20% allra íbúðalána bæði óréttlátar og erfiðar í framkvæmd. Í fyrsta lagi má spyrja sig hvort 20% breyti einhverju fyrir það fólk sem er mest aðstoðar þurfi og stjórnvöld ættu að einbeita sér að því að hjálpa.

Og svo er það hvernig á að reikna þessi 20%.  Á maður sem skuldar 20 milljónir en á 10 milljónir á bankareikningi, 10 milljón króna bíl og hús á Spáni að fá jafn mikið niðurfellt og sá sem skuldar 20 milljónir og á ekki neitt?

Á að fella niður 20% skulda þeirra sem hafa tekið lán út á húsið sitt til að kaupa sumarbústað eða til að fjármagna neyslu?

Á að fella niður 20% skulda þeirra sem hafa keypt húsnæði til að leigja út?

Á að fellla niður 20% skulda þeirra sem hafa keypt sér allt of stórt húsnæði og láta þá sem sýndu meiri hófsemi greiða fyrir það?

Það eru margar hliðar á öllum málum.  Og það er því miður oft þannig með opinber afskipti að þau ná ekki markmiðum sínum og virka jafnvel stundum þveröfugt.
mbl.is Þjónkun IMF við stjórnvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það ný uppgötvun að dýr hugsi fram í tímann?

Í þessari frétt er fullyrt að það séu fáar þekktar vísbendingar um að dýr hugsi fram í tímann. Ég hélt að sambærileg hegðun væri alþekkt meðal dýra.  Altént sé ég ekki mun á þeirri hegðun simpansa að safna saman steinum til að henda í fólk og því þegar refir grafa niður æti á ákveðnum stað og grafa það svo upp löngu síðar.

arcticfox

Ég var næstum því búinn að keyra yfir mjallahvítan ref eins og þennan á móts við Mosfell í Grímsnesi síðastliðið föstudagskvöld. Hann stökk yfir veginn rétt fyrir framan bílinn og ég þurfti að snarbremsa til að keyra ekki yfir hann.  Hann var nú kannski ekki að hugsa mikið fram í tímann sá!

Mörg dýr eru ótrúlega skynug eins og alkunna er.  Hvar mörkin eru á milli eðlisávísunar annars vegar og hugsunar hins vegar er líklega skilgreiningaratriði.

Á árum áður las ég talsvert um hegðun dýra og rannsóknir á þeim, t.d. bækur Konrad Lorenz og The Selfish Gene eftir Richard Dawkins sem er tímamótaverk á sviði líffræði.  Konrad Lorenz gerði margar skemmtilegar tilraunir og athuganir á viltum dýrum. Mig minnir að það hafi verið hann sem setti fram kenningu um þróunarfræðilegar ástæður þeirrar áráttu hunda að hlaupa geltandi á eftir hröfnum.  Hrafnar geta flogið yfir stórt svæði og séð veikburða dýr. Þeir narra síðan úlfana (forfeður hunda) til að elta sig þangað sem dýrið er svo þeir geti drepið það.  Hrafnarnir fá svo að launum leifarnar af kjötinu þegar úlfarnir hafa étið nægju sína.   

raven


Í ljósi núverandi aðstæðna í heiminum má svo má kannski deila um það hvað mannskepnan er góð í því að hugsa fram í tímann!


mbl.is Simpansar hugsa fram í tímann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rugl og vitleysa

systemFlestir hafa sterka þörf fyrir að hafa alla hluti í frekar föstum skorðum. Borða á sama tíma, fara í vinnuna á sama tíma, setjast á sama stól við borð, leggja í sama bílastæði o.s.frv.  Flestir vilja líka hafa allt vel snyrt í kring um sig og hlutina á sínum stað.  Við sláum garðinn, en látum hann ekki vaxta, við klippum tré og runna o.s.frv.  Í skógrækt eru tré yfirleitt gróðursett í beinum línum þó svo að því fari víðs fjarri að það sé náttúrulegt.  Ég er eins og flestir alinn upp við frekar mikla almenna reglu og skipulag.  Auk þess lærði ég tölvunarfræði þar sem allir hlutir eru skilgreindir, allt er afleiðing af einhverju öðru og allt sem gert er, er gert í skilgreindum reiknanlegum skrefum.  Ef maður skilur ekki eitthvað þá getur einhver fróðari leitt mann í sannleikann með röksemdafærslu.

Vissulega er skipulag, regla og agi grundvöllur samfélags þar sem við þurfum að geta treyst öðru fólki, átt öruggt líf, stundað viðskipti og framkvæmt tæknileg verkefni. En stundum finnst manni að þjóðfélagið sé orðið of bundið í skipulagsfjötrum sem hindra framþróun, sköpunargleði og fjálsa hugsun.  Mikil trú á flóknum reglum, stöðlum, kerfum, ferlum og eftirlitsstofnunum einkennir samfélagið í dag.  

FreeMindÁður fyrr hafði fólk opnari huga en nú á tímum þegar allt þarf að vera í rökréttri samfellu. Tökum sem dæmi götur í nýju bæjarhverfi, þær eru látnar heita Akralind, Askalind, Berjalind o.s.frv.  Allt með sömu endingunni og raðað í stafrófsröð. Þetta er auðvitað mjög gott til að maður geti ratað á réttan stað ef maður er ekki kunnugur. En þetta tekur hins vegar ákveðinn „karakter" úr umhverfinu.  Það sama má segja um þegar sveitafélög eru sameinuð og fá nýtt nafn, Reykjanesbær, Snæfellsbær, Bláskógarbyggð, Fjallabyggð o.s.frv. Sem betur fer voru landnámsmenn Íslands ekki svona fastir í andlausum kerfum. Þá myndum við ekki eiga jafn falleg örnefni og Hekla, Fáskrúð, Dauðsmannskvísl, Gránunes, Slauka, Hvesta, Gláma, Stöng, Klifandi, Þegjandi, Kögur og svo mætti lengi telja. Í dag myndu árnar á Skeiðarársandi verða skírðar Jökulsá 1, Jökulsá 2, Jökulsá 3 eða eitthvað álíka ófrumlegt.

Stundum er gaman að upplifa eitthvað sem er svo ruglað að það stingur í stúf við allt sem maður er vanur. Í bókinni „The Analytical Language of John Wilkins" segir Jorge Luis Borges frá merkilegu flokkunarkerfi dýra sem á að hafa verið skráð í fornri bók kínverska keisarans.  Þar voru dýr flokkuð á eftirfarandi hátt:

a) Dýr sem tilheyra keisaranum
b) Uppstoppuð dýr
c) Dýr sem eru tamin
d) Grísir ennþá á spena
e) Hafmeyjar
f) Glæsileg dýr
g) Flækingshundar
h) Þau sem tilheyra þessum flokkum
i) Þau sem skjálfa þegar þau reiðast
j) Óteljandi dýr
k) Önnur dýr
l) Dýr sem hafa brotið blómavasa nýlega
m) Þau sem líta út eins og flugur í fjarlægð

Eins og allir sjá er þetta flokkunarkerfi gjörsamlega óskiljanlegt og ónothæft í allri vísindalegri vinnu.  Þetta stingur í augun og fer langt út fyrir allt sem okkur er tamt og finnst skynsamlegt.  Engu að síður hristir þetta aðeins upp í huganum og víkkar sjóndeildarhringinn.  Og minnir á að það hugsa ekki allir eins og hafa ekki alltaf gert.  

HorgsholtSumt fólk fúnkerar ekki vel í skipulögðu þjóðfélagi. Sveiflast ekki á sömu bylgjulengd og aðrir. Þetta fólk er kallað furðufulgar, rugludallar og í besta falli „lífskúnstnerar".  Ég man eftir einum manni úr minni barnæsku, Bjarna Guðmundssyni í Hörgsholti. Bjarni þótti skrítinn og forn í háttum.  Hann bjó einn á bæ sínum síðustu árin en dvaldi á veturnar í Reykjavík. Bjarni gaf út stórmerkilegt tímarit á árunum 1956 - 1970 sem hann kallaði Hreppamanninn. Þessi tímarit voru blanda af auglýsingum í bundnu máli, kveðskap, leikritum, sérkennilegum sagnaþáttum og hugleiðingum.  Í fyrsta tölublaðinu er inn á milli nokkurra erfiljóða kafli sem heitir spurningar. Þessi kafli eru ekki í samhengi við neitt annað í blaðinu.  Spurningarnar sem Bjarni setur fram eru eftirfarandi:

1. Er sósíalismi siðalögmál mannkynsins?
2. Hvað er kristnidómur?
3. Er ráðstjórnin í Rússlandi sósíalistastjórn?
4. Hvers vegna verða smáríkin að greiða henni fórn?
5. Er bergmál réttur endurómur?
6. Eru Bandaríkin í Ameríku þjóð?
7. Er tómatsósuterta góð?
8. Sjúga saklausar flugur blóð?
9. Vantar íslenzku þjóðina samvinnusjóð?
10. Er lífshætta fyrir allsgáðan mann að hlaupa hiklaust fram af 200 m háum sjávarhömrum?
11. Getur sá all, sem trúna hefur?
12. Nýtur sá þjóðvegar mest, sem landið gefur?
13. Eru nauðungargjafir neikvæðar?
14. Eru jarðeignagjafir jákvæðar?
15. Er hyggilegt að sameina alla hreppa í einn hrepp á milli Ölvusár-Hvítár og Þjórsár?
16. Verður vothey betra úr 14 m djúpum turn en úr 4 m djúpu hólfi í hlöðu með samsíða hólf fyrir þurra töðu?
17. Eru íslenzk lög sanngjörn og réttlát? (7 dæmi)
18. Eru 10 boðorð guðs óskeikul lög fyrir alla menn?
19. Þarf þjóðkirkja á Íslandi að hafa á launum 100 menn?
20. Getur sami maður verið læknir og prestur?
21. Hvort er betra fyrir námsfólk að fara í austur eða vestur?
22. Borgar sig að rækta beitartún?
23. Er hægt að rækta ísl. kornsúru til manneldis og fuglafóðurs?
24. Þarf að kaupa inn í land vort útlent fóður?
25. Hvað verður atvinnulífi og efnahag íslendinga betra til blessunar en Verðbótasjóður?

Þegar ég rakst á þetta um daginn minnti þessi spurningalisti mig á flokkunarkerfi keisarans í Kína.  


Einfaldleikinn er bestur

eu_regulationsVið lifum á tímum þar sem reglur og skipulag er mjög í hávegum haft. Þetta er líklega afleiðing aukinnar menntunar, margbrotnari tækni og flóknari tengsla í viðskipum og stjórnmálum. Regludýrkun er allsráðandi. Gerist eitthvað slæmt eru yfirleitt fyrstu viðbrögð fólks að það þurfi að setja strangari reglur, banna meira, takmarka meira, taka með sértækari hætti á einhverjum undantekningum o.s.frv.

Nema ef menn telja að reglurnar séu allt að því nægilegar þá er hrópað "Eftirlitið brást" eða "Það þarf að stórauka eftirlit".  Kallað er á betri skilgreiningu á hlutverki eftirlitsstofnana. Vísað er í ábyrgð stjórnmálamanna og embættismanna.

Við sjáum þetta líka gerast í viðskiptalífinu. Amk. viðskiptalífinu eins og það var. Afleiður, framvirkir samningar, skortsala o.s.frv. Smátt og smátt þróaðist viðskiptalífið frá því að vera heilbrigð viðskipti með raunverulega vöru og þjónustu yfir í þokukennt umhverfi þar sem fólk hætti smátt og smátt að hafa yfirsýn yfir það sem það var að gera og tapaði sjónum á raunverulegum verðmætum.

Og þegar í ljós kemur að verðmætasköpun hefur verið byggð á sandi er enn og aftur kallað á meiri reglur, strangara eftirlit og óskilgreinda ábyrgð einhverra manna sem allir geta skýlt sér á bak við flókið regluverk og margbrotna löggjöf sem hefur þróast stig af stigi í langan tíma.

regulations2En getur verið að þessu sé einmitt öfugt farið.  Getur verið að við séum að lenda í óhöppun og óæskilegum atvikum í meira mæli vegna þess að reglur eru orðnar of flóknar? Svo flóknar að það sé ekki á mannlegu valdi að fara eftir þeim. Svo flóknar að stjórnmálamenn og embættismenn skilja þær ekki, hvað þá almennir borgarar. Svo flóknar að þeir sem setja þær sjá ekki fyrir sér áhrifin og hvernig þær virka hverjar á aðra.

Getur verið að allir þeir kílómetrar af lögun og reglugerðum sem búnir eru til árlega og eiga að vernda borgarana séu orðin svo ofvaxin að þau snúist gegn markmiðum sínum?

Getur verið að við séum orðið með óþarflega mikið af stofnunum sem eiga að sinna eftirliti með hinu og þessu.  Viðskiptalífi, ökutækjum, skipum, hreinlæti, heilbrigði fólks, lífsháttum og hvað það setur ofan í sig. Er skynsamlegt að setja svo mikið traust á eftirlitsstofnanir að ef einhverjir starfsmenn þeirra sofa á verðinum þá geti einkafyrirtæki steypt þjóðinni allri í risavaxnar skuldir eins og gerst hefur.  Ég held ekki.

Ég mæli að minnsta kosti með því að menn hugleiði hvort það sé ekki skynsamlegt að fækka reglum, skera niður lög og einfalda of fækka svokölluðum eftirlitsstofnunum.  Færa lög aftur í það form að þau verði hnitmiðuð, einföld og byggi á almennu siðferði og réttlætiskennd.  Kannski eru boðorðin 10 allt að því nóg?

Bíðum og sjáum hvernig tillögur að nýrri stjórnarskrá kemur til með að líta út.  Verður hún lengri eða styttir en núverandi stjórnarskrá?  Vonandi styttri. Setjum okkur að minnsta kosti það markmið.

"Keep it simple"


mbl.is Bjóða fram aðstoð vegna Icesave deilunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannbjörg varð....

SigurjonOgThoraÞað er leiðinlegt að Sigurjón og Þóra hafi þurft að hætta í þessari erfiðu keppni.  Þó er gott að hafa í huga að í svona leiðangri er aðalatriðið að komast heill og óskemmdur heim.  Það er ekki annað hægt en að dást að áræði þeirra hjóna að taka sér þetta fyrir hendur.  Þó svo að Alaska sé á svipaðri breiddargráðu og Ísland er þar mun kaldara og veðuraðstæður sem Íslendingar eru óvanir.

Ég veit að það hefur verið erfitt fyrir Sigurjón að snúa við. Þrautreyndur ferðamaður og vélsleðagarpur. En það verður gaman að hitta ykkur og heyra ferðasöguna.

mbl.is Með kalbletti á kinnunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Six degrees á Facebook

Fyrir nokkru síðan bloggaði ég um þá kenningu að tvær hvaða tvær manneskjur sem er í heiminum geti yfirleitt tengst í gegnum sex liði.  Þessi kenning hefur verið kölluð Six Degrees of Seperation.

Á Feisbúkkanum er hægt að ná í forrit sem hjálpar þér að finna tengslaleið til hvaða annarrar manneskju sem er í gegn um þá vini sem hver notandi hefur.  Til að rannsaka aðeins kenningun þá prufaði ég að gamni nokkur tilvik.

Fyrst prófaði ég Eric Weiner sem er bandarískur rithöfundur og ég las nýlega bók eftir.

6dg3





Og viti menn!  Í gegn um sex liði get ég tengst honum. 

Því næst prufa ég sjálfan Bill Gates.

6dg2






Sko!  Ef ég finn villu í Windows þá tala ég við Sigurð Ara, hann talar við Hafdísi Ósk og svo koll af kolli og skilaboðin komast til Bill Gates eftir sjö liði.

Reyndar má vara sig á frægu fólki á Feisbúkkanum. Yfirleitt hafa einhverjir spaugarar búið til falska notendur fyrir þá.  Ég held samt að þetta sé réttur Bill Gates.

Nú geri ég handahófstilraun. Slæ inn John Smith og vel einn af fjölmörgun sem heita því algenga nafni.

6dg1






Stendur heima.  Sjö liðir.  Líklega er þetta engilsaxi sem býr í Bretlandi eða Bandaríkjunum.

Hvað ef ég vel einhvern dana?  Slæ inn Lars Hansen og vel síðan einhvern sem mér sýnist vera góðlegur.

6dg4





Sjáiði þetta, bara fimm liðir! 

Þessar tilraunir hér að ofan finnst mér að styðji kenninguna. Skrefin eru 5 - 7 og það þrátt fyrir að ekki séu nærri allir komnir á Feisbúkkann og þaðan af síður búnir að skrá inn alla sem þeir þekkja.

Það þarf varla að taka það fram að ef ég set inn einhvern Íslending sem ég þekki ekki þá eru það yfirleitt bara 2-3 liðir þrátt fyrir að ég sé ekki nema með um 150 skráða vini og þekki mun fleira fólk sem er ekki enn komið á Feisbúkkann.  96% kenning Þorsteins Þórssonar er líklega rétt.

En það þýðir lítið að reyna að ná í Barak Obama ef marka má þetta:

Obama_no_friends


Skemmtileg bók um leitina að hamingjunni

bliss_cover-pbÉg var að ljúka við stórskemmtilega og fróðlega bók, The Geography og Bliss eftir Eric Weiner. Í bókinni sem Eric tók að sögn ár í að skrifa segir hann frá ferðum sínum til 10 landa, sem flest hver hafa verið ofarlega á lista yfir hamingjusömustu lönd í heimi á GHI mælikvarðanum (Gross Happiness Index). Einnig fer hann til Moldovu sem var neðst á listanum og nokkurra fleiri landa til samanburðar.

Ísland hefur verið ofarlega í þessum mælingum undanfarin ár og stundum efst.  Eric segir frá ferð sinni hingað veturinn 2007 - 2008. Honum verður tíðrætt um myrkrið, rigninguna, drykkjusiði Íslendinga, menningu og álfatrú.  Hann tengir ákveðinn frasa við hvert land. Undirtitillinn á Íslandskaflanum er "Happiness is Failure".  Það var sem sagt einhver sem sagði honum á bar að hérna væri fólki ekki refsað fyrir mistök.  "Jæja, er það svo" gæti maður hugsað í dag!!!

Ekki fer á milli mála að Eric er mjög hrifinn af Íslandi og í öðrum köflum bókarinnar vitnar hann oft til íslandsheimsóknar sinnar. Hann er ekki eins hrifinn af ýmsum öðrum löndum t.d. Moldovu (Happiness is Somewhere Else) enda hefur það land verið einna neðst í GHI mælingum. Um Sviss segir hann "Happiness is Boredom" og ekki fer á milli mála að höfundinum finnst íbúar þar afar leiðinlegir en telur að þeim geti með einhverjum hætti látið sé líða ótrúlega vel í sínum leiðindaskap enda hafa þeir mælst hátt í GHI !!

Um Quatar segir Eric "Happiness is Winning Lottery Ticket".  Honum finnst ekki mikið til þeirra koma, menningarsnautt fólk sem gengst upp í ríkidæmi sem það hlaut fyrir tilviljun.

Önnur lönd sem Eric heimsækir eru Holland, Bhutan, Thailand, Bretland, Indland og Bandaríkin.

Bókin kostar $11,19 á amazon.com.

Ætli Ísland sígi ekki eitthvað niður þennan lista næstu ár, en Eric bendir reyndar á þá alkunnu staðreynd að efnahagur og ríkidæmi fer ekki endilega saman. Í bókinni segir hann um hamingjurannsóknir í ýmsum löndum: Recent research reveals that money does indeed buy happiness. Up to a point.  That point, though, is surprisingly low: about $1500 a year. After that, the link between economic growth and happiness evaporates.  

En það er auðvitað sárara að missa peninga eins og Íslendingar hafa gert en að hafa aldrei fengið þá í hendur. Enn sárara er að tapa fjármunum út af kjánaskap og oflátungshætti einhverra sem maður þekki ekki einu sinni. Enginn vill missa það sem hann hefur. Þannig er mannlegt eðli og líklega þjóðareðli líka.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þorsteinn Sverrisson

Höfundur

Þorsteinn Sverrisson
Þorsteinn Sverrisson
Tölvunarfræðingur, Árbæingur og Hrunamaður. Í Einherjaklúbbnum.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 59610

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband